Hæ Ísland

Við fjölskyldan erum flutt heim til Íslands frá Svíþjóð eftir að hafa búið í Stokkhólmi í 13 ár. Við Margrét byrjuðum reyndar á því að sitja í Covid einangrun þar sem við greindumst við landamærin.

Ég held að hugmyndin um að flytja til Stokkhólms hafi kviknað hjá mér í einhverju samtali við Emil þar sem ég reyndi að sannfæra hann um að Serrano væri orðið það gott og það vinsælt konsept að við ættum að reyna að opna í útlöndum. Þetta var rétt fyrir hrun og allir í útrás. Ég sá fyrir mér að opna Serrano í Stokkhólmi og ég var orðinn svo þreyttur á því að vera single í Reykjavík að ég sá það í hyllingum að í miðju verkefninu myndi ég kynnast einhverri sænskri stelpu.

Svo gerðist það á hinu stórkostlega sumri 2008 að ég kynntist Margréti Rós og eftir að hafa verið saman í nokkra mánuði ákvað hún að koma með mér út til Stokkhólms. Við leigðum litla íbúð á Folkungagatan á Södermalm og ég reyndi að finna húsnæði fyrir fyrsta Serrano staðinn.

Við keyptum okkur svo íbúð á Götgatsbacken, kynntumst skemmtilegu fólki, Margrét byrjaði í umhverfisfræði við Stokkhólms háskóla og Serrano mjakaðist áfram þrátt fyrir að gjaldeyrishöft gerðu okkur lífið leitt. Eftir að hafa búiðsaman í Stokkhólmi í 2 ár þá giftum við okkur á Íslandi og ári seinna kom Jóhann Orri í heiminn. Við keyptum okkur nýja íbúð á Södermalm og svo fæddist Björg Elísa árið 2014. Serrano breytti svo um nafn og varð Zócalo í Svíþjóð og ég seldi hlut minn í Serrano á Íslandi.

Á einhverjum tímapunkti fengum við leið á Södermalm og héldum að margt myndi verða betra í húsi í úthverfi með garði. Við leigðum því hús við svaka fína götu í Mälarhöjden. Við bjuggum þar í nokkur ár en svo söknuðum við þess að vera í kringum fólk og fengum leið á krakkaskorti í hverfinu og keyptum því íbúð við Vinterviken. Þar komum við inní lifandi og yndislegt hverfi alveg við vatnið þar sem við gátum labbað og fengið okkur sundsprett á sumrin.

Zócalo stækkaði. Við opnuðum staði í fleiri borgum, breyttum konseptinu í franchise og opnuðum í Danmörku líka. Margrét byrjaði að vinna hjá stærstu náttúruverndarsamtökum Norðurlandanna. Svo kom Einar Friðrik í heiminn árið 2018 og sá til þess að lífið varð aldrei rólegt. Við festum rætur í hverfinu okkar. Krakkarnir byrjuðu í skólanum sínum, ég þjálfaði fótboltaliðið hans Jóhanns, Margrét fimleikaliðið egen ár Bjargar og við Margrét eignuðumst frábæra vini þar sem bættust í hóp þeirra sem við eignuðumst á Södermalm og þeirra Íslendinga sem hafa stoppað í einhvern tíma í borginni okkar. Við opnuðum svo hverfisveitingastaðinn Vår Pizza ásamt vinum okkar, sem tengdi okkur enn betur við hverfið auk þess sem Margrét byrjaði í masters námi.
En á tímum Covid þá leitaði hugurinn líka heim. Margrét ætlaði bara að búa í Stokkhólmi í nokkur ár, en þau urðu á endanum 13. Ég sagði alltaf við Margréti að það yrði aldrei auðveld ákvörðun að flytja heim til Íslands. Reykjavík myndi aldrei geta unnið Stokkhólm á sumum sviðum alveg einsog Stokkhólmur gæti aldrei unnið Reykjavík á öðrum sviðum. Við myndum alltaf þurfa að velja og hafna. Einhvern tímann á síðustu 2 árum þá fannst okkur einfaldlega tilhugsunin um að flytja til Íslands vera skemmtilegri en þá að vera áfram í Stokkhólmi.

