High Fidelity

Ég skrifaði ferðasöguna til London í gær. Hún var alltof þunglynd. Eitthvað við það hversu yndislega vel mér leið útí London hafði áhrif á mig. Veit ekki hvort ég set hana hingað inn. Ætla að bíða með hana og melta í einhvern tíma.


Útí London las ég þrjár bækur. Merkust af þeim öllum er [High Fidelity eftir Nick Hornby](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140295569/qid=1123288275/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020). Flestir hafa sennilega séð myndina, sem er algjör snilld, en ef eitthvað er þá er bókin enn betri. Ég held að ég geti óhræddur sagt að þetta sé ein af uppáhaldsbókunum mínum. Allavegana á topp 5. Ég byrjaði að lesa hana á mánudagsmorgun og hætti ekki fyrr en seint á mánudagskvöld þegar ég var búinn. Las hana úti á Leicester torgi, inná Starbucks í Covent Garden, Starbucks á Oxford street, sem og heima á gistiheimilinu. Ég hef sjaldan farið svona hratt í gegnum bók.

*Ég elskaði bókina*. Hún talaði til mín á svo margan hátt og mér fannst svo margt í söguhetjunni höfða til mín. Svo margt í hans lífi passaði við mitt.

Í grunninn fjallar hún um Rob, sem er nýhættur með kærustunni sinni. Hann reynir að gera lítið úr þeim sambandsslitum með því að rifja upp eldri sambönd, sem honum finnst hafa endað á verri hátt. Bókin fjallar svo um tilraunir hans til að komast yfir kærustuna og tilraunir hans til að reyna að ná henni aftur. Þetta hljómar kannski allt frekar sorglegt, en þetta er með fyndnustu bókum, sem ég hef lesið. Sambandsslitin verða til þess að Rob fer að hugsa um sína stöðu í lífinu. Hvort hann sé sáttur við vinnuna, vinina, sínar fyrrverandi kærustur og annað.

Þrátt fyrir að John Cusack túlki Rob frábærlega í [myndinni](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/B000055Z8M/qid=1123288307/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020), þá fann ég enga samsvörun með honum þegar ég sá myndina fyrst. Kannski var ég bara of ungur og vitlaus. Það var fyrir fimm árum síðan og ég hafði ekki uppgötvað ástarsorg nema einu sinni á ævinni og ég hafði sjálfur endað öll þau sambönd, sem ég hafði verið í. Núna er ég auðvitað eldri og reyndari og hef upplifað fleiri hliðar á samböndum. Sem er gott. (að ég held)

Þrátt fyrir að ég og Rob séum að mjög mörgu leyti ólíkir, þá fannst mér oft einsog þessi bók væri skrifuð fyrir mig. Endalaust oft stóð ég mig að því að brosa og tengja atburði bókarinnar við atburði í mínu lífi. Þetta hefur aldrei gerst jafnoft við lestur á einni bók. Á tímabili langaði mig m.a. að hringja í sumar manneskjur og spyrja viðkomandi af hverju hlutirnir enduðu á þann hátt, sem þeir enduðu. Það hefði allavegana verið fróðlegt. Ég er viss um að ef ég hefði drukkið bjór í stað kaffis með bókinni, þá hefði ég látið verða af því. 🙂

Allavegana, ég mæli með þessari bók, sérstaklega fyrir stráka. Allir strákar, sem eru komnir yfir tvítugt og hafa upplifað fleiri en eina hlið á samböndum ættu að geta fundið einhvern hluta af sjálfum sér í bókinni. High Fidelity er æði. Æði!


Hinar bækurnar, sem ég las voru [Lands of charm & cruelty](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0330333879/qid=1123288383/sr=1-1/ref=sr_1_8_1/026-0996360-0266020) og [Fever Pitch](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140295577/qid=1123288416/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020), sem er líkt og High Fidelity skrifuð af Nick Hornby. Ég ætla að fjalla um hana í sér færslu. Ég byrjaði svo að lesa [How to be Good](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140287019/qid=1123288464/sr=1-2/ref=sr_1_10_2/026-0996360-0266020), einnig eftir Hornby.

6 thoughts on “High Fidelity”

  1. ég keypti mér þessa bók á amazon áðan þrátt fyria ð vera ekki strákur og hafa ekki verið dömpað í 7 ár

    ég treysti þér bara að hún sé skemmtileg!!!

  2. Þú ert hetjan mín Katrín!

    How to be good er algjör snilld að mér fannst.

  3. Já, HF er *pardon* fokkíng snilld. Og myndin fylgir henni vel á eftir.

    How to be good er nett góð líka. Ekki jafn góð og HF, en góð samt. Maður þarf aðeins að sleppa sér og detta inn í aðalpersónuna, finna hvernig hún vill bara stundum kýla karlinn sinn. Ef það tekst, þá finnur maður fyrir reiðinni eða gleðinni hjá henni, hvort sem á við.

    Ég keypti mér Long Way Down út í London um daginn og er við það að klára hana. Get mælt með þessum fyrstu þremur fjórðungum sem ég er búinn með.

    Hornsby er bara góður.

    kv, tobs

Comments are closed.