Ég er kominn til Stokkhólms. Hér er kalt. Skítfokkingkalt! En ég vissi það svo sem að þessir mánuðir yrðu kaldir. Ég er alveg til í að færa þá fórn til þess að fá almennilega sumarmáuði.
Er búinn að vinna einsog geðsjúklingur og sárvorkenni þeim sem eru í email sambandi við mig þar sem ég er búinn að dæla út verkefnum í allar áttir síðustu tvo daga. Í dag fór ég til Vallingby þar sem staðurinn okkar er staðsettur og tók þessa mynd af staðnum með “teaser” merkingunum. Allt lítur þokkalega út og við ættum að geta opnað í kringum 21.jan einsog við áætluðum.
* * *
Vinsældir mínar á Blogg Gáttinni hafa hrapað. Í fyrra var ég í 14.sæti, en í ár er ég kominn niður í 58. sæti. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir egóið, en ég get varla búst við miklu, þar sem að færslum á þessu bloggi hefur fækkað um rúmlega helming á milli ári, aðallega á seinni hluta ársins. Kreppa segja einhverjir. Ég kenni kærustunni og meiri skemmtilegheitum um bloggleysið. Mér fannst miklu skemmtilegra að blogga um það hversu lífið var erfitt og stelpur ömurlegar heldur en allt þetta skemmtilega. Því fækkaði færslunum. En núna þar sem ég er í öðru landi en nánast allir mínir vinir þá mun bloggunum eflaust fjölga.
Annars er athyglisvert að Liverpool bloggið er bara í 48.sæt á þessum lista þrátt fyrir að vera klárlega meðal 10 mest lesnu blogga á landinu. Það stafar aðallega af því að nánast allir sem lesa þá síðu fara beint inná slóðina, en ekki í gegnum Blogg Gáttina og að þar eru tiltölulega fáar uppfærslur á meðan að umræðan við hverja uppfærslu er. Vinsælustu síðurnar á Blogg Gáttinni eru allar síður sem eru uppfærðar mjööög oft í viku.
En allavegana, ég axla fulla ábyrgð á þessu vinsældahruni. Hvernig ég axla þá ábyrgð veit ég ekki.
* * *
Annars var MacWorld í gær. Ólíkt Macworld 2006 (þar sem ég var sleeeefandi yfir iPhone) og 2007 (þar sem ég var slefandi yfir Apple TV), þá var eiginlega ekki neitt rosalega spennandi kynnt í gær. Phil Schiller var þarna í stað Steve Jobs og hann kynnti lítið spennó. Jú, nú selur iTunes lög án höfundarréttarvarna (sem mun væntanlega þýða að ég nota iTunes meira) og svo kynnti hann 17 tommu Macbook, sem ég hef nákvæmlega núll áhuga á, enda burðast ég með tölvuna með mér allan daginn og hef ekki áhuga á varanlegri vöðvabólgu í öxlunum.
Hann kynnti þó nýja útgáfu af iWork, sem inniheldur m.a. besta forrit í heimi, Keynote. Ég var að kaupa það og ákvað að uppfæra kynninguna mína fyrir morgundaginn með nýjum effectum, sem eru rosalega smart. Ef ég fæ ekki einhver “úúú” og “aaaah” þá verð ég svekktur. Svo verður iLife uppfært í lok janúar og þar virkar iPhoto svo spennó að mig langar næstum því að skipta aftur úr Aperture.
* * *
Áramótin mín voru fáránlega skemmtileg. Ég var hjá bróður mínum í mat, skaupi og flugeldum. Eftir miðnætti héldum við félagarnir á Njálsgötunni svo ótrúlega skemmtilegt partí. Þar var ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki og það var spilað á gítar, dansað uppá borðum og stólum og drukkið langt fram eftir morgni. Ég rak síðasta fólkið út rétt fyrir átta um morguninn, sem var gríðarlega hressandi. Svona á að byrja nýtt ár.
haha við erum meirað segja með sömu afsökunina fyrir vinsældahrapi:)
Nákvæmlega.
Hei, fyndið. Ég hrapaði sjálf um einhver 20-30 sæti og vil klárlega meina að það hafi með það að gera að ég var agalega hamingjusöm og lofuð árið 2008.
Annars vegar tapar maður bloggdampinum þegar maður er svona lofaður og hins vegar held ég að fólk hafi einfaldlega meiri áhuga á að lesa um lauslæti en fjölskyldulíf.
Já, nákvæmlega Hildur.