Bíldshöfðinn

Þar sem það er komið þráðlaust net hérna á Bíldshöfða, þá ákvað ég að henda inn stuttri færslu.

Dagurinn er búinn að vera helvíti skemmtilegur með þessu típíska “daginn-fyrir-opnun” stressi. Ólíkt fyrri opnunum þá hef ég ekki verið stressaður yfir því að ná ekki að opna á réttum tíma í þetta skiptið. Það er þó búið að vera ótrúlega mikið að gerast hérna í allan dag og heldur eflaust eitthvað áfram fram á nótt og alveg þangað til að við opnum klukkan 10 í fyrrmálið.

Allavegana, það verður tilboð allan morgun, þriðjudag. 2 fyrir 1 á bæði burrito og quesadilla. Það verður vonandi fjör.

Serrano á Bíldshöfða

Síðasta eitt og hálfa árið á Serrano eru búnir að vera ansi skrautlegir. Við opnuðum okkar annan stað á N1 Hringbraut í lok janúar, við keyptum Síam í ágúst, opnuðum í Smáralind í nóvember og svo í Dalshrauni í Hafnarfirði í apríl. Salan er á þessum sama tíma búin að margfaldast.

Núna á þriðjudaginn opnum við svo fimmta Serrano staðinn á nýrri N1 stöð á Bíldshöfða (hinum megin við götuna við N1 Ártúnshöfða). Við höfum frábæra reynslu af því að vinna með N1 á þeirra stöðvum og erum bjartsýn á að þessi staður verði jafn vinsæll og sá á Hringbraut.

(mynd tekin í gær, fjórum dögum fyrir opnun – sjá fleiri myndir hér)

Það skrýtna við þessa opnun er að ég hef ekki komið nærri því jafnmikið nálægt henni og fyrri opnunum. Í tengslum við síðustu opnanir hef ég skráð nokkuð nákvæmlega allt, sem þarf að gera til að opna nýjan stað og nú er það svo að þær upplýsingar eru allar til taks á einum stað. Ég var löngu búinn að klára öll teikningamál af stöðinni með N1 og arkitektunum, en á meðan að ég var úti í ferðalaginu mínu, þá sá Emil, sem á staðinn með mér, nær algjörlega um skiplagninguna á opnun staðarins.

Þannig að ég hef sloppið við mesta stressið við opnunina. Þó ég viðurkenni fúslega að stressið við að opna nýjan stað er eitt það allra skemmtilegasta stress, sem ég upplifi. Við höfum aðeins haft 2-3 daga inná stöðinni til að undirbúa okkur, en þetta lítur samt ágætlega út. Stærstu tækin komu inn núna áðan og þegar ég var uppá Bíldshöfða fyrir smá stundu, þá litu hlutirnir nokkuð vel út. Við opnum svo á þriðjudaginn næsta, 1.júlí.

* * *

Emil er búinn að taka við af mér sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og ætla ég að einbeita mér á næstunni að öðrum verkefnum í fyrirtækinu, sem koma aðallega að þeim mögleika að opna Serrano stað í Skandinavíu. Ég mun eflaust skrifa mun meira um það þegar að að því kemur. En ég er allavegana búinn að draga mig að miklu leyti útúr daglegum rekstri hérna heima.

Serrano staðurinn á Bíldshöfða verður semsagt sá fimmti í röðinni og við erum nú þegar búnir að skrifa undir samning um að opna sjötta staðinn, en hann verður þó ekki opnaður fyrr en um mitt næsta ár.

Staðurinn tilbúinn

Jæja, þá er Serrano staðurinn tilbúinn fyrir opnun á morgun. Ég verð að játa það að þessi dagur var nettur rússíbani. Ég kom uppá stað í góðu skapi í morgun, varð svo hálf brjálaður eftir smá stopp þar. Hringdi svo nokkur símtöl og var það fúll að ég ákvað að hitta Emil í kringum kvöldmatarleytið til að taka stöðuna á staðnum.

Við það að koma á staðinn róaðist ég samt töluvert, okkur tókst svo að redda nokkrum hlutum í viðbót og þegar við löbbuðum út klukkan 8 í kvöld leið mér mjög vel, sérstaklega þegar ég sá að útiskiltið kom mun betur út en ég hafði þorað að vona.

Þannig að hér er hægt að sjá myndir af staðnum 99% tilbúnum.

Og hérna er svo mynd af okkur Emil, orðnir nokkuð sáttir við árangurinn.

Staðurinn opnar semsagt klukkan 11 á morgun, föstudag og 100 fyrstu kúnnarnir fá ókeypis burrito.

