« maí 25, 2004 | Main | maí 27, 2004 »

Ræktin

maí 26, 2004

Jedúddamía, ég veit ekkert hvað ég á að skrifa á þessa síðu núna þegar Liverpool færslurnar eru komnar yfir á Liverpool Bloggið, sem er uppfært oft á dag. Snýst líf mitt bara um Liverpool? Ég er farinn að halda það.

Ok, allavegana, ég er með harðsperrur! Ég er búinn að vera með einkaþjálfara í World Class í gær og í dag. Ef það er einhver vöðvi í líkamanum, sem ég er ekki með harðsperrur í, þá er það helst tungan. Mig verkjar í alla aðra vöðva.

Þetta er nokkuð magnað, því ég er alltaf í ræktinni í hádeginu og hef ekki fengið harðsperrur í nokkrar vikur. Það er greinilegt að smá tími með þjálfara getur breytt ansi miklu.

Annars þá er alltof lítið af sætum stelpum í World Class í hádeginu. Ég veit að ég hef kvartað undan þessu áður, en núna er þetta komið útí óefni. Ég hélt að hlutirnir myndu lagast þegar Ungfrú Ísland stelpurnar færu að æfa þarna, en þær kjósa greinilega að æfa ekki á milli 12 og 13.15 einsog ég.

Ég hef reyndar aldrei skilið það hvernig líkamsræktarstöðvar eiga að vera einhverjir pikkup staðir (samkvæmt bandaríska Queer as Folk, þá eru líkamsræktarstöðvar miklar pikkup stöðvar fyrir homma - Brian höstlar bara með því að horfa á einhverja sæta gaura. Er ekki djúpt hjá mér að draga svona ályktanir af Queer as Folk?). Allavegana, mér finnst þetta samt ekki efnilegur staður, þar sem ég er nefnilega alltaf alveg einstaklega sjúskaður í ræktinni.

Ég á erfitt með að finna tíma, sem ég lít verr út en eftir klukkutíma í líkamsrækt. Helst dettur mér í hug það hvernig ég lít eftir 6 bjóra klukkan 5 á laugardagskvöldi. Fyndið að fólk reyni að ná sér í maka þegar það lítur jafn hræðilega út og það gerir jafnan á fylleríi.


Annars eru hér myndir af keppendunum í Ungfrú Ísland. Ég fékk boðsmiða á keppnina og er að spá í að fara. Fór í fyrsta skipti í fyrra og það var nú ekkert sérstaklega skemmtilegt en maturinn var góður og ég hef ekkert betra við tíma minn að gera. Svo getur maður líka bara teipað Gísla Martein.

Held að þessi stelpa vinni, allavegana ef þetta er stelpan sem ég sá í World Class í síðustu viku.

Já, og er þessi stelpa ekki alveg einsog kærasta Hugh Grant í Love Actually eða er ég bara geðveikur? Ég held samt með Fjólu. Við Emil höfum alltaf haldið því fram að Serrano sé með myndarlegasta starfsfólkið af öllum skyndibastöðum á Íslandi og þetta yrði skemmtileg staðfesting á því :-)


Ég horfði á Love Actually á sunnudaginn. Æðisleg mynd. Það er reyndar stórkostlega sorglegt að horfa á rómantíska gamanmynd einn heima, en hverjum er ekki sama? Ég fíla Hugh Grant og skammast mín ekki fyrir það. Já, og vááááá hvað Keira Knightley er sæt! Ég táraðist næstum því þegar Mark var að reyna að sjarmera hana með spjöldunum.


Já, og The Streets eru gargandi snilld. Keypti nýja diskinn á Heathrow og þetta er æði. Sýnir að það borgar sig að taka mark á tónlistargagnrýninni hjá Bigga í Maus í Fréttablaðinu. Gefið The Streets sjens. Þetta hljómar kannski ekki spennandi við fyrstu hlustun, en þetta er snilld. Með bestu hip-hop diskum síðari ára.

537 Orð | Ummæli (8) | Flokkur: Dagbók

Liverpool blogg

maí 26, 2004

Draumurinn hans Jensa hefur ræst

Hið íslenska Liverpool Blogg

Ég er búinn að setja upp þessa síðu ásamt Kristjáni, Liverpool aðdáenda. Er búinn að setja inn fyrstu færslurnar. Þetta verður uppfært oft og verður vonandi skemmtilegur umræðuvettvangur.

Endilega bendið öllum Liverpool aðdáendum á síðuna og fylgist með: eoe.is/liverpool

48 Orð | Ummæli (5) | Flokkur: Íþróttir

Tónleikar

maí 26, 2004

Var að koma heim af Pixies. Þeir voru góðir. Ekkert stórkostlegir en samt góðir. Stemningin var róleg í Kaplakrika.

Þeir tóku öll bestu lögin sín, frá Debaser til Monkey Gone to Heaven og (já, Björgvin!) Hey!.

Prógrammið var keyrt nokkuð þétt og hratt. Þau sögðu varla orð á tónleikunum, sem er ágætt. Frank Black stamaði uppúr sér “Hello” á miðjum tónleikum. Það var fínt. Er ekki alveg að fíla þetta: “Is Iceland ready to rock” dæmi, sem virkar oft frekar feik. Minnir mig alltaf á atriði úr Simpsons þegar einhver rokksveit var að spila í Springfield og söngvarinn sagði:

“Nobody rocks like”, svo leit hann aftan á gítarinn á miða, þar sem skrifað var á “Springfield” og allir urðu brjálaðir

Stundum er þetta þó einlægt og flott, til dæmis hjá Chris Martin og Damien Rice.

En allavegana, tónleikarnir með Pixies voru góðir. Vel peninganna virði.

145 Orð | Ummæli (3) | Flokkur: Tónleikar

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33