Ég er búinn að uppfæra iPhone símann minn í kerfi 2.0. Þökk sé Tobba, sem hafði þolinmæði í að ganga í gegnum hvert skref með mér í uppfærslunni. Þetta var ekki svo flókið, en þó festist ég alltaf í sama hlutanum.
Þessi uppfærsla breytir ansi miklu. Fyrrir það fyrsta, þá uppfærast dagatöl og kontaktar nú sjálfkrafa á milli tækjanna minna. Ég vinn á Macbook Pro fartölvu í vinnunni, á iMac borðtölvu heima og svo á iPhone þegar ég er á ferðinni. Núna uppfærast þessir hlutir á milli tækjanna sjálfkrafa, sem er gríðarlega þægilegt. Um leið og ég skrái einhvern atburð á dagatalið í símanum mínum, þá uppfærist dagatalið í tölvunum mínum sjálfkrafa.
(svona lítur síminn út eftir uppfærsluna)
Í öðru lagi, þá býður 2.0 kerfið uppá að maður geti keypt sér forrit í símann. Ég er strax búinn að setja inn nokkur skemmtileg forrit. Fyrst var auðvitað OmniFocus, sem að gerir mér kleift að sync-a OmniFocus listana mína á milli tölva og símans. OmniFocus á iPhone er einnig ótrúlega sniðugt því það veit hvar ég er stadur. Þannig að þegar ég er á skrifstofunni minni, þá veit forritið (af því að ég er búinn að kenna því hvar ég er) hvaða hluti ég á að gera þar. Þetta er nánast ólýsanlega þægilegt.
Auk OmniFocus sett ég inn Texas Hold Em póker leik frá Apple, sem er snilld og svo minni forrit einsog Remote frá Apple, sem gerir manni kleift að stjórna iTunes í tölvunni úr símanum og svo forrit fyrir Twitter og Facebook.
* * *
Helgin var algjörlega frábær. Fór útað borða á æðislegum stað, fór í sund í sólinni, borðaði ís, grillaði með vinum mínum, fór í frábært partí og á djammið, borðaði þynnkumat með vinum og eitthvað fleira. Þessi júlí mánuður er búinn að vera svo fáránlega skemmtilegur að það er með hreinum ólíkindum. Ég er búinn að setja nokkrar myndir frá helginni inn á Facebook.
* * *
Af fimm vinsælustu fréttunum á mbl.is, þá fjallar ein um Jessicu Simpson, önnur um stolið hjólhýsi og sú þriðja um Mercedes Club. Ég veit ekki hvort mér finnst þetta fyndið eða sorglegt.
* * *
Ég verð að játa að ég er alvarlega að spá í að kaupa mér nýja myndavél. Mín EOS 20D er orðin fjögurra ára gömul og þótt að hún sé vissulega enn frábær vél, þá fæ ég samt smá græjulosta við að skoða nýjustu Nikon vélarnar, hvort sem það er D300 eða D700. Það sem fer aðallega í taugarnar á mér við mína vél er hversu illa hún höndlar það að taka myndir í lítilli birtu. Það virðist vera einn af helstu kostunum við Nikon vélarnar hversu vel þær glíma við litla birtu.
Ég hef alltaf notað Canon, en er svo sem ekki fastur í mikilli fjárfestingu í því merki. Á ekkert flass og eina linsan sem ég á aukalega er 50mm linsa. Svo er ég á leið til Bandaíkjanna í ágúst og það gæti verið kjörið tækifæri fyrir slík græjukaup.
Hefur einhver reynslu af þessum Nikon vélum og veit hvernig þær eru miðað við mína vél?
eeee…núna tapaði ég aðeins þræðinum. Þú ert að tala um SLR vélar og segir að Nikon sé betri en Canon í því að “glíma við litla birtu”. Hvað meinar’u nákvæmlega? Minna noise á háu ISO? Stærra ljósop á kit-linsum? Annað?
Já, beisiklí minna noise á háu ISO.
Núna veit ég ekki almennilega hvort það sé bara munur á mínu módeli og Nikon vélunum sem ég bendi á, eða hvort það sé einhver munur á milli myndavélategunda.
Einnig hef ég lesið (t.d. hér) varðandi það hversu gott þetta “vibrant reduction” er, sem á að minnka hristing á myndum.
Beisiklí vil ég bara myndavél, sem getur tekið góðar myndir í lítilli birtu. Mín vél er ekki svarið við því, þar sem að ég þarf að nota mjög hátt ISO og þá verður noise alveg hræðilegt (nema að ég noti 50 mm linsuna sem ég á, en hún hentar mjög illa t.d. í partíjum þar sem maður þarf víðari linsu).
Ertu með einhverjar tillögur að annari vél, sem ég ætti að skoða? Ég er alls ekki bundinn neinum tilfinnigaböndum sérstökum merkjum.
Okei, ég skil þig. Ég ætla að reyna að vera ekki með langloku en hérna sé ég málið.
4 ár í digital er langur tími og það hefur til dæmis orðið gríðarleg framhjá hjá öllum framleiðendum varðandi noise reduction. Ég fylgist til dæmis vel með þróun 1D body-sins hjá Canon og líklega mesta framförin á milli minnar vélar (1D Mark II N – 2005 árgerð) og þeirra sem seld er í dag (1D Mark II – 2008) er einmitt hvað það er lítið noise í gangi á háu ISO-i. Þetta má algjörlega heimfæra á þína vél (20D) og þá sem seld er í dag (40D).
Ef þú ert að pæla í að uppfæra og þar sem menn með alvöru græjulosta fara ekki “aftur á bak” í uppfærslum þá erum við að tala um fjórar vélar sem koma til greina og það er hægt að skipta þeim í tvo flokka.
Flokkur A
Canon 40D
Nikon D300
Flokkur B
Canon 5D
Nikon D700
Í A flokki ertu með Canon vél sem er 2007 (ágúst) árgerð og Nikon vél sem er einnig 2007 árgerð (ágúst). Þessar vélar eru nánast með sömu spekkana og munurinn á noiseinu úr þeim er eitthvað sem augað nemur ekki, ef það er eitthvað yfir höfuð. Hérna eru tvær myndir sem eru teknar á ISO 3200 og það er varla hægt að sjá muninn á þeim. Það er líka “sjeikí” að bera svona sama því viðfangsefnið þarf að vera nákvæmelga það sama, eins lýst og það þarf helst að nota sömu linsur og vera með vélina á sömu stillingunum til að getað borið saman.
Nikon vs Canon
Í B flokki ertu með Canon vél sem er 2005 (ágúst) og Nikon sem er 2008 árgeð (júlí) þannig að Nikon vélin er alveg klár sigurvegari í þeim efnum. Hinsvegar eru búnar að vera miklar spekúlantsjónir að Canon sé að fara að tilkynna vél núna í ágúst/sept sem mun leysa 5D af hólmi. Menn hafa búist við henni undanfarna mánuði þannig að það eru margir sem bíða og bíða með að skipta fyrr en þessi tilkynning kemur. Það er alveg ljóst að næsta vél sem Canon skiptir út er 5D vélin sem hefur hingað til verið ein best heppnaðasta vel frá Canon lengi. Myndirnar úr henni eru virkilega góðar.
Þannig að niðurstaðan mín er sú að það er akkúrat enginn munur á milli Canon og Nikon. Hingað til hefur aðallega snúist um hvaða linsur menn hafa átt fyrir (því þar liggja hæstu fjárhæðirnar) og þá meina ég þegar þeir/þær voru að skjóta á filmu. Þannig velja menn Canon hafi þeir átt Canon filmuvél og síðan í Nikon ef þeir voru þar. Síðan verður svona nett trúarbrögð þegar menn eru komnir á stað og þá heyrir maður “Isss, þetta Nikon drasl”, sem er í raun algjör steypa. Þeir sem eru að byrja í dag að mynda þeir þurfa bara að prufa báðar vélar og athuga hvor vélin þeim finnst vera þægilegri að mynda með, þá interface og slíkt.
SVO, þegar menn eru búnir að velja vél þá þarf að einbeita sér að því að velja sér réttu linsur því þær skipta mun meira máli en vélarnar nokkurn tímann. Það er frumskógur sem menn með græjulosta koma aldrei lifandi út úr 🙂
Takk KÆRLEGA, Sigurjón. Frábært innlegg.
Þú segir að það sé ekki mikill munur á 40D og D300, en samt er um 60% verðmunur á þeim á Amazon og önnur er 12,1mp vs 10mp á hinni. Ég veit að það er ekki aðalatriðið, en það hlýtur samt að skipta e-u máli.
Eitt annað sem pirraði mig smá við Canon var að það var engin linsa frá þeim 18-200 (vs þessi frá Nikon), sem ég hef alltaf ímyndað mér að gæti verið helvíti góð ferðalags-linsa, þar sem ég nenni ekki að bera mikið með mér.
Þessi verðmunur liggur 90% í sensor stærðinni. Sensorinn í Canon vélinni er 22.2 x 14.8 mm og í Nikon er hann 23.6 x 15.8 mm. Þar sem sensor er örugglega eitt dýrasta “efni” í heimi þá er þessi 1×1 mm það sem munar á vélunum í verði. Það er auðvitað kostur að hafa stærri sensor því ef þú setur 50mm linsu á Canon vélin (sem hefur 1.6 factor) þá ertu í raun að skjóta á 80mm en sama linsa á Nikon vélinni þýðir að þú ert að skjóta á 75mm. Munar ekki miklu en munar samt.
Hin 10% í verðmuninum er líklega upplausnin og skjárinn aftan á vélinni en það er meiri upplausn í honum á Nikon vélinni þrátt fyrir að þeir séu jafn stórir milli véla.
Þú talar reyndar í blogginu þínu eins og þú sért eitthvað að spá í D700. Ef þér finnst hún ekkert of dýr þá skaltu EINGÖNGU pæla í henni (eða “nýju vélinni” frá Canon, sem leysir 5d af hólmi, þ.e.a.s ef þú bíður það lengi að hún komi út áður en þú kaupir) vegna þess að þær báðar hafa full frame sensor, sem er algjör sniiiiilld. Að vera með 50mm linsu og geta skotið á 50mm (engin margföldun) er mun mikilvægara og skemmtilegra en fólk gerir sér grein fyrir. Full frame sensor er allt öðruvísi uppbyggður heldur en þessir 1.3/1.5/1.6 sensorar og myndgæðunum er ekki hægt að líkja saman. Það eina sem stoppar fólk að fá sér full frame er auðvitað verðið.