Ég hef síðustu 9 árin unnið að því að kenna börnunum mínum þremur að skíða. Þegar að mér fannst vera sjens að elsti strákurinn okkar gæti byrjað á skíðum þá fór ég að velta fyrir mér hvernig væri best að kenna honum og ég man þá að ég fann engar sérstakar leiðbeiningar um það hvað væri best. Þannig að ég ætla hérna að koma með punkta um það hvað ég hef lært síðustu 9 ár á því að kenna þremur krökkum að skíða, öllum mjög ungum.
Það að byrja að kenna börnum mjög snemma að skíða (ég byrjaði með minn yngsta þegar hann var 2,5 ára gamall – sjá mynd að ofan) er eflaust erfiðara en að gera það þegar börnin eru orðin stærri. Þegar þau eru svona lítil hafa þau mjög lítið úthald og verða fljótt veik í löppunum. En á móti þá verða þau auðvitað góð mun fyrr og ég held að þau verði óhræddari en ef þau byrja seinna.
Ég vissi það alltaf að ég myndi vilja byrja að kenna krökkunum mjög snemma og ég vissi það líka að ég vildi eyða eins litlum tíma og mögulegt er í barnabrekkum. Þessar leiðbeiningar miða líka að því að kennarinn sé sæmilega fær á skíðum og í sæmilegu líkamlegu formi.
Ég hef séð um þessa þjálfun nánast eingöngu sjálfur. Tvö eldri börnin fóru í einhverja skíðaskóla á sænskum skíðasvæðum, en þeir voru alltaf mjög stuttir (1,5-2 tímar á dag). Sá yngsti lærði eingöngu á skíði með mér.
Svo er auðvitað mögulegt að þetta henti ekki öllum krökkum.
Fyrsta skref: Krakki skíðar á milli lappa.
Þetta er kannski erfiðasta skrefið. Ég prófaði að fara nokkrum sinnum í barnabrekku eða mjög auðvelda fullorðinsbrekku. Ég var smá á töfrateppi, en eftir 1-2 daga flutti ég mig yfir í stólalyftu. Ég lyfti krökkunum uppí stól og fór með þá upp í léttar brekkur. Það eru kannski ekki mjög margar mjög léttar brekkur sem eru með stólalyftu á Íslandi. Neðri stóllinn í Hlíðarfjalli og Drottningin í Bláfjöllum eru þó ágæt fyrir þetta.
Ég setti krakkana svo á milli lappanna og skíðaði með þau í plóg niður. Það sem mér fannst vera stærsti ávinningurinn af þessu var að krökkunum fannst strax gaman að skíða. Það er ekkert í lífi 3 ára gamals krakka sem er hægt að bera það saman við að skíða niður brekku á mikilli ferð á milli lappa foreldris. Allir mínir krakkar elskuðu þetta tímabil.
Næsta skref: Krakki skíðar í bandi / á milli lappa
Næsta skref var að setja krakkana í band / beisli og stýra þeim þannig. Yngsti prófaði þetta skref þegar hann var ca 2,5 ára gamall. Þá skíðar krakkinn á undan í bandi og ég stýrði með höndunum mínum. Ef þau voru óörugg þá stoppaði ég þau og renndi mér uppað þeim og tók utanum þau og skíðaði með þau á milli lappanna. Þá fengu þau aftur öryggið. Hérna er ég með yngsta strákinn minn á Åre þegar hann er 2,5 ára gamall.
Smám saman urðu þau þó betri í þessu og þau fá fljótlega mikið sjálfstraust því þeim líður einsog þau séu að skíða sjálf og hafi stjórnina þótt að ég væri auðvitað með alla stjórn. Þetta er þó nokkuð líkamlega erfitt fyrir kennarann. Ég þurfti oft að vera í plóg á eftir því í erfiðari brekkum er það einsog að vera með lóð á undan sér að hafa krakka í bandi, sem vill bara fara eins hratt og mögulegt er. Alltaf þegar þau voru óörugg þá tók ég þau svo aftur á milli lappanna þar til öryggið var komið aftur.
Þegar þau voru orðin betri þá byrjaði ég að kenna þeim að beygja sjálf svo þau hefðu stjórn á hraðanum.
Síðasta skrefið: Aftur í barnabrekku.
Þegar þau voru orðin alveg örugg í bandi og voru farin að beygja sjálf þá fór ég aftur í barnabrekkurnar og leyfði þeim að prófa að fara sjálf. Sjálfstraustið er til staðar, svo það vantar bara smá öryggi við það að bandið sé alveg farið, en það var aldrei langur tími. Yngsti strákurinn minn byrjaði að skíða alveg sjálfur þegar hann var 4,5 ára. Þannig að þetta var tveggja ára ferli með honum (kannski svona 10-15 skíðadagar).
Hérna er yngsti strákurinn nýorðinn 5 ára í barnabrekkunni í Bláfjöllum – þetta var fyrsta skiptið á skíðum þennan veturinn svo við byrjuðum í barnabrekkunni.
Ég vona að þetta hjálpi einhverjum.