Opnun í Sundbyberg

Við opnuðum Serrano staðinn í Sundbyberg á föstudaginn.  Einsog nánast alltaf var ekki allt 100% klárt á slaginu 10.  Maturinn var ekki enn kominn allur fram í borð og afgreiðslukassinn var í ólagi.  Ég var smá stressaður og eftir að ég hafði hengt upp blöðrur fyrir utan staðinn þá var ég við hurðina tilbúinn að segja fólki að við værum ekki alveg tilbúin og myndum opna eftir smá stund.

Staðurinn að utan á föstudagskvöld

En það kom enginn fyrr en um hálf ellefu þegar að allt var tilbúið.  Stuttu seinna hópaðist svo fólkið inn og ég áttaði mig fljótt á því að ég þyrfti að hjálpa til.  Ég tók mér því stöðu við uppþvottavélina og stóð í uppvaski allt hádegið.  Við notum alvöru diska, hnífapör og glös á staðnum þannig að uppvaskið er ansi tímafrekt.  Einnig þá áttum við mjög fá eintök af sumum hlutum og því þurfti uppvaskið að vera í gangi allt hádegið.

Þetta var rosalega skemmtilegt.  Þetta fyrsta hádegi seldum við 130 manns mat án þess að hafa auglýst neitt.  Við bara tókum niður merkingarnar úr gluggunum og opnuðum hurðina.  Þetta var því frábær byrjun.  Helgin var rólegri, en hádegið í dag var svo aftur rosalega gott.  Á næstu dögum byrjum við svo að auglýsa staðinn, þannig að þetta byrjar allt saman mjög vel.

Opnun á morgun

Serrano í Sundbyberg er að verða tilbúinn og mun opna klukkan 10 í fyrramálið.

Að mörgu leyti er þetta fyrsti alvöru staðurinn okkar í Svíþjóð. Staðurinn í Vällingby er lítill og inná Subway stað og er ekki sá staður sem við viljum að Serrano sé. Sundbyberg er hins vegar stór – 150 fermetrar – með sætum fyrir yfir 40 manns. Hann er í okkar útliti, með okkar tónlist og okkar stemningu. Þetta er alvöru Serrano staður. (ég tók nokkrar myndir í dag af staðnum)

Og við erum gríðarlega stolt af þessu ölli. Emil er búinn að vera hérna úti í gær og í dag og okkur líst gríðarlega vel á staðinn. Það hefur í raun allt verið tilbúið frá því sirka kl 3 í dag. Allir iðanaðarmenn farnir og starfsfólkið hefur aðallega verið í því að þrífa, raða hlutum upp og slíkt. Í dag klukkan 5 keyrðum við svo test á matnum fyrir um 20 manns, sem að Anders rekstrarstjóri og Alex yfirkokkur höfðu boðið. Það gekk mjög vel. Við erum að breyta gríðarlega mörgu í matnum – það má segja að það sé hver einasti liður eitthvað breyttur.

Okkur fannst maturinn hérna í Svíþjóð ekki vera að virka jafn vel og heima og við vissum að við þyrftum að breyta. Þær kannanir sem við höfðum gert sýndu líka fram á það. Og því höfum við unnið með Alex yfirkokki síðustu vikur til að breyta því sem við þurfum að breyta. Í dag tókum við fyrsta alvöru testið á öllum matnum. Við vorum í raun tilbúin að fresta opnun ef það test kæmi ekki vel út en á endanum kom það rosalega vel út og okkur líst ótrúlega vel á matinn.

Á morgun þarf ég að redda nokkrum smá hlutum en annars er allt til fyrir opnun. Við ætlum ekki að byrja með neinum flugeldasýningum eða tilboðum, heldur bara opna staðinn og sjá hvort að fólk mæti ekki örugglega. Svo mun á mánudag byrja auglýsingaferhferð í nágrenni staðarins.

Þetta eru spennandi tímar og núna líður mér allavegana einsog að Serrano í Svíþjóð sé loksins byrjað af alvöru.

