Mitt atkvæði í Reykjavík

Það hefur að mörgu leyti verið frábært að flytja aftur til Reykjavíkur. Ég hef oft ætlað að setjast niður og skrifa um upplifun mína og hvað ég er ánægður með en vegna ótrúlegra mikilla anna í vinnu og hefðbundnu heimilislífi þá hef ég einhvern veginn aldrei haft almennilegan kraft til að koma hugsunum mínum á blað.

Ég var frekar stressaður yfir því að flytja frá Stokkhólmi aftur heim, en það voru nokkrir hlutir sem gerðu mig bjartsýnni fyrir flutningunum. Ég elskaði að skoða Instagram hjá fólki sem er úti í náttúrunni allan ársins hring, sem fer á fjallaskíði í maí og labbar á önnur fjöll í skítaveðri í október. Og ég fylltist von þegar ég hlustaði á fólkið í meirihlutanum í Reykjavík tala um hvers konar borg þau vildu sjá, því það er nákvæmlega borgin sem ég vil sjá líka.

Á morgun eru kosningar og því finnst mér ég verða að segja eitthvað. Ég hef ekki haft sérstaklega mikinn áhuga á íslenskri pólitík síðustu ár en ef ég er sannfærður um eitthvað þá er það að meirihlutinn í Reykjavík er að gera borgina miklu betri og ég vona svo heitt og innilega að þau fái stuðning til að halda áfram.

Í Stokkhólmi gat ég hjólað í vinnuna alla daga. Það var ekki alltaf þannig. Fyrstu árin eyddi ég morgnunum ofaní neðanjarðarlest, sem er alls ekki svo spennandi ferðamáti. Þegar ég flutti frá Södermalm hélt ég áfram að nota lestina þangað til að ég prófaði einn dag að hjóla í vinnuna, sirka 6 km leið (sem minnkaði niður í 4km þegar við fluttum). Ég byrjaði að hjóla í góðu veðri og smám saman áttaði ég mig á því að ég gat hjólað nánast alla daga ársins. Í skítaveðri fór ég í regngalla og buxur og ég setti svo nagladekk á hjólið. Þá fáu daga sem ég þurfti að keyra bílinn inná Södermalm og bíða í umferðarteppu við Liljeholmsbron fann ég fyrir smá örvæntingu um að svona myndi líf mitt vera þegar ég myndi flytja heim.

Það gaf mér samt von að það virtist vera fullt af kláru fólki sem vildi reyna að breyta Reykjavík úr alltof dreifðri borg með of mörgum bílastæðum og umferðarteppum yfir í borg þar sem hægt er að komast um með strætó, labbandi og hjólandi. Þar sem byggð er þétt og mannlífið er frábært.

Eftir að ég flutti heim hef ég hjólað eða labbað leiðina í vinnuna, sem er 3,2 kílómetrar. Vissulega nýt ég góðs af því að búa í hinum frábæra Laugardal, en ef ég teikna á kortið svipaða vegalengd frá stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum, þá gætu allir íbúar vesturbæjar, 101, Hlíðanna, Háaleitis og hluti Fossvogs farið þangað leið sem væri svipað löng. Þannig að ég er alls ekki í einstakri stöðu. Það að ég hef gengið og hjólað í vinnuna á hverjum degi hefur haft svo ótrúlega jákvæð áhrif á mitt líf eftir að ég flutti heim. Meira að segja vont veður verður einhvern veginn mun auðveldara að glíma við þegar maður er vel klæddur úti í stað þess að sitja inni í bíl.

Núverandi meirihluti vill halda áfram að bjóða fleirum uppá þá möguleika á að búa á eftirsóknarverðum svæðum, sem er frábært. Ég vil sjá meira fólk í Laugardalnum og meira fólk í miðbænum. Ég vil sjá borg þar sem fleiri geta labbað og hjólað í vinnuna sína.


Það er fullt af sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur sem bjóða fólki uppá úthverfalíf þar sem þú þarft einkabíl til að fara útí matvörubúð. Ég þekki fulltaf fólki sem býr í einbýlishúsum í Garðabæ eða Kópavogi, þar sem 2-3 einkabílar á heimili þykja eðlilegur hlutur. Þau elska að búa þar.

En Reykjavík ein getur boðið uppá borgarlíf og því þurfum við að kjósa fólk sem vill sjá borgarlíf í Reykjavík, en vill ekki bara sjá greiða bílaumferð útum allt í gegnum líflaus hverfi.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna á morgun. Dagur B er frábær borgarstjóri, en einnig eru á listanum fólk einsog Birkir Ingibjartsson og Hjálmar Sveinsson, sem kveikti áhuga minn á skipulagsmálum fyrir mörgum árum. Ég fíla líka fullt af fólki á lista Viðreisnar og Pírata (Dóra oddviti er frábær), þannig að þið megið kjósa þá lista líka. En helst samt Samfylkinguna.

Reykjavík er að verða að frábærri borg og hún er svo miklu betri núna en þegar ég flutti í burtu fyrir 13 árum. Ég elska þessa borg og vil sjá meiri borg og betri borg. Borg sem líkist bestu borgum í Evrópu í stað bílaborga í Bandaríkjunum.

Mitt val í forsetakosningunum

Ég hef lengi ætlað að skrifa eitthvað um þessar forsetakosningar á Íslandi, en af ólíkum ástæðum hefur það reynst mér erfitt. Þess vegna hef ég látið duga að tala um þær við vini mína og deila á Twitter og Facebook einstaka greinum eftir fólk sem ég er sammála.