Serrano #4 í Hafnarfirði

Það er nóg að gerast hjá okkur á Serrano. Salan á þessu ári hefur verið ótrúlega góð og aukningin frá því í fyrra mikil þrátt fyrir það að árið í fyrra hafi verið algjört metár.

Allavegana, í næsta mánuði ætlum við að opna fjórða Serrano staðinn og hann verður við Dalshraun í Hafnarfirði. Einsog lesendur þessarar síðu vita þá keyptum við taílenska staðinn Síam síðasta haust. Sá staður var í talsvert stærra húsnæði en var nauðsynlegt og ákváðum við því að breyta húsnæðinu talsvert. Við ákváðum að minnka Síam aðeins og að taka allt plássið við hliðiná Síam og setja þar Serrano stað.

Þessar framkvæmdir eru núna komnar á fullt. Á Síam verður áfram pláss fyrir 25 manns í sæti og svo mun sá staður leggja meiri áherslu á take-away mat. Á Serrano verður svo pláss fyrir 30 manns í sæti. Framkvæmdirnar hófust fyrir rúmum 10 dögum og við stefnum á að opna staðinn í byrjun apríl. Það verður væntanlega eitthvað minna stress í tengslum við opnunina heldur en var í kringum Smáralindina.

Hérna er mynd, sem ég tók núna áðan á leið heim af flugvellinum. Þarna á afgreiðslan að veraOg á seinni myndinni er svo bekkur sem verður eftir einum veggnum og snýr að útganginum. Búið er að leggja parketið á vegginn, en enn á eftir að klára aðra veggi, gólf, loft og flest annað. Sjá fleiri myndir [hér](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157604063325810/).

Staðurinn verður með mjög svipuðu útliti og Smáralindin, þannig að hann verður væntanlega mjög glæsilegur. Hafnfirðingar geta því loksins keypt almennilegt burrito í bænum sínum frá og með næsta mánuði. 🙂

Hvað á fólkið að borða?

Á þessari síðu er hægt að skoða verðlaunatillögu fyrir Vatnsmýrina, sem ég ætla að kíkja á í Hafnarhúsinu um helgina. Ég hef auðvitað ekki legið á skoðunum mínum á þessum bölvaða Reykjavíkurflugvelli, sem ég vill sjá fjarlægðan úr miðbæ Reykjavíkur ekki seinna en á morgun. Er andúð mín á nýjum meirihluta borgarinnar ekki síst tilkomin sökum þess að það er þeirra helsta stefnumál að flugvöllurinn skuli vera áfram (þvert oná öll “loforð” Sjálfstæðismanna fyrir kosningar). Valdagræðgi Sjálfstæðismanna sá til þess að þeir fórnuðu þessu máli, sem að margir (allavegana ég) telja vera mikilvægasta skipulagsmálið í borginni.

Allavegana!

Núna eru komnar verðlaunatillögur um nýtingu á Vatnsmýrinni og auðvitað er flugvöllurinn farinn á þeim tillögum. Nýji borgarstjórinn ætlar samt að notast við þessar tillögur á einhvern óskiljanlegan hátt, þar sem að flugvöllurinn myndi leggja þessa tillögu í rúst.

Mér líst vel á tillöguna þótt ég hafi bara séð hana í mýflugumynd. Hún virðist vera nokkuð spennandi íbúðahverfi, með vel blandaðri byggð og fallegum grænum svæðum. Ég hef þó bara eitt við þessa tillögu að athuga. Við sjáum hér mynd af tjörninni og hluta af Þingholtunum.

Hvað er að þessari mynd?

Jú, það er búið að STROKA ÚT SERRANO!

Hneyksli! Ég krefst þess að hausar fái að fjúka! 🙂

Bragðpróf

Hæ, mig vantar smá hjálp frá ykkur. Málið er að við á Serrano erum að skoða smá breytingar á matnum okkar og þurfum að fá fólk í bragðpróf.

Við þurfum að fá í kringum 20 manns í bragðpróf í Smáralind á mánudaginn kl 16. Þar munu viðkomandi fá að prófa tvær tegundir af burrito-um. Þetta á ekki að taka meira en 15 mínútur og fyrir þetta fær fólk 2 gjafabréf fyrir mat+gos á Serrano. Ef þið getið gert þetta, endilega sendið mér póst á einar@serrano.is. Semsagt, viðkomandi þurfa að mæta tímanlega kl 16 á mánudag í Smáralind og vera þar í 10-20 mínútur.

Serrano í Smáralind opnar

Síðustu dagar eru búnir að vera magnaðir. Framkvæmdirnar við Serrano í Smáralind voru lærdómsríkar og erfiðar, en að lokum tókst þetta og ég er gríðarlega ánægður með niðurstöðuna.

Upphaflega ætluðum við að opna staðinn 1.nóvember, því var svo breytt til 8.nóvember og að lokum sættumst ég og verktakinn á að opna á föstudaginn, 9.nóvember. Ég tók þá dagsetningu sem heilaga ritningu og auglýsti meðal annars opnunina í Fréttablaðinu. Til að bæta aðeins oná stressið ákváðum við svo að halda uppá 5 ára afmæli Serrano daginn fyrir opnunina inná staðnum í Smáralind.

Á fimmtudaginn mætti ég uppí Smáralind um morguninn og fékk nett sjokk því það var mikið verk óunnið. Um hádegið var ég orðinn frekar stressaður, því ég vissi að við þurftum að henda iðnaðarmönnunum út, tæma staðinn, halda partíið og fá svo iðnaðarmennina aftur inná staðinn til að klára verkið fyrir opnun. Ég tók því ákvörðun og fékk Emil til að halda afmælið heima hjá sér. Það gekk eftir og við áttum þar frábæra stund með vinum, ættingjum og samstarfsaðilum. Á fimmtudagskvöldið kíkti ég svo uppí Smáralind og leist þokkalega á það að ætla að opna daginn eftir.

* * *

Á föstudagsmorgunn var ég mættur eldsnemma ásamt nokkuð mörgum starfsmönnum, sem byrjuðu að undirbúa opnunina. Klukkan 9.30 var byrjað að elda mat fyrir opnunina, en ég sá þó að það var gríðarlega margt óklárað. Til dæmis voru engin borð komin í salinn, rafmagnið í salnum var ófrágengið, listaverkið ekki komið upp og svo framvegis. Við ákváðum á endanum að fresta opnuninni til kl 12, svo til 15, en um eitt leytið áttaði ég mig á því að best væri að kyngja mistökunum og fresta opnuninni fram á laugardag svo við gætum klárað hlutina almennilega.

Það var að ég held skynsamleg ákvörðun og gerði okkur kleift að klára flest málin. Ég fór heim til mín um 8 leytið á föstudagskvödinu og var algjörlega uppgefinn þegar ég lagðist uppí sófa. Klukkan 3 um nóttina fékk ég svo sms skilaboð frá verktakanum, þar sem hann sagði mér að þeir væru hættir og óskaði mér til hamingju með staðinn.

Á laugardagsmorgunn vaknaði ég svo aftur snemma og var mættur ásamt verslunarstjóranum og öðrum starfsmönnum um kl 8 uppí Smáralind. Í raun var allt tilbúið og bara smá þrif eftir, sem tókust léttilega fyrir opnun. Klukkan 11 opnaði ég svo staðinn formlega. Síðan þá hefur gengið mjög vel. Það eru enn nokkur smáatriði eftir (vantar t.d. að tengja hljómtæki), en þetta er að mestu komið.

* * *

Það hefur frá upphafi verið draumur minn að vera með Serrano í okkar eigin húsnæði, en ekki hluta af stærra konsepti (einsog hann er á Stjörnutorgi og inná N1). Núna eru við loksins komin með þann stað. Í ágúst fór ég í það verkefni að leita að hönnuði til að teikna upp nýtt útlit á Serrano og eftir nokkur viðtöl samdi ég við Leu Galgana, sem hefur nokkra reynslu af hönnun á veitingastöðum. Ég mataði hana nokkurn veginn á því hvernig við sæjum Serrano fyrir okkur. Við viljum að Serrano sé skyndibitastaður í þeim skilningi að fólk fær matinn fljótt og að hann er ódýr. En við sjáum Serrano sem hefðbundinn veitingastað í þeim skilningi að umhverfið eigi að vera í toppstandi og að þér eigi að líða einsog þú sért á þokkalega fínum veitingastað þegar þú borðar á Serrano.

Að mínu mati tókst Leu fullkomlega upp í hönnuninni. Staðurinn í Smáralind er (þó ég segi sjálfur frá) gríðarlega flottur. Litirnir, efnisvalið og allt auglýsingaefni (logo, matseðilsskilti) passa að mínu mati frábærlega saman. Afgreiðslan er mjög flott, sem og salurinn. Hægra megin í salnum er svo glæsilegt listaverk, sem að Hallmar á Vatíkaninu hannaði. Lea kom með upphaflegu hugmyndina að því hvernig formin í verkinu ættu að líta út, en við vorum alltaf í erfiðleikum með það hvað ætti að vera á verkinu. Svo komu þeir á Vatíkaninu með hugmynd, sem mér fannst skemmtileg. Í kjölfarið fann ég fullt af reference myndum á netinu, sem mér fannst passa inní þetta – ég vildi til dæmis tengja listaverkið Mexíkó og San Francisco (burrito-arnir sem við seljum eru svokallaðir San Francisco burrito-ar). Stuttu seinna kom svo önnur útgáfa af þessu frá Hallmari, sem ég var gríðarlega sáttur við og við enduðum á að notast við hana.

