Næsta stopp: Indland

Í gær var ég í slagveðri á Íslandi, í dag í 15 stiga frosti í Stokkhólmi og á morgun er það svo Mumbai, þar sem er um 30 stiga hiti.

Við Margrét eyddum helginni á Íslandi þar sem að pabbi hennar hélt uppá fimmtugs afmæli sitt. Þrátt fyrir að þetta væri stutt heimsókn var hún ótrúlega skemmtileg og við náðum að gera mikið og hitta marga.

Í dag höfum við svo verið á fullu að undirbúa Indlandsferðina. Á morgun er það flug héðan til Zurich og svo þaðan til Mumbai. Ef allt gengur ættum við að vera í Mumbai um kl 10 annað kvöld.

Við getum ekki beðið.

Aftur af stað… Indland, Nepal, Bútan og Bangladess

Þá er komið að því að við Margrét ætlum á langt ferðalag á ný. Ég tók mér nánast ekkert frí á síðasta ári. Tók að ég held 5 frídaga, en restin af ferðalögunum voru öll til Íslands þar sem ég vann allan tímann. Þannig að núna eigum við inni slatta af fríi og ætlum að byrja að nýta okkur það. Margrét er í utanskóla námi á þessari önn og getur því tekið sér frí.

Hugmyndin er sú að fara til Suður-Asíu. Grunn hugmyndin er að heimsækja flest/öll þessi lönd: Indland, Nepal, Bútan og Bangladess. Við höfum annaðhvort 6 vikur eða 8 vikur – það fer aðeins eftir því hvort okkur finnst við ná öllu á þeim tíma.

Við erum búin að skoða þetta talsvert, en ég hef mikinn áhuga á að lesa reynslusögur frá fólki, sem hefur farið til þessara landa og fá þeirra hugmyndir.

Okkar grunnhugmynd var svona: Byrja í Mumbai, færa okkur svo upp til Udaipur, Jaipur, Agra (Taj Mahal), svo uppí Norð-Vestur hlutann – Amritsar, Dharamsala og svo einhvern veginn koma okkur austur til Varanasi. Koma okkur svo upp til Nepal, þar sem við myndum skoða svæðið í kringum Kathmandu. Við höfum sennilega ekki tíma fyrir lengri gönguferðir í Nepal, þannig að við látum Annanpurna bíða til betri tíma (ég er vongóður um að við munum aftur fara þangað). Svo aftur inn til Indlands og þaðan í stutta ferð til Bútan (kannski 4-5 dagar – við þyrftum þó að fljúga þangað samkvæmt því sem ég hef lesið). Þaðan í gegnum Indland inní Bangladess, þar sem við myndum skoða Dhaka og Sundabans. Síðan var hugmyndin að fljúga annaðhvort frá Kalkútta eða Dhaka yfir til vesturstrandar Indlands og eyða einhverjum tíma í Goa og Kerala.

Eftir megni viljum við forðast stórborgir, nema þær sem hafa eitthvað spennandi uppá að bjóða.

Það eru nokkrar spurningar í þessu, sem við erum að velta fyrir okkur.

1. Ættum við að fara til Norð-Vestur Indlands? Ég veit að sumir hlutar þar eru ófærir á þessum tíma árs – við verðum í mars (t.d. Leh, Dal vatnið í Kasmír og svo framvegis) Það tæki talsverðan tíma, en ég veit ekki hvort það sé þess virði. Maður þyrfti kannski að blanda inn heimsókn til Pakistan, sem ég er óviss um að sé sniðugt. Semsagt, eigum við að heimsækja eitthvað fyrir norðan Delhi?
2. Ég tel bara upp helstu borgirnar og túristastaðina, en ef einhver veit um góða staði á milli (við munum sennilega taka mun þéttara plan – ekki bara þessi higlight), þá er það frábært.
3. Hefur einhver reynslu af Bútan?
4. Erum við að sleppa einhverju augljósu? Ég veit að maður gleymir alltaf einhverju þegar maður byrjar að skipuleggja og plön breytast þegar maður kemur á staðinn.
5. Er þetta of þétt plan miðað við tíma?

Rómarferð 2: Punktar um Róm og trúlofun

Margrét og ég, nýtrúlofuð

Einsog ég skrifaði í fyrri hluta bloggsins um Rómarferðina, þá er nánast ómögulegt að skrifa ferðablogg þegar maður er kominn heim.  Það á enn meira við núna þegar yfir mánuður er liðinn frá sjálfri ferðinni.  Ég ætla að reyna að koma þessu frá mér með punktabloggi.

  • Það skemmtilegasta við Róm er ekki Vatíkanið eða Colosseo, heldur að labba um endalausar götur, horfa á mannlíf, borða ís og njóta þess að vera í Róm.  Bestu stundirnar okkar í Róm voru þannig.  Róm hefur auðvitað alla þessa heimsþekktu túristastaði, en auk þess er yndislegt að bara vera í borginni.
  • Maturinn í Róm er frábær.  Við borðuðum nokkrar máltíðir, sem ég myndi telja með þeim betri sem ég hef borðað á ævinni.  Reyndar fannst mér aðalrétturinn oftast sísti hluti máltíðarinnar.  Forréttir og pasta voru vanalega betri.  Guð minn góður hvað pastað var gott.
  • Villa Borghese er stórkostlegt listasafn.  Á ferðalögum fær maður oft óþol fyrir málverkum og listaverkum eftir að hafa heimsótt 2-3 söfn.  En það er hreinlega ómögulegt að verða ekki heillaður af höggmyndum Bernini í Villa Borghese.  Þær eru stórkostlegar.  Það að sjá Appollo og Daphne á ljósmynd er ekki svo merkilegt, en að sjá þessar höggmyndir fyrir framan sig er stórkostlegt.
  • Ís í Róm er æðislegur.  Ef ég byggi í Róm væri ég eflaust 150 kíló af öllu þessu pasta og ísáti og allri þessari víndrykkju.  Allavegana ef ég hegðaði mér einsog túristi sérhvern dag.  Sem Ítalir sennilega gera ekki.
  • Laugardagskvöldið í Róm var eitt besta kvöld ævi minnar.
  • Við Margrét borðuðum stórkostlegan mat á veitingastað rétt hjá hótelinu.  Svo löbbuðum við um nágrennið og á tómri götu rétt hjá Spænsku Tröppunum bað ég hana að giftast mér.  Hún sagði já.
  • Við löbbuðum yfir á næsta veitingastað, pöntuðum þar kampavínsflösku, drukkum fyrsta glasið á veitingastaðnum og tókum svo flöskuna með okkur og drukkum kampavín á Spænsku Tröppunum.  Þetta var svoooo skemmtilegt.
  • Margrét er auðvitað skemmtilegasta, klárasta, sætasta og besta stelpa í heimi.  Og nú er hún mín.  Brúðkaup verður auglýst síðar.

*Skrifað í Stokkhólmi*

Rómarferð 1: Vatíkanið og forna Róm

Þegar ég hef skrifað ferðasögur á þessari síðu þá hef ég vanalega gert það meðan á ferðalaginu stóð. Það er svo auðvelt að skrifa ferðablogg þegar maður er enn á staðnum og allar minningar eru ferskar. Það er erfiðara að gera það þegar maður kemur heim og frábær helgi í Róm virðist eiga lítið sameiginlegt með hversdagsleikanum í Stokkhólmi.

En Róm er svo stórkostleg borg að það væri synd að segja ekki eitthvað um ferðina. Ég og Margrét vorum þarna um miðjan ágúst í fjóra daga og ferðin var algjörlega frábær.

Fyrir það fyrsta er ágætt að minnast á tímasetninguna á ferðinni. Róm í ágúst getur nefnilega verið smá erfið. Flestir Rómarbúar velja þann mánuð til að fara í frí uppí sveit eða á ströndina og því eru ansi margir veitingastaðir, hótel og slíkt lokuð. Hitinn getur líka verið nánast óbærilegur ef að planið er að labba um borgina. En á móti ef maður er heppinn með veður (sem við vorum því hitinn varð aldrei svo óþægilegur nema síðasta daginn) þá er það vissulega þægilegra að labba um Róm þegar að aðeins færra fólk er á ferli, því þrátt fyrir að þetta væri “low-season” í borginni þá eru samt allir túristastaðir troðfullir af fólki.

* * *

Dögunum í Róm skiptum við á milli hverfa. Einn dagur fór í að skoða Vatíkanið, einn dagur í að skoða elsta hluta Rómar, einn dagur í Trastevere og miðbæ Rómar og síðasti hálfa deginum eyddum við svo á Villa Borghese.  Ég ætla því að skipta þessari ferðasögu uppí þá hluta.  Ég bæti svo við smá um matinn, enda var hann magnaður.

Vatíkanið

Jafnvel þótt maður sé trúlaus, þá er erfitt að hrífast ekki af stórfengleika Vatíkansins. Eftir mörg ár á ferðalögum þá hef ég smám saman orðið meira og meira þreyttur á því að heimsækja kirkjur. Kirkjur eru oftast fallegar og tengjast sögu borga sterkum böndum, en ég er nú þegar búinn að sjá Las Lajas í Kólumbíu, St. Basils í Moskvu, Sagrada Familia í Barcelona, St. Patricks í New York, Holy Sepulchre í Jerúsalem, Westminster í London, dómkirkjuna í Köln og Notre Dam í París. Þannig að kirkjur þurfa að vera verulega spennandi til þess að ég vilji eyða miklum tíma í að skoða þær.

Péturskirkjan í Róm er þó sannarlega þess virði. Við vorum mætt þangað snemma um morgun til þess að forðast mestu raðirnar og gátum því eytt talsverðum tíma í að skoða kirkjuna. Hún er stórkostleg. Allt frá Pieta eftir Michaelangelo til altaristjaldsins hans Bernini. Kirkjan er fyrir það fyrsta risavaxin og það er einstök upplifun að labba þarna um. Við skoðuðum alla ganga og listaverk í sjálfri kirkjunni og enduðum svo túrinn okkar á að labba uppá þak kirkjunnar, þar sem við blasir einstakt útsýni yfir Péturstorgið og stóran hluta Rómar.

Eftir kirkjuna skoðuðum við svo Vatíkansöfnin. Fyrir utan þau reyndist vera ansi löng biðröð og þar sem við nenntum varla að bíða í 2 tíma í steikjandi sólskini þá gleyptum við söluræðu ungrar stelpu, sem var að selja túra um söfnin. Með því að vera hluti af túr þá sluppum við nefnilega við biðröðina. Það eitt var sennilega evranna virði, því að túrinn sjálfur – með gamalli ítölsku konu sem túrgæd – endurnýjaði vantraust mitt á öllum skipulögðum túrum. Hún var hræðileg, babblaði á óskiljanlegri ensku og eftir að hafa farið yfir hluta safnsins með henni ákváðum við að stinga hana af.

Vatíkansöfnin eru í mörgum höllum Vatíkansins. Þar eru meðal annars stórkostleg verk eftir Raphael, Caravaggio, Da Vinci og fleiri. Svo endar túrin um söfnin í Sistínsku Kapellunni þar sem að stórkostlegar loftmyndir Michaelangelo eru.

Forna Róm

Áhrif Rómarveldis og umsvif voru ótrúleg. Á ferðalögum mínum að undanförnu hef ég séð talsverðan hluta af veldi þeirra, bæði í Egyptalandi og þó sérstaklega í Mið-Austurlandaferðinni minni á stöðum einsog Baalbek í Líbanon. Eftir að hafa séð þær rústir kemur það manni kannski smá á óvart að fornleifar í Róm skuli ekki vera enn magnaðri, en fyrir því eru þó ástæður.

Við Margrét eyddum góðum degi í elsta hluta Rómar. Við byrjuðum á því að labba frá miðbænum að fornu Róm, með smá stoppi við Trevi gosbrunninn þar sem við köstuðum klinki í von um að komast aftur til Rómar. Í fornu Róm byrjuðum við á því að skoða Forum og Palatino auk Capitoline safnsins.

Síðast var það svo frægasta bygging Rómar, Colosseo. Colosseo er auðvitað ein af þessum byggingum, sem maður hefur séð svo oft á myndum að maður kannast nánast við allt um leið og maður sér hana í fjarlægð. Við fórum inn og skoðuðum okkur þar um á áhorfendapöllunum og tókum myndir. Það er svo sem ekki miklu hægt að bæta við myndirnar, sem við tókum þar.

*Skrifað í Stokkhólmi*

Róm?

Ég og Margrét erum að fara til Rómar í næstu viku og verðum þar í fjóra daga. Ég veit svona nokkurn veginn hvað við eigum að gera varðandi helstu túristastaði (og við erum búin að panta hótel), en ef einhver er með tips um hvaða staði við eigum að fókusera á og sérstaklega á hvaða veitingastaði við eigum að fara á, þá eru allar tillögur mjög vel þegnar! Takk takk!

Markaðurinn í Mexíkóborg

Central de Abasto

Hjá Kottke rakst ég á þessa færslu þar sem fjallað er um aðalmarkaðinn í Mexíkóborg, Cental de Abasto.

Central de Abasto er risavaxinn markaður, alls um 3,3 ferkílómetrar að stærð.  Þar er hægt að fá nánast allt, sem manni getur dottið í hug.  Inná markaðinum eru 2.230 básar sem selja allt.  Markaðurinn hefur meira að segja sína eigin lögreglu með um 700 lögregluþjóna.

Ég hef afrekað það að vinna á þessum markaði á nánast hverjum degi eitt sumar þegar ég vann í Mexíkó.  Þá vann ég hjá sælgætisfyrirtæki og markaðurinn var mikilvægur söluaðili fyrir okkur.  Í Mexíkóborg er það nefnilega þannig að stór hluti af sælgæti er seldur af gríðarlegum fjölda sölumanna, sem að labbar um borgina eða situr á teppi og selur nokkrar tegundir af tyggjói, sígarettum og sælgæti.  Öfugt við Ísland þar sem oftast er nóg að tala við 2-3 aðila til að fá góðan markað fyrir nýjar vörur, þá þurftum við að höfða til þessara tugþúsunda sölumanna til að kynna okkar vöru.

Til þess vorum við með nokkrar stelpur, sem unnu á markaðinum á hverjum degi við að kynna okkar sælgæti.  Mitt hlutverk var að fara á markaðinn og sjá hvernig þeim gekk, hvernig þær seldu, og þjálfa nýtt sölufólk (sem voru alltaf stelpur).  Hálf vinnuvikan mín fór fram á Central de Abasto, en einnig heimsótti ég kynningarstelpur okkar sem unnu í öðrum búðum og mörkuðum í Mexíkóborg.  Þetta var einstaklega skemmtilegt starf (allavegana í minningunni) og þarna lærði ég ansi mikið um sölustörf, sem hefur nýst mér. Ég fékk að sjá ansi stóran hluta borgarinnar með þessu og ég kynntist annari hlið af Mexíkóborg en túristarnir gera.

Myndin við færsluna tók ég af sölubás í Central de Abasto árið 1997.

Egyptalandsmyndir fyrri hluti

Ég er búinn að setja inn fyrri hlutann af myndunum frá Egyptalandi inná Flickr.

Hluti af þeim var smá leiðinlegur þar sem ég gleymdi sólhlífinni á linsuna mína (sem er 18-35mm zoom og því mjög erfið í mikilli sól) og því voru ansi margar myndir með linsuglampa. Ég gat lagað sumar, en alls ekki allar. Ég reyni þá bara að ljúga því að þetta hafi átt að vera svona, ekki ósvipað og í Star Trek myndinni.

Við Margrét hjá Khafre pýramídanum í Giza

En allavegana, serían er hér á Flickr. Þetta eru myndir frá Kaíró og pýramídunum í Giza, Saqqara og Dahshur. Ég set seinni hlutann inn á næstu dögum, þar sem eru myndir frá Alexandríu og Rauða Hafinu.