Fyrir mér snúast þessar kosningar fyrst og fremst um það hvort að núverandi forseti, Ólafur Ragnar, eigi að sitja áfram. Það er fyrsta spurningin sem allir verða að gera upp við sig. Þegar og ef maður hefur svarð þeirri spurningu neitandi þá getur maður haldið áfram með þá næstu, það er hver eigi þá að taka við.

* * *

Ólafur Ragnar hefur verið forseti í 16 ár. Þegar að hann var kosinn forseti var ég skiptinemi í Venezuela, þá 18 ára gamall. Í dag er ég 34 ára gamall. Á ævi minni hafa verið á Íslandi þrír forsetar, þar af bara tveir sem ég man eftir. Ég man hins vegar vel eftir 5 Bandaríkjaforsetum – Reagan, Bush eldri, Clinton, Bush yngri og Obama. Þegar að Ólafur Ragnar tók við var Clinton forseti Bandaríkjanna, allir notuðu Windows 95 og ég hlustaði á Gangsta’s Paradise með Coolio og What’s the Story Morning Glory með Oasis, sem var þá nýkomin út. Það voru enn nokkur ár í að ég keypti minn fysta gsm síma, ég átti enn eftir að prófa internetið í fyrsta skipti og þegar ég kaus í forsetakosningunum á skrifstofu í Caracas þá voru einu upplýsingarnar sem ég hafði um frambjóðendurna nokkrar blaðaklippur, sem að mamma hafði sent mér í pósti. Einstaklingar, sem eru 33 ára í dag hafa aldrei getað kosið raunhæfan valkost við Ólaf Ragnar í forsetakosningum.

Það hafa verið skrifaðar ótal svona greinar til að lýsa því hversu ofboðslega lengi Ólafur Ragnar hefur verið forseti og ég ætla svo sem ekki að bæta einni við. En aðalatriðið í kosningum, þar sem að svo þaulsetinn leiðtogi er áfram í framboði, hlýtur að vera hvernig hann réttlætir það að hann eigi að sitja áfram. Ólafur Ragnar ætti að geta gefið okkur góðar ástæður fyrir því af hverju við eigum að blanda okkur í hóp með Zimbabwe og Úsbekistan og hafa sama manninn forseta í 20 ár eða meira (hvernig eigum við að vita að hann láti 4 ár duga ef hann vinnur? Það hefur ekki verið mikið að marka hans yfirlýsingar um þau mál hingað til). Af hverju er Ólafur Ragnar svo ómissandi fyrir Ísland að enginn annar geti komið í hans stað?

Í allri þessari kosningabaráttu hef ég ekki heyrt eina sannfærandi ástæðu fyrir því að Ólafur Ragnar eigi að sitja áfram. Hann hefur sjálfur í sinni neikvæðu kosningabaráttu talað um að Ísland sé að fara inní eitthvað sérstakt hættuástand og að þjóðin þurfi á honum að halda til að komast í gegnum næstu ár. Hefði ég þá haldið að ef slík óvissa væri uppi að það væri kannski ráð að skipta út forsetanum sem hefur verið við völd síðustu 16 ár. Ég get ekki skilið í hverju aðstoð Ólafs Ragnars á að felast til að koma okkur í gegnum þessa óvissutíma. Fyrir þá sem hata núverandi ríkisstjórn þá er gaman að geta þess að á næsta ári eru þingkosningar, þar sem menn geta reynt að koma sínum flokki til valda. Forsetakosningarnar eiga ekki að snúast um það hvort ríkisstjórnin er vinsæl eða óvinsæl.

Stærsta breyting næstu ára er jú væntanlega möguleg innganga í ESB, en sú innganga mun alltaf fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég get ekki séð hvernig að Ólafur Ragnar á að hafa áhrif á það mál á einn eða annan hátt. Ég sem stuðningsmaður aðildar tel það litlu skipta, þegar að kosningum um aðild kemur, hvort að Ólafur sé á Bessastöðum eða ekki. Ég tel að í þessu máli einsog kannski öðrum þá ofmeti Ólafur sitt eigið mikilvægi.

Aðrar ástæður fyrir áframhaldandi setu hefur Ólafur Ragnar varla gefið. Hann hefur nánast ekkert talað um afrek sín í starfi nema höfnun á Icesave 2 og stærstur hluti kosningabaráttu hans (allavegana einsog hún blasir við mér í Svíþjóð) hefur farið í því að gera stærsta keppinaut hans tortryggilegan fyrir litlar sakir og í það að byggja upp mynd af Íslandi sem landi á ógurlegum krossgötum og sem stefni inní mikið óvissutímabil.

* * *

Þegar að ég horfi í baksýnisspegilinn þá get ég viðurkennt eftirá Ólafur Ragnar gerði rétt þegar hann hafnaði Icesave 2 samningnum, en að mínu mati gerði hann rangt þegar að hann hafnaði Icesave 3 samningnum, enda taldi ég það vera góðan samning og um hann náðist nokkuð breið samstaða á Alþingi með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur Ragnar mun þó alltaf vera fyrst og fremst maðurinn sem fór um víðan völl og básúnaði um stórkostlega hæfni Íslendinga í viðskiptum. Um það er fjallað á mjög góðan og hlutlausan hátt í skýrslu rannsóknarnefndar um efnahagshrunið. Þann kafla ættu allir að lesa. Ólafur bjó til fáránlega sögu um það að víkingablóð og þétt samskipti okkar á milli gerðu okkur einhvern veginn færari til að reka banka en fólk frá öðrum löndum.