Vika í opnun í Sundbyberg

Núna er vika í opnun á Serrano í Sundbyberg. Ég sit hérna heima hálf veikur og reyni að skipuleggja síðustu dagana fyrir opnun. Reyndar erum við með svo gott starfsfólk í að skipuleggja opnunina að ég þarf svo sem engar svakalegar áhyggjur að hafa.

Inná Serrano í Sundbyberg

Upphaflega var opnunin plönuð næsta miðvikudag, en til að vera alveg örugg ákváðum við að fresta þessu um tvo daga. Það er því stefnt að því að taka prufukeyrslu á staðnum á miðvikudaginn. Við erum með nýjan yfirkokk hérna í Svíþjóð og hann hefur síðustu vikur verið að skoða breytingar á nokkrum hlutum á matseðlinum. Á miðvikudaginn ætlum við að prufukeyra þær hugmyndir fyrir lítinn hóp af fólki og ef það fer vel þá munum við opna staðinn fyrir almenningi tveimur dögum seinna.

Við erum að breyta nokkrum hlutum varðandi staðinn þarna í Sundbyberg. Maturinn mun svona á yfirborðinu líta eins út á matseðli – fyrir utan það að við verðum með meiri áherslu á salöt heldur en við höfum verið með hingað til. Aðaláherslan verður lögð á að laga undirstöðuhlutina í matnum og aðlaga það betur að því hráefni, sem við vinnum með hérna í Svíþjóð. Okkur hefur nefnilega fundist maturinn ekki vera alveg jafn góður í Svíþjóð og hann hefur verið heima á Íslandi.

Fyrir utan það er stærsta breytingin sú að við verðum með alvöru diska á staðnum og alvöru hnífapör. Ég tók nokkrar myndir þarna útfrá í gær. Það stærsta sem enn vantar inná staðinn er afgreiðsluborðið – þangað til það kemur er ekki hægt að klára uppröðun almennilega – en það klárast vonandi rétt eftir helgi. Opnun er semsagt skipulögð næsta föstudag 29.janúar og svo byrjar auglýsingaherferð í nágrenninu mánudaginn eftir. Þetta verður spennandi.

(fyrir þá sem eru í Stokkhólmi þá er staðurinn við Landsvägen 52 í Sundbyberg. Bláa línan Sundbyberg Centrum eða pendeltåg Sundbyberg).

Flash forritari óskast

Okkur á Serrano vantar í vinnu Flash forritara í smá vinnu.

Málið er að við höfum látið auglýsingastofu vinna fyrir okkur nýja heimasíðu fyrir Serrano. Hún er því sem næst tilbúin og við búumst við að hún fari í loftið í desember.

Hins vegar þá vantar okkur Flash forritara til að taka við síðunni þegar að hún fer í loftið.

– Annars vegar að setja inná hana sænskan texta og útbúa sænska hluta síðunnar (sama útlit og íslenska)
– Sjá um uppfærslur á bæði íslensku og sænsku síðunni þegar að þess gerist þörf.

Öll síðan er sett upp í Flash. Til að byrja með snýst starfið aðallega um að breyta texta og slíku.

Endilega hafið samband við mig einar@serrano.nu ef þið getið tekið þetta verkefni að ykkur eða vitið um einhvern góðan einstakling.

Síam lokar

Í lok vikunnar ætlum við að loka veitingastaðnum Síam.

Við keyptum staðinn sumarið 2007 af stofnendum hans. Emil þekkti til þeirra hjóna og vissi að þau höfðu áhuga á að hætta rekstrinum. Við höfðum áhuga á húsnæðinu fyrir Serrano stað og það kom fljótlega til tals að við myndum líka kaupa Síam reksturinn af þeim þar sem að okkur fannst maturinn ótrúlega góður og okkur langaði til að halda staðnum opnum áfram.

Það varð því af þeim kaupum í lok sumars 2007. Við eyddum miklum tíma í að læra allt um staðinn. Í margar vikur vorum með fólk frá okkur í eldhúsinu að læra af Tim, sem hafði eldað réttina eftir minni í mörg ár. Engar uppskriftir voru til á staðnum og þurftum við því að skrifa þær upp frá grunni og skipuleggja aðra vinnu í eldhúsinu. Við breyttum húsnæðinu líka og minnkuðum aðeins salinn á Síam til að fá meira pláss undir Serrano.

* * *

Nú höfum við rekið staðinn í rúm 2 ár og það er ljóst að reksturinn er ekki að ganga upp. Salan er aðeins meiri en hún var þegar að þau hjón hættu, en við höfðum auðvitað vonir um að auka söluna umtalsvert. Það hefur ekki tekist og því verðum við að horfast í augu við þær staðreyndir. Síam er bara örsmár hluti af veltu Serrano, en staðurinn tók samt alltof mikinn tíma fyrir yfirstjórn og aðra. Tilraunir til þess að lengja opnun, bæta þjónustu og lækka verð umtalsvert (í mikilli verðbólgu) hafa lítið hjálpað. Heldur ekki aukin áhersla á heilsusamlega rétti.

Á staðnum þar sem Síam er rekinn er líka vinnslueldhús Serrano og svo einnig Serrano staður. Vegna gríðarlega mikillar sölu á Serrano var staðan orðin þannig að vinnslueldhúsið var búið að sprengja utanaf sér allt húsnæði og þess vegna varð sífellt erfiðara að standa í rekstrinum á Síam þar sem að við þurftum á plássinu að halda undir eldhúsið. Það leiddi á endanum til þess að við ákváðum að loka Síam.

Nú má spyrja sig hvað við gerðum vitlaust. Því eitthvað hljótum við að hafa gert vitlaust því okkur tókst ekki að ná á staðnum upp þeirri sölu sem við ætluðum okkur.

* Maturinn. Þetta var það erfiðasta fyrir okkur. Það að taka við stað þar sem að einn maður hafði eldað allt í fleiri ár og reyna að reka hann árið 2007 var erfitt. Gríðarleg starfsmannavelta var á þessum tíma og við lentum trekk í trekk í að missa fólk útúr eldhúsinu, sem þýddi að við þurftum að þjálfa fólk uppá nýtt og lentum í sömu vandræðum aftur og aftur.

Við höfum ekkert reynt að spara í eldhúsinu – planið okkar var alltaf að halda sama standard þar. Í raun jukum við til að mynda við kjötskammta í réttunum og héldum sama standard í innkaupum. En hringlið á starfsfólkinu í eldhúsinu ollu því að maturinn klikkaði oft. Taílenskur matur er ekki auðveldur í eldun og tímasetning ræður þar miklu. Það var ekki auðvelt að ná því á hreint með mikilli veltu á starfsfólki.

* Staðsetningin er ekkert rosalega góð, en það vissum við svosem fyrir. Og staðurinn var eiginlega á milli þess að vera fínn staður og take-away staður. Gæði matarins voru næg fyrir fínan stað en útlit staðarins réttlæti það ekki. Þannig var hann kannski hvorki fugl né fiskur.

* Þjónustan. Ansi margir kúnnar höfðu verslað við staðinn í mörg ár. Það var kósí að koma inná Síam þegar að annar eigandi staðarins var alltaf þar til að taka á móti þér. Þau hjón gátu hins vegar einfaldlega ekki staðið lengur í rekstrinum og þótt að við höfum gert okkar besta til að halda uppi sama standard, þá voru margir kúnnar í því að bera saman þjónustuna þegar að annar eigandinn var að afgreiða við þjónstuna hjá okkur – og útúr því komum við ekki alltaf vel. Við löguðum þó ýmislegt við þjónustuna, til að mynda afgreiddum við alla sem hringdu (áður var síminn tekinn af þegar mikið var að gera) og svo framvegis.

* * *

Allavegana – þetta gekk ekki upp. Þrátt fyrir að mér persónulega hafi fundist þetta vera besti taílenski matur á landinu, þá náðum við aldrei þeirri sölu sem við gerðum okkur vonir um (Ég hef í raun ekki enn fundið betri taílenskan mat hérna í Stokkhólmi – þó hér sé allt fullt af taílenskum stöðum).

