Myndir frá Indlandi

Ég hef síðustu vikur sett inn slatta af Indlandsmyndunum á Flickr.  Við tókum gríðarlega mikið af myndum á Indlandi og það hefur tekið sinn tíma að laga til myndirnar, skíra og svo framvegis.

En fyrir áhugasama, þá eru hérna fyrstu myndirnar úr ferðinni.

1. hluti: Maharastra: Þetta eru myndir frá Mumbai og svo hellunum í Ajanti og Ellora.

Margrét og ég hjá Gateway to India

2. hluti: Rajasthan: Þetta var að mörgu leyti hápunktur ferðarinnar.  Þarna eru myndir frá Jaipur, Jodhpur, Udaipur og Thar eyðimörkinni.

Lake Palace

3. hluti: Delhi og Amritsar: Myndir frá höfuðborginni og Gullna Hofinu í Amritsar ásamt pakistönsku landamærunum.

Hjá hofinu

Ég set svo inn restina af myndunum á næstu dögum og vikum.

3 dagar í opnun

Ég setti inn nokkrar myndir á Flickr frá byggingu staðarins á Kungsbron. Við munum svo opna á fimmtudag.

Það er enn frekar mikið drasl inná staðnum, þar sem að allir birgjar eru að koma með sendingar, en þetta lítur samt mjög vel út og ég held að það verði ekkert sérstaklega mikið stress fyrir opnunina.

Egyptalandsmyndir fyrri hluti

Ég er búinn að setja inn fyrri hlutann af myndunum frá Egyptalandi inná Flickr.

Hluti af þeim var smá leiðinlegur þar sem ég gleymdi sólhlífinni á linsuna mína (sem er 18-35mm zoom og því mjög erfið í mikilli sól) og því voru ansi margar myndir með linsuglampa. Ég gat lagað sumar, en alls ekki allar. Ég reyni þá bara að ljúga því að þetta hafi átt að vera svona, ekki ósvipað og í Star Trek myndinni.

Við Margrét hjá Khafre pýramídanum í Giza

En allavegana, serían er hér á Flickr. Þetta eru myndir frá Kaíró og pýramídunum í Giza, Saqqara og Dahshur. Ég set seinni hlutann inn á næstu dögum, þar sem eru myndir frá Alexandríu og Rauða Hafinu.

Filmuskönnun á Íslandi

Hefur einhver þarna úti reynslu af því að láta fyrirtæki á Íslandi skanna inn fyrir sig mikið magn af myndum?

Ég hef áður sent filmur út í skönnun til Bandaríkjanna, en það er varla svo hagstætt lengur sökum gengis. Ég tók að mér að hjálpa foreldrum mínum við að koma öllum sínum myndum á stafrænt form og er að leita að góðum aðila til að sjá um þetta. Þetta er gríðarlegt magn af myndum sem þarf að skanna inn. Bæði slides filmur, 35 mm filmur, APS filmur og svo er einnig slatti af ljósmyndum, sem þarf að skanna. Margar eru stakar, en einnig aðrar sem eru inni í albúmum (annaðhvort í plastvasa-albúmum eða albúmum þar sem myndir eru límdar inn).

Ef einhver mælir með einhverju fyrirtæki þá hefði ég gaman af því að vita af því. Í fyrstu umferð værum við að tala um sirka 1.000 slides myndir, sirka 30-40 filmur og um 5-600 stakar myndir. Ef þetta gengur vel þá er safnið töluvert stærra. Væri gott að heyra um góða aðila, annaðhvort sem komment hér eða á pósti til mín einarorn@gmail.com.

Myndir frá Borneo

Jæja, þá er ég búinn að setja inn síðustu myndirnar úr Indónesíuferðinni okkar Margrétar.

Síðasti hlutinn er frá Borneo þar sem við heimsóttum meðal annars Órangútan apa. Einnig eru þarna nokkrar myndir frá Bali þar sem við eyddum síðustu dögunum í þessari frábæru ferð. Hérna er hægt að horfa á slide show með þessari myndaseríu.

Hérna eru allar myndirnar úr ferðinni.

Myndir frá Indónesíu – Annar hluti

Ég er búinn að setja inn annan hluta af myndunum frá Indónesíu inná Flickr.


Í þessu setti eru myndir frá því þegar við vorum í Ubud á Bali, svo á Gili Trawangan þar sem að Margrét lærði að kafa. Svo myndi frá Lombok og að lokum myndir frá því þegar við komum aftur til Bali þar sem við gistum í Kuta og Seminyak.

Myndin hér að ofan er tekin við sólsetur í Kuta á Lombok.

Indónesíuferð 9: Myndir og bækur

Þar sem ég er veikur heima, þá tók ég mér loksins tíma í að klára að vinna hluta af myndunum úr Indónesíuferðinni. Myndirnar voru um 1.500 talsins í byrjun, núna eru um 800 eftir. Ég setti fyrsta hlutann inn á Flickr, sem eru myndir frá Taílandi og Jövu. Ég reyndi að hafa ekki alltof margar myndir í settinu, en við sáum svo margt í þessari ferð að það er erfitt að velja og hafna.

Allavegana, myndir frá Jövu og Taílandi eru hérna.

Svo er hægt að horfa á þetta sem slideshow hér.

* * *

Svona til að reyna að klára ferðasöguna frá Indónesíu, þá er hérna listi yfir þær bækur sem ég las í ferðinni. Þær eru talsvert færri en í síðustu ferð (Mið-Austurlandaferðinni) sem stafar af því að ég var með ferðafélaga og svo horfði ég líka á sjónvarp í iPod-inum mínum, sem ég hef ekki gert áður.

  • Richard Dawkins: The God Delusion: Án efa merkilegasta bókin sem ég las í ferðinni. Bók sem ég mæli með fyrir alla, hvort sem þeir eru trúaðir eða ekki. Ég hef farið í marga hringi með það hverju ég trúi í gegnum tíðina. Það er sennilega efni í heilar færslur, en við Margrét lásum bæði þessa bók og upp frá henni spunnust óteljandi samræður í ferðinni.
  • Ben Elton – Blind Faith: Leiðinlegasta Ben Elton bókin sem ég hef lesið.
  • Michael Lewis – Liar’s Poker: Lewis, (sem varð frægur á Íslandi fyrir að skrifa um springandi Range Rover bíla í Reykjavík) skrifar á skemmtilegan hátt um reynslu hans af því að vinna sem trader hjá Salomon Brothers á níunda áratugnum þegar að það fyrirtæki (sem er núna hluti af Citigroup) fann upp leiðir til að græða á nýjan hátt á fasteignaviðskiptum. Ágætis lýsing á stemningunni, græðginni og allri vitleysunni sem tengdist því.
  • Tom Perrotta – The Wishbones: Þetta er fyrsta bókin eftir Perrotta (sem hefur skrifað m.a. Little Children og Election, sem eru frábærar). Góð bók, þótt seinni bækur hans séu enn betri.
  • David Bach – Go Green, Live Rich: Stutt bók um umhverfisvernd og hvað við getum gert til þess að hjálpa umhverfinu. Margrét elskar svona bækur og ég las þessa hjá henni. Hún er fín.
  • Guðni Jóhannesson – Hrunið: Ég kláraði hana daginn áður en ég fór í ferðina, þannig að ég hef hana með hér. Góð bók um Hrunið, þó hún bæti svo sem ekkert rosalega miklu við sem maður vissi ekki áður.
  • Bill Bryson – A short history of nearly everything (hljóðbók – ókláruð): Ég hef verið að hlusta á þessa bók sem hljóðbók ansi lengi. Í Indónesíu hlustaði ég á nokkra klukkutíma og hélt áfram að heillast að þessari bók. Hlustaði til að mynda á langa kafla um þróunarkenninguna á svipuðum tíma og ég var að lesa God Delusion, sem að passaði afskaplega vel saman. Bókin fjallar á skemmtilegan hátt um heil ósköp af hlutum, svo sem jarðfræði, efnafræði og líffræði – en gerir það á svo skemmtilegan hátt að maður fær áhuga á viðfangsefnum sem maður hafði lítinn áhuga á fyrir.

Fyrsti sænski Serrano burrito-inn

Hérna er ég klukkan 4 í dag að prófa fyrsta sænska Serrano burrito-inn í Vallingby. Við vorum að taka prufukeyrslu á staðnum fyrir starfsfólkið.

Við Margrét vorum að koma heim rétt í þessu, en það er enn fólk frá okkur útí Vallingby að leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir opnunina á morgun.

Ég er hins vegar of þreyttur til að gera meira en að setja inn myndir.

Ég mun vonandi á morgun eða föstudag koma með lengri lýsingu á því hvernig þetta gerðist allt saman.