Þetta var auðvitað fáránlegt, ekki bara þegar maður hugsar til þess hvernig þetta allt fór og á hverju góður árangur var byggður. Þetta er jafn fáránlegt og að Svíakonungur myndi fara um allan heim og útskýra það hvernig að samvera við öll tréin í Svíþjóð gerði það að verkum að Svíar væru betri en allar þjóðir í að búa til ódýr húsgögn eða ódýr föt. Þetta dettur honum ekki í hug að gera þótt að frá Svíþjóð komi frábær fyrirtæki í þessum greinum. En þetta gerði Ólafur Ragnar fullur af þjóðernishroka og lofaði í lok ræðunnar You ain’t seen nothing yet.

* * *

Ólafur er búinn að vera forseti í 16 ár og var að mörgu leyti helsti fulltrúi útrásarinnar á Íslandi – maðurinn sem fór í einkaþotum með bankamönnum um allan heim, hélt þeim fín boð og hengdi á þá orður og ferðaðist um heiminn uppfullur af þjóðernisrembingi um það hversu frábærir Íslendingar voru. Ólafur Ragnar verður aldrei aftur forseti allrar þjóðarinnar. Hann verður aldrei forseti sem að allir geta sæst við. Hann verður alltaf umdeildur.

Þess vegna vil ég fá nýjan forseta. Ég vil fá forseta sem að öll þjóðin getur verið sátt við. Hógværan einstakling, sem elskar sitt land, en gerir sér um leið grein fyrir því að við erum ekki betri en aðrar þjóðir og myndi aldrei detta í hug að halda slíku fram. Mér er sama hvort sá forseti kemur úr atvinnu- eða menningarlífi, hvort að hann hafi einu sinni kosið Samfylkinguna, Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn. Ég vil að forsetaembættið sé skipað einstaklingi sem að vekur ekki upp reiði hjá helmingi þjóðarinnar. Þjóðmálaumræða á Íslandi er það leiðinleg að við þurfum ekki á því að halda að meira að segja forsetaembættið valdi líka eilífum deilum.

Á netinu sé ég einmitt að þeir sem heitast fylgja Ólafi Ragnari (í tilfelli fólks sem ég fylgist með oftast harðir hægri menn) virðast aðallega fylgja honum vegna þess að hann er akkúrat ekki sameiningartákn. Akkúrat ekki maður sem allir geta verið sáttur við. Nei, hann er kallinn sem er flottastur í kappræðum, sem að stingur uppí aðra frambjóðsendur og fjölmiðlamenn. Enginn efast um að Ólafur er bestur í að dóminera í kappræðum enda með áratuga langa reynslu úr stjórnmálum fyrir hina ýmsu flokka. En á það virkilega að vera helsti kostur forseta að hann sé góður í þessum hlutum? Gætum við þá ekki alveg eins kosið Davíð?

* * *

Af hinum frambjóðendunum hefur mér frá fyrsta degi litist vel á Þóru Arnórsdóttur.

Af því sem ég hef lesið á netinu þá sér fólk aðallega tvo galla við Þóru. Annars vegar er hún ekki jafn örugg í kappræðum og Ólafur Ragnar, sem er að mínu mati ósköp eðlilegt miðað við reynslu þeirra beggja. Hins vegar var hún einu sinni í ungliðahreyfingu Alþýðuflokksins. Í hálf truflaðri umræðu um pólitík eftir hrun er það allt í einu orðin dauðasök að hafa starfað í ungliðahreyfingum stjórmálaflokkanna. Hafandi starfað í ungliðahreyfingu flokks og kynnst þar bæði mörgum af mínum bestu vinum og óbeint eiginkonu minni þá get ég sagt að í þessu starfi er oft samankomið það fólk sem lætur sig mest varða framtíð þjóðfélagsins. Fólk sem hefur áhuga á að ræða um þjóðmál og hvernig það á að bæta þetta samfélag. Flestir sem að ég þekki úr þessu starfi vinna í dag á almennum vinnumarkaði og hafa aldrei þegið krónu tengda þessu starfi.

Það að allt þetta fólk sé dæmt úr leik af fólki er sorglegt. Það að Þóra Arnórsdóttir hafi 22 ára gömul starfað í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokk ætti fyrst og fremst að sýna að hún hefur lengi haft áhuga á þjóðmálum og bættu lífi á okkar landi.

Fyrir mér er kominn tími á nýtt fólk. Ólafur Ragnar verður 70 ára gamall á næsta ári. Þóra er 37 ára gömul. Kynslóð Ólafs Ragnars, Davíðs og félaga hefur stjórnað þessu landi frá því að ég fæddist og núna er einfaldlega kominn tími á breytingar, á nýja kynslóð og nýtt fólk.

Þóra hefur að mínu mati réttar hugmyndir um hvað forsetaembættið á að snúast. Forsetinn á að sameina þjóðina en ekki sundra henni. Við getum rifist um allan fjandann, en forsetinn á að vera einstaklingur sem að við getum sameinast um. Þóra er ung kona, móðir, vel menntuð, klár, kemur vel fyrir og yrði án efa frábær fulltrúi okkar unga lands útí heimi. Mér finnst það ótrúlega flott að kona með nýfætt barn sé óhrædd við að taka þetta starf að sér og það sýnir að mörgu leyti hversu framarlega við Íslendingar erum jú í jafnréttismálum.

