Evrópuferð 3: Alparnir

Þegar við keyrðum frá Svíþjóð til Króatíu árið 2017 þá var einn af hápunktunum að eyða dögum í Ölpunum og því var það ofarlega á óskalistanum okkar að gera það aftur núna.  Ég eyddi talsverðum tíma í að skoða hvernig við gætum komið okkur frá Lyon yfir til Ítalíu með langri viðkomu í fallegum Alpabæjum.  Fljótlega komst ég þó að því að það yrði alltof erfitt að koma okkar fimm manna fjölskyldu yfir á ítalskar strendur með viðkomu í Ölpunum ef við ætluðum að ferðast eingöngu með lestum.

Því enduðum við á því að leigja okkur bíl í Lyon.  Það flækti hlutina talsvert (þar sem við myndum þurfa að skila bílnum aftur í Lyon) en það var merkilega ódýrt og eftirá að hyggja get ég ekki ímyndað mér hvernig þetta frí hefði heppnast án þess að vera á bíl.

Annecy

Frá Lyon keyrðum við í tæpa tvo tíma til Annecy vatns.  Þar skoðuðum við þennan fallega túristabæ í stuttan tíma (sem var þó nægilega langur til þess að við héldum í alvörunni að litli strákurinn okkar (5 ára) væri týndur) en keyrðum svo meðfram Annecy vatni að baðströnd, þar sem krakkarnir gátu leikið sér í hoppturni einsog þau hafa gert svo óteljandi oft í sænskum sumarfríum.

Strönd við Annecy vatn.

Frá Annecy keyrðum við svo seint um kvöld ótrúlega hlykkjóttan veg upp til Chamonix við rætur Mont Blanc þar sem fyrstu vetrar Ólympíuleikarnir voru haldnir.  Eitt það besta við að vera í Ölpunum um sumar er að hitastigið er vitaskuld lægra þar í þúsund metra hæð heldur en í borgum við sjávarmál, e það breytti því ekki að hitastigið í Chamonix var fáránlega hátt þegar við vorum þarna.  

Lausnin á því var meðal annars að taka hæsta kláf heims uppí 3.842 metra hæð á toppinn á Aiguille du Midi þar sem er stórkostlegt útsýni yfir hæsta fjall Evrópu, Mont Blanc.  

Kláfurinn
Uppá toppnum
Mont Blanc

Meðmæli Annecy og Chamonix

  • Plage Saint-Jorioz: Fín strönd með hoppturni og fínum veitingastað við Annecy vatn.
  • Rose du Pont í Chamonix: Einn besti veitingastaðurinn sem við borðuðum á í ferðinni.  Er á aðaltorginu í Chamonix með útsýni yfir ána, Mont Blanc og býður uppá frábæran mat.
  • Kláfurinn uppá Aiguille du Midi : Eitt ráð er að það þarf að panta í kláfinn fyrirfram og ef það er mikið af fólki þá þarf maður að vera visst lengi uppá fjallinu.  Krakkarnir voru ekkert brjálæðislega sátt þegar við fengum að vita það á toppnum að það væru 3 tímar áður en við kæmumst aftur niður til Chamonix.

Daginn eftir keyrðum við svo í gegnum Mont Blanc fjall yfir til Ítalíu.  Asnalegu fordómarnir í mér höfðu undirbúið mig fyrir það að það yrði á einhvern hátt erfiðara að keyra á Ítalíu en það var fjarri lagi.  Við keyrðum alla leið frá Chamonix til bæjarins Cernobbio við Como vatn.  Valið á Cernobbio var einskær tilviljun.  Við vildum annaðhvort vera við Como eða Garda vatn og í Cernobbio fundum við einfaldlega mjög fína Airbnb íbúð á góðu verði.  Ég hef verið með þessi vötn smá á heilanum eftir að ég horfði á Succession þátt sem gerðist við Como vatn.

Í Bellagio
Á siglingu um Como vatn

Bærinn reyndist vera fínt val.  Como vatn er ótrúlega fallegt með Alpana í bakgrunni og fallegar villur meðfram ströndinni.  Við prófuðum bæði að vera á prívat strandklúbbi (kostar 10 evrur og þá var bæði hægt að synda í sundlaug og í vatninu) og einnig á strönd sem var opin fyrir öllum.  Við fórum líka í dagsferð til Bellagio, sem er vinsælasti túristastaðurinn við Como vatn.  Sá bær hafði þó ekki svo mikið að bjóða uppá fyrir utan dýrar búðir og frábæran gelato auk þess sem að útsýnið frá vissum götum var stórstkostlegt.

Meðmæli Como

Evrópuferð 2: París og Lyon

Þrátt fyrir að ég uppfæri þessa bloggsíðu ekki nema 1-2 svar á ári þá hugsa ég oft um hluti sem mig langar að skrifa um hér.  Þegar ég hjóla í vinnu á morgnanna þá skrifa ég oft í hausnum á mér pælingar sem svo komast aldrei mikið lengra.  

Ég hef líka aðeins hugsað hvernig ég get skrifað um ferðalög á þessa bloggsíðu.  Ferðasögurnar sem ég skrifaði hérna fyrir 10-15 árum voru fullar af fróðleik um framandi staði, sem er kannski ekki alveg jafn spennandi þegar við erum að ferðast um staði sem flestir Íslendingar þekkja vel.  Mér finnst það samt glatað að mín einu spor á internetinu séu á hinu hræðilega Twitter/X og svo á Instagram eða Facebook.

Niðurstaðan mín er að reyna að skrifa aftur ferðasögu, en hafa meira myndefni og einföld meðmæli um staði, sem okkur fannst standa uppúr.


Frá Birmingham tókum við lestina aftur til London og þaðan alveg svívirðilega dýra Eurostar lest til Parísar, þar sem allar lestar voru yfirfullar af fólki á leið á Ólympíuleikana.  Við vorum komin til Parísar 10 dögum áður en Ólympíuleikarnir hófust þar sem gerði það að verkum að það var eriftt að finna gistingu og á endanum ákváðum við að vera aðeins í eina nótt í París en bóka strax daginn eftir lest til Lyon, þar sem væri betra og ódýrara að vera.