* * *

Þannig að núna er staðurinn okkar kominn af stað og þessi staður markar þáttaskil í okkar fyrirtæki. Í fyrsta skipti erum við með okkar eigin sal og núna erum við með hönnun á stað, sem við erum fullkomlega sáttir við og getum nýtt okkur á fleiri stöðum í framtíðinni.

Serrano 5 ára

Fyrir 5 árum [skrifaði ég þessa færslu](http://eoe.is/gamalt/2002/11/01/) um fyrsta daginn okkar á Serrano. Þann dag var ég að tapa mér í stresskasti og flest fór úrskeiðis, sem gat farið úrskeiðis. En núna 5 árum seinna hefur það sannast að fall er fararheill. Emil félagi minn sagði í gær að hann trúði því varla að það væru fimm ár síðan að hann vakti alla nóttina til að opna staðnn og síðan að ég gat ekki borðað matinn útaf stressi.

Ég hef áður skrifað á þessari síðu [hvernig Serrano varð til í hausnum á mér](https://www.eoe.is/gamalt/2004/12/13/18.45.13/) fyrir einhverjum 6 árum. Hvernig að upphaflega hugmyndin kom fyrst fram fyrir heilum 9 árum hjá okkur Emil á einhverju rútuferðalagi í Suður-Ameríku. Og það hvernig hugmyndin mótaðist á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum og hvernig maturinn varð til í eldhúsinu okkar Hildar í Chicago.

Það er alveg hreint ótrúlega skemmtileg tilviljun að í dag sé aðeins vika í það að við opnum veitingastað í Smáralind. Því að planið var alltaf að opna Serrano í Smáralind fyrir 5 árum. Þá var okkur hins vegar hafnað og í staðinn var ákveðið að bíða eftir Burger King, sem að lokum opnuðu stað þar. Kringlu- og Stoðamenn höfðu hins vegar meiri trú á okkur og því opnuðum við okkar fyrsta stað í Kringlunni þann 1.nóvember árið 2002. Núna 5 árum seinna er það því ótrúlega sætt að geta opnað í Smáralind og fá tækifæri til að sanna okkur þar.

Fyrir mig er þetta síðasta ár búið að vera alveg einstakt. Ég tók fyrir alllöngu ákvörðun um að hætta í vinnunni minni og einbeita mér að Serrano. Þrátt fyrir að staðurinn væri ekkert rosalega stór, þá sá ég möguleikanna sem að staðurinn ætti inni. Núna hefur Serrano verið mitt aðalstarf í nákvæmlega 12 mánuði og árangurinn hefur verið frábær. Veltan hefur þrefaldast frá því sem hún var fyrir ári og það segir aðeins hluta af sögunni, því að við höfum líka keypt taílenska veitingastaðinn Síam og fullt er að gerast í Serrano málum.

Í næstu viku opnum við svo þriðja Serrano staðinn í Smáralind og það er okkar plan að innan 6 mánuða verði Serrano staðirnir orðnir 5 talsins. Við erum búnir að skrifa undir samninga um húsaleigu í báðum tilfellum og munu framkvæmdir á fyrri staðnum hefjast á næstu vikum. Þetta er því ótrúlega spennandi og skemmtilegur tími í sögu þessa fyrirtækis.

* * *

Ég er búinn að kynnast ótrúlegum fjölda fólks í tengslum við þennan rekstur og ég get sagt að við höfum aldrei verið jafn vel settir með starfsfólk einsog í dag. Staðurinn hefur líka aldrei verið jafn vel rekinn og hann er í dag.

Og það magnaðasta í þessu er að við Emil höfum í gegnum þessi 5 ár haldið áfram að vera bestu vinir. Vissulega höfum við rifist um einstaka hluti í rekstrinum, en það hefur ætíð verið gleymt innan nokkurra klukkutíma. Við hefðum allavegana aldrei getað gert þetta án hvors annars. Þrátt fyrir að einkalífið hjá mér hafi kannski ekki alltaf gengið upp á síðustu árum, þá stendur það samt sem áður eftir að ég get verið stoltur af þessu mexíkóska ævintýri.