Kosningarnar um næstu helgi gefa okkur enn eitt tækifærið til að komast yfir hrunið og velja einstakling, sem getur hjálpað okkur að sameinast og horfa fram á veginn í stað þess að þræta endalaust um atburði sem gerðust fyrir mörgum árum. Það er tækifæri sem við megum ekki missa af.

Ég kýs Þóru og hvet þig til að gera það líka.

Fyrirtækjaskattar og nýsköpun

Það hafa ansi margir bent á grein eftir Warren Buffett, þar sem hann hvetur til þess að skattar á milljónamæringa í Bandaríkjunum verði hækkaðir. Margt í efni þessarar greinar á svo sem ekki við á Íslandi, þar sem að tekjuskipting er mun jafnari á Íslandi en í Bandaríkjunum.

Hins vegar fannst mér einn punktur í grein Buffets góður og hann á við um margt:

Back in the 1980s and 1990s, tax rates for the rich were far higher, and my percentage rate was in the middle of the pack. According to a theory I sometimes hear, I should have thrown a fit and refused to invest because of the elevated tax rates on capital gains and dividends.

I didn’t refuse, nor did others. I have worked with investors for 60 years and I have yet to see anyone — not even when capital gains rates were 39.9 percent in 1976-77 — shy away from a sensible investment because of the tax rate on the potential gain. People invest to make money, and potential taxes have never scared them off. And to those who argue that higher rates hurt job creation, I would note that a net of nearly 40 million jobs were added between 1980 and 2000. You know what’s happened since then: lower tax rates and far lower job creation.

Buffet er að tala um fjármagnsstekjuskatt, en þetta á ekki síður við um fyrirtækjaskatta.

Ég hef oft bent á þetta þegar að menn tala um fyrirtækjaskatta á Íslandi og hvernig þurfi að lækka þá til að efla nýsköpun. Ég veit ekki um einn einasta mann, sem hefur hætt við að stofna fyrirtæki eða koma hugmynd sinni á framfæri vegna þess að skattur á hugsanlegan framtíðarhagnað sé of hár. Þegar ég stofnaði mitt fyrirtæki með mínum vini þá vissi ég ekki einu sinni hve hár fyrirtækjaskatturinn á Íslandi var. Ég hugsaði það alltaf þannig að ef að eftir einhver ár fyrirtækið yrði nógu stórt og farsælt til að skila alvöru hagnaði þá myndi það ekki skipta öllu máli hvort að skatturinn yrði 15% eða 25% af þeim hagnaði.

Ég held að flestir sem hafa áhuga á að stofna fyrirtæki hugsi mest um það hvernig er hægt að koma þeim af stað, en ekki hvernig hagnaðinum verði skipt þegar að því kemur. Þess vegna er mun mikilvægara að hafa stöðugan gjaldmiðil, góðan aðgang að erlendum mörkuðum og að hæfu vinnuafli. Þannig skipti hlutir einsog ESB aðild og menntun miklu meira máli fyrir nýsköpun heldur en skattar.


Hérna er einnig góð grein eftir Sam Harris um svipað mál: How Rich is Too Rich? Þar beinir Harris orðum sínum til þeirra, sem vilja ekki jafna tekjur, hversu mikil tekjusmisskipting sé ásættanleg? Hversu mikinn hluta af verðmætum heimsins er eðlilegt eða réttlátt að ríkasta fólk heims eigi?

And there is no reason to think that we have reached the upper bound of wealth inequality, as not every breakthrough in technology creates new jobs. The ultimate labor saving device might be just that—the ultimate labor saving device. Imagine the future Google of robotics or nanotechnology: Its CEO could make Steve Jobs look like a sharecropper, and its products could put tens of millions of people out of work. What would it mean for one person to hold the most valuable patents compatible with the laws of physics and to amass more wealth than everyone else on the Forbes 400 list combined?

How many Republicans who have vowed not to raise taxes on billionaires would want to live in a country with a trillionaire and 30 percent unemployment? If the answer is “none”—and it really must be—then everyone is in favor of “wealth redistribution.” They just haven’t been forced to admit it.

Ég mæli með þessari grein.

Á að kenna þróunarkenninguna í skólum?!

Í þessu magnaða myndbandi eru þáttakendur í Miss USA keppninni spurðar hvort það eigi að kenna þróunarkenninguna í skólum?

Það segir ansi mikið um Bandaríkin að yfir höfuð sé verið að spyrja þessarar spurningar.  En svörin eru engu skárri.  Flestir þáttakendur virðast telja að það eigi ekki að kenna þróunarkenninguna, sem er grunnurinn að því að fólk skilji hver við erum og hvernig lífríki á jörðinni virkar.  Þeir sem vilja yfir höfuð að hún sé kennd virðast aðallega vilja þess vegna þess að fólk eigi skilið að læra um allar hliðar málsins.

Semsagt, að þróunarkenningunni sé stillt upp jafnfætis þeirri kenningu að Guð hafi skapað jörðina á 7 dögum.

Við það að horfa á þetta þá er ekki laust við að maður missi trúna á mannkynið þegar að öflugasta land veraldar elur fólk upp á svona vitleysu.

(Via @olisindri)

Ég segi JÁ við Icesave

Icesave kosningarnar eru næsta laugardag á Íslandi og þótt að ég sé á gistiheimili í Bangladess, þá hef ég samt hugsað mikið um málið síðustu daga.

