Gauti B. Eggertsson, sá ágæti hagfræðingur (sem býr í Bandaríkjunum og vinnur hjá Seðlabankanum í New York) skrifar eftirfarandi hluti um Icesave málið:
Ég hef ekki kynnt mér efni icesave samkomulagsins að miklu marki, en af fréttum að dæma sýnist mér tiltekin óskhyggja annars vegar, og popúlismi hins vegar, ráða viðbrögðunum.
Landsbankinn auglýsti icesave á Bretlandi þar sem því var skilmerkilega haldið til haga að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður upp að ákveðnu marki. Þetta var gert með vitund og vilja íslenskra yfirvalda.
Eignir Landsbankans eiga að ganga upp í þetta og sýnist mér íslenska ríkið vera fremst í röðinni þegar þær verða seldar til að borga uppí icesave. Vextir sýnast mér töluvert lægri en þeir sem bjóðast íslenska ríkinu á opnum markaði og svipaðir fjármagskostnaði langtímalána þeirra ríkja sem ætla að lána okkur til að greiða þessa skuld.
Í stuttu máli, sýnist mér, amk í fljótu bragði, þetta samkomulag vera skynsamlegt.
Einsog ég skil málið, þá hefur Gauti rétt fyrir sér. Þetta virðist vera nokkuð skynsamlegt samkomulag miðað við stöðuna sem við vorum í. Það er að mörgu leyti ósanngjarnt að þetta skuli lenda á Íslendingum, en miðað við stöðuna sé ég ekki hvaða aðrar leiðir voru færar.
Þeir sem eru ósáttir við þetta samkomulag virðast aðallega nefna þrjá hluti.
– Þetta er ósanngjarnt
Af hverju eiga þeir, sem áttu engan þátt í útrásinni, að borga fyrir Icesave?
Það er vissulega rétt. Þetta er afskaplega ósanngjarnt. En reynum aðeins að horfa á þetta frá sjónarhorni breskra þegna. Þeir lögðu inn pening á reikninga í Bretlandi, sem voru í auglýsingum, sagðir tryggðir af íslenskum yfirvöldum. Mikið var gert úr tengingunni við Ísland (Icesave nafnið til að mynda) og hún átti að auka trúverðugleika reikninganna. Þessir peningar voru svo að stórum hluta sendir til Íslands, þar sem þeir fóru í að byggja upp íslensk fyrirtæki í útrás (hversu gáfulegt sem það var).
Þetta leyfðu íslensk stjórnvöld og Seðlabanki. Í stað þess að neyða Landsbankann til að færa þetta í breskt útibú, þá létu íslensk stjórnvöld þetta viðgangast. Stjórnvöld eru fulltrúar okkar almennings, kosin af okkur. Ef að allt hefði farið vel síðasta október, þá hefðu þessi bresku innlán átt að hjálpa íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi. Svo fór ekki. Getum við þá neitað að borga þegar að illa fer?
Það er ósanngjarnt ef við þurfum sem skattborgarar í framtíðinni að borga fyrir Icesave. En okkar stjórnvöld klúðruðu málunum einfaldlega svo illa (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, með dyggri aðstoð Samfylkingarinnar) að við getum varla gert annað en borgað.
– Það hefði átt að fara dómstólaleið
Ég er ekki lögfræðingur og veit lítið um alþjóðalög. Í Kastljósi var Sigmundi D. Gunnlaugssyni gefið tækifæri á að útskýra hvaða leið ætti að fara. Hann gat ekki gert það. Hann nefndi gerðardóm, sem að Bretar og Hollendingar höfnuðu, en lítið annað.
Ég skil líka ekki hvernig hægt er að túlka þetta Icesave á neinn annan hátt en að við berum hreinlega ábyrgð á þessum innistæðum. Hver er óskaniðurstaðan fyrir dómstólum? Er hún sú að dómstóllinn segi okkur að það sé í lagi að mismuna fólki eftir því hvort það sé Hollendingar eða Íslendingar?
Og hvað ef við töpum þessu fyrir dómstólum? Yrði þá ekki niðurstaðan enn verri en sú sem næst með þessum samningum? Það finndist mér allavegana líklegt.
– Víst að samið var, þá eru vextirnir alltof háir
Í þessu magnaða Kastljósviðtali þá benti Sigmundur á að stýrivextir í Bretlandi væru 0,5%, væntanlega til þess að sýna hverslags “okurvexti” við værum að fá á þessum lánum. En Sigmundur hlýtur að vita að þótt það séu lágir stýrivextir í Bretlandi (sem eru hafðir þannig til að örva breskt atvinnulíf) þá er auðvitað ekki hægt að millifæra það á langtímalán, sem að Bretland veitir öðru landi. Einsog Gauti bendir á, þá eru vextirnir á þessu láni lægri en okkur sem þjóð bjóðast almennt séð. Þannig að rökin um of háa vexti standast alls ekki. (sjá hér annan pistil frá Gauta). Ég veit ekki hver tilgangur Sigmundar er með slíkum málflutningi.
* * *
Ég er ekkert sérlega æstur í að Icesave falli á Íslendinga – ég held að enginn sé það. En þegar ég horfi á málið þá sé ég einfaldlega ekki hvað núverandi ríkisstjórn gat gert nema akkúrat það sem hún gerði.
Það hjálpar ekki neinum ef að stjórnmálamenn gera almenningi upp falskar vonir um að hlutirnir reddist á einhvern hátt án þess að á bakvið það séu nein haldbær rök. Einnig hjálpar það engum þegar alltaf er dregin upp dökkasta mögulega mynd af því hvernig hlutirnir geta þróast.