« Ég er búinn að eyða einum milljarði! Er ég ekki æði? | Aðalsíða | You are....like a hurricane »

Er sjónvarpið toppurinn?

13. maí, 2005

Ég veit, ég veit!


Allavegna á heimasíðu Ungfrú Íslands eru viðtöl við keppendur. Einsog ég hef fjallað um, þá eru stelpurnar í einni spurningunni beðnar um að lýsa fullkomnum laugardegi. Kannski er það bara ég, en mér þykir hugmyndir stelpnanna um hinn fullkomna laugardag vera afar óspennandi.

Sem dæmi:

  • Sjö stelpur ætla að eyða hinum fullkomna degi í líkamsrækt. Ég fer í ræktina á hverjum virkum degi, en það er nú ekki svo gaman í ræktinni að maður myndi eyða hinum fullkomna degi þar.

  • Sjö þeirra ætla að horfa á sjónvarpið

  • Ein ætlar bara að borða nammi, og önnur ætlar bara að borða nammi og horfa á sjónvarpið.

Ég ætla alls ekki að gagnrýna stelpurnar fyrir að hafa svona mikinn áhuga á sjónvarpi. Eeeen, er þetta virkilega hinn fullkomni laugardagur í augum tvítugra íslenskra stelpna? Hefur fólk ekki meira ímyndunarafl? Vill það ekki vera úti? Gera eitthvað meira spennandi? Ég er viss um að ef sambærileg könnun yrði tekin í öðrum löndum, þá myndi fólk vilja gera eitthvað annað. Ég er fullkomlega sannfærður um það. Er það draumalífið á Íslandi að hanga inni og horfa á sjónvarpið? Ég ætla ekki að rembast við að fela það að ég horfi á talsvert á sjónvarpi og skammast mín ekkert fyrir það. En ef ég ætti að ímynda mér draumadaginn, þá myndi sjónvarpið ekki koma mikið við sögu (í sögunni minni, þá var sjónvarp bara þarna til að koma Liverpool að)

En út frá þessu reyndi ég að átta mig á því hvernig draumadagurinn minn á Íslandi yrði. Ef ég ætti kærustu og ætti að eyða deginum hérna í höfuðborginnil, hvernig væri þá draumadagurinn? Er kannski ekkert meira spennandi að gera hérna heldur en að horfa á sjónvarp? Ég veit að samanburðurinn er ósanngjarn, en í Chicago, Caracas eða Mexíkó borg, þar sem ég hef búið, eyddi ég bestu dögunum í almenningsgörðum, í miðbæjum eða á dansstöðum. Slíkir möguleikar eru varla fyrir hendi hérna.

Fólk í kringum mig vill oft eyða laugardagskvöldi heima, horfandi á sjónvarpi. Ég hef oftast túlkað það sem leti, þar sem mér finnst það viss uppgjöf að horfa á sjónvarp líka á laugardögum, þar sem fólk horfir oftast á sjónvarp alla aðra daga. En kannski er þetta bara toppurinn. Kannski dettur fólki ekki neitt skemmtilegra í hug. Ég held að ég hafi aldrei hafnað því að fara út, bara til þess að vera heima og horfa á sjónvarpið, en hins vegar hafa aðrir hafnað því að gera eitthvað með mér vegna þess að sjónvarpsgláp hafði verið ákveðið. Ég kýs að taka þetta ekki persónulega, þannig að spurningin er hvort ég sé svona öðruvísi en aðrir? Er það bara mér sem finnst sjónvarpsgláp vera óspennadi kostur, eða eru aðrir á sömu skoðun og ég? Býður lífið ekki uppá eitthvað meira spennó, eða er sjónvarpsgláp partur af hinum fullkomna degi íslenskra ungmenna?


Annars eru hérna samantekt á fullkomnum laugardögum að mati stelpnanna:

  • Byrja á því að fara í ræktina eða sund, gufu, nudd og les góða bók. Enda svo út að borða á Sjávarkjallaranum og á skemmtilegu uppistandi.
  • Nammi, Nammi, Nammi……
  • Fara á skíði og vélsleða og drekka heitt kakó með góðum félaga
  • Ég og kærasti minn heima að horfa á enska boltann í sjónvarpinu, jafnvel kíkja svo í búðir, út að borða um kvöldið og spila svo með vinum okkar eftir það, langt fram á nótt
  • Sofa út, fara í hesthúsið eða í fjöllin á bretti, elda góðan mat og eiga svo rólegt kvöld heima með kærastanum eða vinkonunum.
  • Byrja daginn á góðum morgunverði, fara svo í sund, fá sér ís í Brynju, elda eitthvað gott með vinunum og enda svo útá lífinu eða heima í rólegheitum.
  • Sofa út og fara í sundlaugina með kærastanum á sólríkum degi. Kíkja í búðir, fara svo heim og borða með fjölskyldunni. Eiga svo rólegt kvöld heima með kærastanum.
  • Sofa út, fara í laugina, lesa eða horfa á sjónvarpið, borða góðan mat með fjölskyldunni og fara svo og hitta vinina um kvöldið
  • Ég vakna sæmilega snemma og fer á skíði eða eitthvað hressandi með stórfjölskyldunni og kærastanum, veðrið er frábært og allir skemmta sér vel. Eftir vel heppnaða skíðaferð fer ég með kærastanum út að borða á flottum veitingastað. Dagurinn endar svo á djamminu með mínum frábæru vinum og allir eru glaðir og kátir. Svo væri fínt ef ég hefði unnið í lottói einhvers staðar þarna í millitíðinni. Það sem mestu máli skiptir er þó að vera hamingjusamur og heilbrigður hvort sem er á laugardegi eða öðrum dögum!
  • Í faðmi vina með góðan mat og góða skapið.
  • Þegar maður er vakinn af sólargeislum og morgunmat í rúmið, fer svo fram úr, út að ganga, kemur við hjá öndunum og gefur þeim brauð, þegar heim er komið er látið renna í heita pottinn, undirbýr á meðan ostarbakka og drykk, hefur það svo gott í pottinum fram eftir degi með góða bók. Borðar svo grillmat úti á palli um kvöldið og fer svo inn og horfir á góða spólu og borðar eftirréttinn.
  • Taka daginn snemma og fara á snjósleða upp á jökul með heitt kakó og vínarbrauð. Borða súpu, humar og valrhona súkkulaði soufflé á Tveimur Fiskum, tónleikar með Bubba, glæný rúmföt utan um sængurnar þegar skriðið er upp í rúm.
  • Þegar maður er alveg afslapaður með kærastanum og bakar eitthvað gott og borða það svo fyrir framan sjónvarpið (best ef CSI væri í sjónvarpinu). Rífa sig svo upp og gera sig fína með vinkonunum og skella sér á ball með svörtum fötum.
  • Uhm, vakna eldsnemma við hliðina á yndislegum kærasta, knúsa fjölskylduna mína í bak og fyrir. Svo myndi ég fara með kærastann í þyrlu til Aðalvíkur á Hornströndum. Eyða deginum á göngu í frábærri náttúru, enda daginn svo á fjallalambalæri sem grillað er í holu og horfa á sólsetrið sem hvergi gerist fegurra.
  • Liggja með tásur upp í loft og borða nammi og horfa á góða mynd. Svo er líka gott að skella sér í sund þegar gott veður er.
  • ofa út… byrja svo daginn á því að slappa af í bláa lóninu, eða fara í ræktina og gufu eftir það. Far svo í verslunarferð á laugaveginn, í kringluna og smáralind. Grilla góðan mat um kvöldið með allri fjölskyldunni og enda svo daginn upp í sófa með góðann eftirmat og skemmtilega mynd í sjónvarpinu
  • sofa út og fara í bæinn og kaupa föt og fara svo á góðan veitingastað að borða góðan mat um kvöldið.
  • Fullkominn laugardagur er laugardagurinn á Þjóðhátíðinni í Eyjum.
Einar Örn uppfærði kl. 22:39 | 1074 Orð | Flokkur: Sjónvarp



Ummæli (7)


æ eru þetta ekki bara einhver “dipló” svör svo þær falli í kramið hjá sem flestum? ég trúi því nú ekki að allar þessar stelpur séu svona karakterlausar.

annars er ég farin að spá mikið í það af hverju strákur á þínum aldri hafi svona mikinn áhuga á fegurðarsamkeppnum. ok. alltaf gaman að horfa á flottar stelpur .. en þú ert einstakur í þessu. ertu kannski að leyta að næsta “fórnarlambi” í þessum keppnum??

