Myndir frá Jerúsalem og fleira

Ég er kominn heim til Íslands. Er búinn að eiga fína helgi hérna heima og verð hér fram á miðvikudag þegar ég fer aftur til Stokkhólms.

Fór á 15 fokking ára Garðaskóla reunion, sem var nokkuð skemmtilegt. Fyrir hittumst við sem vorum saman í bekk í Flataskóla og svo fórum við saman á reunionið, sem var á Thorvaldsen. Ég spjallaði við fulltaf góðu fólk og skemmti mér nokkuð vel. Í gær fór ég svo uppí sumarbústað og slappaði af.

Svíþjóðarferðin gekk annars mjög vel. Áttum marga góða fundi og málin þarna ganga almennt séð mjög vel. Það sem skemmir fyrir eru aðstæður hérna heima, en við höfum til að mynda beðið í þrjár vikur eftir millifærslu á peningum til Svíþjóðar. Ef að aðstæður skána ekki eitthvað hérna á næstu tveimur vikum fer það að stofna þessu verkefni í einhverja hættu, en vonandi bjargast það þó.

Allavegana, ég setti loksins inná Flickr myndir frá Ísrael. Ég skipti myndunum frá Ísrael í tvo hluta og í þeim fyrri eru myndir frá Jerúsalem.

Á þessari mynd er ég fyrir framan Dome of the Rock á Musterishæðinni í Jerúsalem. Svo sannarlega einn af hápunktum ferðalaga minna undanfarin ár.

Allavegana, það er best að horfa á myndirnar sem slideshow á Flickr hérna.

Myndir frá Sýrlandi – seinni hluti

Þar sem ég hékk heima í gær í kjölfar endajaxlatöku, þá tókst mér loksins að vinna aðeins meira í myndunum frá Mið-Austurlöndum.

Það er kannski til marks um hversu skemmtilegt þetta sumar hefur verið að ég er ekki enn búinn að klára að ganga frá þessum myndum. Allavegana, hérna er seinni hlutinn af Sýrlands myndunum.

Á þessari mynd er ég í einni af 3-4 fjórum ferðum mínum inní hina stórkostlegu Umayyad mosku í Damaskus í Sýrlandi.

Hérna er fyrri hlutinn af myndunum frá Sýrlandi og hérna eru myndirnar frá Líbanon. Það styttist þá í myndir frá Jórdaníu, Ísrael og Palestínu.

Myndir frá Sýrlandi – Fyrri hluti

Ég er búinn að setja inn fyrri hlutann af myndum frá Sýrlandi. Ég reyndi að takmarka fjöldann sem ég setti þetta inn, svo þetta væri sæmilega áhugavert.

Hérna er albúmið og hérna er hægt að horfa á þetta sem slide show.

Þarna er ég með Fatimah, sýrlenskri stelpu uppá virkinu í Aleppo í norður-hluta Sýrlands

Í þessum albúmum eru myndir frá Aleppo, Apamea, Krak des Chevaliers, Rasafa, Efrat ánni og einhverju fleira. Hérna eru ferðasögurnar, sem að þessar myndir eiga við: Guði sé lof fyrir Nescafé og Sýrland.

Myndir frá Líbanon

Jæja, loksins er fyrsti hluti myndanna minna kominn á netið. Þetta hefur tekið lengur en ég átti von á. Fyrir það fyrsta, þá var ég að læra á Aperture, sem ég nota núna í staðinn fyrir iPhoto (ég þarf að blogga sérstakt nördablogg um það), og svo komu líka aðrir skemmtilegir hlutir hérna heima á Íslandi inná milli og myndirnar frá ferðinni gleymdust. Svo voru þetta um 1.300 myndir, sem ég þurfti að grisja úr.

Allavegana, hérna eru komnar inn myndirnar frá Líbanon. Þarna eru myndir frá Beirút, Baalbek, Byblos, Trípolí og Qadisha dalnum. Ég reyndi að grysja vel úr, svo þetta væri sæmilega áhugavert fyrir sem flesta. Fyrri tengillinn er á yfirlitsmyndina í Flickr, þar sem hægt er að kommenta á hverja mynd – og sá seinni er á slide show, þar sem myndirnar eru stærri.

Myndir frá Líbanon
Flickr SlideShow með myndunum frá Líbanon

Myndir frá hinum löndunum þremur koma svo síðar.

Myndin að ofan er frá Baalbek. Þarna er ég fyrir framan Musteri Bakkusar, einn af hápunktum ferðarinnar.

Á Inca Trail í Perú

Undanfarnar vikur er ég búinn að skanna inn gríðarlegt magn af gömlum filmum. Sem betur fer var ég dálítill ljósmyndanörd þegar ég var minni og hélt því vel uppá allar negatívurnar mínar. Það hefur komið sér vel og eftir að ég keypti skanna um jólin hef ég verið að dunda mér við að koma þessu á stafrænt form í hárri upplausn.

Núna er ég búinn að skanna um 1.700 myndir inn. Ég ætla svona öðru hvoru að henda hérna inn myndum, sem ég geymi á Flickr sem eru frá einhverjum atburðum í mínu lífi.

Fyrsta myndin kemur hér, en hún er ein af mínum uppáhalds myndum. Hún er tekin í desember 1998. Þarna er ég ásamt þremur vinum mínum, Emil, Borgþóri og Friðrik. Við erum staddir á Inca Trail í Perú. Það er göngustígur, sem er yfir Urubamba ánni í Perú og liggur uppað Machu Picchu. (smelltu hér til að fá stærri útgáfu af myndinni)

Þegar við fórum í þessa 4 daga göngu þá gat fólk enn farið þessa göngu án leiðsögumanna (núna er bara hægt að fara í hópum). Við vorum því bara 4 saman með kort og vorum einir nánast allan daginn. Við hittum einstaka sinnum gönguhópa, fulla af fólki með litlar handtöskur, sem lét gædana bera allt dótið fyrir sig. Við hins vegar vorum að burðast með 20 kílóa poka með tjaldi og mat, svo að það gerði þessa ferð enn skemmtilegri fyrir okkur.

Þessi ferð uppað Machu Picchu er klárlega einn af hápunktunum á þeim ferðalögum sem ég hef farið í um ævina.

Lonely Planet bókahillan mín

(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu og til að sjá útskýringar á því af hverju ég keypti viðkomandi bók.)

Ólíkt mörgum bakpokaferðalöngum þá hendi ég aldrei eða sel Lonely Planet bækurnar mínar. Ég geymi þær alltaf og safnið mitt verður því sífellt stærra.

Þetta eru orðnar 27 bækur og þótt 4 séu eiginlega svindl (þar sem ég hef ekki komið til þeirra staða og er ekki með það á dagskránni) þá hafa þær flestar tilfinningalegt gildi fyrir mig. Þær eru ákveðinn hluti af minningunum frá ferðalögunum mínum.