Dagur 4

Jæja, fjórði veikindadagurinn í röð. Ég er að drepast úr leiðindum. Er búinn að hanga á netinu í bland við það að horfa á Cheers síðan ég vaknaði. Sýnist ekki að ég muni jafna mig á þessu í dag, þannig að enn einn dagurinn heima er framundan.

Það var eitt, sem ég hafði alltaf ætlað að biðja fólk um hjálp við. Ef þú hefur borðað á Serrano, sem og á Culiacan, geturðu sent mér póst. Ég ætla að leggja örfáar einfaldar spurningar fyrir fólk.

Endilega sendið mér póst á einarorn (@) gmail.com ef þið hafið BÆÐI borðað á Serrano og hinum staðnum. Öll hjálp er vel þegin.


Ég gerði í gær mína þriðju tilraun til að horfa á Return of the King á DVD. Er núna búinn með 2 klukkutíma. Kræst hvað þetta er löng mynd. Í þessum veikindum þakka ég samt fyrir það að ég hafi birgt mig upp af DVD diskum síðustu mánuði.

Sem betur fer er Liverpool leikur í kvöld. Verst að hann er á sama tíma og þessi Íslands-Amazing Race þáttur.


Hefur einhver komið til Frankfurt? Ég er að fara þangað á fund í byrjun febrúar og er að spá hvort ég eigi að vera yfir helgi, þar sem fundurinn er á föstudegi. Veit einhver hvort þetta sé skemmtileg borg, sem sé þess virði að eyða einni helgi í?

Blogg, veikindi og fleira

Ég er orðinn verulega pirraður á því að vera veikur. Ég er búinn að vera heima alla helgina og ákvað því að drífa mig í vinnuna í morgun, þrátt fyrir að ég væri raddlaus og hefði hóstað upp hálfum lungunum fyrir morgunmat.

En ég gafst upp innan klukkutíma og kom heim, fór að sofa og er svo búinn að hanga á netinu og spila Halo2 síðan þá. Það er svosem ágætt, en ég nenni þessu varla annan dag.


Annars eru [hér athyglisverðar pælingar](http://www.jupiterfrost.net/gamalt/2005/01/08/04.48.22/index.php) hjá Kristjáni um bloggsíður. Hann leggur uppfrá þeirri spurning hvort að allir Íslendingar séu með blogg.

Það er skrítið hvernig bloggið hefur komist í tísku meðal sumra hópa á Íslandi undanfarin ár. Af mínum vinahóp þá bloggar bara einn fyrir utan mig, [Jens](http://www.jenssigurdsson.com/) (sem mér finnst reyndar skemmtilegasta blogg á landinu, hvort sem það er vegna vináttu eða þess að hann sé bara svona skemmtilegur). Í sumum vinahópum virðast hins vegar allir blogga.

Einsog ég sagði í kommentum hjá Kristjáni þá lenti ég í því fyrir einhverjum mánuðum að ég var hrifinn af tveimur stelpum. Eitt kvöldið í leiðindum, þá komst ég með einfaldri leit á blogspot, folk.is og central.is að þær voru *báðar* með bloggsíður. Það þykir mér nokkuð magnað, þar sem hvorki aðstæður né áhugamál þeirra myndu benda til þess að þær héldu út slíkri síðu. Að maður geti tekið einhverjar tvær random stelpur á Íslandi og fundið að þær eru akkúra báðar með blogg er að mínu mati magnað. Ég efast um að það myndi virka annars staðar. Eða kannski var þetta bara fáránleg tilviljun.

Líkt og Kristján hef ég líka oft á tíðum verið að finna blogg hjá ætttingjum, gömlu skólafélögum og jafnvel fólki, sem ég vinn með. Það þykir mér alltaf jafn fyndið.


Kottke.org [bendir á](http://www.kottke.org/05/01/listening-with-affection-and-excitement) góð ráð varðandi það að [hlusta betur](http://www.globalideasbank.org/site/bank/idea.php?ideaId=2274):

>Now before going to a party, I just tell myself to listen with affection to anyone who talks to me, to be in their shoes when they talk, to try to know them without my mind pressing against theirs, or arguing, or changing the subject. No. My attitude is: ‘Tell me more. This person is showing me his soul. It is a little dry and meager and full of grinding talk just now, but presently he will begin to think, not just automatically to talk. He will show his true self. Then he will be wonderfully alive.’

