Ég á ansi marga vini sem eru Sjálfstæðismenn. Það er ein afleiðing þess að vera fæddur í Garðabæ og hafa svo farið í Verzló. Það gerist því undantekningarlaust þegar að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru viðraðar að ansi margir á Facebook hjá mér fríka út. Öskra hvað þetta sé hræðilegt, að þessi vinstri stjórn sé ómöguleg, byrja að uppnefna flokkana í stjórninni, segja að allt sé ómögulegt með flugfreyju sem forsætisráðherra og svo framvegis.
Fyrst gerðist þetta þegar að skattar á áfengi og tóbak voru hækkaður. Þá þótti það nú merki um að allt væri að fara til fjandans. Allir ætluðu að flytja burt frá Íslandi og svo framvegis. Það sama gerist núna þegar að hærri tekjuskattur fyrir þá hæstlaunuðustu er nefndur.
* * *
Reyndar er nóg af rangfærslum þegar að fólk talar um þessar skattahækkanir (sem hafa jú ekki verið kynntar formlega). Sumir halda að manneskja með 499.000 í laun borgi miklu minna en manneskja með 501.000 í laun en staðreyndin er auðvitað sú að samkvæmt þessum tillögum – einsog fjallað hefur verið um þær – þá borgar sá með hærri launin bara hæsta skatt af tekjunum sem eru umfram 500.000 krónur. (sjá hérna ágætis pistil um hvað þetta kostar hvern tekjuhóp)
Þessu virðast margir ekki hafa áttað sig á og með því má eflaust skýra hluta af æsingnum í sumum. Þetta er bein afleiðing af því að þessum hugmyndum um skattahækkanir sé (að því er virðist) lekið í fjölmiðla. Það veldur því að umræða einkennist oft af ranghugmyndum fólks þar sem að hugmyndirnar eru ekkert kynntar formlega og útskýrðar almennilega fyrir fólki.
* * *
Miðað við aðstæður líst mér ágætlega á þessar tillögur.
Aðstæðurnar eru þannig að ríkissjóður er rekinn með 150 milljarða halla. Það gengur ekki að velta þeim vanda bara áfram til barna okkar, heldur verðum við að takast á við vandann núna. Til þess eru tvær leiðir. Annaðhvort að skera niður eða auka tekjur.
Ég tel að það eigi að gera meira í niðurskurði á mörgum sviðum. Einkafyrirtæki eru að gera það á hverjum degi og það getur ríkið líka. Ég tel að ekki hafi verið nóg gert eða allavegana hefur ríkisstjórnin ekki sýnt nægilega fram á það hvar hún ætlar að spara.
En við *verðum* líka að ná í frekari tekjur fyrir ríkissjóð. Annað kemur hreinlega ekki til greina, nema að við fórnum algerlega okkar heilbrigðis- og menntakerfi. Og við náum bara í auka tekjur fyrir ríkissjóð með hærri sköttum og gjöldum.
Ríkisstjórnin hefur lagt til ýmsa skatta. Mér fannst til dæmis skattar á álver vera góð hugmynd. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá berst SA bara fyrir hagsmunum mannfárra verksmiðja, en ekki fyrir hagsmunum mannaflsfrekari smærri fyrirtækja. Því virðist ríkisstjórnin ætla að draga í land með þá skatta og hækka frekar tryggingargjald (maður hlýtur að velta því fyrir sér hvað minni fyrirtæki séu almennt séð að gera í SA). Einnig hafa verið lagðir á ákveðnir neysluskattar, sem ég er almennt séð mótfallinn – en ég get ekki mótmælt mikið í því ástandi sem núna er.
* * *
Og svo eru það skattar á laun. Ég er búinn að rökræða við fulltaf fólki á netinu síðustu daga. Mörgum finnst ekkert jafnræði í því að fólk borgi mismikla skatta og sumir vilja meira að segja flatan krónuskatt. Slíkar hugmyndir finnst mér fráleitar.
Ég hef alltaf talið að sanngjarnasta skattkerfið í velferðarþjóðfélagi sé að þeir sem eru með hæstu launin borgi hlutfallslega mest. Þeir sem eru með lægstu launin borgi hlutfallslega minnst. Ég get ekki séð annað en að þessi skattahækkun stuðli nákvæmlega að því. Þeir sem eru með lægstu launin fá annaðhvort skattalækkun eða halda sömu skattprósentu. Þeir sem eru með há laun borga hærri skatta. Einstaklingur með 600.000 borgar 16.900 aukalega á mánuði. Sumir vilja meina að 5-600.000 krónur séu í raun frekar litlar tekjur. En ef 600.000 eru litlar tekjur þá eru 300.000 væntanlega ennþá minni tekjur og varla er sanngjarnt að fólkið með 300.000 beri þyngri byrðar. Meirihluti landsmanna er eftir allt með tekjur langt undir 600.000 krónum.
Enn sem komið er hefur enginn í þessum umræðum mínum á netinu geta bent á sanngjarnari leið til að skapa auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Einu rökin sem menn virðast hafa er að þetta muni minnka skatt-tekjur ríkissjóðs. Það má vel vera að einhverjir kunni að vinna minna og að einhverjir svíki undan skatti. En að svona hófleg skattahækkun muni leiða til allsherjar svindls tel ég vera afskaplega ólíklegt.
Þeir sem eru á móti þessari skattahækkun, sérstaklega ef þeir eru stjórnmálamenn að atvinnu, verða að benda á hvaða leiðir til tekju-aukningar hjá ríkisstjóði séu sanngjarnari. Ég hef allavegana ekki fundið þær.