Mathöll í Stokkhólmi – Sthlm City Food Hall

Í síðasta mánuði opnaði ég mathöll á besta stað í miðborg Stokkhólms.  Þetta er að mörgu leyti erfiðasta vinnu-verkefni, sem ég hef staðið í á mínum 20 ára ferli í veitingabransanum.

Hugmyndin kviknaði hjá mér haustið 2020 í miðju Covid þunglyndi.  Nokkrum mánuðum áður hafði ég tekið að mér að búa til mexíkóskt konsept fyrir Borg 29 mathöll.  Ég hafði svo auðvitað áður unnið talsvert með veitingastaði á matartorgum alveg frá því að við Emil opnuðum Serrano á Stjörnutorgi fyrir rúmlega 20 árum.  Við á Zócalo höfum verið með stað í K25 mathöllinni í Stokkhólmi frá því 2013 og í Tivoli Food Hall í Kaupmannahöfn síðan það konsept opnaði árið 2017.

Síðan 2013 höfum við rekið Zócalo stað á besta stað í Stokkhólmi, nokkrum metrum frá Sergels Torg.  Ég byrjaði að leita að staðsetningum fyrir Zócalo staði í Stokkhólmi árið 2008 en við fengum engar spennandi staðsetningar miðsvæðis heldur urðum að sætta okkur við opnanir í úthverfum fyrstu árin.  Árið 2013 komu inn fjárfestar í félagið og með þeim fylgdi þessi staðsetning á Klarabergsgatan 29, 100 metrum frá Sergels Torg og beint á móti Åhléns verslunarmiðstöðinni.

Svona leit Zócalo staðurinn út á Klarabergsgatan

Staðurinn var hins vegar alltaf erfiður í rekstri.  Við þurftum að innrétta hann á mettíma og ég var aldrei sáttur við hvernig tókst – mér fannst hönnunin klúðursleg, staðurinn var rosalega stór (250 fermetrar með 160 sætum) og ég var í mörg ár að berjast við það hvort ég ætti að selja, gera staðinn upp eða reyna eitthvað annað.  


Í Covid varð svo algjört hrun á staðnum.  Í stað þess að fá 400 kúnna á föstudegi þá vorum við að afgreiða allt niður í 15 manns á dag.  Á þessum stað í miðbæ Stokkhólms hvarf fólkið þar sem allir voru hvattir til að forðast lestar og vinna alltaf heima.  Á einni viku hurfu allir okkar kúnnar.  

Við gátum lifað Covid af þar sem að við fengum slatta af aðstoð frá sænska ríkinu – annars hefði þessi staður dregið okkar fyrirtæki í gjaldþrot, þar sem leigan var mjög há og engir kúnnar eftir.  Ég eyddi mörgum svefnlausum nóttum á Covid tímanum í að hugsa hvað ég gæti gert til að bjarga fyrirtækinu, sem ég hafði verið að byggja upp í Svíþjóð og Danmörku í yfir 10 ár.

Eitt kvöldið fékk ég þá hugmynd að breyta þessu stóra plássi í litla mathöll.  Ég kynnti þá hugmynd fyrst fyrir eigenda hússins (sem er sænskur lífeyrissjóður) í desember 2020 en þau voru ekkert gríðarlega spennt fyrir þessu verkefni.  Ég gafst samt ekki upp og næstu 12 mánuðina barðist ég fyrir að halda þessu verkefni á lífi.  Það var svo rétt fyrir jólin 2021 – rúmu ári eftir að ég talaði fyrst við eigenda hússins, að þau samþykktu hugmyndina mína, sem gekk þá útá að sameina Zócalo og búðina við hliðiná (Teknikmagasinet raftækjabúð) í eitt bil með 6-8 veitingastöðum.


Við tóku síðan 13 mánuðir frá samþykki þar til að við opnuðum núna 20.janúar.  Ég þurfti að klára hönnunina, sem ég gerði með HAF og ákveða hvaða veitingastaði ég vildi fá inní mathöllina.  Og ég þurfti að finna fjármögnun, annaðhvort á Íslandi eða í Svíþjóð.

Ég hafði í hausnum frekar skýra mynd af því hvaða konsept ég vildi hafa þarna inni.  Ég og Árni Þór vinur minn eyddum ófáum klukkustundum inná skrifstofu við að velta fyrir okkur hvaða konsept myndu passa.  Ég vissi nokkurn veginn hvaða tegundir af konseptum ég vildi fá og eftir það gerði ég lista yfir mín uppáhalds konsept í hverjum flokki.  Flestir sem ég hafði samband við voru að elska konseptið og voru til í allt, en sum bilin voru aðeins erfiðari.  Mathöllin fékk líka nafn, Sthlm City Food Hall.

Á endanum stóðum við uppi með 8 veitingastaði: Zócalo (sem er einsog allir aðrir Zócalo staðir rekninn af franchise aðilum), Vår Pizza (frábært pizza konsept með 4 staði í Stokkhólmi), Bun Meat Bun (að mínu mati bestu hamborgararnir í Stokkhólmi með 5 staði), Yoi (asískt með 3 staði), Mackverket (geðveikar samlokur – þetta er staður númer 3 hjá þeim), MGL Sushi (staður númer 5), Kimli Ramen (nýtt konsept) og CoCo Fresh Tea (stærsta bubble tea keðja í heimi með fyrsta stað í Svíþjóð).  Allt eru þetta lítil en góð konsept sem voru ekki með staði í miðbæ Stokkhólms.

Fjármögnunin reyndist erfiðari – ég veit ekki hversu marga fundi ég hélt á Íslandi og í Svíþjóð – en mér mistókst samt að fá inn fjárfesta í verkefnið þrátt fyrir að þetta væri verkefni á besta mögulega stað í miðborg Stokkhólm með öruggar leigutekjur.  Á endanum var þetta allt fjármagnað með framlagi veitingastaðanna og lánum frá bönkum og byggingaraðilum.  Það gerði þetta verkefni svo miklu erfiðara að vera aldrei með trygga fjármögnun heldur þurfa að berjast einhvern veginn í gegnum þetta á hverjum degi í 13 mánuði, þar sem nánast ekkert mátti fara úrskeiðis.

Fyrir utan City Food Hall – Sergels Torg í bakgrunni
Myndir frá opnunarpartýi

Einhvern veginn komst ég samt í gegnum þetta.  Byggingarvinnan byrjaði í september og stóð í sirka 4 mánuði.  Ég þurfti að venjast því að vera ekki bara að byggja minn eigin veitingstað heldur líka að þjónusta 8 aðra aðila, sem höfðu sínar væntingar og kröfur.  Síðustu 2 vikurnar fyrir opnun var ég í Stokkhólmi þar sem ég vann 16 tíma á dag og svaf 8.  

Auk þess að taka 100 ákvarðanir á dag þurfti ég líka að vera hressi gaurinn sem hrissti af sér öll vandamál og sagði að þetta myndi allt reddast.  Það er ekki auðvelt starf þegar að nánast allt samstarsfólkið eru Svíar, sem samþykkja ekki sama óskipulag og yfirvinnu sem kannski tíðkast í íslenskum verkefnum.  Ég veit ekki alveg hvernig ég komst í gegnum þetta án þess að missa geðheilsuna alveg, en einhvern veginn er heilinn minn búinn að gleyma öllu þessu veseni.  Ég upplifði það í þessu ferli rosalega oft að mæta í vinnuna á morgnanna og kvíða því að opna tölvuna og takast á við það sem þyrfti að klára.  Ég vona að það verði ekki svoleiðis mikið lengur.

Við annan innganginn

Ég komst þó í gegnum þetta með hjálp frá Margréti minni, sem þurfti að hlusta á mig óteljandi sinnum segja hversu mikið ég hataði þetta verkefni en náði að peppa mig samt upp, Árna Þór sem hjálpaði mér í gegnum alla skipulagningu og framkvæmd og kom mér niður á jörðina þegar ég missti mig aðeins of mikið.  Og líka fólkinu sem vinnur með mér hjá Zócalo, gaurnum hjá bankanum sem hafði trú á þessu og Panea, byggingarfyrirtækinu sem að höfðu trú á mér.

Í opnunarpartýinu, sem var haldið daginn fyrir opnun, fann ég strax að verkefni hafði heppnast.  Staðirnir voru það góðir og stemningin það fín að þetta myndi ganga upp.  Þá minnkaði stressið aðeins.  Þegar ég upplifði svo fyrsta hádegið með góðri traffík varð ég ennþá sannfærðari.  


En þrátt fyrir allt þetta stress og álag þá elska ég þennan bransa. Ég elska að skapa eitthvað sem veitir fólki ánægju og skapar líf í borgum. Það er eflaust margt betra í hefðbundinni vinnu með tryggum launum, en ég veit líka innst inni að ég elska þetta meira þrátt fyrir allt – elska stressið og hversu óútreiknanlegt allt er í veitingabransanum. Ég er ótrúlega stoltur af þessu verkefni og það er fátt skemmtilegra en að sjá fólk njóta lífsins á stað sem maður skapaði.


(Hérna er heimasíða og Instagram fyrir Sthlm City Food Hall).

La Masa, mexíkósk taqueria

Ég er núna staddur á Íslandi til að hjálpa við að opna nýjan veitingastað. Á næsta ári eru 19 ár frá því að ég stofnaði Serrano í Kringlunni, sem náði heldur betur að slá í gegn. Það eru 6 ár síðan að ég seldi Serrano og einbeitti mér að því að reka Zócalo í Svíþjóð og núna eru líka meira en tvö ár síðan að ég seldi Nam frá mér. Ég hef því ekki komið að veitingarekstri á Íslandi í langan tíma.

Ég hef einbeitt mér að því að byggja upp Zócalo í Svíþjóð þar sem við erum með 12 staði (þar af 10 reknir af Franchise aðilum) og 3 staði í Danmörku (sem eru reknir af Franchise aðilum). Það hefur verið ævintýri, sérstaklega síðasta árið í COVID þar sem salan hefur hrunið og sumir staðir hafa verið alveg lokaðir.

—-

Í þessari COVID krísu hef ég hugsað mikið um hvað ég ætti að gera. Ein hugmyndin var sú að prófa að opna öðruvísi konsept á þeim stöðum sem myndu losna þegar að fjöldi veitingastaða myndi loka í Stokkhólmi. Ég byrjaði því að þróa konsept sem myndi passa sérstaklega fyrir eina staðsetningu sem ég hafði augun á á Södermalm. Í miðjum pælingum var haft samband við mig frá Íslandi og á endanum varð það svo að ég ákvað að opna stað á Íslandi í samstarfi við nokkra aðila sem hafa reynslu í veitingabransanum heima. Þess vegna opnuðum við La Masa – mexíkóska taquera í Borg 29 mat höllinni í Borgartúni.

