Afsláttarkort á Serrano

Við á Serrano höfum nú tekið upp afsláttarkortakerfi. Það er mikið búið að biðja um þetta og við viljum auðvitað gera vel við okkar fastakúnna. Sumir fastakúnnar hafa meira að segja hótað að hætta að borða hjá okkur nema að þeir fái afsláttarkort 🙂

Þannig að héreftir fær fólk miða þegar það kaupir burrito eða tacos (3 eða 4stk). Þegar fólk hefur safnað 7 miðum fær það frían burrito hjá okkur (þegar keyptur er drykkur).

Við vonum auðvitað að þetta mælist vel fyrir hjá okkar kúnnum.

Nýr Serrano

SerranoJæja, þá er það skref 2 í plani okkar Emils um að yfirtaka heiminn með mexíkóskum veitingastöðum:

Áðan opnuðum við nýjan Serrano stað! Staðurinn er staðsettur að Hafnarstræti 18, við hliðiná Nonnabitum (staðurinn liggur við Lækjartorg).

Þarna verður boðið uppá sama góða matinn í þægilegu umhverfi. Um helgar verður opið langt fram á nótt.

Annars eru síðustu dagar búnir að vera léttgeðveikir. Emil ákvað að þessi vika myndi henta vel til að skella sér til Spánar, svo ég hef staðið einn í stappi við iðnaðarmenn, sem eru alveg sér þjóðflokkur. En þetta er búið að vera ofboðslega gaman.

Ég var að koma heim eftir öll lætin en við opnuðum klukkan 6. Ætla að skella mér í sturtu og svo fer ég aftur niður eftir.

Ég hvet auðvitað alla til að skella sér á Serrano. Allir fá ókeypis gos með burritos (tilboðið gildir bara til miðnættis föstudag, laugardag og sunnudag). Við verðum með opið langt fram á morgun, eða til klukkan 5 🙂

Uppfært: Þetta er mynd, sem ég tók af staðnum í dag. Á bara eftir að tengja ljósaskiltin

Egils.is

Jæja, þá er nýjasti vefurinn úr minni smiðju kominn í loftið, egils.is. Ég vann þennan vef algjörlega sjálfur, fyrir utan myndina á menuinu, sem er hannað af auglýsingastofu.

Ég er bara nokkuð stoltur af vefnum, tel að hann sé nokkuð góður. Hann fylgir minni basic stefnu, að fyrirtækjavefir eigi að vera einfaldir í útliti og aðgengilegir. Þar eigi að vera hægt að nálgast allar upplýsingar á fljótlegan og einfaldan hátt. Ég tel að Flash og leikir og læti eigi miklu frekar heima á sérstökum vörumerkjavefjum, einsog þessum hér. Drop-Down menuið er hannað í Fireworks og Dreamweaver en annars er allur annar kóði handskrifaður í BBEdit.

Núna þarf ég að klára starfsmannavef Ölgerðarinnar, sem verður innri vefur fyrirtækisins. Þegar ég er búinn að því er ég hættur að taka að mér ný verkefni í vefmálum. Ég held að ég hefði gott af því að gera eitthvað annað á kvöldin heldur en að vinna.

Einsog ávallt þá eru öll komment um síðuna vel þegin.

Kokkur á Serrano

Úff hvað þetta er búinn að vera langur dagur. Kokkurinn á Serrano var veikur í dag og því þurfti ég að fylla í skarðið. Þar sem ég er svona 10 sinnum lengur að gera alla hluti en kokkurinn, þá varð þetta langur dagur. Svo var brjálað að gera á tímabili, þannig að ég er alveg uppgefinn í lok dags. Ég held að ég hafi eytt einhverjum tveimur tímum bara í að búa til Guacamole (en mikið djöfulli varð það gott hjá mér ;-). Einnig tókst mér að rústa matvinnsluvélinni okkar. Ég var að búa til sterku sósuna þegar allt í einu byrjaði að rjúka úr vélinni og svo drap hún á sér. Emil þurfti því að keyra niðríbæ til að kaupa nýja (og betri) vél.

Annars hef ég lítið skrifað um Serrano undanfarið. Þetta er farin að vera miklu meiri rútína. Staðurinn gengur mjög vel og erum við ótrúlega sátt við móttökurnar. Ég er nánast hættur í afgreiðslunni, enda var það alltaf ætlun okkar Emils að draga okkur útúr þeim störfum. Núna er ég að ég held búinn að kynnast öllum hliðum afgreiðslunnar og því læt ég starfsfólkinu eftir að sinna því í framtíðinni.

Ég held líka að bæði maturinn og afgreiðslan sé mun betri núna en hún var þegar við byrjuðum. Við erum búnir að gera ótrúlega margar smávægilegar breytingar á matnum og afgreiðslunni. Þegar við byrjuðum vissum við Emil náttúrulega ekkert um það hvernig á að reka veitingastað. Í dag erum við engir sérfræðingar en við erum allavegana mun klárari en við vorum í byrjun. Maturinn hefur breyst dálítið og er það aðallega að þakka vinum (og fyrrverandi kærustu 🙂 ), sem hafa verið dugleg við að koma með uppbyggilega gagnrýni á matinn. Ég held að í dag getum við verið stoltir af því, sem við bjóðum uppá.

By the way, þá setti ég upp á Serrano.is form til að fólk geti komið með kvartanir/uppástungur fyrir staðinn. Þannig að ef fólki finnst eitthvað að matnum, þjónustunni eða það vill stinga uppá nýjum réttum eða einhverju slíku, þá er það hægt að gera það á síðunni.

Serrano – mexíkóskur veitingastaður

SerranoÉg hef lítið sagt frá mínu lífi undanfarið á þessari síðu. Aðal ástæða þess er að ég hef verið mjög upptekinn og lítið komist nálægt tölvu. Ég er nefnilega, ásamt Emil félaga mínum, að fara að opna mexíkóskan veitingastað í Kringlunni í næstu viku.

Staðurinn heitir Serrano og verður hann í húsnæðinu, sem Popeye’s var í, við hliðiná McDonald’s. Þessi staður mun selja úrvals mexíkóskan mat. Á matseðlinum verða burritos, tacos (harðar og mjúkar) og nachos auk eftirrétta. Viðskiptavinir munu geta valið sér innihaldið í burritos eða tacos. Hægt verður að velja úr fjölmörgum tegundum af kjöti, grænmeti, salsa sósum, guacamole, osti og fleiru.

Þannig að þessa dagana erum við á fullu við að gera staðinn tilbúinn. Núna eru iðnaðarmenn að smíða veggi, mála, setja upp kæla og fleira því tengt. Ef allt gengur upp, þá stefnum við að því að opna staðinn 1. nóvember, sem er á föstudag eftir viku. Þessi dagsetning er þó ekki opinber, þar sem við vitum ekki alveg hvenær sum tæki koma til landsins. Vonandi gengur það þó eftir.