Það var auðvitað ekki auðveld ákvörðum. Þegar við fluttum út þá bjuggum við með vinum okkar í sitthvorri leiguíbúðinni í miðbæ Reykjavíkur. Við höfum aldrei búið á Íslandi sem par eða fjölskylda. Börnin okkar eru öll fædd í Stokkhólmi og hafa búið þar alla sína ævi. Þau þurftu að skilja eftir allt sitt líf og alla sína vini.

Margrét ætlar að klára masters námið sitt í fjarnámi (einsog námið hefur reyndar verið meira og minna síðustu ár) en ég mun halda áfram að vinna sem framkvæmdastjóri Zócalo og mun ferðast á milli Reykjavíkur og Stokkhólms. En lífið okkar er núna hérna í Reykjavík, í íbúðinni okkar í Laugardalnum.

Það er skrítið að flytja heim eftir allan þennan tíma. Hlutirnir munu eflaust ekki gerast sjálfkrafa heldur þarf að rækta aftur þau sambönd sem auðvitað veikjast þegar við höfum búið svona lengi í öðru landi. En við erum ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni.

Ég mun sakna þess að hjóla í vinnuna á Södermalm, að geta labbað og tekið lest um þessa frábæru borg. Ég mun sakna þess að geta labbað á ströndina eftir vinnu og baðað í Mälaren í 25 stiga hita á sumrin. Ég mun sakna þess að vera fótboltaþjálfari og rólegra daga með vinum hangandi á Södermalm.

En við ætlum líka að gefa Reykjavík alla sjensa. Það var alltaf ég sem var á bremsunni varðandi flutning heim og ég er ótrúlega glaður yfir því að vera svona spenntur yfir þessum flutningum. Mér finnst svo margt spennandi vera að gerast í Reykjavík og ég fyllist bjartsýni þegar ég sé fullt af kláru og skemmtilegu fólki tala um það hvernig þau vilji gera borgina betri.

Nú byrjar annar kafli í lífið okkar litlu fjölskyldu. Hæ Ísland!

Framkvæmdastjórar sem mæta snemma

David Heinemeier Hansson um mítuna um ótrúlega duglega framkvæmdastjórann.

So let me spell it out: Having to get up at 4am to get real work done is broken. Busted. Kaput.

And it isn’t any less broken because a fawning business media keeps exalting the virtues of your morning routine or strict regiment. Quite contraire.

You know what’s cool? Getting to work at 9, putting in eight solid hours, and then being done by 5. There’s nothing stodgy or uncool about having reasonable work day that allows for a workout at 7:30am or playing with your kids at 5:30pm.

There’s no prize for being the first to rise. You’re not a fucking bird and there ain’t no fucking worm. So chill

Grunnbúðir Everest

Facebook var að stríða mér með einhverri minningu um það að fyrir mörgum árum keypti ég Lonely Planet bækur fyrir Nepal og Bhutan og ætlaði að fara í ferðalag þangað. Ég hef aldrei látið verða af því en ég hugsa oft um þessi lönd. Brady Haran, sem er annar umsjónarmanna uppáhalds podcastsins míns Hello Internet, hefur til að mynda dásamað ferðalag sitt til Bhutan. Allavegana, hérna er skemmtileg myndasaga frá gönguferð frá Lukla upp að grunnbúðum Mount Everest í Nepal.

Serial

Serial er mest umtalaði podcast þáttur heims þessar vikurnar og ekki furða því þetta er frábær sería. Í Serial er fjallað er um morð á ungri stelpu í Bandaríkjunum, sem fyrrverandi kærasti hennar er dæmdur fyrir. Spennan hefur aðeins dalað í síðustu þáttum, en þeir eru þó yfir heildina verulega góðir.

Númer 9

Á föstudaginn opnuðum við okkar þriðja Serrano stað í Stokkhólmi og þann níunda alls. Þessi staður er í verslunarmiðstöð í Liljeholmen, sem er í suð-vesturhluta Stokkhólmar – beint fyrir vestan eyjuna Södermalm, sem ég bý á. (sjá á korti hér).

Þessi staður hefur ekki verið lengi í undirbúningi. Við töluðum fyrst við eigendur mallsins í byrjun sumars – og eftir smá viðræður um hvaða staðsetningu við myndum fá og fyrir hvað þá skrifuðum við undir samning í ágúst. Nokkrum dögum síðar byrjuðum við svo framkvæmdir.

Eftir því sem stöðunum fjölgar þá minnkar stressið fyrir opnun hvers nýs staðar. Fyrir opnun staðarins á föstudaginn var ég nokkuð viss um að ég væri kominn með það alveg á hreint hvernig ætti að opna Serrano stað með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. En í þessari opnun fór nánast allt úrskeiðis, sem mögulega gat farið úrskeiðis. Þetta er ekki tæmandi listi:

  • Við ætluðum að opna á fimmtudaginn, en á þriðjudag var ljóst að það myndi ekki takast. Næsta plan var þá að opna á föstudag kl 10 en á endanum opnuðum við ekki fyrr en um hálf eitt þegar að við höfðum misst af flestum hádegiskúnnunum.
  • Nánast öll tæki komu of seint. Frystirinn kom ekki fyrr en daginn sem við ætluðum að opna, quesadilla og tortilla grill eru ekki enn komin og svo framvegis.
  • Frystirinn virkaði ekki þar sem það gleymdist í verksmiðjunni að setja á hann kælivökva.
  • Netið virkaði ekki, þar sem við fengum vitlausar DNS tölur frá Telia. Netið virkaði ekki fyrr en um 3 leytið á föstudaginn (fram að því tókum við bara við peningum).
  • Smiðirnir náðu ekki að klára sín verkefni á réttum tíma – og voru í raun 5 dögum á eftir áætlun. Það hefur ekki gerst áður hjá okkur í Svíþjóð.
  • Skjáirnir, sem við áttum að fá fyrir matseðlana, eru staddir í Amsterdam. Okkur tókst á síðustu stundu að redda öðrum skjám á meðan við biðum eftir hinum.
  • Allt leirtau er enn fast í tolli í Suður-Svíþjóð. Við þurftum að redda okkur með leirtaui frá hinum Serrano stöðunum.
  • Fyrirtækið, sem útbjó baklýst Serrano logo fyrir okkur á staðinn klúðraði málunum og hafði gaffalinn öfugan. Þegar þeim tókst að útbúa nýjan gaffal í tíma þá týndist sendingin á leiðinni. Hún hefur ekki enn fundist.
  • Skeiðar í afgreiðsluborð töfðust um 6 vikur.

Og svo framvegis og framvegis. Veitingastjórinn hjá okkur í Liljeholmen er íslenskur strákur, sem þýðir að tveimur af þremur Serrano stöðum hérna í Svíþjóð er stjórnað af Íslendingum, sem hafa gert virkilega vel. Það voru þó allir orðnir verulega þreyttir og stressaðir þegar okkur loksins tókst að opna þrátt fyrir allt þetta klúður.

Og fyrstu dagarnir lofa svo sannarlega góðu. Svo góðu að nánast allur matur kláraðist og það þurfti að ræsa út fólk úr mið-eldhúsinu í gær og ég stóð í allan gærdag og skar tómata, eldaði kjúkling og fleira sem tilheyrir. Margrét vann á kassa allan gærdaginn og daginn í dag og kærasta Núma, veitingastjóra, var í uppvaskinu allan daginn.

Þannig að þetta sýnir að það er ekki auðvelt að opna nýjan veitingastað og sama hversu vel manni finnst maður hafa undirbúið opnuna þá eru svo ótrúlega margir hlutir, sem geta klikkað. En staðurinn lítur ótrúlega vel út og salan lofar góðu, þannig að ég er bjartsýnn fyrir framhaldið.