Evrópuferð 1: Birmingham

Það eru tíu ár síðan að við Margrét ferðuðumst um Mexíkóflóa með litlu krökkunum okkar tveimur.  Við eyddum mánuði á Flórída og á ferðalagi í rólegheitum um Kúbu og Yucatan skaga.  Krakkarnir voru tveggja ára og bara nokkurra mánaða og því var auðvelt að ferðast með þau á þessum slóðum. 

Þetta frí var í síðasta skipti sem ég skrifaði ferðasögu á þessa bloggsíðu.

Við höfum ferðast síðan þá, en svosem ekki á svo brjálæðislega spennandi staði.  Fyrir 7 árum fórum við saman fjögur á Volvo-inum okkar alla leið frá Stokkhólmi niður til Króatíu.  Ég ætlaði alltaf að skrifa um þá ferð á þessu bloggi en lét aldrei verða af því.  Svo hafa sumarfríin að mestu leyti skipst á milli þess að vera í Svíþjóð eða á Íslandi.  Yndisleg sumarfrí á Gotlandi og á vesturströnd Svíþjóðar, sem hafa verið ógleymanleg en ég hef ekki fundið mig knúinn til að skrifa um þau.

Síðustu tvö ár hafa svo farið í flutninga til Íslands og í fyrra ferðuðumst við eingöngu um Ísland.  Í ár áttum við í erfiðleikum með að skipuleggja sumarið – Margrét er í nýrri og krefjandi vinnu og ég átti í erfiðleikum með að skipuleggja frí því það var svo mikið að gerast í vinnunni hjá okkur báðum.  Við vissum þó bæði að okkur langaði mikið að komast í hlýrra loftslag.

Fyrir einhverjum vikum kom sú hugmynd uppí hausnum á mér að kaupa bara flugmiða til Evrópu og reyna að skipuleggja fríið þegar við værum farin af stað. Mér fannst þessi fjölskylda þurfa á smá ævintýri að halda. 

Fljótlega fengum við svo ágætis byrjunar- og enda dagsetningu.  Við þurftum að vera komin til Birmingham á Englandi þann 12. júlí því þar ætlaði franchise aðili okkar á Bretlandi að opna Zócalo stað númer tvö þann 13. júlí.  Og af því að íbúðinn okkar er í Airbnb útleigu þá gætum við ekki komið heim fyrr en 8. ágúst. 

Þannig að við vorum með fjórar vikur í fríi sem þyrfti að byrja í Birmingham.  Við vorum líka ákveðin í að fara aftur í Legoland.  Þar vorum við fyrir 7 árum þegar börnin okkar voru 3 og 5 ára og okkur fannst passa frábærlega að fara þar aftur núna þegar börnin eru 5, 10 og 12 ára.  Þannig var kominn endapunktur á fríið – það yrði í Danmörku en meira var ekki ákveðið.  Ég pantaði flug til London og heim frá Kaupmannahöfn, fann útúr lestarmiðum frá London til Birmingham og við fundum einhverja (mjög lélega) Airbnb íbúð í Birmingham til að geta gist fyrstu dagana.


Zócalo staðurinn í Birmingham
Bowl á Zócalo í Birmingham

Birmingham er næst fjölmennasta borg Bretlands með um 3 milljónir íbúa.  Við lentum fyrir hádegi á Stansted flugvelli í London og þurftum þaðan að taka flugvallarlest, underground og svo eina lest í viðbót til að koma okkur alla leið á New Street stöðina í Birmingham.  Við höfðum skipulagt pökkun á okkar dóti vel fyrir ferðina, þar sem við ætluðum að vera með lítinn og meðfærilegan farangur.  En samt var ekki auðvelt að bera farangur fyrir fimm manns á milli lesta og svo uppí íbúð í Birmingham.

Ég að horfa á úrslitaleik EM með strákunum mínum

Dagana í Birmingham reyndi ég að gera hvað ég gat til að hjálpa til við opnunina á staðnum, sem opnaði með soft opening laugardaginn eftir að við komum.  Á sunnudeginum horfðum við svo á England tapa í úrslitaleik EM.  Ég hélt að það yrði brjáluð stemning fyrir leiknum og hægt yrði að sjá hann á stórum skjá með fulltaf fólki en svo var ekki raunin í Birmingham.  Því horfðum við á leikinn í íbúðinni okkar og þar sem England tapaði þá var lítil ástæða til að kíkja á stemninguna eftir leikinn. Annars eyddum við dögunum á labbi um Birmingham – kíktum aðeins í búðir og á ágætt vísindasafn, sem krökkunum fannst skemmtilegt.


Meðmæli Birmingham

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *