Undirskrift "mín" hjá InDefence

Í kjölfar kommenta við þessa færslu á Silfri Egils þá athugaði ég hvort að einhver útí bæ hefði skráð mig í þessa undirskriftasöfnun hjá InDefence.

Og viti menn, ég sló upp kennitölunni minni á InDefence síðunni og þar var hún.

indefence

Ég hef semsagt ALDREI skráð mig hjá InDefence. Einhver aðili útí bæ hefur tekið mína kennitölu og skráð mig. Ég get ekki séð að ég hafi neinn möguleika á að taka mig útaf þessum lista.

Aðeins um skattahækkanir

Ég á ansi marga vini sem eru Sjálfstæðismenn.  Það er ein afleiðing þess að vera fæddur í Garðabæ og hafa svo farið í Verzló. Það gerist því undantekningarlaust þegar að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru viðraðar að ansi margir á Facebook hjá mér fríka út.  Öskra hvað þetta sé hræðilegt, að þessi vinstri stjórn sé ómöguleg, byrja að uppnefna flokkana í stjórninni, segja að allt sé ómögulegt með flugfreyju sem forsætisráðherra og svo framvegis.

Fyrst gerðist þetta þegar að skattar á áfengi og tóbak voru hækkaður.  Þá þótti það nú merki um að allt væri að fara til fjandans.  Allir ætluðu að flytja burt frá Íslandi og svo framvegis.  Það sama gerist núna þegar að hærri tekjuskattur fyrir þá hæstlaunuðustu er nefndur.

* * *

Reyndar er nóg af rangfærslum þegar að fólk talar um þessar skattahækkanir (sem hafa jú ekki verið kynntar formlega).  Sumir halda að manneskja með 499.000 í laun borgi miklu minna en manneskja með 501.000 í laun en staðreyndin er auðvitað sú að samkvæmt þessum tillögum – einsog fjallað hefur verið um þær – þá borgar sá með hærri launin bara hæsta skatt af tekjunum sem eru umfram 500.000 krónur. (sjá hérna ágætis pistil um hvað þetta kostar hvern tekjuhóp)

Þessu virðast margir ekki hafa áttað sig á og með því má eflaust skýra hluta af æsingnum í sumum.  Þetta er bein afleiðing af því að þessum hugmyndum um skattahækkanir sé (að því er virðist) lekið í fjölmiðla.  Það veldur því að umræða einkennist oft af ranghugmyndum fólks þar sem að hugmyndirnar eru ekkert kynntar formlega og útskýrðar almennilega fyrir fólki.

* * *

Miðað við aðstæður líst mér ágætlega á þessar tillögur.

Aðstæðurnar eru þannig að ríkissjóður er rekinn með 150 milljarða halla.  Það gengur ekki að velta þeim vanda bara áfram til barna okkar, heldur verðum við að takast á við vandann núna.  Til þess eru tvær leiðir.  Annaðhvort að skera niður eða auka tekjur.

Ég tel að það eigi að gera meira í niðurskurði á mörgum sviðum.  Einkafyrirtæki eru að gera það á hverjum degi og það getur ríkið líka. Ég tel að ekki hafi verið nóg gert eða allavegana hefur ríkisstjórnin ekki sýnt nægilega fram á það hvar hún ætlar að spara.

En við *verðum* líka að ná í frekari tekjur fyrir ríkissjóð.  Annað kemur hreinlega ekki til greina, nema að við fórnum algerlega okkar heilbrigðis- og menntakerfi.  Og við náum bara í auka tekjur fyrir ríkissjóð með hærri sköttum og gjöldum.

Ríkisstjórnin hefur lagt til ýmsa skatta.  Mér fannst til dæmis skattar á álver vera góð hugmynd.  En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá berst SA bara fyrir hagsmunum mannfárra verksmiðja, en ekki fyrir hagsmunum mannaflsfrekari smærri fyrirtækja.  Því virðist ríkisstjórnin ætla að draga í land með þá skatta og hækka frekar tryggingargjald (maður hlýtur að velta því fyrir sér hvað minni fyrirtæki séu almennt séð að gera í SA).  Einnig hafa verið lagðir á ákveðnir neysluskattar, sem ég er almennt séð mótfallinn – en ég get ekki mótmælt mikið í því ástandi sem núna er.

* * *

Og svo eru það skattar á laun.  Ég er búinn að rökræða við fulltaf fólki á netinu síðustu daga.  Mörgum finnst ekkert jafnræði í því að fólk borgi mismikla skatta og sumir vilja meira að segja flatan krónuskatt.  Slíkar hugmyndir finnst mér fráleitar.

Ég hef alltaf talið að sanngjarnasta skattkerfið í velferðarþjóðfélagi sé að þeir sem eru með hæstu launin borgi hlutfallslega mest.  Þeir sem eru með lægstu launin borgi hlutfallslega minnst.  Ég get ekki séð annað en að þessi skattahækkun stuðli nákvæmlega að því.  Þeir sem eru með lægstu launin fá annaðhvort skattalækkun eða halda sömu skattprósentu.  Þeir sem eru með há laun borga hærri skatta.  Einstaklingur með 600.000 borgar 16.900 aukalega á mánuði. Sumir vilja meina að 5-600.000 krónur séu í raun frekar litlar tekjur. En ef 600.000 eru litlar tekjur þá eru 300.000 væntanlega ennþá minni tekjur og varla er sanngjarnt að fólkið með 300.000 beri þyngri byrðar. Meirihluti landsmanna er eftir allt með tekjur langt undir 600.000 krónum.

Enn sem komið er hefur enginn í þessum umræðum mínum á netinu geta bent á sanngjarnari leið til að skapa auknar tekjur fyrir ríkissjóð.  Einu rökin sem menn virðast hafa er að þetta muni minnka skatt-tekjur ríkissjóðs.  Það má vel vera að einhverjir kunni að vinna minna og að einhverjir svíki undan skatti.  En að svona hófleg skattahækkun muni leiða til allsherjar svindls tel ég vera afskaplega ólíklegt.

Þeir sem eru á móti þessari skattahækkun, sérstaklega ef þeir eru stjórnmálamenn að atvinnu, verða að benda á hvaða leiðir til tekju-aukningar hjá ríkisstjóði séu sanngjarnari. Ég hef allavegana ekki fundið þær.

Til hamingju!

Mikið ótrúlega er þetta ánægjulegur dagur!

island-i-esb

Ég er búinn að bíða eftir þessu í mörg, mörg ár. Ég hef verið ESB sinni nánast frá því að ég byrjaði að hugsa um pólitík. Á stundum hélt ég að þetta væri alveg töpuð barátta og við myndum aldrei sækja um. En kjósendur sýndu vilja sinn í síðustu kosningunum og í dag sjáum við loksins fram á aðildarumsókn hjá ESB. Ég er búinn að vera með í maganum síðustu daga útaf þessari atkvæðagreiðslu og það var ekki auðvelt að fylgjast með henni með því að refresh-a vísi.is á 2 mínútna fresti. En þetta tókst!

Ég gæti ekki verið glaðari. Til hamingju Ísland!

ESB hringavitleysa

Stundum fallast mér hreinlega hendur þegar að kemur að málefnum tengdum ESB á Íslandi.

Síðan ég man eftir mér hefur vart mátt tala um ESB umsókn. Þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar hafi viljað sækja um aðild, þá hafa stjórnmálaflokkarnir ekki geta klárað þetta mál og aldrei komið til greina að hlusta á almenning. Núna þegar allt er hrunið og við kjósum til þings og flokkar, sem vilja ESB aðild, ná meirihluta á þingi, þá virðist lausn andstæðinga aðildar vera sú að halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Til að tefja það enn frekar.

Bjarni Benediktsson hlýtur að fara að setja eitthvað met í fjölda skoðanna á ESB aðild. Hann vildi sækja um aðild í [desember](http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item241823/), svo vildi hann ekki sækja um aðild eftir landsfund og fyrir kosningar, en núna vill hann halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hver ætli skoðun hans verði á morgun? Það verður spennandi að sjá.

Þvílík vitleysa.

Aðeins um Icesave

Gauti B. Eggertsson, sá ágæti hagfræðingur (sem býr í Bandaríkjunum og vinnur hjá Seðlabankanum í New York) skrifar eftirfarandi hluti um Icesave málið:

Ég hef ekki kynnt mér efni icesave samkomulagsins að miklu marki, en af fréttum að dæma sýnist mér tiltekin óskhyggja annars vegar, og popúlismi hins vegar, ráða viðbrögðunum.

Landsbankinn auglýsti icesave á Bretlandi þar sem því var skilmerkilega haldið til haga að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður upp að ákveðnu marki. Þetta var gert með vitund og vilja íslenskra yfirvalda.

Eignir Landsbankans eiga að ganga upp í þetta og sýnist mér íslenska ríkið vera fremst í röðinni þegar þær verða seldar til að borga uppí icesave. Vextir sýnast mér töluvert lægri en þeir sem bjóðast íslenska ríkinu á opnum markaði og svipaðir fjármagskostnaði langtímalána þeirra ríkja sem ætla að lána okkur til að greiða þessa skuld.

Í stuttu máli, sýnist mér, amk í fljótu bragði, þetta samkomulag vera skynsamlegt.

Einsog ég skil málið, þá hefur Gauti rétt fyrir sér. Þetta virðist vera nokkuð skynsamlegt samkomulag miðað við stöðuna sem við vorum í. Það er að mörgu leyti ósanngjarnt að þetta skuli lenda á Íslendingum, en miðað við stöðuna sé ég ekki hvaða aðrar leiðir voru færar.

Þeir sem eru ósáttir við þetta samkomulag virðast aðallega nefna þrjá hluti.

– Þetta er ósanngjarnt

Af hverju eiga þeir, sem áttu engan þátt í útrásinni, að borga fyrir Icesave?

Það er vissulega rétt. Þetta er afskaplega ósanngjarnt. En reynum aðeins að horfa á þetta frá sjónarhorni breskra þegna. Þeir lögðu inn pening á reikninga í Bretlandi, sem voru í auglýsingum, sagðir tryggðir af íslenskum yfirvöldum. Mikið var gert úr tengingunni við Ísland (Icesave nafnið til að mynda) og hún átti að auka trúverðugleika reikninganna. Þessir peningar voru svo að stórum hluta sendir til Íslands, þar sem þeir fóru í að byggja upp íslensk fyrirtæki í útrás (hversu gáfulegt sem það var).

Þetta leyfðu íslensk stjórnvöld og Seðlabanki. Í stað þess að neyða Landsbankann til að færa þetta í breskt útibú, þá létu íslensk stjórnvöld þetta viðgangast. Stjórnvöld eru fulltrúar okkar almennings, kosin af okkur. Ef að allt hefði farið vel síðasta október, þá hefðu þessi bresku innlán átt að hjálpa íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi. Svo fór ekki. Getum við þá neitað að borga þegar að illa fer?

Það er ósanngjarnt ef við þurfum sem skattborgarar í framtíðinni að borga fyrir Icesave. En okkar stjórnvöld klúðruðu málunum einfaldlega svo illa (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, með dyggri aðstoð Samfylkingarinnar) að við getum varla gert annað en borgað.

– Það hefði átt að fara dómstólaleið

Ég er ekki lögfræðingur og veit lítið um alþjóðalög. Í Kastljósi var Sigmundi D. Gunnlaugssyni gefið tækifæri á að útskýra hvaða leið ætti að fara. Hann gat ekki gert það. Hann nefndi gerðardóm, sem að Bretar og Hollendingar höfnuðu, en lítið annað.

Ég skil líka ekki hvernig hægt er að túlka þetta Icesave á neinn annan hátt en að við berum hreinlega ábyrgð á þessum innistæðum. Hver er óskaniðurstaðan fyrir dómstólum? Er hún sú að dómstóllinn segi okkur að það sé í lagi að mismuna fólki eftir því hvort það sé Hollendingar eða Íslendingar?

Og hvað ef við töpum þessu fyrir dómstólum? Yrði þá ekki niðurstaðan enn verri en sú sem næst með þessum samningum? Það finndist mér allavegana líklegt.

– Víst að samið var, þá eru vextirnir alltof háir

Í þessu magnaða Kastljósviðtali þá benti Sigmundur á að stýrivextir í Bretlandi væru 0,5%, væntanlega til þess að sýna hverslags “okurvexti” við værum að fá á þessum lánum. En Sigmundur hlýtur að vita að þótt það séu lágir stýrivextir í Bretlandi (sem eru hafðir þannig til að örva breskt atvinnulíf) þá er auðvitað ekki hægt að millifæra það á langtímalán, sem að Bretland veitir öðru landi. Einsog Gauti bendir á, þá eru vextirnir á þessu láni lægri en okkur sem þjóð bjóðast almennt séð. Þannig að rökin um of háa vexti standast alls ekki. (sjá hér annan pistil frá Gauta). Ég veit ekki hver tilgangur Sigmundar er með slíkum málflutningi.

* * *

Ég er ekkert sérlega æstur í að Icesave falli á Íslendinga – ég held að enginn sé það. En þegar ég horfi á málið þá sé ég einfaldlega ekki hvað núverandi ríkisstjórn gat gert nema akkúrat það sem hún gerði.

Það hjálpar ekki neinum ef að stjórnmálamenn gera almenningi upp falskar vonir um að hlutirnir reddist á einhvern hátt án þess að á bakvið það séu nein haldbær rök. Einnig hjálpar það engum þegar alltaf er dregin upp dökkasta mögulega mynd af því hvernig hlutirnir geta þróast.

ESB aðildarviðræður

Þetta er ágætis áminning fyrir þá sem standa í stjórnarmyndunarviðræðum fyrir hönd Samfylkingarinnar. 61,2% þjóðarinnar vill aðildarviðræður við ESB. Þar af nánast allir þeir sem styðja Samfylkinguna.

Ég er viss um að ég er ekki eini kjósandi Samfylkingarinnar, sem mun eiga erfitt með að styðja flokkinn aftur ef að flokkurinn ætlar sér að sitja í ríkisstjórn, sem mun ekki stuðla að aðildarviðræðum við ESB strax í sumar.

Ísland í ESB

Ég er gríðarlega ánægður með úrslit þessara kosninga.

Fyrir utan allt annað þá tapaði Sjálfstæðisflokkurinn klárlega á ESB afstöðu sinni. Ég þekki persónulega nokkra Sjálfstæðismenn, sem kusu Samfylkinguna núna nánast eingöngu vegna ESB.

european-union-flag

Samfylkingin getur núna ekki annað en myndað ríkisstjórn, sem mun sækja um aðild. Annað er hreinlega ekki hægt. Annars munu kjósendur hennar aldrei fyrirgefa flokknum fyrir að hafa misst af þessu ótrúlega tækifæri. Þjóðin vill umsókn um aðild og hún sýndi það í kosningunum í gær.

Við ESB sinnar getum því ekki annað en verið glaðir í dag.

Mín skoðun

2939001103_62b0ce4b47Það er smá skrýtið að fylgjast með kosningabaráttunni heima á Íslandi úr fjarlægð. Þrátt fyrir að ég búi í öðru landi, þá finnst mér ég hafa verið virkur þáttakandi í þessari baráttu. Fjarlægðin við Ísland breytir því þó ekki að mér er mjög annt um úrslit þessara kosninga.

Margrét og ég kusum í sendiráðinu í Stokkhólmi í síðustu viku. Valið var á endanum ekki erfitt, þótt ég viðurkenni það fúslega að á þessu stutta kjörtímabili hef ég haft mínar efasemdir um minn flokk (sjá hérna færsluna sem ég skrifaði fyrir kosningarnar 2007).

* * *

Ég er jafnaðarmaður og því kýs ég Samfylkinguna. Ég tel að flokkurinn hafi gert mörg mistök og prófkjörin, sem voru haldin í síðasta mánuði voru ekki öll eftir mínu höfði. En ég tel hins vegar að á því liggi ekki nokkur vafi að Samfylkingin er besti kosturinn fyrir þessar kosningar.

Ég vona að eftir þessar kosningar verði áfram vinstri stjórn. Ég tel að Íslendingar hafi fengið nóg af hægri stjórnum undanfarinna 18 ára og að nú sé tími til þess kominn að við reynum að nálgast það stjórnkerfi, sem tíðkast á Norðurlöndunum og fjarlægjumst þá tilraun til Ameríku-væðingar sem að Sjálfstæðismenn hafa staðið fyrir síðan ég fermdist.

Ég tel margt gott vera við Vinstri-Græna og margt í þeirra flokkstarfi og áherslum, sem að Samfylkingin mætti taka sér til fyrirmyndar. En fyrir mér snúast þessar kosningar fyrst og fremst um eitt mál, *Evrópusambandsaðild*.

Vissulega eru fjölmörg önnur vandamál í íslensku samfélagi sem að Evrópusambandsaðild mun ekki laga. Til að leysa þau vandamál tel ég vinstri stjórn vera besta kostinn.

* * *

Þeir, sem vilja láta reyna á aðildarviðræður við ESB hafa í raun einungis einn kost í þessum kosningum og það er að kjósa Samfylkinguna. Við ESB sinnar þurfum á því að halda að Samfylkingin verði stærsti flokkurinn í þessum kosningum til þess að hann geti leitt ríkisstjórnarsamstarf, sem muni gera aðildarsamning að forgangsmáli. Semjum um aðild og leggjum svo samninginn í dóm kjósenda.

Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að okkar gjaldmiðill er nánast ónýtur. Þrátt fyrir gjaldeyrishöft og verðbætur þá veit samt enginn hvert raunverulegt verðmæti krónunnar er. Við greiðum gríðarlega háa vexti af öllum okkar lánum vegna þess að við erum með krónuna og gjaldeyrishöftin halda sennilega uppi óeðlilega háu gengi krónunnar akkúrat núna. Höftin halda uppi þeirri blekkingu að krónan geti áfram verið okkar gjaldmiðill.

Enginn annar flokkur hefur lagt fram trúverðuga stefnu um það hvernig við eigum að skipta um gjaldmiðil, nema Samfylkingin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrir löngu tapað trúverðugleika sínum í gjalmiðilsmálum, enda hafa þeir skipt um stefnu oft *á þessu ári*. Stefnan sem þeir tóku upp tveim vikum fyrir kosningar er með eindæmum [vitlaus](http://arnipall.is/grein.php?id_grein=157).

* * *

Það er alveg ljóst að eina leiðin til að koma okkur útúr fjötrum krónunnar, verðbætna, okurvaxta og ótrúlegra gengissveiflna er að sækja um aðild að ESB. Um leið og við sækjum um mun það senda skilaboð útí heim að okkur sé alvara og að við höfum raunhæfa leið til að ná okkur útúr þessum vandamálum. Einsog gamall Krataleiðtogi skrifaði:

>Einmitt af því að það tekur tíma að semja um Evrópusambandið og að ávinna okkur rétt til að taka upp evru – einmitt þess vegna þurfum við að sækja um strax. Löng ferð byrjar á fyrsta skrefinu. Sá sem aldrei stígur fyrsta skrefið, fer aldrei í ferðalagið.

Fyrsta skrefið í átt að aðild í ESB er að veita Samfylkingunni stuðning í þessum kosningum. Ég hvet alla til að gera það.

Borgarafundir RÚV

Ég er búinn að hlusta á Borgarafundina, sem RÚV hefur haldið fyrir þessar kosningar. Tveir gallar eru á þessum þáttum.

  1. Það eru einfaldlega of margir flokkar til þess að ná fram góðum umræðum um málefnin. Alltof langt líður á milli þess sem að frambjóðandinn fær að tala.
  2. Spurningarnar utanúr sal eru nánast gagnslausar. Ég hefði haldið að fólk myndi nýta tækifærið til að spyrja frambjóðanda síns flokks (eða þess flokks sem það væri að hugsa um að kjósa) einhverrar spurningar um framboðsmálin eða hvernig þeir ætluðu að efna loforðin í kjölfar kosninga.
    En nei, í stað þess eru nánast allir þeir sem spyrja útí sal í þeim ham að þeir ætla að hamast á frambjóðendum sem þeim líkar augljóslega illa við. Allir eru að reyna að spyrja “gotcha” spurninga, sem að fréttamenn ættu að vera að spyrja. Þetta segir manni væntanlega að fréttamennirnir eru ekki nógu beittir og og að flest fólk sem mætir á þessa fundi er löngu búið að ákveða hug sinn og mætir fyrst og fremst til að styðja sinn mann líkt og um íþróttalið væri að ræða.

En kannski er ég bara svona litaður af því að ég vil vinstri stjórn á næsta kjörtímabili og fátt mun breyta þeirri skoðun minni á þessum punkti.