Evrópuferð 2: París og Lyon

Þrátt fyrir að ég uppfæri þessa bloggsíðu ekki nema 1-2 svar á ári þá hugsa ég oft um hluti sem mig langar að skrifa um hér.  Þegar ég hjóla í vinnu á morgnanna þá skrifa ég oft í hausnum á mér pælingar sem svo komast aldrei mikið lengra.  

Ég hef líka aðeins hugsað hvernig ég get skrifað um ferðalög á þessa bloggsíðu.  Ferðasögurnar sem ég skrifaði hérna fyrir 10-15 árum voru fullar af fróðleik um framandi staði, sem er kannski ekki alveg jafn spennandi þegar við erum að ferðast um staði sem flestir Íslendingar þekkja vel.  Mér finnst það samt glatað að mín einu spor á internetinu séu á hinu hræðilega Twitter/X og svo á Instagram eða Facebook.

Niðurstaðan mín er að reyna að skrifa aftur ferðasögu, en hafa meira myndefni og einföld meðmæli um staði, sem okkur fannst standa uppúr.


Frá Birmingham tókum við lestina aftur til London og þaðan alveg svívirðilega dýra Eurostar lest til Parísar, þar sem allar lestar voru yfirfullar af fólki á leið á Ólympíuleikana.  Við vorum komin til Parísar 10 dögum áður en Ólympíuleikarnir hófust þar sem gerði það að verkum að það var eriftt að finna gistingu og á endanum ákváðum við að vera aðeins í eina nótt í París en bóka strax daginn eftir lest til Lyon, þar sem væri betra og ódýrara að vera.

Croissant í morgunmat í Café Ventura í París
Á labbi um París
Ávextir
Eiffel turninn með Ólympíuhringina
Hôtel-de-Ville líka í Ólympíustuði

Við náðum þó að fara með krakkana okkar í laaaangar gönguferðir um París.  Fyrri daginn löbbuðum við frá hótelinu okkar, niður að Louvre og svo að Eiffel turninum.  Allt í París var skreytt Ólympíuhringjunum og það var hægt að sjá hvernig borgin var að breytast með áhorfendapöllum á mörgum stöðum.  Við löbbuðum einhver 15.000 skref, tókum myndir fyrir framan Louvre og Eiffel turninn og borðum frábæran franskan mat.  Seinni daginn í París löbbuðum við ennþá meira um borgina og enduðum hjá Notre Dame kirkjunni.

Á labbi um París
Önd

Meðmæli París

  • Hotel YOY: Lítið hótel sem við gistum á í París, sem við getum mælt með.
  • Les Antiquaires: Sko, það eru sirka milljón góðir veitingastaðir í París og ég er ekki að segja að þessi sé einstakur, en við vorum ótrúlega sátt hér í nágrenni Eiffel turnsins. Sjá mynd af mat hér að ofan.

Eftir langa göngu um París þá tókum við lestina niður til Lyon.  Í þeirri borg eyddum við tveimur heilum dögum í gamla miðbænum, þar sem við bjuggum í Airbnb íbúð.

Basilique Notre-Dame de Fourvière
Théâtre Gallo Romain
Musée Cinéma et Miniature
Creperie
Efnilegur ljósmyndari
Dótabúð
Útsýni yfir Lyon

Hitinn í Lyon var talsvert meiri en í París og seinni daginn var ég full bjartsýnn í skipulagningu á gönguferð þegar ég dró alla fjölskylduna að skoða rústir af rómversku leikhúsi uppá (mjög hárri) hæð ásamt Basilique Notre-Dame de Fourvière (sjá myndir að ofan). 

Annars fór tíminn í Lyon í að labba um gamla bæinn, að spila fótbolta á torgum borgarinnar og í að borða alveg fáránlega góðan franskan mat.  Ég eyddi talsverðum tíma í að finna réttu veitingastaðina í Lyon og það tókst frekar vel.  Krakkarnir lærðu að elska steak hache og ég hélt mínu striki í að panta önd á sem flestum veitingastöðum í Frakklandi (ég lærði það þegar ég ferðaðist með vinum mínum um Frakkland þegar að Ísland keppti á EM árið 2016 sælla minninga).

Það er kannski ekki neitt sérstakt sem stóð uppúr í Lyon (fyrir utan Musée Cinéma et Miniature) en það var afskaplega þægilegt að vera í þessari borg. Maturinn var frábær, borgin ótrúlega falleg, veðrið gott og fólkið líka. Við hefðum alveg geta verið þar lengur.


Meðmæli Lyon

  • Musée Cinéma et Miniature: Dan Ohlmann, sem vann við að búa til lítil módel fyrir bíómyndir stofnaði þetta safn í Lyon þar sem eru til sýnis fjölmörg módel hans og annað dót úr bíómyndum.  Krakkarnir elskuðu safnið.
  • Made Louve: Samlokustaður rétt hjá íbúðinni okkar þar sem ég fékk samlokur sem eru með þeim allra bestu sem ég hef á ævi minni smakkað.
  • Restaurant Café du Soleil
  • Brasserie Gabriel: Bæði þessi og Café du Soleil eru algjörlega frábærir franskir veitingstaðir – allt frá staðsetningu til matar, þjónustu og verðs var frábært.


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *