Evrópuferð 3: Alparnir

Þegar við keyrðum frá Svíþjóð til Króatíu árið 2017 þá var einn af hápunktunum að eyða dögum í Ölpunum og því var það ofarlega á óskalistanum okkar að gera það aftur núna.  Ég eyddi talsverðum tíma í að skoða hvernig við gætum komið okkur frá Lyon yfir til Ítalíu með langri viðkomu í fallegum Alpabæjum.  Fljótlega komst ég þó að því að það yrði alltof erfitt að koma okkar fimm manna fjölskyldu yfir á ítalskar strendur með viðkomu í Ölpunum ef við ætluðum að ferðast eingöngu með lestum.

Því enduðum við á því að leigja okkur bíl í Lyon.  Það flækti hlutina talsvert (þar sem við myndum þurfa að skila bílnum aftur í Lyon) en það var merkilega ódýrt og eftirá að hyggja get ég ekki ímyndað mér hvernig þetta frí hefði heppnast án þess að vera á bíl.

Annecy

Frá Lyon keyrðum við í tæpa tvo tíma til Annecy vatns.  Þar skoðuðum við þennan fallega túristabæ í stuttan tíma (sem var þó nægilega langur til þess að við héldum í alvörunni að litli strákurinn okkar (5 ára) væri týndur) en keyrðum svo meðfram Annecy vatni að baðströnd, þar sem krakkarnir gátu leikið sér í hoppturni einsog þau hafa gert svo óteljandi oft í sænskum sumarfríum.

Strönd við Annecy vatn.

Frá Annecy keyrðum við svo seint um kvöld ótrúlega hlykkjóttan veg upp til Chamonix við rætur Mont Blanc þar sem fyrstu vetrar Ólympíuleikarnir voru haldnir.  Eitt það besta við að vera í Ölpunum um sumar er að hitastigið er vitaskuld lægra þar í þúsund metra hæð heldur en í borgum við sjávarmál, e það breytti því ekki að hitastigið í Chamonix var fáránlega hátt þegar við vorum þarna.  

Lausnin á því var meðal annars að taka hæsta kláf heims uppí 3.842 metra hæð á toppinn á Aiguille du Midi þar sem er stórkostlegt útsýni yfir hæsta fjall Evrópu, Mont Blanc.  

Kláfurinn
Uppá toppnum
Mont Blanc

Meðmæli Annecy og Chamonix

  • Plage Saint-Jorioz: Fín strönd með hoppturni og fínum veitingastað við Annecy vatn.
  • Rose du Pont í Chamonix: Einn besti veitingastaðurinn sem við borðuðum á í ferðinni.  Er á aðaltorginu í Chamonix með útsýni yfir ána, Mont Blanc og býður uppá frábæran mat.
  • Kláfurinn uppá Aiguille du Midi : Eitt ráð er að það þarf að panta í kláfinn fyrirfram og ef það er mikið af fólki þá þarf maður að vera visst lengi uppá fjallinu.  Krakkarnir voru ekkert brjálæðislega sátt þegar við fengum að vita það á toppnum að það væru 3 tímar áður en við kæmumst aftur niður til Chamonix.

Daginn eftir keyrðum við svo í gegnum Mont Blanc fjall yfir til Ítalíu.  Asnalegu fordómarnir í mér höfðu undirbúið mig fyrir það að það yrði á einhvern hátt erfiðara að keyra á Ítalíu en það var fjarri lagi.  Við keyrðum alla leið frá Chamonix til bæjarins Cernobbio við Como vatn.  Valið á Cernobbio var einskær tilviljun.  Við vildum annaðhvort vera við Como eða Garda vatn og í Cernobbio fundum við einfaldlega mjög fína Airbnb íbúð á góðu verði.  Ég hef verið með þessi vötn smá á heilanum eftir að ég horfði á Succession þátt sem gerðist við Como vatn.

Í Bellagio
Á siglingu um Como vatn

Bærinn reyndist vera fínt val.  Como vatn er ótrúlega fallegt með Alpana í bakgrunni og fallegar villur meðfram ströndinni.  Við prófuðum bæði að vera á prívat strandklúbbi (kostar 10 evrur og þá var bæði hægt að synda í sundlaug og í vatninu) og einnig á strönd sem var opin fyrir öllum.  Við fórum líka í dagsferð til Bellagio, sem er vinsælasti túristastaðurinn við Como vatn.  Sá bær hafði þó ekki svo mikið að bjóða uppá fyrir utan dýrar búðir og frábæran gelato auk þess sem að útsýnið frá vissum götum var stórstkostlegt.

Meðmæli Como

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *