« apríl 26, 2004 | Main | apríl 28, 2004 »

Fjölmiðlafrumvarp, framhald...

apríl 27, 2004

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins kom með snilldarlega túlkun á könnun í Fréttablaðinu í morgun, þar sem kom í ljós að 77% þjóðarinnar er á móti inntaki fjölmiðlafrumvarpsins. Jú, Íslendingar eru einfaldlega illa upplýstir um frumvarpið og þess vegna eru þeir á móti því. Ég er að verða álíka pirraður þessa dagana einsog ég var fyrir rúmu ári þegar Sjálfstæðismenn voru að snúa út úr Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar

Enn aftur er allur her Sjálfstæðismanna kominn fram til að verja formanninn. Allir apa upp tal Davíðs um afskipti eigenda af fjölmiðlunum án þess að einn einasti geti talið upp dæmi. Andrés Magnússon legst meira að segja svo lágt að ljúga um það að Baugur hafi hætt við styrki til HR útaf frumvarpinu. Það er með ólíkindum hvað Sjálfstæðismenn mega ráðast að fyrirtækjum í landinu án þess að þurfa að færa rök fyrir máli sínu.

Þessi pistill hjá Agli Helgasyni um afskipti eigenda af fjölmiðlum er snilld!

Sjálfur hef ég sjaldan fundið fyrir því að eigendur væru að kássast utan í mér nema helst á Alþýðublaðinu þar sem flokkseigendur voru staðráðnir í að trúa ekki vondum fréttum þó þær birtust í Mogganum eða sjónvarpinu. Ef þær hins vegar rötuðu inn í Alþýðublaðið ærðust þeir, hringdu fyrir allar aldir og skömmuðust. Ég vann á Tímanum. Þar var umburðarlyndur formaður blaðstjórnar sem kvartaði ekki þó við Illugi Jökulsson skrifuðum alls kyns vitleysu um Samuel Beckett, T.S. Eliot og þýska terrorista. Hann hét Halldór Ásgrímsson. Sat stundum á skrafi við okkur inni á skrifstofu - í mesta bróðerni.

Svo var ég á Skjá einum þar sem tóku óforvarendis við menn sem voru að flytja inn túrbínur fyrir Landsvirkjun og annan varning, voru í blaðaútgáfu meðfram og hringdu eftir hvern þátt til að kvarta. Það mátti helst ekki tala um Kárahjúka og ekki um hvað DV var lélegt blað og alls ekki um forystu Sjálfstæðisflokksins nema í hátíðartóni. Útkoman var að lokum tillögur sem hefðu getað nefnst Silfur DV þar sem ég átti að sitja með blaðamanni frá DV, lógó blaðsins í bakgrunni, og ræða við foringja úr stjórnmálaflokkunum um helstu stefnumál þeirra.

Þarna voru menn sem aldrei áttu að koma nálægt fjölmiðlarekstri. Kannski lán að Skjár einn er núorðið ekki annað en vídeóleiga, rúin öllum metnaði til annars en að veita amerísku rusli inn í herbergi íslenskra unglinga. Ég held líka að sumir af eigendunum séu farnir annað. Annars hefði kannski þurft að setja lög á þá.

Annars var það staðfest í Kastljósinu að Halldór og hans félagar í framsókn eru lítið skárri en Íhaldið. Það var svo sem hæpið af mér að trúa því að Framsókn gæti verið uppspretta einhverrar skynsemi í þessu máli. Það er þó einhver ónefndur þingmaður þess flokks, sem virðist mótmæla frumvarpinu, sem er ánægjulegt.

Ég veit að það er hálf kjánalegt af mér en ég verð enn reiður þegar ég hlusta á Sjálfstæðismenn apa upp boðskapinn frá formanninum gagnrýnislaust. Hvort sem það er menntamálaráðherra í útvarpsviðtali á Rás 2 eða trúaðir menntaskólanemar háskólanemar á bloggsíðum sínum. Er aðdáun þeirra á Davíð virkilega svo mikil að þau geta hreinlega ekki horft á aðgerðir hans með gagnrýnum augum? Þessi blinda aðdáun fólks á Davíð er ekki holl flokkinum þeirra.


Fjölmiðlaumræðan er annars farin að minna mig allmikið á umræðuna um fjölmiðla í Bandaríkjunum. Íhaldsmenn eru orðnir algjörlega paranoid á alla gagnrýni. Það fyndna við þetta allt saman er að þessi gagnrýni er oftast frá hægri. Fréttablaðið gagnrýnir Íhaldið fyrir að fresta skattalækkunum og að vilja herða lög sem hefta frjáls viðskipti. Ég held að það sé aðallega þetta sem fer í taugarnar á Íhaldinu, fyrir utan þá staðreynd að það séu aðrir en þeir sjálfir og vinir þeirra sem geti grætt peninga.

Hverjar eru líkurnar á því að menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokks myndi vilja styrkja Ríkisútvarpið ef þeirri stofnun væri stjórnað af vinstri mönnum? Ég skal svara þessu fyrir ykkur: Engar! Þeir vilja styrkja RÚV af því að þeir vita að þeir ráða öllu þar. Þetta eru allt vinir þeirra og flokksfélagar sem ráða þar. Þeir vilja hins vegar drepa niður frjálsu fjölmiðlanna af því að þar ráða frjálslyndir menn, en ekki íhaldsmenn.

Hallgrímur Helgason skýrði þetta best í DV í dag:

Í hundrað ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft meirihlutavald á fjölmiðlamarkaði. Nú loksins þegar hann missir það vald ákveður hann að setja lög til að ná því aftur. Einfalt mál og ógeðslegt.

Nákvæmlega!

Ég er pirraður í dag.

Sérstaklega vegna þess að enn og aftur hefur hinn frjálsi fjölmiðillinn, Skjár Einn, brugðist trausti mínu. Ef þeir hefðu bara asnast til að sýna “Queer Eye” einsog þeir lofa í dagskránni, þá hefði ég ekki haft tíma til að skrifa þennan reiðipistil.

765 Orð | Ummæli (2) | Flokkur: Stjórnmál

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33