Aðeins meira um ESB

Aðalsteinn Leifsson talar hér á fundi um mögulega ESB aðild Íslendinga. Hann tekur sérstaklega fyrir þau umkvörtunarefni, sem að andstæðingar aðildar hafa haft.

Ég mæli með því að allir horfi á þetta 13 mínútna myndband. Það hefur að mínu mati enginn komið með sannfærandi rök fyrir því að fara ekki í aðildarviðræður við ESB í kjölfar þessara kosninga. Efnahagskerfi landsins er í vondum málum og gjaldmiðillinn er algjörlega ónýtur með verðtryggingu, sveiflur og gjaldeyrishöft. Eina leið okkar útúr þessum vandamálum er að semja við ESB um aðild.

Ég hvet alla til að horfa á þetta myndband með Aðalsteini, sem er lektor við Háskólann í Reykjavík. Þar tekur hann fyrir á rólegan og yfirvegaðan hátt flest álitamál, sem gætu komið upp við aðildarviðræður:

Það væri algjörlega fáránlegt að við þessar astæður myndum við ekki einu sinni **láta á það reyna** hvers lags samning við gætum fengið við Evrópusambandið. Slíkur samningur yrði svo auðvitað ávallt borinn undir þjóðina.

Þeir sem vilja að Ísland sæki um ESB hafa bara einn kost í næstu kosningum og það er að kjósa Samfylkinguna. Hún er eini flokkurinn, sem hefur það skýrt á sinni stefnuskrá að sótt skuli verða um aðild strax að loknum kosningum. Eina leiðin til þess að ESB aðild verði ekki tekin af dagskrá er sú að Samfylkingin fái góðan stuðning í þessum kosningum.

Íslendingar eiga það skilið að fá að kjósa um aðildarsamning við ESB einsog allar hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa fengið að gera.

(já, og hérna er líka ágætis samantekt um ESB)

Minn seðill í prófkjörinu

Ég ætla að kjósi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.  Svona mun minn seðill líta út:

Einsog greinilegt er á seðlinum þá tel ég endurnýjun vera nauðsynlega.

 1. Jóhanna Sigurðardóttir
 2. Helgi Hjörvar
 3. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
 4. Valgerður Bjarnadóttir
 5. Anna Pála Sverrisdóttir
  Anna Pála er eina manneskjan á þessum lista sem ég þekki persónulega og ég hef áður skrifað um stuðning minn við hana.
 6. Jón Baldvin Hannibalsson
  Ég tel að mikilvægasta málið á næsta kjörtímabili sé innganga í ESB.  Ég treysti engum betur til að fylgja því málefni eftir en Jóni Baldvini.  Hann hefur þó gert margt undanfarin ár sem hefur fellt hann af þeim stalli, sem ég hafði hann á þegar ég var yngri.
 7. Skúli Helgason
 8. Pétur Tyrfingsson

Ég tel að Ingibjörg Sólrún hafi algjörlega brugðist síðan að síðasta ríkisstjórn var mynduð.  Fyrir það fyrsta þá gaf hún strax eftir mikilvægasta málið að mínu mati, aðild að ESB.  Í öðru lagi gaf hún eftir bæði forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið til Sjálfstæðisflokksins og tók í staðinn utanríkisráðuneytið þar sem hún gerði lítið gagn.  Við skipan í ráðherrastóla horfði hún svo algerlega framhjá manninum, sem að flokksmenn höfðu kosið sem varaformann flokksins og hundsaði síðan skilaboð kjósenda í prófkjöri í Kraganum.  Mér hugnast ekki slíkt vald formanns í Jafnaðarmannaflokki.

Í aðdraganda fjármálakreppunnar gerði Ingibjörg lítið nema að verja bankana.  Sem formaður annars stjórnarflokksins var hún í einstöku hlutverk til að gera eitthvað í aðdraganda kreppunnar, en því hlutverki brást hún.  Einnig virðist hún hafa haldið viðskiptaráðherra algjörlega utan við alla alvöru fundi um alvarlega stöðu mála.  Varla veit það á gott þegar að traust hennar á samstarfsfólki er svo lítið.

Ingibjörg hefur svo lítið gert á meðan að nafni Baugs-veldisins var ítrekað klínt á Samfylkinguna, okkur hefðbundnum flokksmönnum til lítillar gleði.

Hlutverk Samfylkingarinnar í bankahruninu er auðvitað ekkert í líkingu við hlutverk Sjálfstæðisflokksins.  En fyrrverandi ríkisstjórn brást hins vegar ásamt Seðlabanka og Fjármálaeftirlitun algerlega sinni skyldu.  Í því eiga fjórir ráðherrar væntanlega mesta sök: Ingibjörg, Össur, Geir og Árni.  Þeir tveir síðastnefndu hafa vikið.  Ég tel það hlutverk okkar í Samfylkingunni að sjá um að hin tvö víki líka.  Annars hefur flokkurinn ekki gert upp þetta hrun og enga ábyrgð á því tekið.

Ingibjörg Sólrún hefur síðustu ár verið einn af mínum uppáhalds stjórnmálamönnum.  En hún brást svo algerlega öllum sínum skyldum í aðdraganda hrunsins að hún hreinlega verður að víkja.  Hún hefði átt að viðurkenna sína ábyrgð og víkja sjálf.  Yfirmenn Seðlabanka, Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa allir vikið.  Hún er eini aðilinn sem er eftir og hefur enga ábyrgð tekið.

Dagurinn í dag

Þetta er búinn að vera góður dagur í Stokkhólmi. Margrét var loksins í fríi í vinnunni og því gátum við túristast aðeins um borgina. Við tókum strætó yfir á Gamla Stan (sem er reyndar í göngu-fjarlægð frá íbúðinni, en það er kalt) og löbbuðum þar um og skoðuðum bæinn. Löbbuðum svo yfir á Skeppsholmen, þar sem við fórum á Moderna Museet. Þar var í gangi frábær ljósmyndasýning með myndum eftir Andreas Gursky. Sú sýning var afskaplega skemmtileg.

Við kíktum aðeins á varanlega hluta safnsins áður en við löbbuðum yfir á Norrmalm þar sem við fengum okkur kaffi í NK. Liverpool gerðu reyndar sitt besta til að reyna að eyðileggja góða skapið mitt, en það mun ekki takast hjá þeim. Átta komment hjá mér á Kop.is var ágætt til að ná pirringnum úr mér.

Í kvöld eigum við svo pantað borð hér og svo ætlum við að kíkja á djammið.

* * *

Vissulega er það ánægjulegt fyrir Samfylkinguna að Jóhanna verði forsætisráðherraefni flokksins í næstu kosningum. En ég verð að játa það að ég er ekkert rosalega spenntur fyrir því að enginn nema Ingibjörg og Össur ætli að sækjast eftir sæti 2 og 3 í Reykjavík. Ég hefði nú talið æskilegt að fá aðeins ferskara fólk inn þar. Það væri nú ekki beint rosalega hresst að hafa Jóhönnu, Ingibjörgu, Össur, Mörð og Ástu Ragnheiði í efstu fimm sætunum miðað við endurnýjuna hjá öðrum framboðum.

Ætli ég skrifi ekki meira um þetta prófkjör seinna, en ég hvet allavegana alla til að kjósa Önnu Pálu í fimmta sætið. Anna Pála er afskaplega skemmtileg og klár stelpa. Hún er líka án efa með bestu framboðssíðuna, sem útskýrir á einfaldan hátt hver hennar pólitík er og kynnir hana sem persónu á skemmtilegan hátt.

Ég þekki Önnu Pálu persónulega og mæli klárlega með henni í þessu prófkjöri.

* * *

Ég er búinn að borða á svo mörgum skemmtilegum veitingastöðum hér í Stokkhólmi að ég er að spá í að koma mér upp einhverju kerfi til að halda utanum þá alla á þessari vefsíðu, þannig að fólk geti gengið að þeim stöðum sem ég mæli með. Ef einhver veit um einhverja sniðuga leið til að halda utanum þetta í WordPress, þá væri ég þakklátur.

Brennandi spurningar

Ég verð að játa það að ég er orðinn nánast óbærilega þreyttur á að lesa fréttir um Seðlabankann og Davíð Oddson. Til að spara fólki þau ósköp að þurfa að lesa þessar fréttir oft á hverjum degi, þá ákvað ég að búa til síðu, sem fjallar bara um það sem málið snýst um.

Þessi síða verður uppfærð þegar að eitthvað spennandi gerist. Með því að heimsækja þessa síðu geturðu því sparað þér lestur allra frétta um Seðlabankann í net-, ljósvaka- og prentmiðlum.

Er Davíð Oddson ennþá Seðlabankastjóri?

Takk fyrir.

Hræðsluáróður hægri manna

Það er magnað að fylgjast með atburðunum á Íslandi.

Eitt fyndnasta við þetta allt eru viðbrögð margra hægrimanna, til dæmis flestra sem eru vinir mínir á Feisbúk. Þau eru á þá leið að víst að nú sé komin vinstri stjórn á Íslandi *þá* fari allt til fjandans. Alls konar klysjur um að hækki skattar og að einkaframtakið verði kramið og bla bla bla. Ég hef séð einhver 10 status skilaboð á Feisbúk um að fólk hyggist flytja til útlanda þar sem að vinstri stjórnin muni fara með allt til fjandans. Ekki ósvipað og [hér](http://fridjon.eyjan.is/2009/01/27/vont-fyrir-island-gott-fyrir-sjalfstaedisflokkinn/) og [hér](http://katrin.is/?t=athugasemdir&nid=7686).

Hvað í ósköpunum veldur þessum hroka hjá hægrimönnum, sem halda að þeirra flokkur sé einn hæfur til þess að stjórna? Yfir hverju geta þeir eiginlega montað sig í dag?

Áður fyrr voru aðallega tveir hlutir sem að hægri menn notuðu til þess að hræða fólk frá því að kjósa yfir sig vinstri stjórn á Íslandi. Fyrst það að hægrimönnum væru einum treystandi til að sjá um ríkisfjármálin. Þessa vitleysu hefur nýhættum forseta Bandaríkjanna og svo Sjálfstæðismönnum hérna heima svo sannarlega tekist að afsanna. Svo var það glundroðakenningin um að stjórn væri bara starfhæf ef að Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd. Þetta hafa Sjálfstæðismenn í Reykjavík afsannað með stórkostlegum glæsibrag á þessu kjörtímabili.

Þannig að ég segi við Sjálfstæðisflokks-elskandi vini mína: Þið hafið ekki efni á þessu. Ykkar flokkur og ykkar stefna kom okkur í þá stöðu, sem við erum í. Það má vel vera að vinstri stjórn eigi eftir að lenda í vandræðum, en hún getur varla klúðrað málunum á verri hátt en sú sem er að fara frá.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað öllu á Íslandi frá því að ég fermdist. Það er löngu kominn tími á að aðrir fái að stjórna landinu.

Hræðsluáróður

Ég fjallaði fyrir nokkrum mánuðum um þessa bloggfærslu hjá Baldri McQueen. Í ljósi umræðunnar er ekki úr vegi að rifja hana upp. Í færslunni rifjar hann upp hræðsluáróður EES andstæðinga, sem þeir þuldu upp áður en við skrifuðum undir þann samning. Sami hræðsluáróðurinn er að mörgu leyti endurunninn í dag þegar að talað er um fulla aðild að ESB.

Vonbrigði dagsins eru án efa það að Vinstri Grænir haldi sig við fulla andstöðu sína við ESB aðild. Þeir sleppa því líka (að því er mér sýnist) algerlega að tala um gjaldeyrismál – einsog það sé ekki stærsta hagsmunamál Íslendinga. Tillaga Vinstri Grænna í ESB málum snýst um tvöfalda kosningu. Að við kjósum um það hvort að við ætlum að semja. Sú kosningabarátta verður án efa kostuleg. Hörðustu andstæðingarnir munu þar gera allt í sínu veldi til að sverta ESB og gera allt til þess að fólkið fái ekki að sjá hverjir raunverulegu kostirnir eru. Menn myndu fyrirfram gefa sér sínar forsendur fyrir niðurstöðum samningaviðræðna sem væru ekki einu sinni hafnar.

Það jákvæða er þó að Sjálfstæðismenn virðast vera að komast á þá línu að aðildarviðræður séu skynsamasta leiðin og svo að þjóðin fái að kjósa um aðildina. Það er auðvitað það eina réttmæta. Við eigum skilið einsog allar hinar Norðurlandaþjóðirnar að fá að kjósa um aðild að ESB.

Ódýr Big Mac á Íslandi

Tímaritið The Economist gefur árlega út Big Mac vísitöluna. Þar tekur blaðið saman verð á Big Mac í ýmsum löndum og reiknar verðið út í dollurum. Þannig fær blaðið einhverja mynd á því hvort að gengi viðkomandi gjaldmiðils sé of- eða vanmetið gagnvart dollar.

Á þessu eru auðvitað milljón gallar, til dæmis einsog það að landbúnaðarkerfi eru gríðarlega mismunandi og að skyndibiti einsog McDonald’s er lúxusvara í sumum löndum. Þannig að aðallega er þetta gert til gamans.

Íslendingar hafa oftast verið meðal allra hæstu landanna í könnuninni ásamt löndum einsog Noregi. Í júlí í ár vorum við með einn dýrasta Big Mac-inn í heimi.

Það hefur auðvitað allt breyst núna. Ég tók saman kostnaðinn á Big Mac miðað við núverandi gengi í dag og skoðaði hvernig hlutirnir hafa breyst í nokkrum löndum (nota bene, ég geri ráð fyrir að Big Mac hafi ekki hækkað síðan í júlí í þessum löndum og ég tók verð á Big Mac á Íslandi úr verðkönnum sem var gerð 11.nóv).

Fyrsti dálkurinn sýnir verð á Big Mac í gjaldmiðli viðkomandi lands. Annars dálkurinn sýnir verðið í dollurum (á gengi gærdagsins) og þriðji dálkurinn sýnir svo hvort að þetta gefi í skyn að gjaldmiðlinn sé ofmetinn (plús tala) eða vanmetinn (mínus tala) gagnvart dollar. Svona lítur þetta því út í dag.

Semsagt, í dag geturðu á Íslandi fengið Big Mac á lægra verði en í Bretlandi og á nánast sama verði og í Bandaríkjunum!!! Það hélt ég að ég myndi aldrei sjá. Það munar aðeins 13% á verðinu á Big Mac á Íslandi og í Brasilíu.

Big Mac kostar semsagt í krónum á Íslandi 560 krónur. Til samanburðar þá kostar hann 680 krónur í Svíþjóð, 702 krónur í Danmörku og 835 krónur í Noregi.