Við fjölskyldan erum flutt heim til Íslands frá Svíþjóð eftir að hafa búið í Stokkhólmi í 13 ár. Við Margrét byrjuðum reyndar á því að sitja í Covid einangrun þar sem við greindumst við landamærin.
Ég held að hugmyndin um að flytja til Stokkhólms hafi kviknað hjá mér í einhverju samtali við Emil þar sem ég reyndi að sannfæra hann um að Serrano væri orðið það gott og það vinsælt konsept að við ættum að reyna að opna í útlöndum. Þetta var rétt fyrir hrun og allir í útrás. Ég sá fyrir mér að opna Serrano í Stokkhólmi og ég var orðinn svo þreyttur á því að vera single í Reykjavík að ég sá það í hyllingum að í miðju verkefninu myndi ég kynnast einhverri sænskri stelpu.
Svo gerðist það á hinu stórkostlega sumri 2008 að ég kynntist Margréti Rós og eftir að hafa verið saman í nokkra mánuði ákvað hún að koma með mér út til Stokkhólms. Við leigðum litla íbúð á Folkungagatan á Södermalm og ég reyndi að finna húsnæði fyrir fyrsta Serrano staðinn.
Við keyptum okkur svo íbúð á Götgatsbacken, kynntumst skemmtilegu fólki, Margrét byrjaði í umhverfisfræði við Stokkhólms háskóla og Serrano mjakaðist áfram þrátt fyrir að gjaldeyrishöft gerðu okkur lífið leitt. Eftir að hafa búiðsaman í Stokkhólmi í 2 ár þá giftum við okkur á Íslandi og ári seinna kom Jóhann Orri í heiminn. Við keyptum okkur nýja íbúð á Södermalm og svo fæddist Björg Elísa árið 2014. Serrano breytti svo um nafn og varð Zócalo í Svíþjóð og ég seldi hlut minn í Serrano á Íslandi.
Á einhverjum tímapunkti fengum við leið á Södermalm og héldum að margt myndi verða betra í húsi í úthverfi með garði. Við leigðum því hús við svaka fína götu í Mälarhöjden. Við bjuggum þar í nokkur ár en svo söknuðum við þess að vera í kringum fólk og fengum leið á krakkaskorti í hverfinu og keyptum því íbúð við Vinterviken. Þar komum við inní lifandi og yndislegt hverfi alveg við vatnið þar sem við gátum labbað og fengið okkur sundsprett á sumrin.
Zócalo stækkaði. Við opnuðum staði í fleiri borgum, breyttum konseptinu í franchise og opnuðum í Danmörku líka. Margrét byrjaði að vinna hjá stærstu náttúruverndarsamtökum Norðurlandanna. Svo kom Einar Friðrik í heiminn árið 2018 og sá til þess að lífið varð aldrei rólegt. Við festum rætur í hverfinu okkar. Krakkarnir byrjuðu í skólanum sínum, ég þjálfaði fótboltaliðið hans Jóhanns, Margrét fimleikaliðið egen ár Bjargar og við Margrét eignuðumst frábæra vini þar sem bættust í hóp þeirra sem við eignuðumst á Södermalm og þeirra Íslendinga sem hafa stoppað í einhvern tíma í borginni okkar. Við opnuðum svo hverfisveitingastaðinn Vår Pizza ásamt vinum okkar, sem tengdi okkur enn betur við hverfið auk þess sem Margrét byrjaði í masters námi.
En á tímum Covid þá leitaði hugurinn líka heim. Margrét ætlaði bara að búa í Stokkhólmi í nokkur ár, en þau urðu á endanum 13. Ég sagði alltaf við Margréti að það yrði aldrei auðveld ákvörðun að flytja heim til Íslands. Reykjavík myndi aldrei geta unnið Stokkhólm á sumum sviðum alveg einsog Stokkhólmur gæti aldrei unnið Reykjavík á öðrum sviðum. Við myndum alltaf þurfa að velja og hafna. Einhvern tímann á síðustu 2 árum þá fannst okkur einfaldlega tilhugsunin um að flytja til Íslands vera skemmtilegri en þá að vera áfram í Stokkhólmi.
Það var auðvitað ekki auðveld ákvörðum. Þegar við fluttum út þá bjuggum við með vinum okkar í sitthvorri leiguíbúðinni í miðbæ Reykjavíkur. Við höfum aldrei búið á Íslandi sem par eða fjölskylda. Börnin okkar eru öll fædd í Stokkhólmi og hafa búið þar alla sína ævi. Þau þurftu að skilja eftir allt sitt líf og alla sína vini.
Margrét ætlar að klára masters námið sitt í fjarnámi (einsog námið hefur reyndar verið meira og minna síðustu ár) en ég mun halda áfram að vinna sem framkvæmdastjóri Zócalo og mun ferðast á milli Reykjavíkur og Stokkhólms. En lífið okkar er núna hérna í Reykjavík, í íbúðinni okkar í Laugardalnum.
Það er skrítið að flytja heim eftir allan þennan tíma. Hlutirnir munu eflaust ekki gerast sjálfkrafa heldur þarf að rækta aftur þau sambönd sem auðvitað veikjast þegar við höfum búið svona lengi í öðru landi. En við erum ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni.
Ég mun sakna þess að hjóla í vinnuna á Södermalm, að geta labbað og tekið lest um þessa frábæru borg. Ég mun sakna þess að geta labbað á ströndina eftir vinnu og baðað í Mälaren í 25 stiga hita á sumrin. Ég mun sakna þess að vera fótboltaþjálfari og rólegra daga með vinum hangandi á Södermalm.
En við ætlum líka að gefa Reykjavík alla sjensa. Það var alltaf ég sem var á bremsunni varðandi flutning heim og ég er ótrúlega glaður yfir því að vera svona spenntur yfir þessum flutningum. Mér finnst svo margt spennandi vera að gerast í Reykjavík og ég fyllist bjartsýni þegar ég sé fullt af kláru og skemmtilegu fólki tala um það hvernig þau vilji gera borgina betri.
Nú byrjar annar kafli í lífið okkar litlu fjölskyldu. Hæ Ísland!