Croissant í morgunmat í Café Ventura í París
Á labbi um París
Ávextir
Eiffel turninn með Ólympíuhringina
Hôtel-de-Ville líka í Ólympíustuði

Við náðum þó að fara með krakkana okkar í laaaangar gönguferðir um París.  Fyrri daginn löbbuðum við frá hótelinu okkar, niður að Louvre og svo að Eiffel turninum.  Allt í París var skreytt Ólympíuhringjunum og það var hægt að sjá hvernig borgin var að breytast með áhorfendapöllum á mörgum stöðum.  Við löbbuðum einhver 15.000 skref, tókum myndir fyrir framan Louvre og Eiffel turninn og borðum frábæran franskan mat.  Seinni daginn í París löbbuðum við ennþá meira um borgina og enduðum hjá Notre Dame kirkjunni.

Á labbi um París
Önd

Meðmæli París

  • Hotel YOY: Lítið hótel sem við gistum á í París, sem við getum mælt með.
  • Les Antiquaires: Sko, það eru sirka milljón góðir veitingastaðir í París og ég er ekki að segja að þessi sé einstakur, en við vorum ótrúlega sátt hér í nágrenni Eiffel turnsins. Sjá mynd af mat hér að ofan.

Eftir langa göngu um París þá tókum við lestina niður til Lyon.  Í þeirri borg eyddum við tveimur heilum dögum í gamla miðbænum, þar sem við bjuggum í Airbnb íbúð.

Basilique Notre-Dame de Fourvière
Théâtre Gallo Romain
Musée Cinéma et Miniature
Creperie
Efnilegur ljósmyndari
Dótabúð
Útsýni yfir Lyon

Hitinn í Lyon var talsvert meiri en í París og seinni daginn var ég full bjartsýnn í skipulagningu á gönguferð þegar ég dró alla fjölskylduna að skoða rústir af rómversku leikhúsi uppá (mjög hárri) hæð ásamt Basilique Notre-Dame de Fourvière (sjá myndir að ofan). 

Annars fór tíminn í Lyon í að labba um gamla bæinn, að spila fótbolta á torgum borgarinnar og í að borða alveg fáránlega góðan franskan mat.  Ég eyddi talsverðum tíma í að finna réttu veitingastaðina í Lyon og það tókst frekar vel.  Krakkarnir lærðu að elska steak hache og ég hélt mínu striki í að panta önd á sem flestum veitingastöðum í Frakklandi (ég lærði það þegar ég ferðaðist með vinum mínum um Frakkland þegar að Ísland keppti á EM árið 2016 sælla minninga).

Það er kannski ekki neitt sérstakt sem stóð uppúr í Lyon (fyrir utan Musée Cinéma et Miniature) en það var afskaplega þægilegt að vera í þessari borg. Maturinn var frábær, borgin ótrúlega falleg, veðrið gott og fólkið líka. Við hefðum alveg geta verið þar lengur.


Meðmæli Lyon

  • Musée Cinéma et Miniature: Dan Ohlmann, sem vann við að búa til lítil módel fyrir bíómyndir stofnaði þetta safn í Lyon þar sem eru til sýnis fjölmörg módel hans og annað dót úr bíómyndum.  Krakkarnir elskuðu safnið.
  • Made Louve: Samlokustaður rétt hjá íbúðinni okkar þar sem ég fékk samlokur sem eru með þeim allra bestu sem ég hef á ævi minni smakkað.
  • Restaurant Café du Soleil
  • Brasserie Gabriel: Bæði þessi og Café du Soleil eru algjörlega frábærir franskir veitingstaðir – allt frá staðsetningu til matar, þjónustu og verðs var frábært.


Evrópuferð 1: Birmingham

Það eru tíu ár síðan að við Margrét ferðuðumst um Mexíkóflóa með litlu krökkunum okkar tveimur.  Við eyddum mánuði á Flórída og á ferðalagi í rólegheitum um Kúbu og Yucatan skaga.  Krakkarnir voru tveggja ára og bara nokkurra mánaða og því var auðvelt að ferðast með þau á þessum slóðum. 

Þetta frí var í síðasta skipti sem ég skrifaði ferðasögu á þessa bloggsíðu.

Við höfum ferðast síðan þá, en svosem ekki á svo brjálæðislega spennandi staði.  Fyrir 7 árum fórum við saman fjögur á Volvo-inum okkar alla leið frá Stokkhólmi niður til Króatíu.  Ég ætlaði alltaf að skrifa um þá ferð á þessu bloggi en lét aldrei verða af því.  Svo hafa sumarfríin að mestu leyti skipst á milli þess að vera í Svíþjóð eða á Íslandi.  Yndisleg sumarfrí á Gotlandi og á vesturströnd Svíþjóðar, sem hafa verið ógleymanleg en ég hef ekki fundið mig knúinn til að skrifa um þau.

Síðustu tvö ár hafa svo farið í flutninga til Íslands og í fyrra ferðuðumst við eingöngu um Ísland.  Í ár áttum við í erfiðleikum með að skipuleggja sumarið – Margrét er í nýrri og krefjandi vinnu og ég átti í erfiðleikum með að skipuleggja frí því það var svo mikið að gerast í vinnunni hjá okkur báðum.  Við vissum þó bæði að okkur langaði mikið að komast í hlýrra loftslag.

Fyrir einhverjum vikum kom sú hugmynd uppí hausnum á mér að kaupa bara flugmiða til Evrópu og reyna að skipuleggja fríið þegar við værum farin af stað. Mér fannst þessi fjölskylda þurfa á smá ævintýri að halda. 

Fljótlega fengum við svo ágætis byrjunar- og enda dagsetningu.  Við þurftum að vera komin til Birmingham á Englandi þann 12. júlí því þar ætlaði franchise aðili okkar á Bretlandi að opna Zócalo stað númer tvö þann 13. júlí.  Og af því að íbúðinn okkar er í Airbnb útleigu þá gætum við ekki komið heim fyrr en 8. ágúst. 

Þannig að við vorum með fjórar vikur í fríi sem þyrfti að byrja í Birmingham.  Við vorum líka ákveðin í að fara aftur í Legoland.  Þar vorum við fyrir 7 árum þegar börnin okkar voru 3 og 5 ára og okkur fannst passa frábærlega að fara þar aftur núna þegar börnin eru 5, 10 og 12 ára.  Þannig var kominn endapunktur á fríið – það yrði í Danmörku en meira var ekki ákveðið.  Ég pantaði flug til London og heim frá Kaupmannahöfn, fann útúr lestarmiðum frá London til Birmingham og við fundum einhverja (mjög lélega) Airbnb íbúð í Birmingham til að geta gist fyrstu dagana.


Zócalo staðurinn í Birmingham
Bowl á Zócalo í Birmingham

Birmingham er næst fjölmennasta borg Bretlands með um 3 milljónir íbúa.  Við lentum fyrir hádegi á Stansted flugvelli í London og þurftum þaðan að taka flugvallarlest, underground og svo eina lest í viðbót til að koma okkur alla leið á New Street stöðina í Birmingham.  Við höfðum skipulagt pökkun á okkar dóti vel fyrir ferðina, þar sem við ætluðum að vera með lítinn og meðfærilegan farangur.  En samt var ekki auðvelt að bera farangur fyrir fimm manns á milli lesta og svo uppí íbúð í Birmingham.

Ég að horfa á úrslitaleik EM með strákunum mínum

Dagana í Birmingham reyndi ég að gera hvað ég gat til að hjálpa til við opnunina á staðnum, sem opnaði með soft opening laugardaginn eftir að við komum.  Á sunnudeginum horfðum við svo á England tapa í úrslitaleik EM.  Ég hélt að það yrði brjáluð stemning fyrir leiknum og hægt yrði að sjá hann á stórum skjá með fulltaf fólki en svo var ekki raunin í Birmingham.  Því horfðum við á leikinn í íbúðinni okkar og þar sem England tapaði þá var lítil ástæða til að kíkja á stemninguna eftir leikinn. Annars eyddum við dögunum á labbi um Birmingham – kíktum aðeins í búðir og á ágætt vísindasafn, sem krökkunum fannst skemmtilegt.


Meðmæli Birmingham

Mexíkóflóaferð 5: Riviera Maya

Síðustu dagarnir á Kúbu fóru í ferðalög. Frá Trinidad tókum við leigubíl til Havana með smá stoppi í borginni Santa Clara. Þar vann Che Guevara mikinn sigur á hersveit Batista og þess vegna er Santa Clara sá staður þar sem líkamsleifar Che eru geymdar í dag.

Við skoðuðum minnismerki um Che í borginni og safn um hann ásamt því að koma inní herbergi þar sem líkamsleifar hans og annarra uppreisnarmanna, sem voru drepnir með honum í Bólivíu, eru geymdar. Við keyrðum svo áfram til Havana og tókum daginn eftir flug þaðan og til Mexíkó.


Í Mexíkó vorum við í 8 daga á Yucatan skaga. Ferðamannastaðirnir þar minna ekki mikið á Mexíkó frá því að ég bjó í Mexíkóborg fyrir 17 árum. Cancun og Puerto Aventura eru resort bæir sem líkjast Tenerife og Sharm El Sheikh meira en Mexíkó. En kosturinn við bæina í Mexíkó er að þar er boðið uppá mexíkóskan mat.

Við gistum fyrst á fínu hóteli nálagt Playa del Carmen og fórum svo til Cancun þar sem við gistum í nokkra daga til viðbótar. Miðbær Cancun er þó mexíkóskur, ólíkt Zona Hotelera hótelsvæðinu, sem gæti alveg eins verið í Bandaríkjunum. Á Zona Hotelera í Cancun var mér alltaf svarað á ensku þótt ég talaði spænsku við fólk og öll verð eru gefin upp í bandaríkjadollar líkt og að gjaldmiðill mexíkóa sé einhvern veginn ógildur í þeirra eigin landi. Allt virðist vera gert til þess að bandaríkjamönnum líðið hálf partinn einsog þeir séu ennþá heima. NFL er í sjónvarpinu, Budweiser á krananum og allt hægt að borga með dollurum.

Eina markverða sem við gerðum fyrir utan að liggja á sundlaugarbakka var að sjá Tulum rústirnar, sem liggja við ströndina rétt fyrir sunnan Playa del Carmen. Tulum bætast þá í hóp með Tikal í Guatemala, Lanaima í Belize og Chichen Itza í Mexíkó yfir Maya rústir sem ég hef séð og held ég því að þeim hring sé ágætlega lokað.


Ég var nokkuð spenntur fyrir því að smakka aftur mexíkóskan mat í Mexíkó. Í Cancun prófuðum við nokkra ólíka hluti – allt frá fine dining stöðum fullum af túristum yfir á litla sölubása í almenningsgarði fulla af innfæddum Cancun búum. Fínu staðirnir voru ekkert spes, en skemmtilegasta upplifunin var í Parque de las Palabas þar sem við gátum hoppað á milli sölubása sem seldu Tacos al pastor, gringas, alambre og allt hitt sem gerði mig ástfanginn af mexíkóskum mat fyrir 17 árum og breyttu lífi mínu.

Mér finnst maturinn ennþá frábær, en ég hef líka breyst. Bragðlaukarnir breytast með árunum – mér finnst Bud Light ekki lengur besti bjór í heimi og ég get borðað osta, sem mér fannst ógeðslegir fyrir nokkrum árum. Eins þá er ég ekki alveg jafn hrifinn af mexíkóskum götumat og ég var einu sinni. Margt er of feitt og oft finnst mér of mikil áhersla á kjöt og tortillur í matnum. Að mörgu leyti fannst mér maturinn sem við seljum á Zócalo í Svíþjóð vera betri en sá sem við borðuðum á götumarkaði í Cancun. Eflaust eru margir ósammála mér, en svona líður mér í dag.


Þessu fimm vikna ferðalagi okkar fjölskyldunnar lauk svo með flugi til Orlando og þaðan heim til Íslands. Það að ferðast svona lengi með 2,5 ára og 6 mánaða krökkum var sannarlega lífsreynsla og auðvitað gríðarlega ólíkt því þegar við Margrét vorum ein að ferðast.

Ég myndi þó segja að þetta var að mörgu leyti léttara en ég átti von á. Þau tvö eru á ólíkum stað í lífinu, vaka, sofa og borða á ólíkum timum, en það tókst merkilega vel að samræma það. Ég hef sagt við fólk, sem hefur spurt mig um hversu erfitt þetta hefur verið, að það að vera með tvö lítil börn allan sólahringinn í fimm vikur er erfitt, punktur. Þá skiptir ekki svo miklu máli hvort við hefðum eytt þessum fimm vikum á ferðalagi um Svíþjóð eða Kúbu. Það er erfitt að halda 2,5 ára strák við efnið þegar að eina dótið sem hann er með eru 10 litlir bílar þegar hann er auðvitað vanur miklu meiru.

Maturinn var ekkert vesen fyrir Jóhann Orra, enda er maturinn í allri Ameríku nokkuð einfaldur og góður. Mikið um hrísgrjón, grænmeti og kjúkling sem honum finnst gott.

Það sem þessar fimm vikur gáfu okkur voru líka að fá að vera með þessu börnum svona mikið án truflana frá leikskóla, vinnu eða öðrum skyldum. Ég hef kynnst Björgu svo miklu betur – ég get svæft hana á mettíma núna og fengið hana til að hlæja hvenær sem er. Maður hefur ekki endalausan tíma með þessum börnum og það er, þrátt fyrir allt vesen og umstang, einstakt að geta verið með þeim svona mikið í svona langan tíma. Það er samt alltaf gott að komast aftur heim í hversdagsleikann.

Skrifað í flugi til Svíþjóðar 24.nóvember klukkan 9.24

Mexíkóflóaferð 4: Trinidad

Trinidad er sennilega með fallegri borgum sem ég hef komið til á öllum mínum ferðalögum. Í kringum 1850 fylltist þessi borg af frökkum, sem voru að flýja uppreisn á Haiti og þökk sé sykurökrum þá varð borgin rík og gullfallegar byggingar voru reistar í miðbænum sem standa enn í dag. Borgin er líka á heimsminjaskrá Unesco og vinsæl af ferðamönnum, þannig að húsin hafa verið fullkomlega varðveitt.

Gata í Trinidad
Gata í Trinidad

Hitinn hérna er gríðarlegur, svo að við höfum ekki endalaust þol til að labba um göturnar með tvö börn í burðarpoka eða vagni (sem erfitt er að draga á steinóttum götum) en það þarf ekki langan tíma til að meta fegurð borgarinnar. Við höfum verið hérna síðustu þrjá daga, skoðað borgina og notið lífsins á Ancón ströndinni, bestu strönd Kúbu við karabíska hafið, sem er stutta bílferð frá Trinidad.


Þetta er leigubíllinn sem keyrði okkur á Ancón ströndina í nágrenni Trinidad í gær.

Margrét í leigubílnum
Margrét í leigubílnum

Lada, árgerð 1980 og eitthvað myndi ég giska á. Ansi margir bílar hérna eru annaðhvort gamlir bandarískir bílar frá Batista tímanum eða Lödur, innfluttar á Sovéttímanum. Sumar þeirra eru lygilega vel farnar og hafa sennilega verið gerðar upp nokkrum sinnum (og ég verð að viðurkenna að mér finnst þessar Lödur dálítið flottar) en sumar Lödurnar eru gjörsamlega að hruni komnar en einhvern veginn þrauka þær ennþá. Einsog leigubíllinn í gær sem var með gati í gólfinu og gati á milli hurðar og sætis, sem leit út einsog bíllinn væri að liðast í sundur. En samt komst hann á áfangastað og tilbaka.

Ókosturinn við þessa gömlu og sjarmerandi bíla er samt að þeir eyða enn bensíni einsog það væri árið 1960. Kolsvart sót spýtist úr bílunum og loftið á götu á Kúbu með tveimur bílum er margfalt verra en loftið á hraðbraut á Flórída þar sem 50 bílar keyra framhjá þér á mínútu.

(Hér gefst ágætt tækifæri til að lýsa því enn yfir hversu fullkomlega galið viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu er árið 2014. Þvílík endemsi vitleysa.)


Í Trinidad gistum við aftur í Casa Particular, sem er sér kúbverskt fyrirbrigði. Í raun býr maður í heimahúsi hjá fólki og er smá partur af fjölskyldunni. Í Trinidad vísaði herbergið okkar útað garði þar sem Jóhann getur leikið sér og meðlimir fjölskyldunnar eru dugleg við að passa hann og Björgu enda eru þau (líkt og flestir Kúbverjar) algjörlega trylltir í þessi litlu ljóshærðu og rauðhærðu börn okkar.

Þessi Casa Particular eru svo margfalt persónulegri en hótelherbergi og gera upplifunina á Kúbu enn betri. Á því Casa Particular sem við gistum núna borgum við um 30 dollara fyrir herbergi fyrir okkur 4. Lúxusinn er takmarkaður, en okkur líður vel hérna og Jóhann getur leikið um og maturinn er frábær. Það er nóg.

Ég og Jóhann slöppum af um kvöld á casa particular í Trinidad.
Ég og Jóhann slöppum af um kvöld á casa particular í Trinidad.

Ég sit hérna á ruggustól með bjór í hendi, horfi yfir garðinn og pikka þetta inn á tölvuna mína. Internet aðgangur á Kúbu er verulega takmarkaður. Í hverjum bæ eru einhver internet kaffihús, en tölvurnar eru margra ára gamlar og tengingin hæg, þannig að litlu er hægt að koma í verk. Wi-Fi er svo bara til staðar á fínustu hótelunum. Ég ákvað því að hvíla mig bara algjörlega á netinu í þessa 10 daga sem við erum á eyjunni. Fá hvíld frá vinnu, Twitter, Liverpool úrslitum, íslenskum stjórnmálum og öllu öðru sem maður fylgist með á netinu. Pikka þess í stað inn þessa ferðasögu á tölvuna mína og setja hana á netið þegar við komum aftur til Mexíkó.


Við gistum eina nótt í viðbót hérna í Trinidad, en tökum á morgun leigubíl til Santa Clara og þaðan áfram til Havana, þar sem við eigum flug eftir tvo daga til Cancun.

Skrifað í Trinidad, Kúbu 8.nóvember kl 16.43

Mexíkóflóaferð 3: Svínaflói, Cienfuegos og Havana Club

Seinni árin mín í framhaldsskóla, eftir að ég hafði búið eitt ár sem skiptinemi í Venezuela og svo eitt sumar í Mexíkó, elskaði ég að tala um suður-amerísk stjórnmál. Á árinu mínu í Venezuela fór ég frá því að vera ungur Sjálfstæðismaður talsvert yfir til vinstri og það ferðalag hélt áfram sumarið í Mexíkó. Ég var heillaður af Che og suður-amerískum vinstri mönnum og mér blöskraði yfir því hversu margt í Venezuela og Mexíkó var gjörsamlega galið.

