Aðalmálið hérna í Bandaríkjunum í

Aðalmálið hérna í Bandaríkjunum í dag er auðvitað Elian Gonzales. Í fréttunum í dag hafa verið stanslausar útsendingar frá Miami þar sem nokkur hundruð Kúbverskir flóttamenn hafa eitthvað verið að kvarta yfir því að lögunum hafi loksins verið framfylgt.

Langflestir bandaríkjamenn eru hlynntir því að Elian verði sendur aftur til Kúbu en minnihlutinn er nú oft mun háværari heldur en meirihlutinn. Núna í sjónvarpinu eru Miami ættingjarnir að væla yfir því að Elian hafi verið tekinn frá þeim. Ég get ekki mögulega skilið hvernig þeim finnst þau hafa rétt fyrir sér. Auðvitað á Elian að vera hjá pabba sínum. Að halda öðru fram er fáránlegt.

Þeir, sem eru fylgjandi því að Elian verði hérna áfram eru blindaðir af hatri sínu á Fidel Castro. Ég er enginn aðdáandi Fidel Castro en það er ógeðslegt að nota 6 ára gamlan strák til að sýna vanþóknun sína á honum.

Byrjun

Jæja, þá ætla ég að reyna að koma þessari heimasíðu minni á netið. Ég er búinn að vera að vinna í þessu síðustu vikuna og var núna að klára að setja upp reikning á Blogger. Þessi reikningur gerir mér auðvelt að uppfæra síðuna, vonandi á hverjum degi. Ég er undir áhrifum frá Björgvin Inga og Geir Fr. en ég er búinn að heimsækja síðurnar þeirra síðustu vikurnar og er þessi síða mín sett up á svipaðan hátt og heimasíður þeirra. Ég verð á þessari síðu með daglegar uppfærslur, hvort sem það verður um pólitík, sjálfan mig eða bara eitthvað, sem er að gerast. Ég vona að einhver hafi gaman af að lesa þessa síðu og ég vona að þú heimsækir síðuna aftur.