Og því ákváðum við fyrir nokkrum vikum að loka. Serrano gengur gríðarlega vel og þar eru spennandi hlutir að gerast – bæði heima og hérna í Svíþjóð. Það var raunar orðið svo að vinnslueldhús Serrano var búið að sprengja utanaf sér allt pláss og mun því plássið, sem áður var undir Síam, koma sér vel. Þetta ár á Serrano hefur verið það besta í sögu fyrirtækisins og við slógum sölumet í ágúst og aftur í september.

Síam hefur tekið upp mikinn tíma hjá okkur og okkur þótti vænt um staðinn og matinn. En á endanum var það ekki nóg og staðurinn mun loka 9.nóvember. Við eigum þó ennþá uppskriftirnar og reynsluna, þannig að kannski munum við opna staðinn aftur við tækifæri á öðrum stað.

Opnun Serrano í Svíþjóð

Það eru sennilega einhver þrjú ár síðan að við Emil byrjuðum að ræða af alvöru þann möguleika að opna Serrano stað í útlöndum. Þetta hafði verið draumur okkar frá stofnun, en við byrjuðum ekki að ræða það af alvöru fyrr en við höfðum rekið staðinn á Íslandi í nokkurn tíma. Þessar pælingar byrjuðu sem símtöl á kvöldin þar sem við ræddum hlutina fram og tilbaka. Einhverjar óljósar hugmyndir um að víst að Íslendingar væru að fíla Serrano, hvers vegna ættu ekki aðrir Evrópubúar að gera það líka?

Eflaust hafa útrásarvíkingar, sem þá voru þjóðhetjur heima á Íslandi, haft þau áhrif á okkur að okkur fannst útrás vera möguleg, en ekki fjarlægur draumur. Kannski getum við þakkað þeim að við höfðum meiri kjark til þess að láta af þessu verða.

Ég man ekki alveg hvenær Svíþjóð varð fyrir valinu. Ég hafði ekki verið neitt sérstaklega spenntur fyrir Svíþjóð alveg þangað til að ég kom fyrst til Stokkhólms. Ég varð strax ástfanginn af borginni og varð sannfærður um að þetta væri staður sem ég gæti hugsað mér að búa. Ég var einnig í miklum samskiptum við nokkra sænska birgja í gömlu vinnunni minni og þar á meðal var einn kontaktinn, sem talaði mikið við mig um það hversu mikil tækifæri hann taldi vera fyrir mexíkóskan mat í Svíþjóð. Þannig að smám saman var stefnan tekin markvisst á Stokkhólm.

* * *

Raunveruleg undirbúningsvinna fyrir opnun hefur tekið gríðarlegan tíma og sennilega meirihluta af mínum vinnutíma í næstum því eitt ár. Það má segja að lokaákvörðun hafi verið tekin í San Francisco ferð okkar Emils síðasta janúar og síðan þá hef ég unnið í þessu á fullu. Við fengum til liðs við okkur sænskt ráðgjafafyrirtæki til þess að finna staðsetningar fyrir staðina okkar. Sú vinna er enn í gangi því planið er að opna fleiri en einn stað.

Við fengum plássið í Vallingby einhvern tímann í sumar. Þegar það komst á hreint þá jókst vinnan umtalsvert. Standardinn okkar fyrir opnun hérna í Svíþjóð er auðvitað allt annar en hann var þegar við opnuðum í Kringlunni fyrir 6 árum. Allt markaðs- og þjálfunarefni hefur verið þýtt á sænsku, við höfum endurbætt matseðilinn og aukið við úrval, sem og lagað nokkra hluti í núverandi réttum og endurbætt markaðsefni. Með því að breyta matseðli og markaðsefni og á sama tíma vera að opna í nýju landi, þá jukum við pressuna og vinnuna við opnunina. En á móti þá ætti Serrano konseptið að vera þéttara og betra heldur en það var áður.

Við byrjuðum að smíða staðinn í nóvember. Vegna gjaldeyrismála var erfitt fyrir okkur að klára málin hérna úti. Við létum smíða afgreiðsluborðið heima og senda það út og það sama má segja um slatta af tækjum og öðru hlutum. Mestallt af smíðavinnunni var klárað í desember rétt eftir að ég fór heim í jólafrí.

Eftir áramót kom ég út ásamt Söndru og Elínborgu, sem eru báðar vanar af Serrano heima á Íslandi. Sandra er núna veitingastjórinn í Vallingby og Elínborg er í eldhúsinu. Það að hafa þær þarna auðveldar mér mjög lífið því þær þekkja það manna best hvernig á að reka Serrano stað. Fyrstu vikuna sem ég var hérna úti héldum við ráðstefnu þar sem við kynntum fyrirtækið og réðum í kjölfarið starfsfólk, sem byrjaði svo í þjálfun. Vikuna fyrir opnun kom svo Emil og auk þess kom Guðni yfirkokkur. Hann þurfti að breyta fulltaf hlutum þar sem að hráefnið er að mörgu leyti ólíkt því hráefni sem við notum heima.

* * *

Síðustu dagar fyrir opnun voru einsog vanalega fullir af stressi. Við höfðum ætlað að opna síðasta miðvikudag, en á mánudaginn var mér ljóst að það væri ekki hægt og því var opnuninni frestað um einn dag. Þrátt fyrir það var það ansi margt sem kláraðist ekki fyrr en á síðustu metrunum. Gosvélar og goskælar voru ekki sett upp fyrr en síðasta daginn og kassakerfið var ekki komið í lag fyrr en að kúnnarnir voru komnir í biðröð fyrir utan.

Um fjögur leytið daginn fyrir opnun tókum við loka test á staðnum. Við elduðum allan matinn og leyfðum starfsfólkinu að afgreiða einsog um alvöru viðskipti væri að ræða. Það er skemmst frá því að segja að ég var alls ekki sáttur við lokatestið. Tortillurnar, sem við vorum með, voru ekki nógu góðar og auk þess var kjúklingurinn skrítinn. Þá tók við nokkra klukkutíma stress. Mér tókst að redda nýjum tortillum og ég, Margrét og Guðni kokkur enduðum á að fara með taxa heillanga vegalengd að heildsölubúð, sem var enn opinn klukkan 9 um kvöldið. Þar tókst okkur að kaupa nokkra hluti í stað þeirra sem við vorum ekki sátt við. Það fór svo að við Guðni vorum ekki orðnir sáttir við kjúklinginn fyrr en um klukkutíma áður en að staðurinn opnaði á fimmtudagsmorgninum.

Við vorum búin að auglýsa það að 300 fyrstu kúnnarnir myndu fá ókeypir burrito og það var því gaman að sjá að fyrir klukkan 11 var strax komin biðröð fyrir utan staðinn. Allt gekk svo ótrúlega vel í opnuninni og fyrsta helgin hefur líka gengið vel. Á bakvið tjöldin hafa auðvitað komið upp ýmis vandamál, en ekkert sem að kúnninn ætti að hafa tekið eftir.

Þannig að núna er opnunin búin og við getum því farið að einbeita okkur að því hvernig má bæta staðinn og auka viðskiptin á næstu vikum. Það verður nóg í gangi á næstu vikum og mánuðum, en byrjunin lofar allavegana góðu.

Fyrsti sænski Serrano burrito-inn

Hérna er ég klukkan 4 í dag að prófa fyrsta sænska Serrano burrito-inn í Vallingby. Við vorum að taka prufukeyrslu á staðnum fyrir starfsfólkið.

Við Margrét vorum að koma heim rétt í þessu, en það er enn fólk frá okkur útí Vallingby að leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir opnunina á morgun.

Ég er hins vegar of þreyttur til að gera meira en að setja inn myndir.

Ég mun vonandi á morgun eða föstudag koma með lengri lýsingu á því hvernig þetta gerðist allt saman.