Ég segi JÁ við Icesave og ég hvet þig til að gera það líka. Ef þú ert vinur minn, fjölskyldumeðlimur eða tekur eitthvað mark á því sem ég segi, þá bið ég þig um að lesa þennan pistil og mæta svo á kjörstað og segja JÁ við Icesave samningunum.

Ég tel að það séu nokkrar stóra ástæður fyrir því að segja JÁ við Icesave samningunum, en ég ætla bara að fara yfir þær helstu, sem koma líka inná mína reynslu frá síðustu árum þegar ég hef reynt að vinna að uppgangi og vexti íslensks fyrirtækis í útlöndum.

* * *

  1. Kostnaður: Ég tel að kostnaður við Nei geti orðið miklu hærri en kostnaður við að samþykkja samningana. Ef við segjum Já, þá segir samninganefndin að kostnaðurinn sé líklega um 32 milljarðar. Ef við segjum Nei, þá getur beinn kostnaður mögulega orðið núll, en meiri líkur eru á því að hann geti orðið umtalsvert hærri en 32 milljarðar. Og þá er ótalinn óbeinn kostnaður við Nei-ið.

    Tryggvi Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að eingöngu kostnaður vegna lægri lánshæfiseinkunnar ríkisins ef að við segjum Nei við Icesave verði 27-43 milljarðar á ári. Eða 135-216 milljarðar á næstu 5 árum. Þetta er vegna þess að vaxtakostnaður ríkissins mun hækka gríðarlega ef við segjum Nei við Icesave. Ef við segjum nei, þá er eðlilegt að lánsmatsfyrirtæki líti svo á að það séu minni líkur á að lánadrottnar Íslands fái borgaðar skuldir frá landinu (þar sem við erum þá að hlaupast á brott frá því að borga Icesave, sem við höfum áður sagst ætla að borga). Það þýðir verra lánshæfismat og gríðarlega aukningu á vaxtakostnaði íslenska ríkisins.

    Ég tel því nánast öruggt að kostnaður við Nei verði hærri í krónum talið en kostnaður við Já. Miklu hærri. Jafnvel þótt að við myndum eftir einhver ár vinna dómsmálið þá væri kostnaðurinn vegna lækkaðs lánshæfismats ríkisins svo gríðarlegur að sigur í því máli yrði lítið gleðiefni.

  2. Orðspor: Ég tel að Nei í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu muni hafa neikvæð áhrif á orðspor okkar Íslendinga. Tvær ríkisstjórnir (og forsetinn okkar líka) hafa sagt að við munum borga Icesave reikningana og að deilurnar hafi staðið um hvernig þeir yrðu borgaðir. Ef að þjóðin segir núna að þrátt fyrir öll þau loforð að við ætlum svo ekki að borga þá tel ég að það muni hafa mjög neikvæð áhrif á orðspor okkar allra í viðskiptum. Sú neikvæðni er eitthvað, sem gæti fylgt okkur lengi.

    Í viðskiptum er orðspor þitt gríðarlega mikils virði. Það þarf enginn að segja mér annað en að það sé miklu erfiðara fyrir heiðarlegan Litháa eða Nígeríumann að stunda viðskipti heldur en heiðarlegan Þjóðverja. Jafnvel þótt að þessir þrír einstaklingar séu alveg eins, þá mun þjóðerni þeirra alltaf kveikja upp ákveðna fordóma hjá fólki. Ef við neitum núna að borga eftir að hafa lofað að borga þá tel ég að slíkt hið sama gæti gerst fyrir okkur.

    Ég á og rek íslenskt fyrirtæki í útlöndum og ég vil geta gert það áfram með stolti. Ég vil ekki þurfa að hlusta á brandara um að Íslendingar borgi ekki sína reikninga eða að mæta fordómum vegna þess hvaðan ég kem. Nei, ég vil geta stundað viðskipti á mínum eigin verðleikum og vera stoltur af því hvaðan ég og mitt fyrirtæki erum.

  3. Gjaldeyrishöftin: Seðlabankastjóri hefur sagt að Nei við Icesave muni þýða að gjaldeyrishöftin verði við lýði enn lengur en ef við samþykkjum samninginn.

    Síðustu 3 ár hef ég rekið fyrirtæki, sem hefur þurft að glíma við þessi gjaldeyrishöft. Það er ekki gaman og það er ekki beint traustvekjandi þegar að maður þarf að nota gjaldeyrishöftin sem afsökun fyrir seinagangi í viðskiptum í Svíþjóð.

    Ég efa það ekki að önnur íslensk fyrirtæki lenda mun oftar í vandræðum vegna haftanna, þar sem að okkar fyrirtæki þarf ekki að standa í millifærslum á hverjum degi. Og ég er líka fullviss um að þessi fyrirtæki koma ekki í fjölmiðlum á hverjum degi og kvarta yfir höftunum, heldur reyna að taka á sínum vandamálum innan síns fyrirtækis.

    Ef við ætlum að ná okkur útúr þessari kreppu almennilega þá verðum við að gera það með viðskiptahugmyndum, sem gera útá viðskipti við útlönd. Gjaldeyrishöftin munu alltaf vera letjandi á ný fyrirtæki og nýjar hugmyndir. Það hefur sennilega enginn reiknað hversu mikið gjaldeyrishöftin kosta okkur í töpuðum viðskiptatækifærum fyrir íslensk fyrirtæki – en ég er viss um að það eru miklir peningar. JÁ við Icesave mun skv. Seðlabankanum gera okkur auðveldara að létta gjaldeyrishöftunum og því tel ég að JÁ við Icesave-samningunum sé rétt val.

* * *

Helstu rök Nei sinna, sem ég hef lesið á Facebook, eru þau að fólk vilji ekki borga skuldir óreiðumanna eða einkafyrirtækja. Það er allt gott og vel. En málið er einfaldlega að bankar eru ekki einsog hver önnur fyrirtæki. Landsbankinn tók við peningum Hollendinga og Englendinga og innistæður þessa fólks áttu að vera varðar af Tryggingasjóði okkar, alveg einsog innistæður okkar Íslendinga. Gleymum því ekki að íslenska ríkið ábyrgðist að öllu leyti innistæður Íslendinga í íslensku bönkunum.

Ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki íslands gerðu fjölmörg mistök í aðdraganda hrunsins. Auðvitað átti að færa Icesave til Landsbankans í Bretlandi, en það var ekki gert. Og í lýðræðisríki einsog okkar þá berum við ábyrgð á klúðri okkar ríkisstjórnar.

Fólk bendir á að stærstu eigendur Landsbankans eigi að borga skuldina. En Landsbankinn var hlutafélag og ábyrgð eigenda hlutafélaga er alltaf takmörkuð. Ef við ætlum að breyta því þá yrðum við líka að breyta því fyrir öll hlutafélög á Íslandi. Það myndi þýða að í framtíðinni myndi enginn þora að stofna fyrirtæki á Íslandi.

Og Landsbankinn var ekki bara í eigu Björgúlfanna (annar þeirra eru jú gjaldþrota og því ekkert að sækja í hans bú) – því stór hluti Íslendinga átti hlut í bankanum. Ég átti hlutabréf í Landsbankanum í gegnum vísitölu sjóði og ég geri ráð fyrir að ansi margir hafi átt hlutabréf í Landsbankanum í gegnum sína lífeyrissjóði. Ef Björgúlfarnir eiga að borga þá ættum við hinir hluthafarnir að gera það líka. Við töpuðum öllu því sem við höfðum borgað fyrir hlutabréf í Landsbankanum. Ef að það ætti að gera hluthafa ábyrga fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækja þá mun einfaldlega enginn kaupa hlutabréf.

Og hvað ef við segjum NEI við Icesave? Heldur virkilega einhver að Björgólfur Thor muni þurfa að borga eitthvað meira? Nei, auðvitað ekki. Í dómsmáli mun annaðhvort íslenska ríkið þurfa að borga – eða (ef svo ólíklega fer að við myndum vinna málið) almenningur í Bretlandi og Hollandi. Nei við Icesave skiptir Björgólf Thor engu máli.

* * *

Við fengum lán frá Norðurlandaþjóðunum og frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum vegna þess að við lofuðum að semja um Icesave málið. Hverslags hegðun er það þá að koma núna og segja “Nei, djók, við ætluðum ekkert að semja – við viljum að þetta fari til dómstóla”? Hver tekur mark á slíkri þjóð?

Hversu mikils virði er það að þykjast vera sjálfstæð og þenja sig út með fullyrðingum um fullveldi og sjálfstæði ef að engar aðrar þjóðar taka mark á okkur?

Einsog Ellert B. Schram skrifar í blaðagrein:

Veruleikinn er hins vegar sá að sjálfstæði og fullveldi hverrar þjóðar byggist á samvinnu við aðrar þjóðir, lánafyrirgreiðslum, viðskiptum, gjaldeyristekjum og orðspori.

* * *

Ég er orðinn þreyttur á Icesave. Ég er orðinn þreyttur á að rífast um þetta mál við vini og fjölskyldumeðlimi. Annars frábært steggjapartí hjá vini mínum snérist uppí rifrildi um Icesave. Hversu sorglegt er það?

En ég er ekki að biðja fólk um að segja Já við Icesave bara af því að ég er svona þreyttur. Nei, ég tel einfaldlega að JÁ við Icesave sé langbesti kosturinn fyrir Íslendinga.

Munið að þessi kosning á laugardaginn snýst ekki um hægri og vinstri. Þetta er ekki tækifæri til að klekkja á ríkisstjórninni eða Samfylkingunni eða VG eða Bjarna Ben. Það verður fólk að muna. Kosningarnar snúast ekki um Davíð eða Björgólf eða Jón Ásgeir eða Jóhönnu eða Steingrím. Björgólfur Thor mun ekkert þurfa að borga aukalega ef við segjum Nei. Nei á laugardaginn er ekki tækifæri til að klekkja á honum. Kosningarnar snúast ekki um þá, heldur hagsmuni allrar þjóðarinnar.

Ég segi Já við Icesave samningunum og ég bið þig um að gera það líka. Æstustu NEI sinnarnir munu mæta á kjörstað og því er það gríðarlega mikilvægt að við hin mætum líka á kjörstað og veljum JÁ.

Ég tel yfirgnæfandi líkur á að kostnaðurinn við JÁ verði miklu lægri en kostnaðurinn við NEI og ég tel að JÁ muni hjálpa til við að bæta orðspor Íslendinga. Orðspor okkar er jú eitt það mikilvægasta, sem við höfum. Þess vegna kýs ég JÁ.

Þetta var skrifað í Khulna, Bangladess síðasta laugardag

Frambjóðendakönnun

Ég tók þessa frambjóðendakönnun á DV.is og þetta voru þeir frambjóðendur, sem pössuðu best við mig:

Það sem vantar auðvitað inní þessa könnun er að velja hvaða vægi menn leggja við hverja spurningu.

Sú sem lenti efst hjá mér er til dæmis hlutlaus er varðar kirkjumálin, sem ég vil ekki hafa í stjórnarskrá. Á þessum lista voru fjölmargar spurningar, sem skipta mig litlu máli. Allavegana, menn geta prófað þessa könnun hér. Ætli mitt atkvæði yrði ekki bland af því fólki, sem ég þekki til og þeim sem skora vel í svona könnunum byggðum á málefnum.

Greinar um íslenska pólitík

Þar sem að slatti af mínum Facebook vinum hafa svipaðar stjórnmálaskoðanir einsog ég þá koma dagar þar sem sirka 30 manns benda á eina og sömu greinina.  Mér líður þá einsog allt Ísland hafi lesið þær.  En kannski hafa ekki allir lesið þær – og því er um að gera að nota vísanir á þær sem afsökun fyrir bloggi.

Allavegana, hérna eru þrjár mög góðar greinar um stjórnmál á Íslandi.  Ég mæli með því að allir lesi þær allar.

Andri Snær – Í landi hinna klikkuðu karlmanna.

Guðmundur Andri Thorsson – Heiður þeim sem heiður ber

Ármann Jakobsson – Átakanlegur skortur á Þórðargleði

Ég held að ég sé um það bil sammála hverju einasta orði í öllum þessum pistlum.

Þras um ESB og Samfylkinguna

Af því að ég er löngu hættur að nenna að skrifa um íslenska pólitík á þessa síðu, þá er það næstbesta sem ég get gert að vísa í skrif, sem ég er sammála. Til dæmis þessi pistill hérna: Enn um leiðinlegt ESB þras!. Pistillinn er allur góður og meira að segja eru sum kommentin ágæt. En hérna er meginefnið, sem ég er svo innilega sammála (feitletranir mínar)

>Umræða um gjaldmiðil og fjármögnun atvinnutækifæra virðist komin upp á hillu. Fólk virðist farið að sætta sig við ónýta krónu og AGS sem þrautavarnarlánveitanda um ókomna framtíð. Slíkt er hættulegt, það er vísir að uppgjöf. Í raun má segja að ákveðið sýndarástand ríki á landinu, fólk er farið að velja upphafspunkta fyrir og eftir hrun eftir hentisemi. Hvergi er þetta augljósara en í ESB umræðunni.

>70% þjóðarinnar vill slíta ESB umræðum án þess að þjóðin fái að kjósa um samning. Ég efast um að þetta hlutfall yrði nokkurn tíma eins hátt í löndum eins og Noregi og Sviss og hafa þau lönd þó efni á að segja nei við ESB.

>Það er eins og 70% landsmanna haldi að Ísland standi jafnfætis hinum EFTA löndunum og hér hafi aldrei orðið neitt hrun. Og ekki nóg með það, eingöngu er nóg að segja „nei“, ekkert virðist þurfa að hugsa um hvað taki við eftir „nei“, enda er búið að stilla ESB umræðunni þannig upp að aðild er alls ekki partur af efnahagsendurreisn Íslands, heldur einhver hugmyndaleikfimi Samfylkingarinnar. Þannig er ESB aðild orðin að flokkspólitísku þrasi sem allir eru orðnir hundleiðir á. Þetta er auðvita óskastaða „nei“ liðsins því þá þurfa þeir ekki að gera grein fyrir hvernig staðið verði að efnahagsuppbygginu hér án ESB aðildar, né þurfa þeir að svara spurningum um framtíðargjaldmiðil eða hvernig við losnum við AGS. „Þetta mun reddast einhvern veginn“, virðist sem fyrr, fullkomið svar fyrir meirihluta þjóðarinnar.

>Hér er Ísland á öndverðum meiði við útlönd. Erlendis sjá menn skýra tengingu á milli AGS prógramms og ESB aðildar. Í margra augum eru þetta óaðskiljanlegar undirstöður efnahagsuppbyggingar Íslands. Aðeins með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig fær landið stöðugan gjaldmiðil (fyrst krónu innan EMR-2 vikmarka og síðan evru) og þannig aðgang að fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum og innan ásættanlegs tímaramma. Þannig verður óvissunni eytt.

Þetta feitletraða finnst mér vera eitt af aðalmálunum. Það sem virðist einkenna umræðu á netinu er óstjórnlegt hatur sumra á Samfylkingunni og sú ályktun þeirra að í þeim flokki séu eintómir snillingar, sem geti stjórnað öllu á Íslandi á bakvið tjöldin. Samkvæmt því er það fólk í Samfylkingunni, sem að snýr uppá hendur VG-liða, sér til þess að Ísland leggist flatt fyrir AGS og ESB og umfram allt sjái til þess að Jón Ásgeir hafi það nú gott. Þessi umræða er orðin svo biluð að Samfylkingarfólk er flest hætt að nenna að svara fyrir hana.

Auðvitað snýst ESB aðildin ekki um hagsmuni Samfylkingarinnar, heldur íslensku þjóðarinnar. Menn gleyma kannski nauðsyn á breytingum í gjaldeyrismálum þegar að við erum með gjaldeyrishöft, sem að flestir þurfa ekki að glíma við dags-daglega. En ef að einhver heldur að núverandi ástand í gjaldeyrismálum sé æskilegt til frambúðar fyrir fyrirtæki á Íslandi, þá eru þeir ansi langt frá raunveruleikanum. Ef menn vilja hafna ESB aðild þá verða þeir þá að koma með aðrar lausnir, ekki bara upphrópanir um hversu almáttug og ill við flokksfólk í Samfylkingunni erum.