Ég hef ekki strengt nein áramótaheit, en ég er sammála Kottke um að það væri gott áramótaheit að reyna að hlusta betur, sérstaklega þegar ég horfi aftur á síðustu vikur og mánuði. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki nærri því nógu góður í því.

Mayaaaa hiiii

Ok, ég er búinn að opna fyrir kommentin. Ef þessir kanadísku SPAM bjánar halda þessu áfram, þá verður bara að hafa það.

Síðan fór yfir 100.000 flettingar í gær. Ég setti upp teljarann fyrir um 6 mánuðum, þannig að það er nokkuð gott. Þetta eru að meðaltali um 550 flettingar á dag og um 350 einstakar heimsóknir. [Liverpool bloggið](https://www.eoe.is/liverpool/) er þó talsvert vinsælla, enda ætti efni þeirrar síðu að höfða til breiðari hóps. Held þó að sú síða eigi mikið inni.


Ég var ýkt heilbrigður í gærkvöldi og vann allt kvöldið við verkefni, sem ég hef tekið að mér. Hver voru svo laun þessarar samviskusemi? Jú, ég vaknaði í morgun eins skakkur og hægt er að vera. Vaknaði með hræðilegt kvef, hausverk og verk í bakinu. Held að ég neyðist til að viðurkenna að ég sé orðinn veikur.

Talandi um bakið á mér, þá hlýtur Tempur dýnan, sem ég keypti fyrir einhverjum mánuðum að teljast versta fjárfesting ævi minnar. Áður var ég með einhverja drasl dýnu frá Bandaríkjunum og fékk öðru hvoru í bakið þegar ég vaknaði. Ég hafði heillast af einhverju auglýsingum um að þessi Tempur dýna ætti að vera lausnin á öllum mínum vandamálum (fyrirtækið, sem selur dýnuna heitir m.a.s. Betra Bak). En þessi dýna er algjör hörmung. Í hvert einasta skipti, sem ég sef út, vakna ég með bakverk.

Ég er sennilega búinn að eiga dýnuna alltof lengi til að getað skilað henni, þannig að ég veit ekki hvort ég eigi bara að reyna að hætta að sofa út, eða hvort ég eigi að kaupa mér nýja. Ég tími bara ekki að eyða meiri pening í eitthvað dót tengt íbúðinni minni.


Keypti DV áðan og sá mér til mikillar skelfingar að ég komst ekki á lista yfir flottustu piparsveina á Íslandi. Ég trúi þessu varla enn. Ég meina, Pétur Blöndal er á listanum! Það er ekkert réttlæti í þessum heimi.


Þetta er alveg [ljómandi skemmtilegt myndband](http://www.gordinho.cjb.net/). Kom mér allavegana í gott skap. Mayaaa hi, mayah hú maya hí maya ha ha.

Djöfulsins verkur

Ef það er eitthvað, sem ég er góður í þá er það að vorkenna sjálfum ógurlega mér þegar ég er með hausverk. Sjá til dæmis þessa [færslu frá því í nóvember](https://www.eoe.is/gamalt/2004/11/12/22.19.31/)

>Allavegana, ég er veikur og búinn að vera það í allan dag. Það skýrir kannski þennan pirring, sem ég hef verið með alla vikuna. En er búinn að vera með hausverk í allan dag. Er að reyna að telja mér trú um að þetta verði allt farið á morgun. Þoli ekki hausverk. Hann hefur í för með sér allsherjarþunglyndi og mér finnst allt ómögulegt. Úff úfff.

Og líka þessa færslu frá því [fyrir rúmu ári](https://www.eoe.is/gamalt/2003/07/10/22.27.06/)

>Mikið djöfull er lífið hræðilega leiðinlegt þegar ég er með hausverk.

>Einhvern veginn virðast öll verkefni verða hundrað sinnum erfiðari, mér finnst allt vera ómögulegt, allt fer í taugarnar á mér og svo skíttapa Cubs til að koma mér í enn verra skap.

Ég hef verið með mígreni frá því að ég var krakki en þó hefur þetta skánað með árunum. Tek vanalega ekki verkjalyf við þessum köstum, þar sem mér finnst það flýta fyrir endurtekningu á hausverknum. Þó gafst ég upp núna áðan. Fór fyrr heim úr vinnunni og reyndi að sofa. Vaknaði skárri, en svo versnaði verkurinn til muna. Tók því Excedrin, sem mun sennilega laga hausverkinn en valda því svo að ég verð upptjúnaður af koffíni eitthvað frameftir.