Vallingby, Vinsældir, Macworld og áramót

Ég er kominn til Stokkhólms. Hér er kalt. Skítfokkingkalt! En ég vissi það svo sem að þessir mánuðir yrðu kaldir.  Ég  er alveg til í að færa þá fórn til þess að fá almennilega sumarmáuði.

Er búinn að vinna einsog geðsjúklingur og sárvorkenni þeim sem eru í email sambandi við mig þar sem ég er búinn að dæla út verkefnum í allar áttir síðustu tvo daga.  Í dag fór ég til Vallingby þar sem staðurinn okkar er staðsettur og tók þessa mynd af staðnum með “teaser” merkingunum. Allt lítur þokkalega út og við ættum að geta opnað í kringum 21.jan einsog við áætluðum.

* * *

Vinsældir mínar á Blogg Gáttinni hafa hrapað. Í fyrra var ég í 14.sæti, en í ár er ég kominn niður í 58. sæti. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir egóið, en ég get varla búst við miklu, þar sem að færslum á þessu bloggi hefur fækkað um rúmlega helming á milli ári, aðallega á seinni hluta ársins. Kreppa segja einhverjir. Ég kenni kærustunni og meiri skemmtilegheitum um bloggleysið.  Mér fannst miklu skemmtilegra að blogga um það hversu lífið var erfitt og stelpur ömurlegar heldur en allt þetta skemmtilega.  Því fækkaði færslunum.  En núna þar sem ég er í öðru landi en nánast allir mínir vinir þá mun bloggunum eflaust fjölga.

Annars er athyglisvert að Liverpool bloggið er bara í 48.sæt á þessum lista þrátt fyrir að vera klárlega meðal 10 mest lesnu blogga á landinu. Það stafar aðallega af því að nánast allir sem lesa þá síðu fara beint inná slóðina, en ekki í gegnum Blogg Gáttina og að þar eru tiltölulega fáar uppfærslur á meðan að umræðan við hverja uppfærslu er.  Vinsælustu síðurnar á Blogg Gáttinni eru allar síður sem eru uppfærðar mjööög oft í viku.

En allavegana, ég axla fulla ábyrgð á þessu vinsældahruni. Hvernig ég axla þá ábyrgð veit ég ekki.

* * *

Annars var MacWorld í gær. Ólíkt Macworld 2006 (þar sem ég var sleeeefandi yfir iPhone) og 2007 (þar sem ég var slefandi yfir Apple TV), þá var eiginlega ekki neitt rosalega spennandi kynnt í gær. Phil Schiller var þarna í stað Steve Jobs og hann kynnti lítið spennó. Jú, nú selur iTunes lög án höfundarréttarvarna (sem mun væntanlega þýða að ég nota iTunes meira) og svo kynnti hann 17 tommu Macbook, sem ég hef nákvæmlega núll áhuga á, enda burðast ég með tölvuna með mér allan daginn og hef ekki áhuga á varanlegri vöðvabólgu í öxlunum.

Hann kynnti þó nýja útgáfu af iWork, sem inniheldur m.a. besta forrit í heimi, Keynote. Ég var að kaupa það og ákvað að uppfæra kynninguna mína fyrir morgundaginn með nýjum effectum, sem eru rosalega smart.  Ef ég fæ ekki einhver “úúú” og “aaaah” þá verð ég svekktur. Svo verður iLife uppfært í lok janúar og þar virkar iPhoto svo spennó að mig langar næstum því að skipta aftur úr Aperture.

* * *

Áramótin mín voru fáránlega skemmtileg. Ég var hjá bróður mínum í mat, skaupi og flugeldum. Eftir miðnætti héldum við félagarnir á Njálsgötunni svo ótrúlega skemmtilegt partí. Þar var ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki og það var spilað á gítar, dansað uppá borðum og stólum og drukkið langt fram eftir morgni. Ég rak síðasta fólkið út rétt fyrir átta um morguninn, sem var gríðarlega hressandi. Svona á að byrja nýtt ár.

Staðan í Vallingby

Ég er nokkurn veginn búinn að pakka niður öllu dótinu mínu og er á leið heim til Íslands á morgun, þar sem ég ætla að vera yfir jólin.  Ég get ekki beðið.

Staðan á Serrano staðnum í Vallingby er ágæt.  Framkvæmdir ganga vel og flestallt tengt opnun staðarins er í ágætis málum.  Ég fór í dag og heimsótti heilbrigðisyfirvöld til að fá hjálp með nokkra punkta í þessu ótrúlega umsóknarferli um veitingaleyfi.  Ég er nokkuð bjartsýnn á að nú sé umsóknin tilbúin og því gefist nægur tími til að kanna staðinn fyrir opnun, sem við stefnum á 15.janúar.

Ég tók nokkrar myndir í dag í Vallingby.  Hérna má sjá afgreiðsluborðið, sem var sett upp í morgun.  Borðið var framleitt hjá Frostverk á Íslandi og svo flutt út.  Þegar ég var að fara frá Vallingby áðan (þar sem ég var að reyna við Íslandsmet í fundarhaldi í mismunandi borgarhlutum) þá var verið að setja upp auglýsingamyndir í alla gluggana.  Þetta á að vera nokkurs konar “teaser” auglýsingar fyrir fólk sem labbar framhjá staðnum þangað til að við opnum, en það fer mikill fjöldi framhjá staðnum okkar á leið um lestarstöðina.

En allavegana, ég verð heima fram í janúar og þá er bara að vona að þeir sem eru að vinna fyrir okkur hérna í Svíþjóð klári sín verkefni svo að við getum opnað.

Framkvæmdir hefjast

Á þessari ágætu mynd, sem var tekin í gær í Vallingby, úthverfi Stokkhólms má sjá byrjunina á framkvæmdum við fyrsta Serrano staðinn hérna í Svíþjóð.

Við erum semsagt að deila stað með Subway. Við erum á lestarstöðinn í Vallingby, sem er við innganginn í [Vallingby City](http://www.vallingbycity.se/), sem er stór verslunarmiðstöð. Á myndinni er verið að smíða vegg á milli staðanna, sem á að vera á meðan að á framkvæmdum við Serrano staðinn stendur. Við erum búin að flytja út heilan gám af dóti frá Íslandi, þar á meðal sérsmíðað afgreiðsluborð, parket og fleira – sem var hagstæðara að kaupa á Íslandi vegna gengismála. Sjá fleiri myndir frá bygingu staðarins hér. Ég mun uppfæra þetta albúm eftir því sem meira gerist.

Ég er búinn að vera hérna í Stokkhólmi síðan á fimmtudaginn og það er búið að vera mikið að gera. Við ákváðum fyrir um tveim vikum að fresta opnuninni aftur til 15.janúar til að gefa okkur betri tíma í að klára marga hluti sem þarf að huga að. Hins vegar eru framkvæmdirnar við staðinn hafnar og þeim á að ljúka um miðjan desember. Eftir það þá höfum við ágætis tíma til að klára mál tengd heilbrigðisyfirvöldum (sem eru talsvert strangari en heima á Íslandi), prufukeyra staðinn og þjálfa starfsfólk.

* * *

Almennt séð eru Svíar mjög jákvæðir gagnvart Serrano. Hvort sem það er í bönkunum, auglýsingastofum eða birgjum þá líst mönnum vel á hugmyndina og fólk hefur trú á þessu. Þá virðist engu máli skipta að hugmyndin sé íslensk. Það verður að teljast jákvætt.

Ég hef það annars bara ansi gott fyrir utan það að kærastan mín er heima á Íslandi. Ég er búinn að koma mér ágætlega fyrir hérna í íbúðinni og mér finnst ég þekkja næsta nágrenni ágætlega. Ég bý í íbúð á Södermalm í mjög skemmtilegu hverfi og er íbúðin umkringd börum og alls kyns veitingastöðum, sem ég mun sennilega seint ná að prófa alla.