Svo með aldrinum varð ég minna róttækur – það verður minna spennandi að ræða stóru línurnar í pólitík heimsins þegar maður er ekki tvítugur lengur. En á Kúbu kemst ég ekki hjá því að hugsa um stjórnmálin og allt sem þeim tengist. Castro er vondi kallinn í huga svo margra og Kúba á að vera kommúnistaríki sem hrundi á sama ári og Sovétríkin hrundu, þar sem bílarnir eru áratuga gamlir og allt í rúst. Allt er hrikalegt undir stjórn Castro á Kúbu.

En er ástandið á Kúbu svo slæmt? Fólkið virðist af öllu vera mjög hamingjusamt, það er lítið um greinilega eymd (ég labba framhjá fleiri betlurum í Stokkhólmi á hverjum degi en ég geri hér) og fólkið hefur aðgang að menntun og heilbrigðiskerfi sem eru með þeim betri í Suður-Ameríku.

Svo sannarlega virðist margt vera betra hér en í mörgum löndum Suður-Ameríku, sem ég hef heimsótt. Raúl Castro virðist líka vera á margan hátt betri en Fídel. Ofsóknum á samkynhneigðum hefur verið hætt, pólitískir fangar eru flestir lausir og það er mikið um aukið frjálsræði – sérstaklega þegar að kemur að hlutum sem eru augljósir ferðamönnum einsog verslun, veitingar og gistiþjónsuta.

Fyrir saklausan túrista, sem hefur enga sérstaka þekkingu á innviðum landsins þá lítur þetta allt bara ágætlega út. Það er ekki sami æsingur í að selja manni vöru og fólk keyrir gamla bíla og á gamla síma, en er það virkilega það sem öllu máli skiptir? Er ekki betra að fólk geti gengið um götur sæmilega óhrætt um líf sitt ólíkt ástandinu í El Salvador, Venezuela og Mexíkó.

Leigubílaröð í Cienfuegos
Leigubílaröð í Cienfuegos

Ég veit ekki. Já, það er ansi margt sem ekki er í lagi á Kúbu – landi sem hefur haft sömu bræður við völd í 55 ár, en einhvern veginn finnst mér ástandið vera betra en það var hérna fyrir 15 árum síðan. Viðskiptabann Bandaríkjanna lætur Kúbu alltaf líta illa út því við sjáum svo oft hlutina með augum Bandaríkjanna. Castro er sósíalisti og hann er vondi kallinn og því líður manni smá einsog maður verði að útskýra að þetta lítur bara ekkert svo illa út fyrir ferðamann einsog mig. Kúbverjar eru glatt og yndislegt fólk, sem virka ágætlega sáttir með ástandið.

(Ég var líka heillaður af Sýrlendingum og fannst þeir yndislegir og hamingjusamir árið 2008 á ferðalagi mínu þá, þannig að það má taka þessar túristavangaveltur með fyrirvara)


Frá höfuðborginni Havana tókum við fjölskyldan á þriðjudaginn leigubíl að Gíron ströndinni í Svínaflóa. Þangað er um tveggja tíma akstur frá Havana á stærstu hraðbraut landsins, sem er samt full af holum og örfáum bílum sem voru ekkert mikið yngri en bandarísku fornbílarnir í Havana. Gíron er nálægt þeim stað sem Svínaflóainnrásin misheppnaða var gerð árið 1961 þegar að 1400 kúbverjar í útlegð réðust á Kúbu með aðstoð CIA og samþykki Kennedy forseta. Fidel komst að innrásinni áður en hún var gerð og það hjálpaði Castro og félögum að gjörsigra innrásarliðið. Það leiðist Kúbverjum ekki að monta sig af á hinum fjölmörgu skiltum sem blasa við manni á leiðinni til Svínaflóa.

Jóhann Orri kemst á land í Svínaflóa.
Jóhann Orri kemst á land í Svínaflóa.

Við stoppuðum á ströndinni, borðuðum ótrúlega góðan fisk og leyfðum Jóhanni að baða sig í karabíska hafinu.

Frá Giron hélt leigubíllinn svo með okkur áfram til borgarinnar Cienfuegos, borg sem var stofnuð af frönskum innflytjendum. Við gistum í miðbænum, skoðuðum þar litrík hús, löbbuðum um göturnar og meðfram ströndinni og borðuðum frábæran mat. Á svona labbi er skortur á kapítalisma á Kúbu afar greinilegur. Í 30 stiga hita og glampandi sól labbandi á strandgötu við karabíska hafið var enginn að reyna að selja okkur ís eða gos. Þarna voru bara við og búðirnar voru til staðar ef við þurftum á þeim að halda, en þá þurftum við að finna þær, sem getur verið erfitt þar sem þær eru oft nánast ómerktar. Veitingastaðurinn sem við borðuðum á í gær var í heimahúsi – borðið okkar við hliðiná bílskúrnum.

Prado gatan í Cienfuegos við strönd karabíska hafsins.
Prado gatan í Cienfuegos við strönd karabíska hafsins.

Maturinn hérna er að mörgu leyti frábær. Eftir tvær vikur í Bandaríkjunum með allri þeirri matartengdu sturlun sem það land býður uppá, þá er að mörgu leyti gott (fyrir heilsuna) að komast í talsvert meiri einfaldleika hérna á Kúbu. Því það er smá einsog allur matur sé ákveðinn á fundi einhverrar nefndar í Havana. Til að mynda höfum við núna borðað morgunmat á þremur gistiheimilum en hann er samt alltaf sá sami – egg, ávaxtadjús (mangó eða guyaba), hvítar brauðbollur með smjöri og einhverju ávaxtamauki og svo skornir ferskir ávextir sem eru ananas, guayaba, bananar og papaya. Allar aðrar málíðir virðast svo fylgja eftirfarandi formúlu: Prótín (fiskur, sem er frábær, svínakjöt eða kjúklingur), hrísgrjón, svartar baunir, steikt plantain eða yuca og svo grænmetisblanda, sem er alltaf hvítkál, avokadó, grænar baunir, agúrka og tómatar. Ótrúlega hollt og gott.

Che skilti í Cienfuegos
Che skilti í Cienfuegos

Drykkirnir eru líka yndislegir. Mojito, sem ég hef aldrei fílað sérstaklega í Evrópu, er mun bragðsterkari hér og sterkt rommbragð skín í gegn, sem er yndislegt. Gott Havana Club romm er eitthvað sem ég hef lært að meta í þessari ferð.

Já, og kaffið. Kaffið er stórkostlegt. Eftir tvær vikur af þunnu Starbuck’s kaffi (þar sem að í Orlando virðast gilda þau lög að ÖLL kaffihús þurfi að vera Starbuck’s) þá er ótrúlega gott að fá rótsterkt kúbverskt kaffi.


Eftir frábæran mat í Cienfuegos tókum við svo í gærkvöldi leigubíl áfram hingað til Trinidad. Hérna verðum við næstu daga áður en við höldum aftur til Havana með stoppi í Santa Clara.

Skrifað í Trínídad, Kúbu 6.nóvember kl 21.24

Mexíkóflóaferð 2: Tímavélin Havana

Það eru sextán ár síðan að ég kom með bandarískum vini mínum til Havana, höfuðborgar Kúbu. Þá taldi ég að þetta væri síðasta tækifæri mitt til að sjá eyjuna áður en að Fidel Castro myndi deyja og allt breytast. Við vorum saman í eina viku í Havana, þar sem við kynntumst frábærum Kúbverja á bar sem hann vann á og sáum með honum borgina, drukkum á barnum hans og stunduðum partí í heimahúsum fram á nótt. Núna 16 árum síðar er ég hérna tveggja barna faðir með eiginkonu og tvö lítil börn. Jú, ég fæ mér mojito og bjór með matnum, en ekkert á við flösku af rommi blandaða í eina kókdós einsog árið 1998.

Gata í Havana.  Búið að mála.
Gata í Havana. Búið að mála.

Að mörgu leyti hefur borgin líka breyst en að ótrúlega mörgu leyti er hún eins. Fidel er orðinn 88 ára gamall og hætti sem hæstráðandi á Kúbu fyrir átta árum og lét litla bróður sínum Raúl eftir völdin. En andi Fídel og hans gömlu vina er auðvitað enn mjög sterkur. Havana er vissulega ennþá einsog tímavél full af hálf hrundum ótrúlega fallegum byggingum og gömlum amerískum bílum frá 1950 ásamt gömlum Fiat og Lödu bifreiðum frá 1980. En ég sé líka talsverðar breytingar. Löggur eru ekki nærri því jafn áberandi á götum úti og aukið frjálsræði í viðskiptum þýðir að úrval veitingastaða hefur margfaldast (síðast borðuðum við hrísgrjón og baunir á götuhorni í næstum hverri máltíð). Habaguanex, stofnunin sem fyrir túristapeninga sér um að endurbyggja miðbæinn, hefur líka gert mikið gagn og miklu fleiri hús hafa verið endurgerð og líta ekki út fyrir að vera við það að hrynja.


Í Havana búa rúmlega 2 milljónir íbúa af þeim ellefu sem búa í heildina á Kúbu. Flestir hlutir sem vekja áhuga ferðamanna eru í gamla miðbænum, Habana Vieja eða Vedado. Borgin er ótrúlega falleg með litríkum húsum og miklu götulífi. Það mest sjarmerandi við Habana Vieja (þar sem við búum á litlu gistiheimili rétt hjá Plaza Vieja) er að borgin er lifandi og full af innfæddum. Ólíkt mörgum gömlum túristaborgum þá býr fólk í Habana Vieja og Habaguanex hefur einmitt gert í því að viðhalda borgarlífinu og gera fólki kleift að búa áfram í miðborginni svo að svæðið verði ekki bara samansafn af hótelum og Airbnb íbúðum. Manni líður líka einsog maður sé öruggur hérna. Fyrir sextán árum fannst mér ég vera öruggur útaf öllum löggunum, en þótt ég sjái þær ekki jafnmikið í dag líður mér enn einsog við séum sæmilega örugg hérna, jafnvel seint um kvöld. Núnva var ég til að mynda að koma heim eftir langan göngutúr í myrkrinu – nokkuð sem ég myndi aldrei nokkurn tímann gera í San Salvador, Mexíkóborg, Caracas eða Bogota.

Jóhann Orri leikur sér með trébílinn sinn á götu nálægt Plaza Vieja
Jóhann Orri leikur sér með trébílinn sinn á götu nálægt Plaza Vieja

Ferðamenn borga fyrir allar vörur í CUC, gjaldmiðli sem er jafn bandaríkjadollar, en kúbverjar borga fyrir vörur í Moneda Nacional, sem hefur 10% af verðmæti CUC. Þannig að ég borga 1 CUC (=1 dollar) fyrir vatnsflösku, en kúbverji borgar 10 sinnum minna. Ég labba inná veitingastað og fæ mér bjór og vatn, en kúbverji þarf oft að bíða í biðröð eftir að kaupa einföldustu vörur. Þetta tvöfalda kerfi og miklu meira frjálsræði fyrir kúbverja að stofna fyrirtæki sem höfða til ferðamanna er byrjað að valda auknu misræði á milli borgaranna. Þeir sem vinna nálægt ferðamönnum geta leyft sér að kaupa merkjavöru á meðan að aðrir með hefðbundna vinnu hafa það ekki nærri því jafn gott. Sósíalíska byltingin hans Fídels er ekki alveg að virka að þessu leyti.


Við komum hingað með flugi frá Cancún (þar sem við þurftum að millilenda vegna þess að auðvitað er ekkert beint flug frá Flórída til Kúbu) og gistum á litlu gistiheimili á San Ignacio götunni. Með tvö lítil börn er ferðaskipulagið talsvert öðruvísi. Við heimsækjum minna af söfnum (nema þegar börnin eru sofandi eða þegar söfnin hafa eitthvað sem klárlega er spennandi fyrir Jóhann Orra = BÍLAR) og reynum að nýta daginn sem best í kringum þá tíma sem þau eru vakandi og sofandi. Við höfum notið tveggja daga á rólegu labbi í gegnum gömlu Habana, enda nýtur maður borgarinnar best þannig. Vissulega eru sölumenn miklu ágengari en fyrir sextán árum, en það er auðvelt að labba framhjá þeim og njóta þess að vera í borginni sem iðar af lífi og lifandi tónlist útum allt.