Sagan á bakvið La Masa er nokkuð löng. Ég var 19 ára þegar ég fékk sumarvinnu í Mexíkóborg hjá Chupa Chups. Ég man alltaf eftir fyrsta kvöldinu þegar ég fór á taqueria stað nálægt húsinu þar sem ég bjó og prófaði í fyrsta skipti alvöru tacos. Lyktin af fersku kóríander og nýjum tortillum var æðisleg. Seinna um sumarið flutti ég yfir á annan stað í Mexíokóborg og við hliðiná innganginum í íbúðina var tortilleria, lítið bakarí sem bjó til ferskar maís tortillur á hverjum degi. Lyktin var ótrúlega sterk og góð og ég gat borðað maís tortillur í hvert mál.

Svo liðu árin og þegar ég var búinn í háskóla hafði ég líka kynnst amerískri útgáfu af mexókóskum mat í formi burrito staða einsog Chipotle og Baja Fresh og það var fyrirmyndin að Serrano þegar við opnuðum þann stað í nóvember árið 2002.

—-

Ég hef alltaf á ferðalögum mínum leitað uppi staði sem selja ekta mexíkóskan mat en nánast alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Ég hef fengið virkilega góðar tacos í Madríd og í Ködbyen í Kaupmannahöfn en það eru nánast einu staðirnir. Á öllum hinum stöðunum hefur mér liðið einsog ég gæti gert þetta betur. Fyrir nokkrum árum vorum við fjölskyldan stödd í Miami og beint fyrir framan hótelið var úti staður sem seldir tacos, sem eru án efa bestu tacos sem ég hef fengið utan Mexíkó. Ég fór að grennslast um hvað væri leyndarmálið á bakið staðinn og komst fljótt að því að allt snérust um tortillurnar.

Hugmyndin á bakvið La Masa er einfaldlega að gera bestu tortillur sem við mögulega getum gert. Við flytjum inn Conico Azul maís frá Atlacomulco í stórum sekkjum frá maísekru, sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í fimm kynslóðir. Á hverjum degi eldum við maísinn og látum hann svo liggja í bleyti yfir nótt. Daginn eftir mölum við maísinn í stórri maískvörn sem við keyptum frá Mexíkó. Úr því verður deigið – La Masa, þaðan sem nafnið á staðnum er komið. Við setjum svo deigið í tortilla pressu og út koma litlar tortillur sem við síðan grillum þegar að pöntun kemur frá gestum staðarins.

Lykillinn á bakvið góðar tacos eru góðar maís tortillur. Þess vegna verð ég alltaf fyrir vonbrigðum þegar ég fer á metnaðarfulla mexíkóska staði, sem selja frosnar maís tortillur. Á La Masa tökum við þessar fersku tortillur, setjum oná þær kjöt (al pastor svínakjöt, bbq kjúkling, barbacoa lambakjöt), fisk (djúpsteikta löngu) eða portobello sveppi og svo geta gestir bætt við lauk, kóríander og salsa sósum. Auk þess seljum við ferskar djúpsteiktar nachos með fersku guacamole og litlar quesadillas. Til að toppa þetta er seljum við svo bjór á krana, margarítur og margar tegundir af tekíla og mezcal. Planið er að á staðnum verði salsabar þar sem fólk getur valið eigin sósur, lauk, kóríander og slíkt einsog tíðkast á mexíkóskum taquerias, en það er ekki hægt akkúrat núna.

La Masa opnar í Borg 29 mat höll í Borgartúni. Sjá nánar á Instagram: @lamasaiceland og heimasíðunni LaMasa.is

Zocalo – Fresh Happy Mex

Núna eru 4 ár síðan að við opnuðum okkar fyrsta Serrano stað í Svíþjóð. Á þeim tíma höfum við lært ansi margt og þetta hefur verið oft á tíðum mjög erfitt, en það hefur líka gengið vel og verið ótrúlega skemmtilegt.

Fyrir um ári fórum við að ræða um möguleika á að breyta konseptinu aðeins og taka mið af því sem við höfum lært á síðustu árum. Munurinn á pantanamynstri á milli Svíþjóðar og Íslands er nokkuð mikill. Flestir heima velja sjálfir sinn mat og fólk kemur inná staðinn á mjög breiðu tímabili yfir daginn. Í Svíþjóð panta hins vegar nánast allir af matseðli og gríðarlega stór hluti af gestunum kemur á mjög stuttu tímabili í hádeginu. Þess vegna vildum við breyta því aðeins hvernig við afgreiðum matinn og byggjum upp staðina.

Við höfum líka verið sannfærð um að það sé hægt að gera matinn betri. Í haust ákvaðum við því að veita Alex Sehlstedt, yfirkokkinum okkar, sem gerði líka Nam konseptið með okkur, fullt frelsi til að endurhugsa algjörlega okkar matarkonsept. Hann fékk nokkra mánuði til að hugsa konseptið alveg frá grunni einsog hann myndi vilja hafa það.

Þriðja breytingin sem við veltum fyrir okkur var svo á nafninu Serrano. Síðasta sumar hófum vinnu með Íslensku Auglýsingastofunni til að vera markvissari í markaðsaðgerðum á Íslandi og í Svíþjóð. Við unnum þá vinnu með frábæru fólki á þeirri stofu og ein spurningin sem kom upp í viðtölum við starfsfólk og kúnna í Svíjþóð var um nafnið Serrano. Málið er að þegar að við opnuðum Serrano á Íslandi þá tengdi fólk orðið ekki við neitt sérstakt og því gátum við eignað okkur það á Íslandi. Serrano er nafnið á mexíkóskum chili pipar en í Evrópu er það líka þekkt sem spænsk skinka.

Og það var svo að í Svíþjóð lendum við sífellt í því að fólk heldur að við séum tapas staður. Þetta er vandamál sem við töldum að myndi aðeins aukast eftir því sem við myndum (vonandi) færa okkur sunnar í álfunni.

Því tókum við ákvörðun í október á síðasta ári að skipta um nafn á Serrano stöðunum í Svíþjóð (staðirnir á íslandi munu áfram heita Serrano). Við fórum nokkra hringi með nöfn. Íslenska auglýsingastofan spreytti sig á verkefninu og ég, Emil og yfirstjórnendur í Svíþjóð reyndum okkur líka. Ég fór yfir punktana frá því þegar við ákváðum Serrano nafnið í upphafi og við fórum í gegnum ansi mörg spænsk orð í leit að einhverju sem mér fannst passa við okkar stað. Ég skoðaði laganöfn og heiti á lestarstöðvum og bæjum í Mexíkó. Eitt laugardagskvöldið fékk ég mér bjór á bar hérna í nágrenninu og þar sannfærðist ég um hvað væri rétta nafnið fyrir nýja staðinn.

Eftir smá samtöl við Emil og stjórnendurna í Svíþjóð urðum við sammála um hið nýja nafn.

Zocalo Fresh Happy Mex
Zocalo Fresh Happy Mex

Zocalo er heitið á stærsta torginu í Mexíkóborg. Það er staður þar sem fólk hittir sína vini og fjölskyldumeðlimi, skemmtir sér og borðar góðan mexíkóskan mat. Alveg einsog veitingastaðurinn okkar.


Hér er heimasíða Zocalo og hér erum við á Facebook.

Frá og með 10.apríl munum við því gera breytingar á veitingastöðunum hér í Svíþjóð. Allir munu þeir loka í einhverja daga og þá munum við breyta afgreiðslunni. Á Zocalo pantar fólk við kassa af matseðli, borgar og fær bíper. Um leið og maturinn er tilbúinn þá pípir bíperinn og þú getur sótt matinn hjá eldhúsinu. Þannig forðumst við þær löngu raðir sem hafa myndast í hádeginu á stöðunum hérna úti. Í stað þess að eyða hádeginu í röð þá geturðu beðið í sætinu þínu og spjallað við þá sem þú ætlar að borða með.

Við munum líka breyta ytra útliti staðanna – við málum þá í ljósari litum og lýsum upp staðina. Við bætum inná stærstu staðina stórum listaverkavegg með mynd af Zocalo torgi, máluðu af sænskum listamanni Nina Wennersten.

Zocalo Mural
Zocalo Mural

Matseðilinn mun síðan breytast talsvert. Við gerum réttina einfaldari, tökum suma rétti út, lögum aðra og bætum við nýjum hlutum. Stærsta breytingin er að við bætum við tacos á matseðilinn okkar og einnig flóknari réttum á kvöldin. Staðirnir okkar hafa verið miklir hádegisstaðir en takmark okkar er að fá inn miklu fleira fólk á kvöldin. Því munum við byrja með fajitas og mexíkóska smárétti, sem við bindum miklar væntingar við.


Það er líka mikið að gerast í sjálfu fyrirtækinu okkar. Stærstu fréttirnar er að við erum komin með stóran sænskan fjárfesti með okkur í lið, en það er Gavia Food Holding, sem að átti áður Santa Maria vörumerkið. Það er gríðarlegur styrkur og viðurkenning fyrir okkar vinnu að fá svo sterkan sænskan fjárfesta í lið með okkur.

Við munum einnig á næstu þremur mánuðum opna þrjá frábæra staði í miðbæ Stokkhólms. Það að finna góðar staðsetningar fyrir veitingastaði í miðbæ Stokkhólms er eiginlega ómögulegt. Í þessi fjögur ár hefur ekki liðið sá dagur að ég hafi ekki leitað á einhvern hátt að staðsetningum. Ég hef fundað með ábyggilega vel flestum stórum fasteignaeigendum í Stokkhólmi og skoðað flesta veitingastaði í borginni. Vegna þess hversu sterkur réttur leigjenda er þá er nánast ómögulegt að fá pláss á góðum stað án þess að borga fyrir það mjög háar upphæðir í lyklagjald.

Því eru þessir staðir hreint stórkostlegir fyrir okkar konsept. Það er að vissu leyti tilviljun að allir þessir staðir skuli opna með svo stuttu millibili en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera algjörar AAA staðsetningar í miðbæ Stokkhólms. Við opnum fyrst um miðjan apríl á Kungsgatan 25 í nýju food-courti – K25 – þar sem ung og flott veitingastaðakonsept eru samankomin. Auk okkar eru þar Vigårda (sem hin sterka F12 grúppa á), Yoi, Panini, Beijing 8 og fleiri flottir staðir.

Í maí munum við svo opna okkar stærsta og flottasta stað á Klarabergsgatan 29, alveg við Sergels Torg. Meira miðsvæðis er ekki hægt að vera í Stokkhólmi. Sá staður mun vera með um 150 sæti á einni fjölförnustu götu Stokkhólms. Og í sumar munum við opna á Regeringsgatan 20, einnig mjög miðsvæðis aðeins 50 metrum frá Kungsträdgården. Við teljum að allir þessir staðir muni verða stærri en okkar stærsti staður í dag.

Þannig að næstu vikur verða spennandi. Það hefur verið mikið að gera í að undirbúa þetta allt og það er auðvitað mikið eftir, en við gætum ekki verið spenntari fyrir komandi vikum.

Serrano 10 ára

Serrano er 10 ára í dag.

Fyrir 10 árum vorum við Emil staddir á Stjörnutorgi að reyna að koma veitingastaðnum okkar stað af stað. Fjórum klukkutímum á eftir áætlun og án þess að ég hafi nokkurn tímann smakkað Serrano burrito þá opnuðum við staðinn. Ég hef rakið sögu þess hvernig staðurinn í þessu bloggi hér.

Þá sögu skrifaði ég fyrir 8 árum og á þessum átta árum hefur auðvitað gríðarlega mikið breyst. Fyrstu árin þá rákum við Emil Serrano í aukavinnu á meðan að við sinntum báðir annarri vinnu. Á því tímabili í mínu lífi lærði ég mikið, en á endanum þá ákvað ég að byrja í fullu starfi á Serrano í lok árs 2006 og Emil byrjaði svo ári síðar.

Ég hafði nægilega trú á konseptinu, mér fannst gaman af því að reka staðinn, ég var stoltur af fyrirtækinu og ég var viss um að Serrano væri það sem ég vildi vinna við allan daginn, alla daga. Það er mikilvægt að hafa trú á því sem maður er að selja í vinnunni og það hef ég í dag.


Það má segja að stærsta árið í sögu Serrano hafi verið 2007 þegar að við opnuðum okkar annan stað á Hringbraut. Sá staður hefur frá opnun verið okkar söluhæsti staður. Við höfum oft verið heppnir á þessum 10 árum. Til dæmis datt fyrsti staðurinn okkar í Kringlunni eiginlega í hendurnar á okkur eftir að við höfðum í marga mánuði verið að bíða eftir stað i í Smáralind, sem ekkert varð úr. Akkúrat á þeim tíma var Popeye’s að hætta á Íslandi og okkur bauðst að kaupa staðinn þeirra í Kringlunni.

Staðurinn okkar á Hringbraut var upphaflega teiknaður fyrir annan skyndibitastað, sem að hætti við. Einhver starfsmaður á arkitektastofunni hafði heyrt um Serrano og í framhaldi af því var haft samband við okkur og við fengum bilið. Eftirá að hyggja var það ótrúleg heppni.

Árið 2007 opnuðum við líka staðinn okkar í Smáralind, sem að við keyptum af WOK bar Nings. Ári seinna keyptum við svo veitingastaðinn Síam og opnuðum þar Serrano stað (og héldum rekstrinum á Síam áfram í einhverja mánuði án árangurs). Sá Serrano staður var lítill í byrjun en hefur með árunum stækkað gríðarlega. Seinna það ár opnuðum við svo Serrano á nýrri N1 bensínstöð á Bíldshöfða. Við hliðiná okkur þar var rekinn Pizza Pronto en á síðasta ári tókum við yfir þann stað og byrjuðum með NAM konseptið.

Svo kom hrun, en árið 2008 var samt sem áður okkar langbesta ár. Og 2009 var aftur okkar söluhæsta ár – met sem við svo toppuðum 2010, 2011 og munum líklega gera á þessu ári líka. Árið 2009 opnuðum við Serrano stað á Höfðatorgi. Svo tókum við okkur frí í þrjú ár frá byggingu á nýjum stöðum á Íslandi þangað til að við opnuðum stað í Spönginni í september.


Auðvitað þarf maður slatta af heppni til að halda úti veitingafyrirtæki í 10 ár. Við hittum á rétt konsept á réttum tíma og við höfum á mörgum tímapunktum verið verulega heppnir með það starfsfólk, sem hefur unnið með okkur.

En við höfum líka alltaf hugsað um matinn og reynt að bæta matinn og upplifunina á staðnum (og þar erum við rétt að byrja!). Við höfum haldið verðlagningunni sanngjarnri (jafnvel þegar að dunið hafa á okkur kostnaðarhækkanir þá höfum við reynt að hagræða í rekstri í stað þess að velta hækkunum útí verðið á matnum) og við höfum gert mikið til að halda okkar besta starfsfólki.

Ég og Emil erum enn bestu vinir eftir 10 ár í þessu samstarfi. Að vísu vinnum við í tveimur löndum, en við þurfum samt að glíma við allar erfiðar ákvarðanir saman, sem okkur hefur tekist að gera þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í rekstrinum í gegnum tíðina.

Þetta hafa verið frábær 10 ár og ég er í dag gríðarlega stoltur af Serrano og því starfi sem við höfum unnið. Við eigum og rekum í dag 12 Serrano staði og þeim mun líklega fjölga nokkuð hressilega á næstunni. Við vitum að við getum gert marga hluti betur og ég get fullvissað alla um að við munum aldrei hætta að leita að hlutum til að bæta matinn, upplifunina og konseptið.

Þið sem hafið unnið með okkur í gegnum tíðina, verið tryggir viðskiptavinir og hjálpað okkur persónulega vil ég bara segja TAKK!

Punktar fyrir fólk í atvinnuleit

Ég hef lengi ætlað að setja saman stutta færslu með punktum fyrir fólk, sem er að sækja um vinnu. Ég hef rekið fyrirtæki í 9 ár og hef oft hugsað með mér hversu margar vitleysur fólk gerir þegar það sækir um vinnu og hversu oft þetta eru sömu vitleysurnar ár eftir ár. Og fólk í Svíþjóð gerir oft sömu mistök og fólk á Íslandi.

Ég tek það fram að ég hef ekki verið að ráða fólk til að vinna sem verkfræðingar hjá Google. Að langmestu leyti hef ég séð um að ráða fólk í afgreiðslu- og eldhússtörf á Serrano. En ég hef auðvitað líka ráðið í stjórnunarstöður í fyrirtækinu, sem að fólk sér sem sína vinnu til margra ára.

Hérna eru nokkur ráð, sem ég held að margir gætu haft gagn af, sérstaklega þegar sótt er um þjónustustörf.

1. Hafðu starfsferilsskrána þína eina síðu. Ekki meira. Ég þarf ekki að lesa um hvaða vinnu þú vannst árið 1995. Ég get ekki séð hvernig það getur talist jákvætt að lista 10 ólík störf á ferilsskránni. Þegar ég var í háskóla þá var hamrað á því aftur og aftur við okkur að CV ætti ekki að vera lengra en ein síða og sem atvinnurekandi skil ég þá reglu mjög vel.
2. Ef þú ert að sækja um í mjög ólíkar vinnur á sama tíma, breyttu þá CV-inu þínu eftir því hvaða umsókn þú lætur það fylgja með. Ef þú ert að sækja um sem veitingastjóri á Serrano, þá skiptir það mig ekki miklu máli að þú hafir unnið með börnum. Og ef þú ert á leikskóla skiptir það væntanlega skólann ekki máli að þú hafir unnið sem forritari hjá banka.
3. Ef þú hefur mynd af þér með starfsfumsókninni, ekki vera í jakkafötum, nema þú sért að sækja um vinnu þar sem ætlast sé til þess að fólk vinni í jakkafötum. Ekki þegar þú sækir um í verslun eða á veitingastað. Ef ég fæ umsókn með mynd af umsækjanda í jakkafötum með bindi þá geri ég ráð fyrir að hann hafi takmarkaðan áhuga á að vinna við afgreiðslu á veitingastað.
4. Ekki sækja um vinnu sem þú hefur ekki áhuga á. Veldu störf sem þú hefur áhuga á og sæktu um þau. Fólk sem ræður í vinnur á veitingastöðum, í verslunum og slíkum stöðum, er alltaf hrætt við háa starsfmannaveltu og er ólíklegt að ráða fólk sem það telur ekki hafa áhuga á vinnunni.
5. Ef þú hefur áhuga á vinnu, sem þú ert á pappírnum “of hæf/ur” fyrir, þá þarftu að láta sérstaklega vita að þú sért að sækja um stöðuna af einlægni. Ef þú ert með masters gráðu í mannauðsstjórnun en ert að sækja um í venjulegu verslunarstarfi láttu það þá koma fram í viðtalinu eða á umsókninni að þú hafir virkilega áhuga á þessari stöðu. Sá/sú sem tekur viðtalið við þig hugsar ábyggilega að þú sért of hæf/ur. Ef þú hugsar þér að vinna bara í eitt ár – láttu það þá koma fram. Það útskýrir oft af hverju fólk með mikla menntun sækir um í störfum þar sem ekki er þörf á menntun. Ansi margar verslanir og veitingastaðir eru tilbúnir að taka inn gott fólk í styttri tíma. Ef þú sérð þig í ákveðnu starfi í takmarkaðan tíma láttu þá vita af því. Það er alls ekki alltaf neikvætt.
6. Lestu þér til um fyrirtækið áður en þú mætir í viðtal. Ef þú hefur einhverja góða reynslu af fyrirtækinu, segðu þá frá því. Þeir sem eru að ráða hafa gaman af því að heyra hrós einsog allir aðrir. Ef þú ert að sækja um á Serrano og finnst maturinn okkar góður segðu þá frá því. Ef þú ert að sækja um í Bónus og verslar í Bónus – segðu þá frá því. Ef þú ert að sækja um í fatabúð talaðu um hvað þú hefur mikinn áhuga á fötum.

Þetta eru helstu punktar sem er að mínu mati gott að hafa í huga. Eflaust er hægt að taka til miklu fleiri hluti, en það gæti eflaust hjálpað mörgum að hafa þetta í huga. Og það má vel vera að aðrir sem eru að ráða í stöður horfi öðruvísi á hlutna, en þetta eru allavegana mínar ábendingar.

NAM – Nútíma asísk matargerð

Á næstu vikum munum við opna veitingastaðinn NAM.

NAM stendur fyrir Nútíma asísk matargerð, eða gæti verið stytting á “Víetnam” – (einsog “þetta er nú ekkert miðað þegar ég var í ‘Nam.”).

Að einhverju leyti mun NAM líkjast Serrano því maturinn verður afgreiddur úr afgreiðsluborði og fólk mun hafa umtalsvert val þegar það borðar hjá okkur.

Maturinn verður eitthvað alveg nýtt og öðruvísi en fólk á að venjast frá asískum mat á Íslandi. Við horfum til stórs hluta Asíu og höldum okkur ekki við eitt landsvæði þegar að kemur að áhrifum á matinn. Bæði eru mikil áhrif frá Kína og einnig löndum einsog Víetnam. Úr þessu verður til eitthvað alveg nýtt.

Alex Sehlstedt, sem er yfirkokkur Serrano í Svíþjóð, hefur séð um þróun matarins á NAM en hann hefur mikla reynslu af asískri matargerð. Við stefnum að því að opna staðinn um miðjan desember. Ég mun uppfæra Facebook síðuna með meiri upplýsingum um matinn og staðinn þegar að nær dregur opnun. En ég hvet alla sem hafa áhuga um að fylgjast með okkur á Facebook síðunni okkar.

Við munum bjóða uppá hrísgrjóna- og núðlurétti, núðlusúpu, salöt, Banh Mi samlokur og dumplings. Þetta verður spennandi.

Serrano í Svíþjóð vinnur verðlaun

Á mánudagskvöldið unnum við á Serrano í Svíþjóð virt sænsk verðlaun, sem veitt eru til veitingastaða ár hvert.

Anders rekstrarstjóri, ég og Alex yfirkokkur með verðlaunin

Restauranggalan er verðlaunaafhending, sem skipulögð er ár hvert af blaði, sem að fjallar um veitingastaðabransann, og er styrkt af fjölmörgum birgjum í greininni. Afhendingin var á mánudagskvöld í glæsilegum sal á frægasta hóteli Stokkhólms – Grand Hotel.

Á verðlaunaafhendingunni voru nokkrir flokkar, svo sem bar ársins (sem að Orangeriet vann) og veitingastaður ársins (sem að Frantzén / Lindeberg vann) auk einstaklingsverðlauna (einsog sommelier ársins). Serrano var tilnefnt í flokknum Årets Smaksättare. Það er kannski erfitt að þýða þann titil nákvæmlega. Orðið má skilja bæði sem “bragðefni” og einnig nokkurs konar “trend-setter”. Dómefndin útskýrði leit sína þannig að þeir leituðu eftir stöðum, sem að kæmu með nýja hugsun inná sænska markaðinn og væru óhræddir við að standa á bakvið sínar hugmyndir (versus það að reyna að gera allt bragðminna og meira sænskt). Í fyrra vann staðurinn Marie Laveau á Södermalm (sem ég held uppá) þessi sömu verðlaun.

Við vorum tilnefnd ásamt einum öðrum stað og við unnum verðlaunin. Þetta var auðvitað frábært því að allir hinir staðirnir, sem voru tilnefndir og unnu verðlaun voru fínir og dýrir veitingastaðir, en við vorum eini skyndibitastaðurinn sem vann verðlaun. Það sýnir kannski að okkur hefur tekist það markmið okkar að setja á markað hérna mat, sem er í sama gæðaflokki og hefðbundnir veitingastaðir selja – en er afgreiddur á fljótan hátt og er ódýr.

Í dómnefnd voru 30 sérfræðingar og í niðurstöðum sínum þá gáfu þau þessa umsögn um Serrano:

>Mexíkóskur skyndibiti fór í ferðalag til Kaliforníu, keypti sér ný föt, fékk nýtt nafn og endaði í Stokkhólmi. Nú hefur hin heita og ódýra skyndibitakeðja flutt sig inní stórborgina og býður þar uppá kryddsterkan og litríkan skyndibita. Orðið ferskt er ekki nægilega sterkt til að lýsa staðnum.

Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld og það er frábært að fá svona viðurkenningu á því að það er fólk þarna úti sem kann að meta það sem við erum að reyna að gera hérna í Stokkhólmi. Það gekk ekki allt einsog smurt þegar að við opnuðum fyrir rúmu ári hérna í Svíþjóð, en núna finnst okkur einsog hlutirnir séu að gerast og að framtíðin sé björt fyrir okkur hérna.

Númer 9

Á föstudaginn opnuðum við okkar þriðja Serrano stað í Stokkhólmi og þann níunda alls. Þessi staður er í verslunarmiðstöð í Liljeholmen, sem er í suð-vesturhluta Stokkhólmar – beint fyrir vestan eyjuna Södermalm, sem ég bý á. (sjá á korti hér).

Þessi staður hefur ekki verið lengi í undirbúningi. Við töluðum fyrst við eigendur mallsins í byrjun sumars – og eftir smá viðræður um hvaða staðsetningu við myndum fá og fyrir hvað þá skrifuðum við undir samning í ágúst. Nokkrum dögum síðar byrjuðum við svo framkvæmdir.

DSC_8946.jpg
Kvöldið fyrir opnun

Eftir því sem stöðunum fjölgar þá minnkar stressið fyrir opnun hvers nýs staðar. Fyrir opnun staðarins á föstudaginn var ég nokkuð viss um að ég væri kominn með það alveg á hreint hvernig ætti að opna Serrano stað með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. En í þessari opnun fór nánast allt úrskeiðis, sem mögulega gat farið úrskeiðis. Þetta er ekki tæmandi listi:

* Við ætluðum að opna á fimmtudaginn, en á þriðjudag var ljóst að það myndi ekki takast. Næsta plan var þá að opna á föstudag kl 10 en á endanum opnuðum við ekki fyrr en um hálf eitt þegar að við höfðum misst af flestum hádegiskúnnunum.
* Nánast öll tæki komu of seint. Frystirinn kom ekki fyrr en daginn sem við ætluðum að opna, quesadilla og tortilla grill eru ekki enn komin og svo framvegis.
* Frystirinn virkaði ekki þar sem það gleymdist í verksmiðjunni að setja á hann kælivökva.
* Netið virkaði ekki, þar sem við fengum vitlausar DNS tölur frá Telia. Netið virkaði ekki fyrr en um 3 leytið á föstudaginn (fram að því tókum við bara við peningum).
* Smiðirnir náðu ekki að klára sín verkefni á réttum tíma – og voru í raun meira en viku á eftir áætlun. Það hefur ekki gerst áður hjá okkur í Svíþjóð.
* Skjáirnir, sem við áttum að fá fyrir matseðlana, eru staddir í Amsterdam. Okkur tókst á síðustu stundu að redda öðrum skjám á meðan við biðum eftir hinum.
* Allt leirtau er enn fast í tolli í Suður-Svíþjóð. Við þurftum að redda okkur með leirtaui frá hinum Serrano stöðunum.
* Skeiðar í afgreiðsluborð töfðust um 6 vikur.
* Fyrirtækið, sem útbjó baklýst Serrano logo fyrir okkur á staðinn klúðraði málunum og hafði gaffalinn öfugan. Þegar þeim tókst að útbúa nýjan gaffal í tíma þá týndist sendingin á leiðinni. Hún hefur ekki enn fundist.

Og svo framvegis og framvegis. Veitingastjórinn hjá okkur í Liljeholmen er íslenskur strákur, sem þýðir að tveimur af þremur Serrano stöðum hérna í Svíþjóð er stjórnað af Íslendingum, sem hafa gert virkilega vel. Það voru þó allir orðnir verulega þreyttir og stressaðir þegar okkur loksins tókst að opna þrátt fyrir allt þetta klúður.

DSC_8974.jpg
Fólk í biðröð stuttu eftir opnun

Og fyrstu dagarnir lofa svo sannarlega góðu. Svo góðu að nánast allur matur kláraðist og það þurfti að ræsa út fólk úr mið-eldhúsinu í gær og ég stóð í allan gærdag og skar tómata, eldaði kjúkling og fleira sem tilheyrir. Margrét vann á kassa allan gærdaginn og daginn í dag og kærasta Núma, veitingastjóra, var í uppvaskinu allan daginn.

Þannig að þetta sýnir að það er ekki auðvelt að opna nýjan veitingastað og sama hversu vel manni finnst maður hafa undirbúið opnuna þá eru svo ótrúlega margir hlutir, sem geta klikkað. En staðurinn lítur ótrúlega vel út og salan lofar góðu, þannig að ég er bjartsýnn á framhaldið.

Fyrsta vikan á Kungsbron

Núna eru 10 dagar síðan að við opnuðum Serrano á Kungsbron. Einsog ég hafði skrifað hérna áður þá er þetta stóra prófið fyrir Serrano hérna í Svíþjóð, því þetta er staður á besta stað í miðbæ Stokkhólms.

Staðurinn hefur gengið gríðarlega vel fyrstu dagana. Það hefur verið biðröð útá gangstétt í hverju einasta virka hádegi síðan að við opnuðum og við þurftum að beina biðröðinni í annan farveg til þess að það gerðist ekki alltaf. Við vorum líka með stóran event á 5.maí, sem er hátíðsdagur í Mexíkó. Þá dreifðum við miðum um allan miðbæinn þar sem fólk gat fengið ókeypis burrito. Það er skemmst frá því að segja að úr því varð ein allsherjar geðveiki. Við afgreiddum á staðnum á Kungsbron fleira fólk en við afgreiddum í Kringlunni tveim dögum fyrir síðustu jól (sem var stærsti söludagurinn okkar hingað til).

Fyrir mig persónulega þá hafa þetta verið skemmtilegir dagar. Í fyrsta skipti í langan tíma hef ég unnið mikið sjálfur á staðnum í afgreiðslunni. Ég hef verið að taka á móti kúnnum við tortilla grillið og tekið við pöntunum frá fólki. Þetta hefur verið skemmtilegt og maður kemst í betri tengsl við staðinn og viðskiptavinina. Anders rekstrarstjóri hefur svo verið mikið í salnum að spjalla við kúnnana og það er óhætt að segja að viðbrögðin við matnum og staðnum hafi verið frábær hjá kúnnum. Þannig að við erum mjög bjartsýn fyrir framhaldið.

Hérna eru nokkrar myndir af staðnum:

Goseyjan og afgreiðslan á staðnum.

Salurinn
Salurinn.

Staðurinn að utan
Staðurinn að utan.

Serrano í miðbæ Stokkhólms

Í dag eru bara tvær vikur í að við opnum næsta Serrano staðinn hérna í Svíþjóð.

Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessari opnun því þetta er sú mest spennandi staðsetning sem við höfum opnað stað á hérna í Svíþjóð. Fyrstu tveir staðirnir sem við opnuðum voru í úthverfum, en þessi er í miðbænum. Staðurinn er í nýbyggingu á Kungsbron, sem er gata sem tekur við af Kungsgötunni og nær frá miðbænum yfir á eyjuna Kungsholmen. Þetta svæði er í gríðarlega mikilli uppbyggingu, enda er þetta í raun eina svæðið í miðbæ Stokkhólms þar sem má byggja nýbyggingar. Byggingin sem Serrano er í er byggð ofaná brautarteinum og það á við um margar byggingar þarna í nágrenninu. Serrano staðurinn er því nálægt Aðal-lestarstöðinni í Stokkhólmi.

Þetta verður líka stærsti Serrano staðurinn sem við höfum opnað hingað til, með sætum fyrir um 70 manns. Það er umtalsvert meira en á stærsta staðnum heima á Íslandi. Þannig að það er auðvitað talsverð áhætta af þessari staðsetningu – hún er ekki ókeypis – en þarna í nágrenninu vinnur og býr mikið af fólki.

Ég tók nokkrar myndir þarna í dag og í gær og þær eru hér að neðan:

Staðurinn að utan. Í dag eru þarna merkingar um að við séum að fara að opna 29.apríl.

Afgreiðslan. Þarna er komið afgreiðsluborðið sem var smíðað hjá Frostverk í Garðabæ

Salurinn. Í honum verða básar og leðurbekkir sem eru smíðaðir hjá GÁ Húsgögnum í Reykjavík.

Serrano staðirnir verða þó eftir sem áður tveir því við ákváðum að loka fyrsta staðnum okkar (það var gert í gær) og færa tæki og annað yfir á Kungsbron. Sú staðsetning virkaði einfaldlega ekki nægilega vel. Við erum þó sannfærðir um að staðurinn á Kungsbron eigi eftir að slá í gegn hjá Svíum. Við munum opna 29.apríl.