Núna er ég hins vegar að drepast, með stíflað nef og verk í hausnum. Einhvers staðar las ég viðtal við stelpu, þar sem hún sagðist vilja eignast kærasta, sem héldi hárinu hennar uppi á meðan hún ældi í klósettið eftir fyllerí. Ég vil hins vegar kærustu, sem segir: “æ greyið mitt, þú átt svo hræðilega bágt” af mikilli einlægni þegar ég er með hausverk.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir hörmungum heimsins, en þegar ég er með hausverk þá vorkenni ég engum í heiminum jafnmikið og sjálfum mér. Ég get bara ekkert að því gert.


Ef að það gat eitthvað glatt mig þá væri það heimskupör karlmanna í The Bachelorette, en það varð nú lítið úr því. Þættirnir eru núna komnir á leiðinlegasta stigið, þegar fólk fer að hitta fjölskyldurnar. Þá verður þetta of væmið og ekki jafnmikið um heimskuleg komment og rifrildi, sem gerir þessa þætti skemmtilega.

Annars fatta ég ekki hvað karlmennirnir sjá við þessa gellu. Ég sé það allavegana ekki.


Ágúst, ég held að ég sé að byrja að fatta “Time out of Mind” Hef rennt honum tvisvar í gegn í kvöld. Galdurinn var bara að skippa yfir Love Sick.

Dans, dans, dans

Sá áðan auglýsingu fyrir Salsa námskeið hjá einhverju dansstúdíó-i. Ég þóttist einu sinni vera ýkt góður að dansa salsa og merengue, enda dansaði ég nánast hverja einustu helgi þegar ég var skiptinemi í Caracas í Venezulea fyrir alltof mörgum árum.

Partýin í Venezuela voru nefnilega algjört æði. Ég mætti edrú en fékk mér kannski 3-4 [Polar](http://www.empresas-polar.com/espanol/publi_sihay_es.html) bjóra í boði hússins. Drykkjan var hinsvegar algjört aukaatriði, ólíkt því sem gerist hérna heima. Nei, aðalatriðið var að *dansa*. Fólk setti bara merengue disk í spilarann og svo greip maður næstu stelpu og byrjaði að dansa. Og dansaði allt kvöldið. Nánast án þess að stoppa. Mikið var það æðislega gaman.

Vá, hvað ég sakna þess. Þessi hópdans, sem er stundaður á Íslandi er einfaldlega hundleiðinlegur miðað við það að dansa salsa eða merengue við stelpu.

Allavegana, stelpan, sem ætlaði með mér á salsa námskeið í haust hér á Íslandi, klikkaði á því, en ég er samt staðráðinn í að fara á námskeið fyrr en síðar. Fóstursystir mín í Venezuela kenndi mér að dansa merengue en ég lærði salsa aldrei nógu vel. Jú, einhverjar stelpur reyndu að kenna mér það bæði í Mexíkó sem og í Venezuela og á Kúbu en samt finnst mér ég ennþá vera hálfslappur í því. Og ég veit að núna er ég búinn að gleyma öllum sporunum, sem er synd.


Annars auk þess að læra salsa almennilega þá ætla ég alltaf að læra að dansa tangó. Ég sagði það einnhvern tímann við vini mína að ég ætlaði mér að gera þrennt áður en ég deyji:

1. Fara á Anfield
2. Sjá Pink Floyd á tónleikum
3. Dansa tangó við argentíska stelpu á götum Buenos Aires

Hingað til hef ég ekki gert neitt af þessu. Hef jú farið til Buenos Aires (sem er ein af mínum uppáhaldsborgum) og sá líka Roger Waters, fyrrum söngvara Pink Floyd á tónleikum. En það er ekki nóg.

Fyrir 5 árum var ég í Buenos Aires ásamt þremur af mínum bestu vinum. Við vorum þar í þrjár vikur, en samt klikkaði ég á tangó-inum með argentísku stelpunni. Ég er samt ekki ennþá búinn að gefa upp drauminn. Mig langar enn að finna þessa argentísku stelpu og dansa við hana tangó á hliðargötu í Buenos Aires alla nóttina.

Það væri æði.

2. janúar 2005

Já, Gleðilegt Ár!

Gamlárskvöld var það rólegasta í mörg ár. Einsog vanalega var ég heima hjá foreldrum. Fór svo heim til vinar míns einsog flest gamlárskvöld. Hlustaði á Dylan og talaði við skemmtilegt fólk. Var edrú allt kvöldið og keyrði heim.

Fór svo aftur heim til vinar míns á nýársdag og horfði á Liverpool tapa fyrir Chelsea. Það var ekki einsog ég hafði vonast eftir að þessi [óheppni](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/01/02/14.17.57/) Liverpool yrði bara á árinu 2004. 2005 byrjar alveg hræðilega með tapleik og fótbroti snillingsins Xabi Alonso. Ég var þó ekkert svo þunglyndur eftir leikinn. Betra en ég átti von á.

Allavegana, ég mæli með grein Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu á gamlársdag. Hallgrímur er snillingur og skrifar um fjölmiðlafrumvarpsruglið frá því í sumar. Alveg er magnað að hugsa til þess hver kolklikkað þetta sumar hans Davíðs var í raun. Legg til að fólk rammi greinina inn og lesi hana einu sinni á ári til að gleyma því aldrei úr hverju þessir Sjálfstæðisþingmenn eru gerðir.


Talaði við vin minn, sem býr á Tælandi áðan. Það samtal varð ekki til að leysa þær flækjur, sem mér finnst líf mitt vera í þessa stundina. Veit ekki hversu mikið ég á að skrifa á þessa síðu. Vinur minn var nýkominn frá Phuket, þar sem hann drakk íslenskt vatn og hjálpaði við að bera kennsli á lík. Ótrúlega magnað.


Reyndi að horfa á Terminator 3 í gærkvöldi en mikið afskaplega er það leiðinleg mynd. Reyndi þá að horfa á Chicago en gafst upp. Hún var þó ekki jafn leiðinleg og ég hafði búist við.

Úff, þarf að taka mér tak á þessu nýja ári. Það er svo margt að gerjast inní hausnum á mér, finnst einsog ansi margt þurfi að breytast. Kannski ef ég skrifa bara um það hérna, þá geri ég eitthvað í hlutunum í stað þess að hugsa bara um þá.

Tvöþúsundogfjögur

Ok, árið er búið. Ég fokking trúi þessu ekki. Ætlaði að skrifa rosa dramatískan pistil um hvar ég stæði á þessum tímamótum, en ég á eftir að gera helling í dag og svo er ég veikur fyrir pólitískum umræðum í sjónvarpi, þannig að ég bíð með það.

Finnst ég ekki hafa gert neitt nema að vinna þetta árið. Ekki það að vinnan hefur verið ofboðslega skemmtileg (og stundum hrikalega erfið), en finnst lífið utan vinnu hafa verið viðburðarlítið.


Annars er [árslistinn hjá Múrnum](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1475&gerd=Frettir&arg=5) algjör skyldulesning. Uppáhaldspunkturinn minn:

>Forsjárhyggja ársins: Tillaga Samfylkingarinnar um að banna sælgætis- og gosauglýsingar fyrir níu á kvöldin til að vernda börn fyrir óæskilegum áhrifum slíkra auglýsinga. Næsta frumvarp mun ganga út á að binda fyrir augun á börnunum þegar þau fara í Kringluna.

Það segir ansi margt um Samfylkinguna þegar að Vinstri-Grænir eru farnir að gera grín að forstjárhyggjunni í þeim flokki. Ég styð Samfylkinguna en svona einstök vitleysa einsog þetta sælgætisfrumvarp Samfylkingarþingmanna veldur því að maður endurskoðar það hvort maður sé í réttum flokki. Viðurkenni reyndar að ég hef starf af því að selja sælgæti og (hollan) skyndibita, þannig að eitthvað er ég litaður. En ég ætla að skrifa betur um þetta seinna.

Já, og þetta er líka gott:

>Besta skemmtun ársins: Frjálshyggjufélagið, fyrir að vera það sjálft.

og

>Orsakaskýring ársins: Sú kenning Björns Bjarnasonar að ólöglegt olíusamráð hafi verið Stalín að kenna.


Jæja, þetta er komið gott. Þakka þeim, sem lásu síðuna á árinu. Það hefur verið ómissandi fyrir mig að hafa þessa síðu til að tappa af öðru hvoru. Það kemur mér sífellt á óvart hversu margir lesa þessa síðu á hverjum degi, en það gefur manni þó orku í að halda áfram.

