Evrópuferð 3: Alparnir

Þegar við keyrðum frá Svíþjóð til Króatíu árið 2017 þá var einn af hápunktunum að eyða dögum í Ölpunum og því var það ofarlega á óskalistanum okkar að gera það aftur núna.  Ég eyddi talsverðum tíma í að skoða hvernig við gætum komið okkur frá Lyon yfir til Ítalíu með langri viðkomu í fallegum Alpabæjum.  Fljótlega komst ég þó að því að það yrði alltof erfitt að koma okkar fimm manna fjölskyldu yfir á ítalskar strendur með viðkomu í Ölpunum ef við ætluðum að ferðast eingöngu með lestum.

Því enduðum við á því að leigja okkur bíl í Lyon.  Það flækti hlutina talsvert (þar sem við myndum þurfa að skila bílnum aftur í Lyon) en það var merkilega ódýrt og eftirá að hyggja get ég ekki ímyndað mér hvernig þetta frí hefði heppnast án þess að vera á bíl.

Annecy

Frá Lyon keyrðum við í tæpa tvo tíma til Annecy vatns.  Þar skoðuðum við þennan fallega túristabæ í stuttan tíma (sem var þó nægilega langur til þess að við héldum í alvörunni að litli strákurinn okkar (5 ára) væri týndur) en keyrðum svo meðfram Annecy vatni að baðströnd, þar sem krakkarnir gátu leikið sér í hoppturni einsog þau hafa gert svo óteljandi oft í sænskum sumarfríum.

Strönd við Annecy vatn.

Frá Annecy keyrðum við svo seint um kvöld ótrúlega hlykkjóttan veg upp til Chamonix við rætur Mont Blanc þar sem fyrstu vetrar Ólympíuleikarnir voru haldnir.  Eitt það besta við að vera í Ölpunum um sumar er að hitastigið er vitaskuld lægra þar í þúsund metra hæð heldur en í borgum við sjávarmál, e það breytti því ekki að hitastigið í Chamonix var fáránlega hátt þegar við vorum þarna.  

Lausnin á því var meðal annars að taka hæsta kláf heims uppí 3.842 metra hæð á toppinn á Aiguille du Midi þar sem er stórkostlegt útsýni yfir hæsta fjall Evrópu, Mont Blanc.  

Kláfurinn
Uppá toppnum
Mont Blanc

Meðmæli Annecy og Chamonix

  • Plage Saint-Jorioz: Fín strönd með hoppturni og fínum veitingastað við Annecy vatn.
  • Rose du Pont í Chamonix: Einn besti veitingastaðurinn sem við borðuðum á í ferðinni.  Er á aðaltorginu í Chamonix með útsýni yfir ána, Mont Blanc og býður uppá frábæran mat.
  • Kláfurinn uppá Aiguille du Midi : Eitt ráð er að það þarf að panta í kláfinn fyrirfram og ef það er mikið af fólki þá þarf maður að vera visst lengi uppá fjallinu.  Krakkarnir voru ekkert brjálæðislega sátt þegar við fengum að vita það á toppnum að það væru 3 tímar áður en við kæmumst aftur niður til Chamonix.

Daginn eftir keyrðum við svo í gegnum Mont Blanc fjall yfir til Ítalíu.  Asnalegu fordómarnir í mér höfðu undirbúið mig fyrir það að það yrði á einhvern hátt erfiðara að keyra á Ítalíu en það var fjarri lagi.  Við keyrðum alla leið frá Chamonix til bæjarins Cernobbio við Como vatn.  Valið á Cernobbio var einskær tilviljun.  Við vildum annaðhvort vera við Como eða Garda vatn og í Cernobbio fundum við einfaldlega mjög fína Airbnb íbúð á góðu verði.  Ég hef verið með þessi vötn smá á heilanum eftir að ég horfði á Succession þátt sem gerðist við Como vatn.

Í Bellagio
Á siglingu um Como vatn

Bærinn reyndist vera fínt val.  Como vatn er ótrúlega fallegt með Alpana í bakgrunni og fallegar villur meðfram ströndinni.  Við prófuðum bæði að vera á prívat strandklúbbi (kostar 10 evrur og þá var bæði hægt að synda í sundlaug og í vatninu) og einnig á strönd sem var opin fyrir öllum.  Við fórum líka í dagsferð til Bellagio, sem er vinsælasti túristastaðurinn við Como vatn.  Sá bær hafði þó ekki svo mikið að bjóða uppá fyrir utan dýrar búðir og frábæran gelato auk þess sem að útsýnið frá vissum götum var stórstkostlegt.

Meðmæli Como

Evrópuferð 2: París og Lyon

Þrátt fyrir að ég uppfæri þessa bloggsíðu ekki nema 1-2 svar á ári þá hugsa ég oft um hluti sem mig langar að skrifa um hér.  Þegar ég hjóla í vinnu á morgnanna þá skrifa ég oft í hausnum á mér pælingar sem svo komast aldrei mikið lengra.  

Ég hef líka aðeins hugsað hvernig ég get skrifað um ferðalög á þessa bloggsíðu.  Ferðasögurnar sem ég skrifaði hérna fyrir 10-15 árum voru fullar af fróðleik um framandi staði, sem er kannski ekki alveg jafn spennandi þegar við erum að ferðast um staði sem flestir Íslendingar þekkja vel.  Mér finnst það samt glatað að mín einu spor á internetinu séu á hinu hræðilega Twitter/X og svo á Instagram eða Facebook.

Niðurstaðan mín er að reyna að skrifa aftur ferðasögu, en hafa meira myndefni og einföld meðmæli um staði, sem okkur fannst standa uppúr.


Frá Birmingham tókum við lestina aftur til London og þaðan alveg svívirðilega dýra Eurostar lest til Parísar, þar sem allar lestar voru yfirfullar af fólki á leið á Ólympíuleikana.  Við vorum komin til Parísar 10 dögum áður en Ólympíuleikarnir hófust þar sem gerði það að verkum að það var eriftt að finna gistingu og á endanum ákváðum við að vera aðeins í eina nótt í París en bóka strax daginn eftir lest til Lyon, þar sem væri betra og ódýrara að vera.

Croissant í morgunmat í Café Ventura í París
Á labbi um París
Ávextir
Eiffel turninn með Ólympíuhringina
Hôtel-de-Ville líka í Ólympíustuði

Við náðum þó að fara með krakkana okkar í laaaangar gönguferðir um París.  Fyrri daginn löbbuðum við frá hótelinu okkar, niður að Louvre og svo að Eiffel turninum.  Allt í París var skreytt Ólympíuhringjunum og það var hægt að sjá hvernig borgin var að breytast með áhorfendapöllum á mörgum stöðum.  Við löbbuðum einhver 15.000 skref, tókum myndir fyrir framan Louvre og Eiffel turninn og borðum frábæran franskan mat.  Seinni daginn í París löbbuðum við ennþá meira um borgina og enduðum hjá Notre Dame kirkjunni.

Á labbi um París
Önd

Meðmæli París

  • Hotel YOY: Lítið hótel sem við gistum á í París, sem við getum mælt með.
  • Les Antiquaires: Sko, það eru sirka milljón góðir veitingastaðir í París og ég er ekki að segja að þessi sé einstakur, en við vorum ótrúlega sátt hér í nágrenni Eiffel turnsins. Sjá mynd af mat hér að ofan.

Eftir langa göngu um París þá tókum við lestina niður til Lyon.  Í þeirri borg eyddum við tveimur heilum dögum í gamla miðbænum, þar sem við bjuggum í Airbnb íbúð.

Basilique Notre-Dame de Fourvière
Théâtre Gallo Romain
Musée Cinéma et Miniature
Creperie
Efnilegur ljósmyndari
Dótabúð
Útsýni yfir Lyon

Hitinn í Lyon var talsvert meiri en í París og seinni daginn var ég full bjartsýnn í skipulagningu á gönguferð þegar ég dró alla fjölskylduna að skoða rústir af rómversku leikhúsi uppá (mjög hárri) hæð ásamt Basilique Notre-Dame de Fourvière (sjá myndir að ofan). 

Annars fór tíminn í Lyon í að labba um gamla bæinn, að spila fótbolta á torgum borgarinnar og í að borða alveg fáránlega góðan franskan mat.  Ég eyddi talsverðum tíma í að finna réttu veitingastaðina í Lyon og það tókst frekar vel.  Krakkarnir lærðu að elska steak hache og ég hélt mínu striki í að panta önd á sem flestum veitingastöðum í Frakklandi (ég lærði það þegar ég ferðaðist með vinum mínum um Frakkland þegar að Ísland keppti á EM árið 2016 sælla minninga).

Það er kannski ekki neitt sérstakt sem stóð uppúr í Lyon (fyrir utan Musée Cinéma et Miniature) en það var afskaplega þægilegt að vera í þessari borg. Maturinn var frábær, borgin ótrúlega falleg, veðrið gott og fólkið líka. Við hefðum alveg geta verið þar lengur.


Meðmæli Lyon

  • Musée Cinéma et Miniature: Dan Ohlmann, sem vann við að búa til lítil módel fyrir bíómyndir stofnaði þetta safn í Lyon þar sem eru til sýnis fjölmörg módel hans og annað dót úr bíómyndum.  Krakkarnir elskuðu safnið.
  • Made Louve: Samlokustaður rétt hjá íbúðinni okkar þar sem ég fékk samlokur sem eru með þeim allra bestu sem ég hef á ævi minni smakkað.
  • Restaurant Café du Soleil
  • Brasserie Gabriel: Bæði þessi og Café du Soleil eru algjörlega frábærir franskir veitingstaðir – allt frá staðsetningu til matar, þjónustu og verðs var frábært.


Evrópuferð 1: Birmingham

Það eru tíu ár síðan að við Margrét ferðuðumst um Mexíkóflóa með litlu krökkunum okkar tveimur.  Við eyddum mánuði á Flórída og á ferðalagi í rólegheitum um Kúbu og Yucatan skaga.  Krakkarnir voru tveggja ára og bara nokkurra mánaða og því var auðvelt að ferðast með þau á þessum slóðum. 

Þetta frí var í síðasta skipti sem ég skrifaði ferðasögu á þessa bloggsíðu.

Við höfum ferðast síðan þá, en svosem ekki á svo brjálæðislega spennandi staði.  Fyrir 7 árum fórum við saman fjögur á Volvo-inum okkar alla leið frá Stokkhólmi niður til Króatíu.  Ég ætlaði alltaf að skrifa um þá ferð á þessu bloggi en lét aldrei verða af því.  Svo hafa sumarfríin að mestu leyti skipst á milli þess að vera í Svíþjóð eða á Íslandi.  Yndisleg sumarfrí á Gotlandi og á vesturströnd Svíþjóðar, sem hafa verið ógleymanleg en ég hef ekki fundið mig knúinn til að skrifa um þau.

Síðustu tvö ár hafa svo farið í flutninga til Íslands og í fyrra ferðuðumst við eingöngu um Ísland.  Í ár áttum við í erfiðleikum með að skipuleggja sumarið – Margrét er í nýrri og krefjandi vinnu og ég átti í erfiðleikum með að skipuleggja frí því það var svo mikið að gerast í vinnunni hjá okkur báðum.  Við vissum þó bæði að okkur langaði mikið að komast í hlýrra loftslag.

Fyrir einhverjum vikum kom sú hugmynd uppí hausnum á mér að kaupa bara flugmiða til Evrópu og reyna að skipuleggja fríið þegar við værum farin af stað. Mér fannst þessi fjölskylda þurfa á smá ævintýri að halda. 

Fljótlega fengum við svo ágætis byrjunar- og enda dagsetningu.  Við þurftum að vera komin til Birmingham á Englandi þann 12. júlí því þar ætlaði franchise aðili okkar á Bretlandi að opna Zócalo stað númer tvö þann 13. júlí.  Og af því að íbúðinn okkar er í Airbnb útleigu þá gætum við ekki komið heim fyrr en 8. ágúst. 

Þannig að við vorum með fjórar vikur í fríi sem þyrfti að byrja í Birmingham.  Við vorum líka ákveðin í að fara aftur í Legoland.  Þar vorum við fyrir 7 árum þegar börnin okkar voru 3 og 5 ára og okkur fannst passa frábærlega að fara þar aftur núna þegar börnin eru 5, 10 og 12 ára.  Þannig var kominn endapunktur á fríið – það yrði í Danmörku en meira var ekki ákveðið.  Ég pantaði flug til London og heim frá Kaupmannahöfn, fann útúr lestarmiðum frá London til Birmingham og við fundum einhverja (mjög lélega) Airbnb íbúð í Birmingham til að geta gist fyrstu dagana.


Zócalo staðurinn í Birmingham
Bowl á Zócalo í Birmingham

Birmingham er næst fjölmennasta borg Bretlands með um 3 milljónir íbúa.  Við lentum fyrir hádegi á Stansted flugvelli í London og þurftum þaðan að taka flugvallarlest, underground og svo eina lest í viðbót til að koma okkur alla leið á New Street stöðina í Birmingham.  Við höfðum skipulagt pökkun á okkar dóti vel fyrir ferðina, þar sem við ætluðum að vera með lítinn og meðfærilegan farangur.  En samt var ekki auðvelt að bera farangur fyrir fimm manns á milli lesta og svo uppí íbúð í Birmingham.

Ég að horfa á úrslitaleik EM með strákunum mínum

Dagana í Birmingham reyndi ég að gera hvað ég gat til að hjálpa til við opnunina á staðnum, sem opnaði með soft opening laugardaginn eftir að við komum.  Á sunnudeginum horfðum við svo á England tapa í úrslitaleik EM.  Ég hélt að það yrði brjáluð stemning fyrir leiknum og hægt yrði að sjá hann á stórum skjá með fulltaf fólki en svo var ekki raunin í Birmingham.  Því horfðum við á leikinn í íbúðinni okkar og þar sem England tapaði þá var lítil ástæða til að kíkja á stemninguna eftir leikinn. Annars eyddum við dögunum á labbi um Birmingham – kíktum aðeins í búðir og á ágætt vísindasafn, sem krökkunum fannst skemmtilegt.


Meðmæli Birmingham

Skíðakennsla fyrir litla krakka

Ég hef síðustu 9 árin unnið að því að kenna börnunum mínum þremur að skíða.  Þegar að mér fannst vera sjens að elsti strákurinn okkar gæti byrjað á skíðum þá fór ég að velta fyrir mér hvernig væri best að kenna honum og ég man þá að ég fann engar sérstakar leiðbeiningar um það hvað væri best.  Þannig að ég ætla hérna að koma með punkta um það hvað ég hef lært síðustu 9 ár á því að kenna þremur krökkum að skíða, öllum mjög ungum.

Það að byrja að kenna börnum mjög snemma að skíða (ég byrjaði með minn yngsta þegar hann var 2,5 ára gamall – sjá mynd að ofan) er eflaust erfiðara en að gera það þegar börnin eru orðin stærri.  Þegar þau eru svona lítil hafa þau mjög lítið úthald og verða fljótt veik í löppunum.  En á móti þá verða þau auðvitað góð mun fyrr og ég held að þau verði óhræddari en ef þau byrja seinna.

Ég vissi það alltaf að ég myndi vilja byrja að kenna krökkunum mjög snemma og ég vissi það líka að ég vildi eyða eins litlum tíma og mögulegt er í barnabrekkum.  Þessar leiðbeiningar miða líka að því að kennarinn sé sæmilega fær á skíðum og í sæmilegu líkamlegu formi.

Ég hef séð um þessa þjálfun nánast eingöngu sjálfur.  Tvö eldri börnin fóru í einhverja skíðaskóla á sænskum skíðasvæðum, en þeir voru alltaf mjög stuttir (1,5-2 tímar á dag).  Sá yngsti lærði eingöngu á skíði með mér.

Svo er auðvitað mögulegt að þetta henti ekki öllum krökkum.

Fyrsta skref: Krakki skíðar á milli lappa.

Þetta er kannski erfiðasta skrefið.  Ég prófaði að fara nokkrum sinnum í barnabrekku eða mjög auðvelda fullorðinsbrekku.  Ég var smá á töfrateppi, en eftir 1-2 daga flutti ég mig yfir í stólalyftu.  Ég lyfti krökkunum uppí stól og fór með þá upp í léttar brekkur. Það eru kannski ekki mjög margar mjög léttar brekkur sem eru með stólalyftu á Íslandi. Neðri stóllinn í Hlíðarfjalli og Drottningin í Bláfjöllum eru þó ágæt fyrir þetta.

Ég setti krakkana svo á milli lappanna og skíðaði með þau í plóg niður.  Það sem mér fannst vera stærsti ávinningurinn af þessu var að krökkunum fannst strax gaman að skíða.  Það er ekkert í lífi 3 ára gamals krakka sem er hægt að bera það saman við að skíða niður brekku á mikilli ferð á milli lappa foreldris.  Allir mínir krakkar elskuðu þetta tímabil.

Næsta skref: Krakki skíðar í bandi / á milli lappa

Næsta skref var að setja krakkana í band / beisli og stýra þeim þannig.  Yngsti prófaði þetta skref þegar hann var ca 2,5 ára gamall.  Þá skíðar krakkinn á undan í bandi og ég stýrði með höndunum mínum.  Ef þau voru óörugg þá stoppaði ég þau og renndi mér uppað þeim og tók utanum þau og skíðaði með þau á milli lappanna. Þá fengu þau aftur öryggið.  Hérna er ég með yngsta strákinn minn á Åre þegar hann er 2,5 ára gamall.

Smám saman urðu þau þó betri í þessu og þau fá fljótlega mikið sjálfstraust því þeim líður einsog þau séu að skíða sjálf og hafi stjórnina þótt að ég væri auðvitað með alla stjórn.  Þetta er þó nokkuð líkamlega erfitt fyrir kennarann.  Ég þurfti oft að vera í plóg á eftir því í erfiðari brekkum er það einsog að vera með lóð á undan sér að hafa krakka í bandi, sem vill bara fara eins hratt og mögulegt er. Alltaf þegar þau voru óörugg þá tók ég þau svo aftur á milli lappanna þar til öryggið var komið aftur.

Þegar þau voru orðin betri þá byrjaði ég að kenna þeim að beygja sjálf svo þau hefðu stjórn á hraðanum.

Síðasta skrefið: Aftur í barnabrekku.

Þegar þau voru orðin alveg örugg í bandi og voru farin að beygja sjálf þá fór ég aftur í barnabrekkurnar og leyfði þeim að prófa að fara sjálf.  Sjálfstraustið er til staðar, svo það vantar bara smá öryggi við það að bandið sé alveg farið, en það var aldrei langur tími.  Yngsti strákurinn minn byrjaði að skíða alveg sjálfur þegar hann var 4,5 ára.  Þannig að þetta var tveggja ára ferli með honum (kannski svona 10-15 skíðadagar).

Hérna er yngsti strákurinn nýorðinn 5 ára í barnabrekkunni í Bláfjöllum – þetta var fyrsta skiptið á skíðum þennan veturinn svo við byrjuðum í barnabrekkunni.

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum.

Prófaðu að hjóla í Reykjavík!

Þegar ég hugsaði til þess að flytja aftur til Reykjavíkur eftir meira en áratug í Stokkhólmi þá var ég ákveðinn í því að detta ekki inní sama pakkann og ég var í áður en ég flutti út – ég vissi alltaf að við myndum vilja eiga bíl, en ég ætlaði að reyna að takmarka notkun á honum eins mikið og ég gæti.  Því ég veit ekkert sem gjörsamlega tæmir alla gleði og orku úr mínum líkama einsog að sitja inni í bíl í umferðarteppu.


Fyrstu árin í Stokkhólmi áttum við ekki bíl – við bjuggum á Södermalm og ég notaði neðanjarðarlestina til að koma mér í vinnuna og á milli veitingastaða en eftir nokkur ár keyptum við okkur gamlan Volvo station bíl.  Þegar við fluttum í úthverfin rétt hjá Södermalm bjuggum við fyrst svo langt frá lestarstöðinni og leikskólanum að ég keyrði krakkana á bíl á leikskólann, lagði bílnum þar og tók svo lestina niður í bæ.

Í Covid var fólk hvatt til að nota ekki lestarnar og þá byrjaði ég á því að hjóla í vinnuna á hverjum degi.  Ég byrjaði á þessu vorið 2020 þegar veðrið var gott og hélt því svo áfram í gegnum fyrsta Covid veturinn alla rigningardagana og setti nagladekk á í snjónum.  Ég tók þó lestina einhverja daga þegar veðrið var einstaklega leiðinlegt eða þegar ég þurfti að mæta á fundi lengra í burtu.  Einhverja daga keyrði ég svo bílinn inná Södermalm þegar ég þurfti á bílnum að halda í vinnunni.

Smám saman fann ég þó á mér hversu góð áhrif hjólatúrarnir höfðu á mig.  Ég byrjaði að hata það að sitja fastur í umferðinni á leið inná Södermalm eða í hitanum í lestinni.  Ég fann áþreifanlegan mun á skapinu þá daga sem ég byrjaði á því að hjóla þessa 4,5  kílómetra sem voru frá íbúðinni minni uppá skrifstofu.  Ég hjólaði alltaf á venjulegu hjóli á þokkalega rólegu tempói þar sem ég var alltaf í vinnufötunum á hjólinu.  Heitustu daga ársins var ég þó með auka bol með mér og fór í sturtu þegar ég kom á skrifstofuna en nánast alla aðra daga hjólaði ég í vinnufötunum mínum.


Þegar við fluttum heim í janúar á síðasta ári var ég viss um að ég yrði að reyna þennan lífstíl áfram.  Hjólið mitt kom með gám í mars og síðan þá, í rúmlega 18 mánuði, hef ég hjólað í vinnuna nánast á hverjum degi.  Til að byrja með hjólaði ég fyrst með litla strákinn minn í hjólavagni á leikskóla og svo í vinnu 4,5 kílómetra leið, en síðustu mánuði hef ég labbað með hann á leikskólann og svo hjólað úr Laugardal niður í miðbæ Reykjavíkur, sirka 3 kílómetra leið.  Alla fundi hjóla ég á, hvort sem þeir eru uppá Bíldshöfða eða í Kópavogi.  Ég hef hjólað í miklum snjó og rigningu en langoftast í alveg ljómandi fínu hjólaveðri.  Það voru kannski svona 5-10 dagar í vetur þar sem ég sleppti því að hjóla útaf miklum snjó.

Síðustu mánuðir hafa verið gríðarlega erfiðir í vinnu, sem hefur bæst oná stress sem fylgir því að flytjast á milli landa með þrjá krakka, sem þurfa að eignast vini og læra á nýtt umhverfi.  Ég leyfi mér að fullyrða að þessir 10-20 mínútuna hjólatúrar hvern morgunn og hvern eftirmiðdag hafa verið gríðarlega mikilvægir fyrir mig og hafa haldið hausnum á mér í lagi.


Ég er þeirrar skoðunnar að miklu, miklu fleiri ættu að hjóla í Reykjavík og ég ætla aðeins að skrifa um mína reynslu í þeirri von um að einhverjir, sem geta, prófi að hjóla meira.  Ég er fullviss um að gríðarlega stór hópur fólks gæti hjólað til vinnu á hverjum degi og þar með bætt sína andlegu og líkamlegu heilsu gríðarlega, ásamt því að bæta umhverfið.

Það er fullt af ykkur þarna úti – þið sem keyrið bíl í vinnuna 1-5 kílómetra af því að þið eruð sannfærð um að veðrið sé svo slæmt eða af því að þið haldið að þið þurfið bílinn í skutl eða eitthvað annað.  

Málið er að langflest okkar, sem erum að hjóla í vinnuna á hverjum degi, höfum líka prófað hitt – að keyra í vinnuna, en við veljum samt að hjóla.  Af því að það er einfaldlega miklu betra, þrátt fyrir veður og slæma stíga og allt hitt.  Já, ég veit að fulltaf fólki þarf á bíl að halda, en ég held samt að langflestir þurfi þess alls ekki.

Hérna eru mínir punktar.

Þú þarft ekki að velja milli bíls og bíllaus lífstíls!

Það er enginn að segja þér að þú þurfir að selja bílinn áður en þú prófar að hjóla í vinnuna.  Við eigum bíl á okkar heimili, sem við keyrum á í Bláfjöll og útúr borginni.  Konan mín notaði hann til að keyra í vinnuna síðasta vetur, þegar hún vann fyrir utan borgina. 

Haltu bílnum þínum, en prófaðu líka að hjóla.  Þú áttar þig kannski á að þú þarft ekki bíl eða að einn bíll dugar á heimilinu.

Prófaðu að hjóla í vinnuna nokkra daga – það er fínt að gera það núna þegar veðrið er gott.  Finndu hver munurinn er!

Þú þarft ekki dýrt hjól

Fyrir þokkalega fríska manneskju á góðum aldri á það ekki að vera neitt mál að hjóla 3-5 kílómetra í vinnuna.  Ég hjóla þessa túra á Specialized hjóli, sem ég keypti í Stokkhólmi fyrir ca 90.000 krónur.  Ég þarf ekkert meira en það – ég breytti um dekk fyrir einhverjum mánuðum og fór á aðeins þykkari til þess að þau væru ekki eins viðkvæm fyrir köntum.  Á Íslandi er auðvelt að fá sér nýtt hjól á 100.000 kall sem dugar í fjölmörg ár.  

Ef að ég byggi lengra frá vinnunni (á milli 5-15 kílómetra), þá myndi ég kaupa rafmagnshjól.  Þú getur ábyggilega prófað að fá slíkt lánað frá vini í einn dag og hjólað í vinnuna.

Fimm kílómetrar er rosalega stórt svæði. Hérna er til dæmis 5km radíus frá stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum. Innan þess ra´díus er allur miðbær, vesturbæ og meira að segja Seltjarnarnes! Svo er þarna allur Laugardalur, Vogahverfi og neðsti hluti Árbæjar ásamt stórum hluta Kópavogs.

Þessi vefsíða er líka frábært tól til þess að sjá hversu langt þú kemst á korteri á hjóli frá hvaða stað sem er. Prófaðu að setja þitt heimili þarna inn og sjáðu hvað þú getur labbað og hjólað.

Í sirka nóvember skipti ég svo yfir á nagladekk. Nagladekkin eru fyrir snjó og alla þessu frábæra hjóladaga þar sem hjólastígarnir eru með smá ís á. Fyrir utan hjólið þarf maður burðarpoka (sem kosta ca 25.000 kall parið) og lás.  Meira þarf ekki.

Veðrið er ekki svona ömurlegt!

Þetta er kannski stærsta ”vandamálið” sem að heldur fólki frá því að hjóla í Reykjavík.  Ég vil meina að fólk ofmeti þetta vandamál stórkostlega. 

  • Það að hjóla kemur þér í tengsl við veðrið.  Alveg kjánalega mikið af fólki í Reykjavík klæðir sig ekki eftir veðri, heldur notar bílinn sinn sem úlpu og pirrar sig svo á því að veðrið sé leiðinlegt í þessar 5 sekúndur sem líða á milli þess sem viðkomandi fer útúr húsi og inní bíl.  Ef þú klæðir þig með því hugarfari að þú getir verið úti í smá tíma, þá verður veðrið ekki svona pirrandi.  Engir hvítir strigaskór í snjósköflum eða blazer jakkar í rigningu og 2 stiga hita. Það gerir allan daginn auðveldari að vera í tengslum við veðrið og klædd eftir því.
    Það er hræðilegt að hlaupa inná leikskóla úr bílnum í stuttermabol í grenjandi rigningu, en ef maður er klæddur fyrir rigninguna þá er ekkert mál að hjóla í korter í sama veðri.
  • Ég hjóla í vinnufötunum, sem eru frekar casual.  Svo er ég stundum í vesti yfir og einhverju vatnsheldu sem ysta lagi.  Fyrir utan sumarmánuðina er ég með handska og húfu ef þess þarf (ég með Hövding uppblásinn hjálm).  Þetta dugar í 90% tilfella.  Ég á líka regnbuxur fyrir þá fáu daga þar sem lítur út fyrir að rigningin verði slæm og svo er ég með poncho í bakpokanum fyrir neyðartilfelli.
  • Veðrið er oft verst þegar þú ert inní bíl.  Þegar þú keyrir í rigningu á 80 kílómetra hraða þá hljómar rigningin hræðilega.  En þegar þú ert úti í henni, þá er hún oft alls ekki svo slæm.  Smá rigning á leiðinni heim er bara fín.
  • Veðrið í Reykjavík er að mörgu leyti fullkomið fyrir að hjóla.  Hérna eru engir dagar of heitir.  Ef ég væri að hjóla í vinnuna í Phoenix myndi ég aldrei geta hjólað í vinnufötunum þar sem ég myndi strax svitna svo mikið.  Hérna í Reykjavík get ég hjólað án þess að svitna.  Og fyrir þá sem svitna þá er það bara að skella sér í sturtu í vinnunni – það er ekkert stórmál.

Þú þarft ekki endilega bíl til að gera X

Svo er það allt annað sem fólk nefnir að það þurfi bílinn til að gera.  Fara í búðina, skutla krökkum og svo framvegis.

  • Fyrir það fyrsta er skutl á krökkum alltof mikið.  Ég veit að ég bý í frábæru hverfi til að sleppa við skutl, en ég líka viss um að fólk er alltof gjarnt á að skutla krökkum.  Ég er alinn upp í 1,2 km fjarlægð frá skóla og íþróttavöllum og labbaði þá leið alla daga, stundum oft á dag.  Fyrir átak í Laugarnesskóla sáum við að langflestir krakkarnir bjuggu í minna en kílómeters fjarlægð frá skólanum en samt voru mörg þeirra keyrð í skólann.  Krakkar þurfa oftast ekki skutl.
  • Ef krakkarnir eru enn á leikskólaaldri er auðvitað tilvalið að taka þau með á hjólið eða í vagn.
  • Ég fer í búðina oft í viku á hjólinu mínu án vandræða. Auk þess er hægt að fá hluti heimsenda.
  • Ég hugsa líka útí það hvar ég sæki þjónustuna.  Ég neyðist til að mynda einu sinni í viku til að heimsækja það bíla-helvíti sem Hlíðarsmára-hverfið er (þar sem öll bílastæði eru full af starfsfólki áður en fólkið, sem þarf að sækja þjónustuna, mætir), en fyrir utan það fer ég í klippingu, í matvörubúð og í aðra þjónustu þar sem ég get hjólað.

Gerðu þitt fyrir umhverfið og heilsuna!

  • Það að hjóla er frábært fyrir andlega heilsu, líkamlega heilsu og svo auðvitað fyrir umhverfið.  Það er frábært að anda að sér sjávarlofti á Sæbrautinni og sjá að maður er ekki að gera ástandið í borginni verra með því að sitja fastur í bílaumferð með ömurlegum afleiðingum fyrir borgina og umhverfið.

    Það að gera hluti fyrir umhverfið er ekki alltaf skemmtilegt.  Það er leiðinlegt að sleppa sólarlandaferð eða því að borða hamborgara fyrir umhverfið.  En það að skilja bílinn eftir til þess að hjóla er bæði gott fyrir umhverfið og líka skemmtilegt og frábært fyrir andlega heilsu.  

Nú er kominn sepember og það er að mörgu leyti fínn mánuður til að prófa að hjóla.  Prófaðu að hjóla í nokkra daga og sjáðu hvernig þér líður þegar þú mætir í vinnuna og heim úr vinnunni.  Ef þú finnur jafn mikinn mun og ég þá verður það ekkert mál að smám saman venja sig á það að hjóla líka í verra veðri og í allan vetur.

Ekki mikla þetta fyrir þér – kannski eru vandamálin með hjólreiðar óyfirstíganleg í þínu lífi.  Gott og vel.  En fyrir hina sem hafa hugsað með sér að þetta sé kannski hægt, þá hvet ég ykkur til að prófa. 

Það er einfaldlega ekkert sem núllstillir mann jafn vel í byrjun dags og á leið heim úr vinnu einsog það að fá nokkra mínútna hjólaferð í yndislegu íslensku veðri.

Mathöll í Stokkhólmi – Sthlm City Food Hall

Í síðasta mánuði opnaði ég mathöll á besta stað í miðborg Stokkhólms.  Þetta er að mörgu leyti erfiðasta vinnu-verkefni, sem ég hef staðið í á mínum 20 ára ferli í veitingabransanum.

Hugmyndin kviknaði hjá mér haustið 2020 í miðju Covid þunglyndi.  Nokkrum mánuðum áður hafði ég tekið að mér að búa til mexíkóskt konsept fyrir Borg 29 mathöll.  Ég hafði svo auðvitað áður unnið talsvert með veitingastaði á matartorgum alveg frá því að við Emil opnuðum Serrano á Stjörnutorgi fyrir rúmlega 20 árum.  Við á Zócalo höfum verið með stað í K25 mathöllinni í Stokkhólmi frá því 2013 og í Tivoli Food Hall í Kaupmannahöfn síðan það konsept opnaði árið 2017.

Síðan 2013 höfum við rekið Zócalo stað á besta stað í Stokkhólmi, nokkrum metrum frá Sergels Torg.  Ég byrjaði að leita að staðsetningum fyrir Zócalo staði í Stokkhólmi árið 2008 en við fengum engar spennandi staðsetningar miðsvæðis heldur urðum að sætta okkur við opnanir í úthverfum fyrstu árin.  Árið 2013 komu inn fjárfestar í félagið og með þeim fylgdi þessi staðsetning á Klarabergsgatan 29, 100 metrum frá Sergels Torg og beint á móti Åhléns verslunarmiðstöðinni.

Svona leit Zócalo staðurinn út á Klarabergsgatan

Staðurinn var hins vegar alltaf erfiður í rekstri.  Við þurftum að innrétta hann á mettíma og ég var aldrei sáttur við hvernig tókst – mér fannst hönnunin klúðursleg, staðurinn var rosalega stór (250 fermetrar með 160 sætum) og ég var í mörg ár að berjast við það hvort ég ætti að selja, gera staðinn upp eða reyna eitthvað annað.  


Í Covid varð svo algjört hrun á staðnum.  Í stað þess að fá 400 kúnna á föstudegi þá vorum við að afgreiða allt niður í 15 manns á dag.  Á þessum stað í miðbæ Stokkhólms hvarf fólkið þar sem allir voru hvattir til að forðast lestar og vinna alltaf heima.  Á einni viku hurfu allir okkar kúnnar.  

Við gátum lifað Covid af þar sem að við fengum slatta af aðstoð frá sænska ríkinu – annars hefði þessi staður dregið okkar fyrirtæki í gjaldþrot, þar sem leigan var mjög há og engir kúnnar eftir.  Ég eyddi mörgum svefnlausum nóttum á Covid tímanum í að hugsa hvað ég gæti gert til að bjarga fyrirtækinu, sem ég hafði verið að byggja upp í Svíþjóð og Danmörku í yfir 10 ár.

Eitt kvöldið fékk ég þá hugmynd að breyta þessu stóra plássi í litla mathöll.  Ég kynnti þá hugmynd fyrst fyrir eigenda hússins (sem er sænskur lífeyrissjóður) í desember 2020 en þau voru ekkert gríðarlega spennt fyrir þessu verkefni.  Ég gafst samt ekki upp og næstu 12 mánuðina barðist ég fyrir að halda þessu verkefni á lífi.  Það var svo rétt fyrir jólin 2021 – rúmu ári eftir að ég talaði fyrst við eigenda hússins, að þau samþykktu hugmyndina mína, sem gekk þá útá að sameina Zócalo og búðina við hliðiná (Teknikmagasinet raftækjabúð) í eitt bil með 6-8 veitingastöðum.


Við tóku síðan 13 mánuðir frá samþykki þar til að við opnuðum núna 20.janúar.  Ég þurfti að klára hönnunina, sem ég gerði með HAF og ákveða hvaða veitingastaði ég vildi fá inní mathöllina.  Og ég þurfti að finna fjármögnun, annaðhvort á Íslandi eða í Svíþjóð.

Ég hafði í hausnum frekar skýra mynd af því hvaða konsept ég vildi hafa þarna inni.  Ég og Árni Þór vinur minn eyddum ófáum klukkustundum inná skrifstofu við að velta fyrir okkur hvaða konsept myndu passa.  Ég vissi nokkurn veginn hvaða tegundir af konseptum ég vildi fá og eftir það gerði ég lista yfir mín uppáhalds konsept í hverjum flokki.  Flestir sem ég hafði samband við voru að elska konseptið og voru til í allt, en sum bilin voru aðeins erfiðari.  Mathöllin fékk líka nafn, Sthlm City Food Hall.

Á endanum stóðum við uppi með 8 veitingastaði: Zócalo (sem er einsog allir aðrir Zócalo staðir rekninn af franchise aðilum), Vår Pizza (frábært pizza konsept með 4 staði í Stokkhólmi), Bun Meat Bun (að mínu mati bestu hamborgararnir í Stokkhólmi með 5 staði), Yoi (asískt með 3 staði), Mackverket (geðveikar samlokur – þetta er staður númer 3 hjá þeim), MGL Sushi (staður númer 5), Kimli Ramen (nýtt konsept) og CoCo Fresh Tea (stærsta bubble tea keðja í heimi með fyrsta stað í Svíþjóð).  Allt eru þetta lítil en góð konsept sem voru ekki með staði í miðbæ Stokkhólms.

Fjármögnunin reyndist erfiðari – ég veit ekki hversu marga fundi ég hélt á Íslandi og í Svíþjóð – en mér mistókst samt að fá inn fjárfesta í verkefnið þrátt fyrir að þetta væri verkefni á besta mögulega stað í miðborg Stokkhólm með öruggar leigutekjur.  Á endanum var þetta allt fjármagnað með framlagi veitingastaðanna og lánum frá bönkum og byggingaraðilum.  Það gerði þetta verkefni svo miklu erfiðara að vera aldrei með trygga fjármögnun heldur þurfa að berjast einhvern veginn í gegnum þetta á hverjum degi í 13 mánuði, þar sem nánast ekkert mátti fara úrskeiðis.

Fyrir utan City Food Hall – Sergels Torg í bakgrunni
Myndir frá opnunarpartýi

Einhvern veginn komst ég samt í gegnum þetta.  Byggingarvinnan byrjaði í september og stóð í sirka 4 mánuði.  Ég þurfti að venjast því að vera ekki bara að byggja minn eigin veitingstað heldur líka að þjónusta 8 aðra aðila, sem höfðu sínar væntingar og kröfur.  Síðustu 2 vikurnar fyrir opnun var ég í Stokkhólmi þar sem ég vann 16 tíma á dag og svaf 8.  

Auk þess að taka 100 ákvarðanir á dag þurfti ég líka að vera hressi gaurinn sem hrissti af sér öll vandamál og sagði að þetta myndi allt reddast.  Það er ekki auðvelt starf þegar að nánast allt samstarsfólkið eru Svíar, sem samþykkja ekki sama óskipulag og yfirvinnu sem kannski tíðkast í íslenskum verkefnum.  Ég veit ekki alveg hvernig ég komst í gegnum þetta án þess að missa geðheilsuna alveg, en einhvern veginn er heilinn minn búinn að gleyma öllu þessu veseni.  Ég upplifði það í þessu ferli rosalega oft að mæta í vinnuna á morgnanna og kvíða því að opna tölvuna og takast á við það sem þyrfti að klára.  Ég vona að það verði ekki svoleiðis mikið lengur.

Við annan innganginn

Ég komst þó í gegnum þetta með hjálp frá Margréti minni, sem þurfti að hlusta á mig óteljandi sinnum segja hversu mikið ég hataði þetta verkefni en náði að peppa mig samt upp, Árna Þór sem hjálpaði mér í gegnum alla skipulagningu og framkvæmd og kom mér niður á jörðina þegar ég missti mig aðeins of mikið.  Og líka fólkinu sem vinnur með mér hjá Zócalo, gaurnum hjá bankanum sem hafði trú á þessu og Panea, byggingarfyrirtækinu sem að höfðu trú á mér.

Í opnunarpartýinu, sem var haldið daginn fyrir opnun, fann ég strax að verkefni hafði heppnast.  Staðirnir voru það góðir og stemningin það fín að þetta myndi ganga upp.  Þá minnkaði stressið aðeins.  Þegar ég upplifði svo fyrsta hádegið með góðri traffík varð ég ennþá sannfærðari.  


En þrátt fyrir allt þetta stress og álag þá elska ég þennan bransa. Ég elska að skapa eitthvað sem veitir fólki ánægju og skapar líf í borgum. Það er eflaust margt betra í hefðbundinni vinnu með tryggum launum, en ég veit líka innst inni að ég elska þetta meira þrátt fyrir allt – elska stressið og hversu óútreiknanlegt allt er í veitingabransanum. Ég er ótrúlega stoltur af þessu verkefni og það er fátt skemmtilegra en að sjá fólk njóta lífsins á stað sem maður skapaði.