Che, Fidel og Camilo á Byltingasafninu.
Che, Fidel og Camilo á Byltingasafninu.

Við höfum heimsótt Byltingarsafnið, þar sem sýningarnar eru sextán árum eldri en síðast, jafn stórkostlega litaðar af áróðri – sem gerir þær bara skemmtilegri – og enn snjáðari og sjúskaðari en fyrir sextán árum. Seinnipartinn í gær löbbuðum við svo um Malecón strandgötuna. Flest húsin við þá götu eru að hruni komin útaf saltmengun og í gær var gatan lokuð bílaumferð þar sem öldurnar skullu á varnargarðinu með svo miklum krafti að sjórinn flæddi yfir. Það er magnað að labba og skoða þessa götu í slíku veðri. IMG_5619 Við höfum svo labbað torganna á milli í Habana Vieja og í morgun gerðum við það túristalegasta af öllu túristalegu í Havana og leigðum okkur bleikan Cadillac blæjubíl frá 1953, sem fór með okkur um þá staði sem við náðum ekki að labba um. Svo sem Vedado, Kínahverfið og auðvitað Byltingartorgið þar sem andlitsmyndin af Che Guevara með Hasta La Victoria Siempre hefur nú fengið félagskap frá Camilo Cienfuegos með sín frægustu ummæli, Vas Bien, Fiedel.

Ég drekkandi frábært kúbverskt kaffi á Byltingasafninu í Havana með Björgu í poka.
Ég drekkandi frábært kúbverskt kaffi á Byltingasafninu í Havana með Björgu í poka.

Svo höfum við reynt að borða góðar kúbverskar samlokur (innblásin af myndinni Chef höfum við þó komist að því að góðar kúbverskar samlokur eru sennilega algengari á Miami en í Habana), drukkið frábæra mojitos og Cristal bjór, borðað mikið af hrísgrjónum og svörtum baunum og notið rólegs lífs í þessari frábæru borg. Á morgun tökum við svo bíl til Svínaflóa og þaðan til borgarinnar Cienfuegos. Skrifað í Havana, Kúbu 3.nóvember klukkan 20.02

Mexíkóflóaferð 1: Skemmtigarðar, keðjur og bílar

Fyrir þremur árum skrifaði ég síðasta langa ferðabloggið á þessa síðu þegar að við Margrét ferðuðumst í tvo mánuði um Indland í algjörlega frábærri ferð. Hvað gerðist svo í mínu lífi? Jú, ég gifti mig og við Margrét eignuðumst tvö ótrúlega skemmtileg börn – þau Jóhann Orra (sem er 2,5 ára) og Björgu Elísu (sem er fimm mánaða gömul). Þetta neyðir fólk með ferðaáhuga til að endurskoða aðeins ferðaplönin því það er ekki alveg það sama að ferðast tvö ein með tvo bakpoka í rútu á Indlandi og að vera tveggja smábarna foreldrar í ferðahugleiðingum.

Við erum núna byrjuð á fyrsta langa ferðalaginu síðan á Indlandi og á einhvern hátt erum við að reyna að púsla saman ferðalagi, sem er þægilegt og skemmtilegt fyrir krakkana, en býður líka uppá hluti sem eru krefjandi og skemmtilegir fyrir okkur. Það snýst allt um að hitta eitthvert jafnvægi milli tveggja vikna á Kanaríeyjum og bakpokaferðalagi á Indlandi.

Niðurstaðan var fimm vikna ferðalag um Mexíkóflóa. Við byrjuðum á rúmum tveimur vikum á Flórída, förum svo til Kúbu og að lokum til Yucatan skaga í Mexíkó. Við ferðumst með tvær ferðatöskur, barnavagn og bakpokann minn.


Flórída er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heimi og þar er Orlando miðpunktur ferðamannastraumsins með hlýtt loftslag allt árið og heimsþekkta skemmtigarða, sem laða að sér ótrúlegt magn ferðamanna. Slatti af þeim virðist koma frá Íslandi því á síðustu tveimur vikum hef ég oftar heyrt íslensku úti á götu (eða inni í verslunarmiðstöð) í Orlando en ég geri vanalega í Stokkhólmi.

Ég, Margrét, Jóhann Orri og Björg Elísa höfum verið í Orlando í tvær vikur ásamt fjölskyldu Margrétar í leigðu húsi í einu úthverfi borgarinnar og átt nokkuð hefðbundið Flórída frí með sól, bílaleigubíl, skemmtigörðum verslunarmiðstöðvum og miklum mat.

Ég bjó í Bandaríkjunum í yfir þrjú ár í kringum aldamótin. Sú upplifun var ótrúlega ólík því sem maður upplifir í úthverfi á Flórída. Ég bjó í Evanston, úthverfi Chicago sem er að mörgu leyti frábær og óbandarísk borg með skemmtilegum miðbæ þar sem maður getur labbað og borðað á veitingastöðum sem tilheyra ekki risastórum keðjum. Vinir mínir í háskóla voru frekar vinstri sinnaðir og að mörgu leyti líkari Evrópubúm í hugsunarhætti en hægri sinnuðum löndum sínum.

En í úthverfum Orlando þar sem skemmtigarðarnir eru þá er stemmningin öðruvísi. Allt er byggt í kringum bílaumferð, engar gangstéttir eru til staðar né sér maður nokkurn mann á hjóli. Útum allt eru stórir verslunarkassar og fyrir framan þá keðjuveitingastaðir. Ég elska Bandaríkin en ég elska ekki svona bandarísk úthverfi og þá menningu þar sem allt byggist á því að keyra risastóran og loftkældan bíl á milli verslunarkjarna eða á keðjuveitingastaði sem eru þeir sömu og í næstu götu á eftir.

Það er nokkuð erfitt að skrifa ferðasögu eftir tveggja vikna ferð um stað sem svo margir hafa farið á, þannig að ég ætla bara að koma þessu frá mér í punktaformi.

