Djammmmm

Fyrir einhverjum tíma ákvað ég að skrifa ekki um djamm á þessari síðu. Núna langar mig hins vegar rosalega að skrifa eitthvað á netið og ég nenni ekki að skrifa þennan langa reiðipistil um Davíð Oddson, sem er að gerjast í hausnum á mér eftir að hafa horft á Kastljós.

Allavegana þá djammaði ég um helgina tvo daga í röð í fyrsta skipti síðan um Verzlunarmannahelgi. Á föstudag fór ég í opnun á Vöruhóteli Eimskips. Þar var markvisst reynt að hella fólk fullt og auk þess var allt aðgengi að mat skert til muna, þannig að það gat bara endað á einn veg. Ekki batnaði ástandið þegar fiskikari fullu af Tuborg var parkerað beint fyrir framan mig.

Ég fór svo með nokkrum strákum frá Danól inní Hafnafjörð, þar sem við fórum að horfa á kvennahandboltaleik, en ég held að það sé fyrsti leikurinn af þeirri gerð, sem ég hef séð í einhver 5 ár. Svo var haldið í partí og að lokum niður í bæ, þar sem við enduðum á Sólon. Reyndar byrjuðum við á því að fara á Hverfisbarinn, þar sem ég tapaði nærri því vitinu í biðröðinni. Þessi biðröð er fúl, sérstaklega þar sem ég er nokkuð virkur gestur á þessum blessaða bar. En ég meina hei.

Á Sólon er maður hins vegar treataður einsog hetja, því þar þekki ég einn dyravörðinn. Sólon er líka skemmtilegur staður.

Allavegana, á laugardag þá ákváðum ég og Björgvin Ingi að skella okkur á Maus tónleika. Það var nokkuð skemmtilegt að Björgvin hafði komist að því eftir lestur þessarar síðu að við áttum við svipað vandamál að stríða, það er að við eigum báðir enga vini sem fíla Maus. Við ákváðum því bara að drífa okkur saman. Fórum fyrst á Sólon og svo á Hverfisbarinn því við héldum að tónleikarnir ættu að byrja fyrr en þeir gerðu. Á Hverfisbarnum var mun skemmtilegra en kvöldið áður, hittum m.a. einhvern gaur úr Breiðholtinu sem hélt uppi fjörinu.

Anyhoo, fórum á Maus og þeir voru snilld. En ekki hvað? Það er þó ljóst að fjöldi fallegra stelpna á djamminu í Reykjavík er í öfugu hlutfalli við gæði tónlistar. Þannig var mun meira af fallegum stelpum á Sólon og Hverfisbarnum (þar sem ég heyrði lag með Whitney Houston, hvorki meira né minna) heldur en á GrandRokk. Maus byrjuðu á nýju lögunum og svo fóru þeir yfir í gömlu slagarana, enduðu svo á besta lagi í heimi, Poppaldin.

Við fórum svo á Sólon, þar sem var geðveikt gaman. Ég vil þó að lokum leggja til að stelpur, sem eru á föstu, verði kyrfilega merktar á skemmtistöðum landsins. Það myndi spara manni ómælda vinnu.

Úfff, sunnudagur

Mikið óskaplega geta sunnudagar verið erfiðir dagar. Á dögum sem þessum sakna ég alveg ofboðslega þess tíma þegar ég varð aldrei þunnur.

Fyrst þegar ég byrjaði að drekka áfengi drakk ég ávallt vodka. Ég mætti alltaf í partí með flösku af Stolla og Brazza. Drakk minn skammt, varð voða hress og vaknaði svo daginn eftir alveg eldhress. Varð aldrei þunnur, enginn hausverkur, engin magapína, ekki neitt.

Núna drekk ég hins vegar bjór. Helst bandarískan bjór, meira að segja helst Light bjór (btw, ekki með minna áfengi, heldur færri kalóríur). Núna verð ég hins vegar alltaf þunnur. Ég fæ alltaf hrikalegan hausverk, sem mér tekst aldrei að losa mig við. Í dag hef ég til að mynda tekið 6 Excedrin töflur, en ekkert virkar.

Reyndar minnkaði hausverkurinn eitthvað við það að ég fór í fótbolta. Þar var ég laminn (reyndar óvart) af fyrrverandi sjónvarpsstjóra Skjás Eins og því er ég nú með þetta flotta glóðarauga. Ég þó losnaði við hausverkinn í dágóða stund en núna er hann eiginlega kominn aftur. Vá, ég held að ég hafi ekki verið með glóðarauga síðan ég var 10 ára.

Slys á næturklúbbi

Mér brá mjög þegar ég heyrði þessa frétt í útvarpinu áðan. Þegar ég kom heim var náttúrulega það fyrsta sem ég gerði að skoða hvort þetta væri klúbbur, sem að vinir mínir sækja.

Svo reyndist ekki vera. Það dóu 21 í troðningi á næturklúbbi í Suðurhluta Chicago. Einhver dyravörður notaði mace til að brjóta upp slagsmál en þá greip um sig ótti á staðnum og fólk reyndi að komast út um dyr, sem voru læstar. Í troðningum létust svo 21. Þetta er náttúrulega alveg ótrúlegt að svona skuli geta gerst. Um 1500 til 2000 manns voru í klúbbnum.

Áramótablogg

Þá er þetta ár alveg að verða búið og þá fer maður náttúrulega að hugsa um hvað hafi gerst á árinu, hvað ég hefði átt að gera betur og svo framvegis.

Þetta er búið að vera ótrúlega viðburðarríkt ár. Ég hefði sennilega ekki trúað því fyrir einu ári að ég yrði í lok árs búinn að hætta með Hildi, hætta við öll ferðalögin, útskrifast og fá verðlaun fyrir BA ritgerðina, flytja í eigin íbúð á Hagamelnum og stofna veitingastað í Kringlunni.

Það má segja að þetta ár hafi einkennst af miklum sveiflum. Prívatmálefni hafa verið erfið, enda held ég að það geti aldrei verið auðvelt að skilja við manneskju, sem maður hefur búið með í fjögur ár. Ég hef þó lært gríðarlega mikið á þessum tíma og tel að ég sé betri og vitrari maður en ég var fyrir einu ári. Núna í lok árs er ég allavegana ágætlega sáttur við mína stöðu og lít björtum augum á næsta ár.

Á námssviðinu var ég gríðarlega ánægður með endalokin á háskólanáminu. Ég átti þrjú frábær ár í Northwestern og ég sé alls ekki eftir þeirri vinnu, sem ég lagði í námið þar. Þrátt fyrir að einhverjir setji sennilega spurningamerki við það hvernig hagfræðinám nýtist við rekstur veitingastaðar, þá hefði ég ekki viljað breyta miklu varðandi námið. Ég er líka ákveðinn að fara í framhaldsnám eftir nokkur ár og þar tel ég að hagfræðigrunnurinn frá Northwestern muni koma sér mjög vel.

Allur darraðadansinn í kringum Serrano hefur auðvitað verið gríðarlega lífsreynsla. Það er hreint með ólíkindum að okkur Emil skuli hafa tekist að gera þetta allt á innan við einu ári. Þrátt fyrir að hugmyndin hafi kviknað hjá okkur fyrir nokkrum árum og þróast hjá mér og Hildi síðustu tvö ár, þá talaði ég í raun í fyrsta skipti formlega um þetta við Emil í janúar. Þá voru hugmyndirnar reyndar gjörólíkar því, sem varð ofan á. Það var í raun ekki fyrr en eftir eina kennslustund með Michael Maremont í maí að ég sannfærðist um hvað yrði besta leiðin fyrir okkur.

Staðurinn varð svo að raunveruleika á þrem mánuðum eftir að ég kom heim í ágúst. Eftirá að hyggja var það sennilega heppni hversu illa okkur gekk í byrjun, því að húsnæði í Kringlunni losnaði akkúrat á réttum tíma. Eftir að staðurinn opnaði hefur þetta gengið nokkuð vel og ég er í enda árs mjög stoltur af því sem ég hef, með aðstoð Emils og góðs fólks í kringum okkur, áorkað.

Þannig að ég er þó nokkuð bjartsýnn á næsta ár. Annars vil ég bara þakka þeim, sem skoðuðu þessa síðu á árinu og ég vona að einhverjir hafi haft gagn og gaman af. Gleðilegt ár!

Gleðileg Jól

Jæja, þá er bara klukkutími þangað til að ég fer uppí kirkjugarð að leggja blóm á leiðin hjá ömmum og öfum mínum. Með því hefjast nú jólin formlega.

Þannig að ég segi bara gleðileg jól! Hafið það sem best um jólin. smile

Nei, hæ!

Úfff, loksins er Movabletype komið í lag aftur og ég get farið að skrifa á netið á ný. Þeir, sem sjá um server-inn minn voru eitthvað að fikta í Database málum. Í stað þess að gera mér kleift að nota MySQL þá tókst þeim að rústa Berkeley DB, þannig að ég gat bara ekkert notað MT.

Allavegana, það er nú ekkert svakalega mikið búið að gerast síðustu daga. Jú, ég lenti á djammi með Betu Rokk. Við kynntumst í partíi hjá snillingunum hjá DBT, sem eru auglýsingastofa Serrano. Allavegana, þá er Beta Rokk bara skemmtilegasta stelpa og hún og vinkona hennar drógu okkur Emil á Píanóbarinn. Ég var hins vegar búinn að fá alltof mikið af fríu áfengi, þannig að ég entist ekki lengi þar.

Annars gerðist ekki mikið um helgina, lá í þynnku, horfði á Liverpool (og í framhaldi af því lagðist ég í þunglyndi). Serrano gengur bara glimrandi vel. Við vorum með auglýsingu í Fréttablaðinu á föstudag og voru viðtökurnar bara ágætar.

Hmmm, já, stóri PR er með snilldar kvikmyndagagnrýni um nýjustu mynd Michael Moore, sem mig hlakkar mjög mikið til að sjá enda er ég hrifinn af Moore.


Jammm, það gengur misjafnlega vel hjá mínum íþróttaliðum í Bandaríkjunum. Skólanum mínum gengur hrikalega í fótboltanum og einnig eru Chicago Bears búnir að tapa 700 leikjum í röð. Ég hitti reyndar gaur á Serrano, sem var í Bears bol. Hann var frá Wiscounsin (sem er álíka skrítið og Liverpool aðdáandi frá Manchester) og gátum við grátið saman yfir slæmu gengi Bears þetta árið.

Cubs eru í góðum málum, þeir búnir að ráða snillinginn Dusty Baker sem þjálfara og því verða þeir örugglega meistarar næsta sumar. Svei mér þá, mig langar ekkert smá að skella mér út til Chicago á leik næsta sumar. Meira að segja blaðamennirnir á Tribune eru bjartsýnir á að Dusty Baker muni ganga vel.

Jammmm, og Bulls eru bara búnir að vinna fjóra leiki og tapa sex, sem er bara nokkuð gott hjá því liði. Best væri náttúrulega fyrir Bulls ef þeir gætu bætt sig umtalsvert frá síðasta vetri, án þess þó að komast í úrslitakeppnina. Þá gæti þeir átt séns á að ná sér í LeBron James í næsta nýliðavali. Það væri snilld!

Ég og McDonald's

Já, gott fólk, föstudagskvöldin gerast vart meira spenanndi en kvöldið í kvöld. Ég var að vinna til klukkan 9 og síðan ég kom heim hef ég verið að þvo þvottinn (því þvottavélin í húsinu var frátekin alla aðra daga) og þrífa íbúðina. Ég hef nánast ekkert verið í íbúðinni undanfarið og því var hún farinn að líkjast svínastíu ískyggilega mikið. Núna er hins vegar allt komið í lag. Íbúðin er svo hrein að jafnvel mamma myndi geta kallað hana hreina.


Annars sá ég frétt á BBC um að McDonald’s séu að hætta með staði í einhverju Suður- Ameríku landi. Þetta eru náttúrulega stórtíðindi, aðallega fyrir mig. Ég get nefnilega státað af því stórkostlega afreki að hafa borðað á McDonald’s í öllum löndum Suður-Ameríku, það er Chile, Argentínu, Perú, Ekvador, Kólumbíu, Brasilíu, Venezuela, Paragvæ, Bólivíu og Urugvæ. Reynda hef ég ekki borðað á McDonald’s í Gíneunum og Súrínam en það geta nú vart talist alvöru lönd.

Ég hef aldrei skilið almennilega af hverju jafn fáir kunna að meta þetta stórkostlega afrek mitt. Til dæmis hefur enginn blaðamaður boðað mig í viðtal útaf þessu. Ég lagði mikinn metnað í að finna ávallt McDonald’s í öllum löndunum. Í Bólivíu vorum við Emil til að mynda komnir með svo mikið ógeð af mat innfæddra að þegar við komum loks til La Paz tókum við okkur rándýran leigubíl bara til að fara á McDonald’s. Þegar við komum svo til Úrugvæ hélt ég uppá þetta einstæða afrek með því að taka mynd af mér fyrir utan einn McDonald’s stað í Montevideo.

Ég man að þann dag leið mér loks einsog líf mitt hefði einhvern tilgang. Ég gat með stoltur sagt að ég hefði afrekað eitthvað, sem fáir munu nokkurn tímann afreka. Í framtíðinni stendur til að bæta við öllum löndum Mið-Ameríku við þetta afrek. Ég hef þegar borðað á McDonald’s í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó og því þarf ég bara að bæta við mig einhverjum 7-8 löndum til að hafa fullkomnað hið einstaka afrek að hafa borðað á McDonald’s í öllum löndum Ameríku. Ég veit allavegana að líf mitt hefur tilgang.

Hvað er ég eiginlega gamall?

Fyrir einhverjum tveimur mánuðum varð ég víst 25 ára gamall. Fólk virðist hins vegar eiga eitthvað erfitt með að trúa því.

Áðan var ég í afmælisboði hjá bróður mínum, sem er orðinn 40 ára gamall. Tengdamamma hans sagði að ég væri alveg einsog frændur mínir, synir bróður míns, en þeir eru 15 og 16 ára.

Fyrr á þessu ári ætluðum við Hildur á tónleika með Sigurrós, en þar var 18 ára aldurstakmark. Ég gleymdi skilríkjunum mínum og því vildu dyraverðirnir ekki hleypa mér inn því þeir voru ekki vissir hvort ég væri orðinn 18.

Í síðustu viku var ég í Ríkinu og var ekki með debetkortið mitt. Þar vildi konan ekki trúa því að ég væri jafngamall og ég sagði og hún virtist í raun í vafa um það hvort ég væri orðinn nógu gamall til að kaupa áfengi.

Hvað er að gerast?? Ég veit ekki hvort ég er orðinn nógu gamall til að vera ánægður þegar fólk heldur að maður sé yngri en maður er.


Allavegana, þá er ég að vonast til að ég þurfi ekki að vinna mikið um helgina. Það væri ágætt að fá smá hvíld frá Serrano. Maður hefur í raun ekki hugsað um neitt annað síðasta mánuðinn. Meira að segja þegar maður er ekki í vinnunni, þá eru allir að spyrja um staðinn, þannig að hann verður aðal umræðuefnið.


Já, og ég verð að segja að nýja Richard Ashcroft platan er alger snilld. Ég var afskaplega veikur fyrir Urban Hymns og á einhverjum tíma spilaði ég One Day ábyggilega hundrað sinnum á “Repeat”. Reyndar er ég núna í talsvert betra ástandi en ég var þá, þannig að ég verð ekki jafn dramatískur þegar ég hlusta á þessa plötu, en hún er samt góð.

Ég keypti mér líka Bent & Sjöberg og Afkvæmi Guðanna og finnst mér báðir diskar nokkuð góðir. Held að ég sé hrifnari af Afkvæmunum. “Þegiði” og “Rigning á heiðskírum degi” eru góð. Og svo er “Upp með hendurnar” náttúrulega hrein snilld. Á Bent & Sjöberg er “Kæri hlustandi” snilld. Einnig er “Fíkniefnadjöfillinn” gott.


Já, og svo eiga allir að kvitta undir hjá Dr. Gunna með Conan beiðnina. Annars er það mesti misskilningur hjá Dr. Gunna að Conan sé besti spjallþáttastjórnandinn. Staðreyndin er auðvitað sú að John Stewart, sem er með Daily Show á Comedy Central er kóngurinn. Þann þátt horfði ég á hverju einasta virka kvöldi útí Bandaríkjunum.

Serrano dagar 2-4

Þá eru hlutirnir á Serrano farnir að ganga mun betur. Byrjunarvesen er að mestu úr sögunni, þó að við eigum enn eftir að þjálfa eitthvað af hlutastarfsfólkinu. En allavegana, þá gengu gærdagurinn og dagurinn í dag mjög vel.

Traffíkin í kringum hádegið í dag var svakaleg og á tíma var biðröðin komin langt út fyrir staðinn. Á þeim tímapunkti ákváðu svo allir sölumenn landsins að koma í heimsókn til okkar á meðan ég var að rembast við að afgreiða. Til að toppa það, sprakk einhver leiðsla og Pepsi flæddi um öll gólf. Já, by the way, Pepsi Max verður vonandi komið á morgun eða miðvikudag, þannig að Ágúst gleðst vonandi þá.

Það er búið að vera ótrúlega mikið að gera. Nánast stanslaus traffík, þrátt fyrir að við höfum ekkert auglýst og að það er ekki einu sinni búið að tengja ljósaskiltið okkar. Það, sem gleður mig þó mest er að fólk virðist vera ótrúlega jákvætt varðandi matinn okkar. Ég var í afgreiðslunni í allan dag og þekkti ég að minnsta kosti 10-15 manns, sem voru að koma í annað skipti.

Annars er það fyndið að ég sá Ágúst Flygenring, stórbloggara, í fyrst skipti í dag. Allar myndirnar á heimasíðunni hans eru greinilega frekar gamlar (eða allavegan, þær sem ég hef séð) og því þekkti ég hann ekki í fyrstu. Hann var allavegana mjög ánægður og skrifar um það á síðunni sinni.

Einnig komu Kristján og Stella, en ég hef ekki hugmynd um hvernig þau líta út (þrátt fyrir að ég lesi síðuna þeirra). Stella skrifar líka vel um staðinn.