Frá Como vatni keyrðum við austur með stuttri viðkomu í Mílanóborg þar sem við skoðuðum Duomo kirkjuna í miðri borginni. Nokkrum dögum seinna þegar við skoðuðum Markúsar basilíkuna í Feneyjum kvartaði elsti strákurinn okkar yfir því að við værum búin að skoða þrjátíu kirkjur í þessari ferð (ég mótmælti, sagði þær vera fimm – Notre Dame, dómkirkjan í Lyon og Notre Dame í Lyon, Duomo í Mílano og Markúsar basilíkan). Duomo er þriðja stærsta kirkja í heimi en hitinn í Mílanó gerði það að verkum að við vorum ekki mjög peppuð fyrir því að þvinga krakkana okkar í mikið labb um borgina en við náðum þó að borða besta gelato ferðarinnar.
Meðmæli Mílanó
Venchi Cioccolato e Gelato – besti ísinn í ferðinni.
Eftir stoppið í Mílanó héldum við áfram til lítils bæjar rétt fyrir utan Verona, þar sem við gistum á litlu hóteli umlukið vínekrum. Þaðan fórum við í tvær dagsferðir – eina í lítinn vatnsrennibrautagarð við Garda vatn – og hina til Feneyja í 33 stiga hita. Í Feneyjum lögðum við bílnum okkar í risavöxnum bílastæðahúsi í útjaðri gömlu borgainnar og tókum þaðan vatnataxa að San Marco torginu. Þaðan löbbuðum við í Markúsar basilíkuna og svo þræddum við götur borgarinnar.
Daginn eftir Feneyjar fórum við svo til Rimini þar sem alltaf var planið að eyða síðustu dögum ferðarinnar. Okkur tókst reyndar að bóka hótel ekki á Rimini, heldur í Milano Marittima sem er talsvert fyrir norðan Rimini. En það skipti ekki miklu máli, þar sem ströndin þar virtist vera nokkurn veginn sú sama og aðeins sunnar og úrval veitingastað og strandklúbba var fínt.
Við kíktum svo í dagsferð til San Marínó og ég gat því loksins bætt við landi í listann af þeim löndum, sem ég heimsótt.
Það að ferðast með þrjá krakka er ekki auðvelt. Við (eða aðallega á Margrét heiðurinn) tókum nokkrar ákvarðanir snemma í ferðinni. Til dæmis að takmarka skjátíma eldri krakkanna niður í nánast núll. Þau fengu að hlusta á Storytel og Spotify í bílferðum, en fengu annars engan skjátíma í bílnum og skjátími var nánast enginn utan bílferðanna líka. Þegar við borðuðum á veitingastöðum þá fékk yngsti strákurinn okkar að leika sér með litabækur og límmiðabækur (sem hann elskar akkúrat núna) en eldri krakkrnir urðu að láta sér nægja að tala við okkur. Þetta byrjaði kannski ekki frábærlega, en á endanum erum við ótrúlega sátt við þessa ákvörðun.
Það hjálpar líka að enda fríið á strönd. Það er ekki auðvelt að draga krakka með sér í 30 stiga hita að skoða kirkjur, en það er fátt í þessum heimi sem fær okkar börn til að leika sér jafn vel saman og að vera á strönd, þar sem þau geta leikið sér í sandinum eða sjónum.
Eftir fimm daga á Rimini þurftum við svo að koma okkur upp til Danmerkur til að enda ferðina í Legoland og Kaupmannahöfn auk þess sem við þurftum að skila bílnum til Lyon. Við ákváðum því að skipta liði. Fyrst keyrði ég Margréti og krakkana upp til Verona þar sem þau tóku flug til Billund. Ég keyrði svo einn frá Verona alla leið til Lyon með næturstoppi í Chambery. Samtals tæplega 850 kílómetrar. Við hittumst svo í Billund, eyddum degi í Legoland áður en við fórum til Kaupmannahafnar sem var síðasta stopp ferðarinnar.