(Hérna er heimasíða og Instagram fyrir Sthlm City Food Hall).

Mitt atkvæði í Reykjavík

Það hefur að mörgu leyti verið frábært að flytja aftur til Reykjavíkur. Ég hef oft ætlað að setjast niður og skrifa um upplifun mína og hvað ég er ánægður með en vegna ótrúlegra mikilla anna í vinnu og hefðbundnu heimilislífi þá hef ég einhvern veginn aldrei haft almennilegan kraft til að koma hugsunum mínum á blað.

Ég var frekar stressaður yfir því að flytja frá Stokkhólmi aftur heim, en það voru nokkrir hlutir sem gerðu mig bjartsýnni fyrir flutningunum. Ég elskaði að skoða Instagram hjá fólki sem er úti í náttúrunni allan ársins hring, sem fer á fjallaskíði í maí og labbar á önnur fjöll í skítaveðri í október. Og ég fylltist von þegar ég hlustaði á fólkið í meirihlutanum í Reykjavík tala um hvers konar borg þau vildu sjá, því það er nákvæmlega borgin sem ég vil sjá líka.

Á morgun eru kosningar og því finnst mér ég verða að segja eitthvað. Ég hef ekki haft sérstaklega mikinn áhuga á íslenskri pólitík síðustu ár en ef ég er sannfærður um eitthvað þá er það að meirihlutinn í Reykjavík er að gera borgina miklu betri og ég vona svo heitt og innilega að þau fái stuðning til að halda áfram.

Í Stokkhólmi gat ég hjólað í vinnuna alla daga. Það var ekki alltaf þannig. Fyrstu árin eyddi ég morgnunum ofaní neðanjarðarlest, sem er alls ekki svo spennandi ferðamáti. Þegar ég flutti frá Södermalm hélt ég áfram að nota lestina þangað til að ég prófaði einn dag að hjóla í vinnuna, sirka 6 km leið (sem minnkaði niður í 4km þegar við fluttum). Ég byrjaði að hjóla í góðu veðri og smám saman áttaði ég mig á því að ég gat hjólað nánast alla daga ársins. Í skítaveðri fór ég í regngalla og buxur og ég setti svo nagladekk á hjólið. Þá fáu daga sem ég þurfti að keyra bílinn inná Södermalm og bíða í umferðarteppu við Liljeholmsbron fann ég fyrir smá örvæntingu um að svona myndi líf mitt vera þegar ég myndi flytja heim.

Það gaf mér samt von að það virtist vera fullt af kláru fólki sem vildi reyna að breyta Reykjavík úr alltof dreifðri borg með of mörgum bílastæðum og umferðarteppum yfir í borg þar sem hægt er að komast um með strætó, labbandi og hjólandi. Þar sem byggð er þétt og mannlífið er frábært.

Eftir að ég flutti heim hef ég hjólað eða labbað leiðina í vinnuna, sem er 3,2 kílómetrar. Vissulega nýt ég góðs af því að búa í hinum frábæra Laugardal, en ef ég teikna á kortið svipaða vegalengd frá stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum, þá gætu allir íbúar vesturbæjar, 101, Hlíðanna, Háaleitis og hluti Fossvogs farið þangað leið sem væri svipað löng. Þannig að ég er alls ekki í einstakri stöðu. Það að ég hef gengið og hjólað í vinnuna á hverjum degi hefur haft svo ótrúlega jákvæð áhrif á mitt líf eftir að ég flutti heim. Meira að segja vont veður verður einhvern veginn mun auðveldara að glíma við þegar maður er vel klæddur úti í stað þess að sitja inni í bíl.

Núverandi meirihluti vill halda áfram að bjóða fleirum uppá þá möguleika á að búa á eftirsóknarverðum svæðum, sem er frábært. Ég vil sjá meira fólk í Laugardalnum og meira fólk í miðbænum. Ég vil sjá borg þar sem fleiri geta labbað og hjólað í vinnuna sína.


Það er fullt af sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur sem bjóða fólki uppá úthverfalíf þar sem þú þarft einkabíl til að fara útí matvörubúð. Ég þekki fulltaf fólki sem býr í einbýlishúsum í Garðabæ eða Kópavogi, þar sem 2-3 einkabílar á heimili þykja eðlilegur hlutur. Þau elska að búa þar.

En Reykjavík ein getur boðið uppá borgarlíf og því þurfum við að kjósa fólk sem vill sjá borgarlíf í Reykjavík, en vill ekki bara sjá greiða bílaumferð útum allt í gegnum líflaus hverfi.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna á morgun. Dagur B er frábær borgarstjóri, en einnig eru á listanum fólk einsog Birkir Ingibjartsson og Hjálmar Sveinsson, sem kveikti áhuga minn á skipulagsmálum fyrir mörgum árum. Ég fíla líka fullt af fólki á lista Viðreisnar og Pírata (Dóra oddviti er frábær), þannig að þið megið kjósa þá lista líka. En helst samt Samfylkinguna.

Reykjavík er að verða að frábærri borg og hún er svo miklu betri núna en þegar ég flutti í burtu fyrir 13 árum. Ég elska þessa borg og vil sjá meiri borg og betri borg. Borg sem líkist bestu borgum í Evrópu í stað bílaborga í Bandaríkjunum.

Hæ Ísland

Við fjölskyldan erum flutt heim til Íslands frá Svíþjóð eftir að hafa búið í Stokkhólmi í 13 ár. Við Margrét byrjuðum reyndar á því að sitja í Covid einangrun þar sem við greindumst við landamærin.

Ég held að hugmyndin um að flytja til Stokkhólms hafi kviknað hjá mér í einhverju samtali við Emil þar sem ég reyndi að sannfæra hann um að Serrano væri orðið það gott og það vinsælt konsept að við ættum að reyna að opna í útlöndum. Þetta var rétt fyrir hrun og allir í útrás. Ég sá fyrir mér að opna Serrano í Stokkhólmi og ég var orðinn svo þreyttur á því að vera single í Reykjavík að ég sá það í hyllingum að í miðju verkefninu myndi ég kynnast einhverri sænskri stelpu.

Svo gerðist það á hinu stórkostlega sumri 2008 að ég kynntist Margréti Rós og eftir að hafa verið saman í nokkra mánuði ákvað hún að koma með mér út til Stokkhólms. Við leigðum litla íbúð á Folkungagatan á Södermalm og ég reyndi að finna húsnæði fyrir fyrsta Serrano staðinn.

Við keyptum okkur svo íbúð á Götgatsbacken, kynntumst skemmtilegu fólki, Margrét byrjaði í umhverfisfræði við Stokkhólms háskóla og Serrano mjakaðist áfram þrátt fyrir að gjaldeyrishöft gerðu okkur lífið leitt. Eftir að hafa búiðsaman í Stokkhólmi í 2 ár þá giftum við okkur á Íslandi og ári seinna kom Jóhann Orri í heiminn. Við keyptum okkur nýja íbúð á Södermalm og svo fæddist Björg Elísa árið 2014. Serrano breytti svo um nafn og varð Zócalo í Svíþjóð og ég seldi hlut minn í Serrano á Íslandi.

Á einhverjum tímapunkti fengum við leið á Södermalm og héldum að margt myndi verða betra í húsi í úthverfi með garði. Við leigðum því hús við svaka fína götu í Mälarhöjden. Við bjuggum þar í nokkur ár en svo söknuðum við þess að vera í kringum fólk og fengum leið á krakkaskorti í hverfinu og keyptum því íbúð við Vinterviken. Þar komum við inní lifandi og yndislegt hverfi alveg við vatnið þar sem við gátum labbað og fengið okkur sundsprett á sumrin.