Ríkisstjórnin með Sjálfstæðisflokknum

Mörður Árnason, skrifar mjög góðan pistil um ábyrgð Samfylkingarinnar á hruninu: Ábyrgð er ábyrgð. Nokkrir punktar úr henni.

>Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin komast nefnilega ekki hjá því að skoða eigin þátt í hruninu. Þar skipta máli verk ráðherranna í ríkisstjórn, og ekki síður það sem þeir gerðu ekki. Þar koma líka við sögu stefnuáherslur flokksins bæði árin fyrir stjórnarmyndinuna 2007 og meðan á stjórnarsamstarfinu stóð. Og það þarf líka að skoða samræður í flokknum á tímabilinu 2007 til 2009, hvernig forystumenn hans fóru að því að hlusta ekki á flokksfólk og stuðningsmenn og létu sér nægja að messa yfir liðinu á skrautfundum (og eimir kannski enn eftir af þeim sið, Jóhanna og Dagur?) allt fram að Þjóðleikhússkjallarafundinum fræga – og þráuðust reyndar við nokkur dægur líka eftir þá niðurstöðu.

og áfram:

>Þótt utanríkisráðherra beri ekki lagalega ábyrgð á bankamálum eða hagstjórn getur formaður Samfylkingarinnar í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum ekki skorast undan pólitískri og siðferðilegri ábyrgð. Ingibjörg Sólrún ber samkvæmt íslenskri hefð ábyrgð á verkum allra samflokksráðherra sinna – þar á meðal viðskiptaráðherrans. Eitt af því sem fólk þarf reyndar að fara að vita er hvernig samskiptum eirra tveggja var háttað. Er það rétt að bankamálaráðherranna hafi ekki fengið að vera með á fundum utanríkis- og forsætisráðherrans með Seðlabankastjóranum um stöðu bankanna? Af hverju hafði Ingibjörg Sólrún það þannig? Og hvernig í ósköpunum fór Björgvin Guðni að því að sætta sig við þetta?

>Annað: Ég held einsog Ingibjörg Sólrún að einhver helstu mistök Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 hafi verið að ganga inn í hana án þess að hafa þar nein áhrif á efnahagsmál og hagstjórn. Ég var reyndar einn af þeim sem lögðu að formanni flokksins að krefjast fjármálaráðuneytisins við stjórnarmyndunina. Skilaboðin sem við fengum voru að þar hefði verið mikil fyrirstaða. Ég er ekki viss um að nógu mikið hafi verið reynt.

>Forystumenn Samfylkingarinnar lögðu þessa stjórnarmyndun einfaldlega þannig upp að íhaldið ætti áfram að ráða efnahagsmálunum – Samfylkingin fengi fyrir sinn snúð ýmsar velferðarumbætur

Ég mæli með greininni allri.

Ég fór aldrei í felur með þá skoðun að árið 2007 taldi ég að besta ríkisstjórn sem að Ísland gæti fengið væri stjórn Jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokksins, en ég verð að játa það að ég var fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að sjá hvernig skipting ráðuneyta var, hverjir urðu ráðherrar fyrir Samfylkinguna og hvernig Samfylkingin kastaði ESB umræðum fyrir bí.

Kannski voru stærstu vonbrigðin þau að Sjálfstæðisflokkurinn fékk að halda þeim ráðuneytum sem mest höfðu með efnahagsmál að gera, forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu á meðan að einu bætur Samfylkingarinnar voru að fá utanríkisráðuneytið. Þetta voru gríðarleg mistök af hendi Ingibjargar Sólrúnar. Ég sagði það við félaga mína strax eftir að þetta væri tilkynnt að þetta gæti reynst dýrkeypt. Samfylkingin fékk öll “mjúku” ráðuneytin á meðan að Sjálfstæðismenn stjórnuðu áfram efnahagsmálunum.

Og þetta varð dýrkeypt því að Samfylkingin virtist kasta í burtu öllum sínum áherslum í efnahagsmálum (sem voru vel útlistuð af Jóni Sigurðssyni fyrir kosningar) og Sjálfstæðismenn fengu að halda sinni stefnu áfram. Seinna meir gerðu auðvitað helstu forystumenn flokksins fjölmörg mistök í aðdraganda bankahrunsins, en upphaflegi glæpurinn var klárlega þessi eftirgjöf til Sjálfstæðismanna í stjórarmyndunarviðræðunum.

Hrunið í efnahagsmálum var ekki vegna þess að ríkisstjórnin fylgdi eftir stefnu jafnaðarmanna í efnahagsmálum, því að forysta Samfylkingarinnar gaf þá stefnu algerlega eftir í upphafi.

Undirskrift "mín" hjá InDefence

Í kjölfar kommenta við þessa færslu á Silfri Egils þá athugaði ég hvort að einhver útí bæ hefði skráð mig í þessa undirskriftasöfnun hjá InDefence.

Og viti menn, ég sló upp kennitölunni minni á InDefence síðunni og þar var hún.

indefence

Ég hef semsagt ALDREI skráð mig hjá InDefence. Einhver aðili útí bæ hefur tekið mína kennitölu og skráð mig. Ég get ekki séð að ég hafi neinn möguleika á að taka mig útaf þessum lista.