Allavegana vona að þið eigið öll gott ár framundan og að Liverpool vinni Chelsea á morgun.

**Gleðilegt ár!**

Jólin

Þá eru stærstu jólaboðin afstaðin og þetta hefur verið indælt hingað til. Var hjá bróður mínum í gær og svo mömmu og pabba í kvöld. Fékk kalkún í gær og nautakjöt í kvöld. Ég get ekki beðið um það betra. Fékk fullt af skemmtilegum gjöfum og skemmti mér konunglega í gærkvöldi. Held ég hafi þó minnst á það áður að ég er orðinn það gamall að mér finnst skemmtilegra að sjá viðbrögð annarra við gjöfunum frá mér, heldur en mér finnst sjálfum að taka upp mína pakka. Var búinn að pæla vel í þessu öllu fyrirfram og sýndist allir vera mjög ánægðir með gjafirnar frá mér. Sem er gott.

Við fjölskyldan horfðum svo á Love Actually í jólaboðinu áðan. Ég sá myndina fyrir ári og fannst hún algjört æði. Hún var alveg jafngóð núna. Og ég er svo sannarlega ekkert minna [ástfanginn af Keira Knightley](http://www.imdb.com/gallery/ss/0314331/Ss/0314331/5573_01909_rgb.jpg?path=pgallery&path_key=Knightley,%20Keira) núna en ég var eftir að ég sá myndina í fyrsta skiptið.

Ætla ekki að gera neitt af viti á morgun og ég get varla beðið. Ætla að reyna að halda áfram stórkostlegum frama mínum í glæpaheimi [San Andreas](http://www.rockstargames.com/sanandreas/) og svo auðvitað horfa á [fótbolta](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/12/25/23.22.04/). Svo ætla ég að hella mér uppá kaffi og borða smákökur. Serrano er lokað, sem og hinni vinnunni minni, svo það getur enginn truflað mig. Já, þetta verður indælt.

Og já, þið sem senduð mér jólakort. TAKK! Ég stefni á að skrifa kort á næsta ári 🙂

Festivus for the rest of us!

festivus 02 Father of Festivus 2_small.jpg[Þetta er snilld](http://www.nytimes.com/2004/12/19/fashion/19FEST.html?oref=login&oref=login&pagewanted=all&position=). Samkvæmt NY Times, þá er fullt af fólki í Bandaríkjunum, sem heldur árlega uppá “Festivus” hátíðina.

Fyrir þá, sem fatta ekki brandarann strax, þá er Festivus hátíð, sem pabbi George í Seinfeld fann uppá. Hann var orðinn þreyttur á jólunum og ákvað að búa til sína eigin hátíð, sem hann kallaði Festivus. Í Seinfeld þáttunum verður Kramer svo hrifinn af hugmyndinni að hann fær pabba George til að halda aftur uppá Festivus.

Festivus hátíðin gengur útá það að í stofunni er álstöng (í stað jólatrés). Einnig mega allir gestir lýsa því yfir hversu miklum vonbrigðum hinir gestirnir hafa valdið þeim á liðnu ári. Svo er líka kraftakeppni (“feats of strength”), sem var í Seinfeld þáttunum fólst í glímu á milli George og pabba hans.

Ég held hreinlega að ég verði að halda Festivus partí næsta ár. Þetta er bara of góð hugmynd til að klikka á.


Búinn að vinna 16 tíma í dag, sem er nokkuð gott. 5 tíma í 9-5 vinnunni og svo eftir það uppá Serrano. Finnst það vera svo mikil sóun að koma bara heim og fara að sofa að ég er að reyna að halda vöku. Það þrátt fyrir að ég sé ekki að gera neitt merkilegt.

Það sama var uppá teningnum í gær. Þá vann ég víst 14 tíma. Ef ég væri ekki minn eigin atvinnurekandi á Serrano þá gæti ég sennilega kært atvinnurekandann fyrir illa meðferð á starfsfólki. En svona er þetta.

Mikið er ég samt feginn að jólatra undirbúningurinn sé búin. Fór í verslanir í kvöld í um einn og hálfan tíma og náði að klára innkaupin. Þetta *átti* ekki að vera neitt stress, en svo komu upp mikil veikindi á Serrano og við Emil þurftum að redda hlutunum. Samt, þrátt fyrir öll erfiðin þá hefur þetta líka verið nokkuð skemmtileg vika.

Á morgun ætlum við Emil að keyra út jólagjöfum til starfsmanna og svo fer ég með fjölskyldunni uppí kirkjugarð. Um kvöldið fer ég í boð til bróður míns. Inná milli þarf ég svo að finna tíma til að pakka inn gjöfunum.


Er núna búinn að fá fullt af jólakortum, sem mér finnst alltaf skemmtilegri og skemmtilegri með hverju árinu. Kann einhvern veginn betur að meta að fá þessi kort núna heldur en ég gerði fyrir nokkru. Samt hefur það ekkert breyst að ég er alltof gleyminn/latur til að skrifa kort sjálfur. Vona að vinir mínir móðgist ekki við þetta, því mér þykir svo gaman að fá kortin frá þeim. Mig vantar nauðsynlega kærustu til að hafa vit fyrir mér í svona hlutum.

En ok, ég ætla að fara að sofa svo ég verði hress og kátur á morgun. En segi bara til allra **GLEÐILEG JÓL**! Njótið þessa fáránlega stutta jólafrís!

🙂

I'm slipping under…

britneyspears_toxic200.jpg
Úff, ég er alveg búinn. Ég vaknaði pirraður, Weetabix-ið var búið og því fór ég útúr húsi með tóman maga. Sat svo ráðstefnu allan daginn um mjög áhugavert mál, en var alltaf pirraður útí allt og alla. Komst svo að ég þurfti líka að vinna uppá Serrano eftir vinnu. Það var farið að sjóða á mér þegar ég mætti þangað um fimm leytið.

Þurfti að fara í afgreiðsluna, sem virtist vera besta meðalið við pirrinu, því einhver veginn fannst mér þetta bara hálf yndislegt að vera að vefja burrito og selja fólki. Stóð þarna vaktina í þrjá tíma inní Kringlu. Að ég held í fyrsta skipti í marga mánuði, sem ég hef verið svona lengi í afgreiðslunni. Það er þó ágætt að prófa þetta öðru hverju, til að vera í aðeins betra sambandi við kúnnann og sjá hvort hlutirnir hafi breyst. Dagurinn í dag var stærsti söludagurinn í sögu Serrano. Já, ég segi það og skrifa að ég hef góð áhrif á söluna. Augljóst að maður er góður í að trekkja að viðskiptavini. 🙂

Kom svo heim í fimm mínútur og fór beint í fótbolta. Þar fékk ég svo endanlega útrás fyrir pirringnum. Langaði reyndar að berja vin minn fyrir að sparka mig harkalega niður, en ákvað að það væri full langt gengið. Mikið er samt gott að hlaupa einsog vitleysingur á eftir bolta og ná þannig öllu stressinu úr sér. Var ekki kominn heim fyrr en klukkan 11, þannig að þetta hefur verið langur og erfiður dagur.


Hef bara keypt 2 gjafir. Aldrei þessu vant, þá þakka ég Guði fyrir að ég skuli ekki vera á föstu, því allavegana slepp ég við þann hausverk. Jú, reyndar keyptum við Emil líka gjafir handa stelpunum á Serrano, þannig að í raun er ég búinn að kaupa 14 jólagjafir, sem hlýtur að teljast nokkuð gott. Á þó enn stærsta hlutann eftir. Sem betur fer er ég að mestu að gefa litlum krökkum gjafir, sem er alltaf skemmtilegast.


Ég verð að játa það að ég hlýt að vera alveg glataður að hafa ekki einu sinni heyrt lagið, sem þeir á Pitchfork velja [sem bestu smáskífu ársins](http://www.pitchforkmedia.com/top/2004/singles/). Samkvæmt þeim er Heartbeat með Annie lag ársins. Náði í það á netinu og þetta er svosem ágætis popp. Ég er þvílíkt ánægður með snobbhausana á Pitchfork fyrir að velja Toxic með Britney í þriðja sætið (á eftir Hearbeat og 99 Problems með Jay-Z).

Toxic er nefnilega æðislegt lag. Ég er enginn sérstakur aðdáandi tónlistar Britney (þrátt fyrir að ég hefði viljað giftast Britney), en Toxic er einfaldlega frábært popplag og myndbandið við það lag er án efa lang-næst-besta myndband ársins (á eftir besta myndbandi allra tíma, [Call on Me](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/08/21.56.40/)).