Zócalo stækkaði. Við opnuðum staði í fleiri borgum, breyttum konseptinu í franchise og opnuðum í Danmörku líka. Margrét byrjaði að vinna hjá stærstu náttúruverndarsamtökum Norðurlandanna. Svo kom Einar Friðrik í heiminn árið 2018 og sá til þess að lífið varð aldrei rólegt. Við festum rætur í hverfinu okkar. Krakkarnir byrjuðu í skólanum sínum, ég þjálfaði fótboltaliðið hans Jóhanns, Margrét fimleikaliðið egen ár Bjargar og við Margrét eignuðumst frábæra vini þar sem bættust í hóp þeirra sem við eignuðumst á Södermalm og þeirra Íslendinga sem hafa stoppað í einhvern tíma í borginni okkar. Við opnuðum svo hverfisveitingastaðinn Vår Pizza ásamt vinum okkar, sem tengdi okkur enn betur við hverfið auk þess sem Margrét byrjaði í masters námi.
En á tímum Covid þá leitaði hugurinn líka heim. Margrét ætlaði bara að búa í Stokkhólmi í nokkur ár, en þau urðu á endanum 13. Ég sagði alltaf við Margréti að það yrði aldrei auðveld ákvörðun að flytja heim til Íslands. Reykjavík myndi aldrei geta unnið Stokkhólm á sumum sviðum alveg einsog Stokkhólmur gæti aldrei unnið Reykjavík á öðrum sviðum. Við myndum alltaf þurfa að velja og hafna. Einhvern tímann á síðustu 2 árum þá fannst okkur einfaldlega tilhugsunin um að flytja til Íslands vera skemmtilegri en þá að vera áfram í Stokkhólmi.

Það var auðvitað ekki auðveld ákvörðum. Þegar við fluttum út þá bjuggum við með vinum okkar í sitthvorri leiguíbúðinni í miðbæ Reykjavíkur. Við höfum aldrei búið á Íslandi sem par eða fjölskylda. Börnin okkar eru öll fædd í Stokkhólmi og hafa búið þar alla sína ævi. Þau þurftu að skilja eftir allt sitt líf og alla sína vini.

Margrét ætlar að klára masters námið sitt í fjarnámi (einsog námið hefur reyndar verið meira og minna síðustu ár) en ég mun halda áfram að vinna sem framkvæmdastjóri Zócalo og mun ferðast á milli Reykjavíkur og Stokkhólms. En lífið okkar er núna hérna í Reykjavík, í íbúðinni okkar í Laugardalnum.

Það er skrítið að flytja heim eftir allan þennan tíma. Hlutirnir munu eflaust ekki gerast sjálfkrafa heldur þarf að rækta aftur þau sambönd sem auðvitað veikjast þegar við höfum búið svona lengi í öðru landi. En við erum ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni.

Ég mun sakna þess að hjóla í vinnuna á Södermalm, að geta labbað og tekið lest um þessa frábæru borg. Ég mun sakna þess að geta labbað á ströndina eftir vinnu og baðað í Mälaren í 25 stiga hita á sumrin. Ég mun sakna þess að vera fótboltaþjálfari og rólegra daga með vinum hangandi á Södermalm.

En við ætlum líka að gefa Reykjavík alla sjensa. Það var alltaf ég sem var á bremsunni varðandi flutning heim og ég er ótrúlega glaður yfir því að vera svona spenntur yfir þessum flutningum. Mér finnst svo margt spennandi vera að gerast í Reykjavík og ég fyllist bjartsýni þegar ég sé fullt af kláru og skemmtilegu fólki tala um það hvernig þau vilji gera borgina betri.

Nú byrjar annar kafli í lífið okkar litlu fjölskyldu. Hæ Ísland!

La Masa, mexíkósk taqueria

Ég er núna staddur á Íslandi til að hjálpa við að opna nýjan veitingastað. Á næsta ári eru 19 ár frá því að ég stofnaði Serrano í Kringlunni, sem náði heldur betur að slá í gegn. Það eru 6 ár síðan að ég seldi Serrano og einbeitti mér að því að reka Zócalo í Svíþjóð og núna eru líka meira en tvö ár síðan að ég seldi Nam frá mér. Ég hef því ekki komið að veitingarekstri á Íslandi í langan tíma.

Ég hef einbeitt mér að því að byggja upp Zócalo í Svíþjóð þar sem við erum með 12 staði (þar af 10 reknir af Franchise aðilum) og 3 staði í Danmörku (sem eru reknir af Franchise aðilum). Það hefur verið ævintýri, sérstaklega síðasta árið í COVID þar sem salan hefur hrunið og sumir staðir hafa verið alveg lokaðir.

—-

Í þessari COVID krísu hef ég hugsað mikið um hvað ég ætti að gera. Ein hugmyndin var sú að prófa að opna öðruvísi konsept á þeim stöðum sem myndu losna þegar að fjöldi veitingastaða myndi loka í Stokkhólmi. Ég byrjaði því að þróa konsept sem myndi passa sérstaklega fyrir eina staðsetningu sem ég hafði augun á á Södermalm. Í miðjum pælingum var haft samband við mig frá Íslandi og á endanum varð það svo að ég ákvað að opna stað á Íslandi í samstarfi við nokkra aðila sem hafa reynslu í veitingabransanum heima. Þess vegna opnuðum við La Masa – mexíkóska taquera í Borg 29 mat höllinni í Borgartúni.

Sagan á bakvið La Masa er nokkuð löng. Ég var 19 ára þegar ég fékk sumarvinnu í Mexíkóborg hjá Chupa Chups. Ég man alltaf eftir fyrsta kvöldinu þegar ég fór á taqueria stað nálægt húsinu þar sem ég bjó og prófaði í fyrsta skipti alvöru tacos. Lyktin af fersku kóríander og nýjum tortillum var æðisleg. Seinna um sumarið flutti ég yfir á annan stað í Mexíokóborg og við hliðiná innganginum í íbúðina var tortilleria, lítið bakarí sem bjó til ferskar maís tortillur á hverjum degi. Lyktin var ótrúlega sterk og góð og ég gat borðað maís tortillur í hvert mál.

Svo liðu árin og þegar ég var búinn í háskóla hafði ég líka kynnst amerískri útgáfu af mexókóskum mat í formi burrito staða einsog Chipotle og Baja Fresh og það var fyrirmyndin að Serrano þegar við opnuðum þann stað í nóvember árið 2002.

—-

Ég hef alltaf á ferðalögum mínum leitað uppi staði sem selja ekta mexíkóskan mat en nánast alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Ég hef fengið virkilega góðar tacos í Madríd og í Ködbyen í Kaupmannahöfn en það eru nánast einu staðirnir. Á öllum hinum stöðunum hefur mér liðið einsog ég gæti gert þetta betur. Fyrir nokkrum árum vorum við fjölskyldan stödd í Miami og beint fyrir framan hótelið var úti staður sem seldir tacos, sem eru án efa bestu tacos sem ég hef fengið utan Mexíkó. Ég fór að grennslast um hvað væri leyndarmálið á bakið staðinn og komst fljótt að því að allt snérust um tortillurnar.

Hugmyndin á bakvið La Masa er einfaldlega að gera bestu tortillur sem við mögulega getum gert. Við flytjum inn Conico Azul maís frá Atlacomulco í stórum sekkjum frá maísekru, sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í fimm kynslóðir. Á hverjum degi eldum við maísinn og látum hann svo liggja í bleyti yfir nótt. Daginn eftir mölum við maísinn í stórri maískvörn sem við keyptum frá Mexíkó. Úr því verður deigið – La Masa, þaðan sem nafnið á staðnum er komið. Við setjum svo deigið í tortilla pressu og út koma litlar tortillur sem við síðan grillum þegar að pöntun kemur frá gestum staðarins.

Lykillinn á bakvið góðar tacos eru góðar maís tortillur. Þess vegna verð ég alltaf fyrir vonbrigðum þegar ég fer á metnaðarfulla mexíkóska staði, sem selja frosnar maís tortillur. Á La Masa tökum við þessar fersku tortillur, setjum oná þær kjöt (al pastor svínakjöt, bbq kjúkling, barbacoa lambakjöt), fisk (djúpsteikta löngu) eða portobello sveppi og svo geta gestir bætt við lauk, kóríander og salsa sósum. Auk þess seljum við ferskar djúpsteiktar nachos með fersku guacamole og litlar quesadillas. Til að toppa þetta er seljum við svo bjór á krana, margarítur og margar tegundir af tekíla og mezcal. Planið er að á staðnum verði salsabar þar sem fólk getur valið eigin sósur, lauk, kóríander og slíkt einsog tíðkast á mexíkóskum taquerias, en það er ekki hægt akkúrat núna.

La Masa opnar í Borg 29 mat höll í Borgartúni. Sjá nánar á Instagram: @lamasaiceland og heimasíðunni LaMasa.is

Liverpool er besta lið í heimi!

Liverpool eru enskir meistarar. Loksins loksins loksins. Er það ekki ágætis tilefni til að blogga aftur?

Ég hef áður sagt frá því á kop.is og kannski á þessari síðu líka að mínar fyrstu fótboltaminningar tengdar Liverpool eru allar slæmar.

Ég var sjö ára þegar að Heysel völlurinn hrundi og 39 stuðningsmenn Juventus dóu. Ég held að ég hafi haldið meira með Juventus af því að Michal Platini var uppáhalds leikmaðurinn minn árið 1985.

Fjórum árum síðar á ég mjög skýra minningu frá því að horfa á Hillsborough slysið í beinni útsendingu og mánuði síðar þegar að Michael Thomas skorar fyrir Arsenal á síðustu mínútu á Anfield og tryggir Arsenal enska titilinn á kostnað Liverpool. Ég man ennþá að ég henti mér yfir sófaborðið í stofunni heima og öskraði NEIIII, 11 ára gamall. Einsog alltaf var ég einn að horfa á leikinn, þar sem pabbi fylgdist ekki með fótbolta og ég man að mamma kom fram og spurði mig hvað í ósköpunum væri að gerast. Ég man bara að ég var miður mín. Ég veit ekki af hverju ég varð Liverpool aðdáandi – ég bara man ekki eftir öðru.

Minningin um Arsenal leikinn er svo skýr í hausnum á mér að ég hélt nokkrum árum seinna að þarna hefði Liverpool tapað sínu síðasta tækifæri á að vinna deildina. En Liverpool vann deildina árið eftir – ég man bara nákvæmlega ekkert eftir því. Ég man að í herberginu heima voru myndir af Peter Beardsley og John Barnes, en einhvern veginn er þessi síðasti titill Liverpool svona ótrúlega óeftirminnilegar fyrir mig.



Næstu ár fylltist herbergið mitt af plakötum af Gullit, Riikjard og van Basten og AC Milan var mitt lið, þar sem ég horfði meira á ítalska boltann á Stöð 2. Liverpool var áfram mitt lið en Gullit og van Basten voru einfaldlega miklu flottari fyrir 14 ára strák heldur en Dean Saunders, Mark Walters og Don Hutschinson. En eftir að Gullit var seldur til Sampdoria hvarf áhuginn minn á ítölsku deildinni og Liverpool hefur verið númer 1,2 og 3.

Liverpool hafa svo dóminerað áhuga mínum á fótbolta að önnur lið eru dæmd fyrst og fremst út frá Liverpool líka. Ég hélt einu sinni mikið með Barcelona, en eftir dramað í kringum Suárez og seinna Coutinho þá get ég ekki lengur stutt það lið. Ég held ekki með Real Madrid útaf Owen og McMannaman og þess vegna hef ég síðustu ár haft tilfinningar til Atletico Madrid, en þær hurfu þegar að liðið spilaði við Liverpool núna í ár.

Ég hef skipt um lið í merkilega mörgum íþróttum og deildum. Ég hataði Chicago Bulls þegar að Jordan var að spila fyrir þá. Á hverju ári hélt ég með nýju liði sem var svo slátrað af Bulls í úrslitum. Það var ó-þol-andi. Svo flutti ég til Chicago og byrjaði að halda með Bulls akkúrat þegar þeir byrjuðu að vera ömurlegir. Ég hélt með AC Milan á Ítalíu þangað til að þeir seldu Gullit og byrjaði þá að halda með Sampdoria. Ég hélt með Réð Sox áður en ég byrjaði að fíla Cubs og Stuttgart áður en ég byrjaði að fíla Dortmund.

En einu liði hef ég alltaf verið 100% trúr og það er Liverpool.



Árið 2004 stofnuðum við Kristján Atli KOP.is. Síðan var fyrir mig fyrst og fremst staður til að létta á pirringi mínum um Liverpool undir stjórn Gerard Houllier, sem ég lét fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég man að einu sinni í háskóla lamdi ég sjónvarpið þegar ég sá að Emile Heskey var enn og aftur í byrjunarliðinu, svo mikill var pirringurinn. Öll árin sem ég skrifaði á KOP.is buðu uppá góða og slæma kafla. Ég sá Liverpool vinna í Istanbúl og nokkur tímabil voru frábær (sérstaklega Suárez tímabilið) en það var líka svo mikil neikvæðni og tuð tengd liðinu að ég gafst á endanum upp.

Öll árin eyddi ég óstjórnlega miklu púðri í að verja hina ýmsu leikmenn – Kuyt, Lucas, Henderson og fleiri – og umfram allt eyddi ég púðri í að verja núverandi eigendur Liverpool. Furðulega margir stuðningsmenn Liverpool hafa trúað því í gegnum árin að það eina sem gæti bjargað Liverpool væru sykurpabbar frá Mið-Austurlöndum. Ég var alltaf á móti slíkum eigendum því ég vissi að ef enski titillinn myndi vinnast með slíkri aðstoð þá væri það aldrei eins sætt einsog það er núna þegar að titillinn vinnst á því að eigendur Liverpool fjárfesta með skynsemi í réttum mannskap á öllum stöðum í klúbbnum og klúbburinn er sjálfbær.



Ég hætti að skrifa reglulega á KOP.is vorið 2015. Það var síðasta heila tímabilið hans Brendan Rodgers. Suárez var farinn og Liverpool liðið var hræðilega lélegt og endaði í sjötta sæti, 25 stigum á eftir Chelsea. Ég var orðinn þreyttur á að rífast um Henderson og Lucas og Mignolet. Í síðustu leikskýrslunni minni voru Emre Can, Dejan Lovren og Alberto Moreno í vörninni með Joe Allen á miðjunni og Jordon Ibe frammi. Þetta var hörmung. Svo um sumarið fór Sterling og árangurinn varð bara enn verri.

En svo næsta haust kom Jurgen Klopp og síðan þá hefur það verið yndislegt að vera Liverpool stuðningsmaður. Við unnum Meistardeildina í fyrra, en fyrir tímabilið í fyrra var ég samt farinn að telja sjálfum mér trú um að Manchester City yrðu aldrei sigraðir í ensku deildinni. Þeir voru einfaldlega með of gott lið, of góðan þjálfara og of ríka eigendur. En FSG og Klopp hlustuðu ekki á slíkt tuð, heldur bættu allt sem þeir gátu bætt og hérna erum við – Liverpool eru Englandsmeistarar.

Og það með lið sem er svona yndislegt. Hvernig er hægt að elska ekki Jurgen Klopp og þetta stórkostlega samansafn af leikmönnum sem eru hógværir, heiðarlegir og frábærir. Ég hef varla elskað Liverpool leikmann jafnmikið og Mo Salah, en í þessu liði elska ég nánast hvern einasta leikmann. Allison, Trent, Robbo, van Dijk, Gomez, Henderson, Gini, Ox, Milner, Keita, Fabinho, Salah, Firmino og Mane. Shaqiri, Matip, Lovren, Origi og Adrian. Þetta lið var fullkomið og þetta tímabil var fullkomið.

En svo breyttist þetta allt kvöldið sem við töpuðum fyrir Athletico Madrid og heimurinn breyttist útaf Corona. NBA deildinni var hætt og næstu daga beið maður stressaður yfir því sem myndi gerast með ensku deildinni. Fyrst var henni frestað og fljótlega fóru alls konar vitleysingar að krefjast þess að deildinni yrði aflýst. Að það væri á einhvern hátt fáránlegt að spila fótbolta þegar að faraldur væri að geysa í samfélaginu. En sem betur fer þá byrjaði deildin aftur og Liverpool kláraði deildina og stendur núna uppi sem meistari með 99 stig. Í fyrra fengu Liverpool 97 stig og núna 99 stig.

Á síðustu 13 mánuðum hef ég horft á Jordan Henderson lyfta bikarnum í Meistaradeildinni, Super Cup, Heimsmeistarakeppni félagsliða og núna loksins loksins Ensku Úrvalsdeildinni. Ég reyndi að segja krökkunum mínum í fyrradag hversu magnað þetta er en þau skilja auðvitað ekki neitt þótt þau séu auðvitað Liverpool aðdáendur líka. Þetta ár verður sennilega aldrei toppað, en ég vona að krakkarnir mínir muni upplifa eitthvað í líkingu við þetta ár aftur.

YNWA.