Egyptalandsferð 4: Rauða Hafið

Við Margrét sitjum hérna inná hóteli núna þegar að aðeins nokkrir tímar eru eftir af fríinu okkar. Klukkan 11 í kvöld eigum við flug til Kaíró og þaðan til Amsterdam og svo til Stokkhólms þar sem við eigum að lenda á hádegi á morgun.

Við höfum verið hérna í Sharm El-Sheikh í 5 daga og þetta hefur verið frábær tími. Tímanum hefur verið skipt á milli sólbaðs og köfunnar. 2,5 dagar í sólbaði og 2,5 dagar í köfun. Þessi tími í sólbaði er svo sannarlega nógu langur fyrir mig – ég mun seint skilja hvernig fólk endist mikið lengur í fríi við sundlaugarbakka.

Hápunktarnir hérna hafa klárlega verið kafanirnar hérna í Rauða Hafinu. Við höfum kafað sex sinnum hérna. Fyrsta köfunin var bara tékk-köfun, sem maður þarf oftast að fara ef langt er liðið síðan að maður kafaði síðast, þar sem við köfuðum bara við lítið rif hérna rétt hjá hótelinu. Við höfum svo farið í tvær dagsferðir þar sem við höfum kafað í þjóðgörðum hérna í nágrenni Sharm. Í fyrra skiptið vorum við í hinum fræga Ras Mohammed garði þar sem við köfuðum tvisvar og í gær köfuðum við þrisvar í Strait of Tiran.

Bæði skiptin voru stórkostleg. Ég hef farið í um 16 kafanir um ævina og það kemur mér alltaf á óvart hversu ótrúlega skemmtilegt þetta sport er. Bara það að geta verið á 20 metra dýpi í nánast algjöru þyngdarleysi og svifið þar um er nógu skemmtilegt. Þegar maður svo bætir við jafn stórkostlegu dýra- og plöntulífi einsog er hérna í Rauða Hafinu og þá eru fáar upplifanir sem að jafnast við það. Í gær vorum við með strák, sem tók myndir af okkur í köfununum og þær segja kannski meira en mörg orð og ég mun reyna að setja myndirnar inn þegar við komum heim en dýralífið var ótrúlegt. Við sáum endalaust magn af fiskum og skjaldbökum.

Ég hef núna kafað við strendur Belize, Indónesíu og Egyptalands og ég verð að segja að Rauða Hafið hefur vinninginn. Við erum þó bara búin að kafa á nokkrum af þeim fjölmörgu frábæru stöðum sem eru hérna í nágrenninu og seinna stefnum við á að koma aftur og kafa þá meðal annars í frægu skipsflaki, sem liggur hér nálægt.

*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 17*

Egyptalandsferð 3: You're a lucky man

Það er dálítið skrýtið að ætla að skrifa um Egyptaland hérna á hóteli í Sharm El-Sheikh. Mér líður einsog við höfum ekki bara flogið yfir Suez skurðinn og yfir á Sínaí skaga, heldur til annars lands.

Sharm El-Sheikh er jú þessi típíski sumardvalarstaður sem að ég hef böggast útí allt mitt líf. Hann gæti alveg eins verið á Taílandi eða á Spáni – hér er ekkert sem bendir frekar til að maður sé á Egyptalandi fyrir utan það að við sundlaugina eru nokkrar stelpur í fullum klæðum í sólbaði í stað þess að vera á bikiní.

* * *

Annars hafa Egyptar komið mér fyrir sjónir (fyrir SES) sem talsvert meiri frjálslyndir heldur en til dæmis Sýrlendingar. Þeir eru gríðarlega opnir og hafa áhuga á okkur Margréti – karlmennirnir hafa sennilega aðeins meiri áhuga á Margréti en mér, en þeir eru þó ófeimnir við að lýsa því yfir að ég sé heppnasti maður í heiminum.

Í Egyptalandi (utan SES) eru nánast allar stelpur með slæðu. Munurinn þó á Egyptalandi og til dæmis Sýrlandi er að hérna eru langflestar með litríkar slæður yfir hárinu, en svo klæðast þær annars bara venjulegum fötum. Mjög fáar eru hér í svörtum kuflum miðað við hvernig þetta var í Sýrlandi, Jórdaníu og Palestínu, þótt þær séu vissulega nokkrar. Einhvern veginn finnst manni einsog slæðan sé bara til málamynda – hún er bara einsog tísku fylgihlutur einsog hattur væri á Vesturlöndum. Ég hafði svo sem lesið um það áður að Egyptar væru afslappaðari og frjálslyndari en múslimar í hinum Mið-Austurlöndunum sem ég hef heimsótt og ég get ekki annað en samþykkt það ef ég á að dæma af þessari stuttu heimsókn.

* * *

Margrét náði sér að lokum af magapestinni og við náðum að skoða Alexandríu vel á miðvikudaginn. Við löbbuðum um alla borgina á þeim degi og skoðuðum helstu hluti, svo sem safn þar sem haldið var utanum glæsilega sögu þessarar borgar. Borgin var jú í mikilli lægð í hundruði ára og það olli því að hennar frægustu minnismerki hurfu og liggja í dag annaðhvort undir hafsbotni eða undir nýbyggingum. Þannig er Vitinn í Alexandríu löngu horfinn þó að við höfum heimsótt þann stað þar sem hann var sennilega einu sinni. Og bókasafnið brann fyrir hundruðum ára, þó að í dag sé í Alexandríu nýtt og glæsilegt bókasafn.

Það síðasta markverða sem við gerðum svo í Alexandríu var að borða ljúffengan fisk á litlum grill-fiskistað áður en við tókum svo flugið hingað til Sharm El-Sheikh.

Hérna lærðum við það strax á flugvellinum þegar ég lét Margrét prútta niður leigubílaverð að verðlag er hérna með allt öðru móti. Hérna er allt margfalt dýrara en á öðrum stöðum í Egyptalandi. En hérna er líka yndislegur hiti (í Alexandríu var kalt á kvöldin) og hérna fyrir utan ströndina eru kóralrif og dýralíf sem margir segja að sé með því magnaðasta í þessum heimi. Það er einmitt á planinu okkar á morgun að kafa í Rauða Hafinu.

*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 18.10*

Egyptalandsferð 2: Píramídarnir

Þá erum við Margrét komin að strönd Miðjarðarhafsins í Alexandríu. Þessari ótrúlega sögufrægu borg, sem hefur þó því miður ekkert að sýna fyrir frægustu staðina. Vitinn er löngu hruninn og bókasafnið löngu brunnið. En í stað þess er Alexandríu nokkuð falleg stórborg, sem er talsvert ólík Kaíró.

Hér í úthverfunum blöstu strax við falleg hús, sem eru ólík hinum endalausu rauðu múrsteins húsum, sem við sáum í Kaíró. Um leið og við vorum komin út fyrir miðbæ Kaíró blöstu við okkur *alls staðar* byggingar, þar sem að hæðir og burðarbitar voru steyptir en veggir hlaðnir úr rauðum múrsteinum. Þannig var þetta útum allt, þúsundir bygginga, sem voru nákvæmlega eins. Flestallar ókláraðar, annaðhvort alveg ókláraðar eða þá að efsta hæðin var ókláruð með vírum sem stóðu uppúr. Ég las einhvers staðar að það væri vegna skattamála, það er víst eitthvað ódýrara að klára ekki byggingarnar alveg. Slíkt veldur því að fyrir utan elsta hlutann í Kaíró er allt ókláraðar rauðar byggingar.

Þetta var nokkuð áberandi þegar við keyrðum á milli píramída í gær. Alveg einsog í Kambódíu var ekki laust við að manni finndist hálf sorglegt að sjá, í bland við stórkostlegar ævafornar byggingar, ömurlegar byggingar nútímans. En Kaíró hefur auðvitað þanist út svo stórkostlega síðustu ár og þangað flytur aðallega fátækt fólk, sem hefur ekki efni á öðru. Þannig að þróunin er kannski skiljanleg þó hún sé sorgleg.

* * *

Píramídarnir eru auðvitað aðalástæða fyrir því að flestir túristar koma til Egyptalands. Sól og píramídar. Gærdagurinn hjá okkur var ágætis blanda af því tvennu.

Píramídarnir í Giza eru á meðal um 100 píramída, sem að enn standa í Egyptalandi. Við leigðum okkur í gær leigubíl, sem keyrði okkur um þá helstu í nágrenni Kaíró. Fyrstur var “Step Pyramid“, sem var byggður fyrir faróann Djóser árið 2.630 fyrir Krist og er talinn vera elsta stóra steinbygging í heiminum. Píramídarnir í Gíza spruttu ekki upp fullskapaðir, heldur voru í Egyptalandi byggðir þónokkrir píramídar fyrir þann tíma. Smám saman tókst arkitektunum að fullkomna listina. Eftir það skoðuðum við leifar borgarinnar Memphis og þaðan fórum við að Rauða og skakka píramídunum. Sá skakki er skakkur vegna þess að arkitektarnir áttuðu sig þegar að verkið var hálfnað að þeir höfðu verið full bjartsýnir og þurftu því að minnka hallann á efsta hlutanum. Sá Rauði er svo þriðji stærsti píramídinn í Egyptalandi. Við fórum inní þann píramída, sem var nokkuð spennandi. Við klifruðum niður löng göng þangað til að við stóðum inní miðjum píramídanum í litlu plássi.

Allir þessir píramídar voru góð upphitun fyrir Píramídana í Gíza. Þeir eru auðvitað aðalmálið. Ég hafði heyrt alls konar hryllingssögur af því hvernig svæðið þar væri, en það var alls ekki jafn slæmt og ég hélt. Svæðið er þó smá einkennilegt því að ólíkt því sem ætla mætti af myndum, þá eru píramídarnir í raun inní miðri borg. Gíza borgin er komin alveg uppað píramídunum og það gerir upplifunina skrýtna. Svo er þar auðvitað fullt af sölumönnum og úlfaldaköppum, en þeir voru ekkert jafn ægilegir og okkur hafði verið sagt.

Píramídarnir eru auðvitað (það þarf varla að taka það fram) stórkostlegir.

Ég var ekki alveg viss hverju ég ætti að búast við. Ég hef jú séð flesta af hinum merkilegustu píramídum heims (Teotihuacan og Chichen Itza í Mexíkó og Tikal í Gvatemala). En þeir í Egyptalandi eiga þó klárlega vinninginn. Sérstaklega þegar að maður tekur það með í reikninginn að þeir voru gerðir sirka 2.300 fyrir Krist, sem er um 2.700 árum áður en að píramídar Maya-nna voru gerðir. **2.700 árum áður**.

Á þessum 4.300 árum, sem að píramídarnir hafa staðið þarna í Giza hefur auðvitað barið á þeim. Þeir eru um 10 metrum lægri en þeir voru í upphafi (í kringum 150 metrar í dag) og efsta laginu af þeim hefur nánast öllu verið stolið (fyrir utan toppnum á minni píramídanum). Í fjarlægð virka þeir fullkomnir, en það er í raun enn magnaðara að sjá þá nálægt þegar að maður sér hversu mikið sést á þeim. Þetta eru stórkostlegar byggingar og sennilega fátt í heiminum, sem jafnast við þá upplifun að sjá þá í fyrsta skiptið. Fyrir framan þá situr svo Sfinxinn, sem er minni en allir halda að hann sé, en samt magnaður. Skeggið er jú á British Museum og nefið var dottið af fyrir 1.000 árum, en hann stendur samt fyrir sínu.

* * *

Eftir þennan píramída-túr þá eyddum við síðasta kvöldinu í Kaíró á Abu Simbel, frábærum egypskum veitingastað. Í morgun vaknaði Margrét þó með magapest og kölluðum við á lækni fyrir hana. Hún er auðvitað ekki alveg jafn vön ferðalögum og ég og maginn hennar virðist ekki samþykkja matinn alveg eins auðveldlega og minn magi. Við keyrðum þó samt hingað til Alexandríu þar sem við erum búin að koma okkur fyrir á hóteli við Corniche strandgötuna. Margrét er uppá herbergi og hún verður vonandi orðin nógu hress á morgun til þess að halda áfram fjörinu.

*Skrifað í Alexandríu, Egyptalandi klukkan 20.18*