Emma sendi inn - 14.05.05 00:51 - (Ummæli #1)

Fyndið, en það virðist vera sem þú haldir að stelpur í fegurðarsamkeppnum séu þverskurðurinn af kvenkyni þjóðfélagsins. Ég held þvert á móti að þetta sé mjög einsleitur hópur sem sækir í svona keppnir.

Ragga sendi inn - 14.05.05 02:05 - (Ummæli #2)

Emma,

en þú ert einstakur í þessu. ertu kannski að leyta að næsta “fórnarlambi” í þessum keppnum??

Nei.

Ég fæ hins vegar vegna vinnu minnar nær alltaf Séð & Heyrt og þessi viðtöl í blaðinu, sem fylgdu því, vöktu athygli mína.

Fyndið, en það virðist vera sem þú haldir að stelpur í fegurðarsamkeppnum séu þverskurðurinn af kvenkyni þjóðfélagsins.

Nei, þetta er líka rangt. :-)

Auðvitað held ég ekki að þetta sé einhver þverskurður. En það er hins vegar athyglisvert þegar maður sér viðtöl við 20 íslenskar stelpur og þetta er niðurstaðan. Alveg sama hvort þetta væri viðtal við 20 keppendur í ungfrú ísland, eða 20 stelpur sem væru saman í fótboltaliði :-)

Ég var ekki að alhæfa útfrá þessum niðurstöðum, heldur fékk þetta mig til að velta því fyrir mér hvort þetta væri algengt. Mér fannst þetta helst athyglisvert sökum þess að þetta eru svo ungar stelpur. Ef þetta er toppurinn hjá þeim núna, hvernig verður það þá þegar þær verða eldri?

Einar Örn sendi inn - 14.05.05 09:58 - (Ummæli #3)

vildi óska að ég hefði tíma til að lesa séð og heyrt í vinnunni minni :-)

hvernig getur annars fullkominn laugardagur innihaldið það að gefa öndunum brauð?!?!?! hehehe

besta svarið í þessu myndi vera þyrlan og hornstrandirnar…

Emma sendi inn - 14.05.05 14:28 - (Ummæli #4)

Jáms… athyglisvert… Veistu ég held það séu líka alveg einhverjar úrskýringar á þessu…

Í fyrsta lagi, þá ef þú ert í svona keppni þá máttu ekki borða neitt annað en skyr og hrökkbrauð í marga mánuði- þannig að það er skiljanlegt að margar minnist á ís eða nammi eða eitthvað matarkyns…

Í öðru lagi þá eru brjálað prógram í æfingum og ljósabekkjalegum og nöglum og hári og að gera sig sætar :-) þannig að kannski hafa þær ekki mikinn tíma til að horfa á sjónvarp eða slaka á! :-) hahaha…

(reyndar fatta ég þá ekki afhverju þær vilji eyða deginum í ræktinni þegar þær eru alltaf í ræktinni hvort eð er…:-)

Kannski ekki beint rosalega útskýringar, en maður verður að taka inní myndina hvað þessar stelpur eru að gera dagsdaglega; semsagt undirbúa sig fyrir fegurðarsamkeppni…

Annars held ég líka að stelpur verði hálf heilaþvegnar í svona keppnum… eitthvað sem endurspeglast í svörum sem þessum… (sem þá kannski “dipló” eins og Emma benti á)

Gæti örugglega sagt helling meira um þetta… en ég held þetta sé nóg!

Pála sendi inn - 14.05.05 14:39 - (Ummæli #5)

vá hvað ég er sammála þér…persónulega finnst mér sjónvarp vera tímasóun yfir höfuð, hvort sem það er um helgar eða á virkum :-)

silja sendi inn - 15.05.05 09:31 - (Ummæli #6)

Emma: Ég eyði nú ekki vinnutímanum í að lesa Séð & Heyrt, en ég fæ oft blaðið sent.

Og athyglisverðar kenningar, Pála :-)

Einar Örn sendi inn - 15.05.05 18:49 - (Ummæli #7)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu