Á föstudaginn opnuðum við okkar þriðja Serrano stað í Stokkhólmi og þann níunda alls. Þessi staður er í verslunarmiðstöð í Liljeholmen, sem er í suð-vesturhluta Stokkhólmar – beint fyrir vestan eyjuna Södermalm, sem ég bý á. (sjá á korti hér).
Þessi staður hefur ekki verið lengi í undirbúningi. Við töluðum fyrst við eigendur mallsins í byrjun sumars – og eftir smá viðræður um hvaða staðsetningu við myndum fá og fyrir hvað þá skrifuðum við undir samning í ágúst. Nokkrum dögum síðar byrjuðum við svo framkvæmdir.
Kvöldið fyrir opnun
Eftir því sem stöðunum fjölgar þá minnkar stressið fyrir opnun hvers nýs staðar. Fyrir opnun staðarins á föstudaginn var ég nokkuð viss um að ég væri kominn með það alveg á hreint hvernig ætti að opna Serrano stað með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. En í þessari opnun fór nánast allt úrskeiðis, sem mögulega gat farið úrskeiðis. Þetta er ekki tæmandi listi:
* Við ætluðum að opna á fimmtudaginn, en á þriðjudag var ljóst að það myndi ekki takast. Næsta plan var þá að opna á föstudag kl 10 en á endanum opnuðum við ekki fyrr en um hálf eitt þegar að við höfðum misst af flestum hádegiskúnnunum.
* Nánast öll tæki komu of seint. Frystirinn kom ekki fyrr en daginn sem við ætluðum að opna, quesadilla og tortilla grill eru ekki enn komin og svo framvegis.
* Frystirinn virkaði ekki þar sem það gleymdist í verksmiðjunni að setja á hann kælivökva.
* Netið virkaði ekki, þar sem við fengum vitlausar DNS tölur frá Telia. Netið virkaði ekki fyrr en um 3 leytið á föstudaginn (fram að því tókum við bara við peningum).
* Smiðirnir náðu ekki að klára sín verkefni á réttum tíma – og voru í raun meira en viku á eftir áætlun. Það hefur ekki gerst áður hjá okkur í Svíþjóð.
* Skjáirnir, sem við áttum að fá fyrir matseðlana, eru staddir í Amsterdam. Okkur tókst á síðustu stundu að redda öðrum skjám á meðan við biðum eftir hinum.
* Allt leirtau er enn fast í tolli í Suður-Svíþjóð. Við þurftum að redda okkur með leirtaui frá hinum Serrano stöðunum.
* Skeiðar í afgreiðsluborð töfðust um 6 vikur.
* Fyrirtækið, sem útbjó baklýst Serrano logo fyrir okkur á staðinn klúðraði málunum og hafði gaffalinn öfugan. Þegar þeim tókst að útbúa nýjan gaffal í tíma þá týndist sendingin á leiðinni. Hún hefur ekki enn fundist.
Og svo framvegis og framvegis. Veitingastjórinn hjá okkur í Liljeholmen er íslenskur strákur, sem þýðir að tveimur af þremur Serrano stöðum hérna í Svíþjóð er stjórnað af Íslendingum, sem hafa gert virkilega vel. Það voru þó allir orðnir verulega þreyttir og stressaðir þegar okkur loksins tókst að opna þrátt fyrir allt þetta klúður.
Fólk í biðröð stuttu eftir opnun
Og fyrstu dagarnir lofa svo sannarlega góðu. Svo góðu að nánast allur matur kláraðist og það þurfti að ræsa út fólk úr mið-eldhúsinu í gær og ég stóð í allan gærdag og skar tómata, eldaði kjúkling og fleira sem tilheyrir. Margrét vann á kassa allan gærdaginn og daginn í dag og kærasta Núma, veitingastjóra, var í uppvaskinu allan daginn.
Þannig að þetta sýnir að það er ekki auðvelt að opna nýjan veitingastað og sama hversu vel manni finnst maður hafa undirbúið opnuna þá eru svo ótrúlega margir hlutir, sem geta klikkað. En staðurinn lítur ótrúlega vel út og salan lofar góðu, þannig að ég er bjartsýnn á framhaldið.
Til lukku! Gangi þér vel með þennan sem og hina 🙂 Bíð bara rólegur eftir þessum sem opnar á Akureyri…