  • Magic Kingdom í DisneyWorld er frábær staður fyrir lítil börn. Jóhann Orri er 2,5 ára gamall og hann algjörlega elskaði Magic Kingdom. Það að við vorum þarna í október gerði flestar raðir þolanlegar og FastPass hjálpaði líka til (FastPass er ókeypis kerfi til að skrá sig fyrifram í viss tæki). Fyrir rúmum 20 árum var ég með foreldrum mínum í Disneyworld þar sem við fórum bara í Epcot, sem var þá skelfilega leiðinlegt en Magic Kingdom er mun skemmtilegra. Fyrir krakka yfir 10-12 ára eru aðrir skemmtigarðar eflaust betri, en fyrir börn undir 10 ára er Magic Kingdom algjör paradís.
  • Unversal Studios og Busch Gardens bjóða uppá talsvert meira fjör (bæði 14 ára gömlum og 37 ára gömlum Einari fannst Busch Gardens skemmtilegasti garðurinn) og báðir eru frábærir fyrir börn, þá sérstaklega Busch Gardens sem býður uppá frábær leiksvæði.
  • Utan þessara skemmtigarða voru leiksvæði, sem við heimsóttum, alveg með ólíkindum léleg. Í verslunarmiðstöðvum voru leiksvæði styrkt af stórfyrirtækjum en voru samt svo léleg að Stokkhólmsbúinn Jóhann Orri (sem er vissulega ótrúlega góðu vanur frá Stokkhólmi) gafst fljótt upp og horfði hálf hissa á eldri krakka leika sér í tækjum sem hann hætti að leika sér í fyrir rúmu ári.
  • Í svona stórum hóp þar sem allir vilja prófa staði sem fólk hefur lesið um eða séð í bíómyndum þá endar maður oftast á því að borða á keðjuveitingastöðum. Skoðanir mínar á þeim flestum hafa ekki breyst mikið frá því að ég bjó í Bandaríkjunum. Af skyndibitastöðum bera Five Guys (hamborgarar) og Chipotle (burrito) enn af. Það er galið að fá sér hamborgara á McDonald’s eða Burger King þegar að Five Guys er líka í sömu borg. Við þá bættist svo Flórída staðurinn Earl of Sandwich, sem var frábær. Af stórum hefðbundnum keðjuveitingastöðum er Fogo de Chao æðislegur og ég elska enn pizzurnar á California Pizza Kitchen, en staðir einsog Friday’s, Chili’s og (verst af öllu) Cheesecake Factory eru oftast með mun betri matseðla en mat.
  • Flórída ríki ofnotar stöðvunarskildu stórkostlega! Ég held að ég hafi varla séð biðskyldumerki á öllu þessu ferðalagi.
  • Hvað myndi ég gera öðruvísi í næsta Flórída fríi með börn? Sennilega eyða meiri tíma í DisneyWorld og taka hlutunum rólegar þar – við kláruðum alltaf hvern garð á einum degi og það er gríðarlegt stress og álag fyrir litla krakka. Í staðinn hefði ég hreinlega verið til í að gista á Disney hóteli og taka garðana á nokkrum dögum. Svo myndi ég leigja hús með garði sem liggur ekki í norður (og hefur því sól í meira en klukkutíma) og helst velja bæ einsog Sarasota þar sem hægt er að labba um, öfugt við úthverfi Orlando.

Annars er ég bara nokkuð sáttur eftir þessar tvær vikur. Við eyddum þeim með frábæru fólki – bæði fjölskyldu Margrétar í lengri tíma og foreldrum mínum í stuttan tíma og það er það sem skiptir máli. Þegar ég á þó að velja mitt draumafrí þá dettur mér samt ekki beint í hug endalausar bílferðir og þunnt Starbuck’s kaffi.

Það er líka ekki auðvelt að skrifa áhugaverðar ferðasögur úr slíku fríi, þótt að það sé á marga vegu frábært. En núna sit ég á flugvellinum í Cancún, nýbúinn að borða Huevos Rancheros og guacamole og við bíðum saman eftir flugi til Havana á Kúbu. Á þeirri eyju ætlum við að eyða næstu 10 dögum í Havana og fleiri bæjum (planið hljómar uppá Havana, Cienfuegos og Trinidag en það kemur í ljós seinna). Eftir það ætlum við að koma aftur hingað til Yucatan skaga og eyða öðrum 10 dögum á Maya rívíerunni.

Skrifað í Cancun, Mexíkó kl 11:49

Dubai ferð 2: Hæsta bygging í heimi

Burj Khalifa er hæsta bygging í heimi. Í raun er alveg kjánalega mikill munur á henni og þeim byggingum sem voru áður hæstar. Pýramídarnir í Giza eru um 150 metra háir og Eiffel turninn rétt yfir 300 metrar. World Trade Center turnarnir voru rétt yfir 400 metra háir og Sears turninn í Chicago er rúmlega 500 metra hár með öllum möstrum.

Ég hef lengi verið heillaður af háum byggingum. Fyrir um 15 árum fór ég uppá efstu hæð í Sears Tower sem var á þeim tíma hæsta bygging heims. Um svipað leyti fór ég svo til Toronto í Kanada þar sem að CN turninn er (sem var þá enn hærri en Sears Tower) og fór þar í utanáliggjandi glerlyftu uppá útsýnispall með glergólfi, sem er svakalegasti útsýnispallur, sem ég hef farið á.

En allavegana, CN turninn er um 550 metrar og var hæsta frístandandi bygging í heimi – það eina sem var hærra en CN turninn var sjónvarpsmastur í Norður Dakota, en því mastri var haldið stöðugu af vírum og því fékk það ekki að vera á listanum yfir hæstu frístandandi byggingar heims. Mastrið er 628 metra hátt.

Margrét og Jóhann Orri hjá Burj Khalifa.
Margrét og Jóhann Orri hjá Burj Khalifa.
Semsagt, áður en Burj Khalifa var byggður þá voru hæstu byggingar heims annars vegar 550 hár CN turn og svo 628 metra sjónvarpsmastur, sem var haldið stöðugu af vírum. Og hvað gerðu menn í Dubai? Jú, þeir ákváðu að þetta skyldi toppað. Og til þess að tryggja það að einhverjir aðrir klikkhausar myndi ekki toppa Burj Khalifa strax þá var ákveðið í sjálfu byggingaferlinu að fara enn hærra með bygginguna. Þannig að hún endaði í 828 metrum! Það er sléttum TVÖ HUNDRUÐ metrum hærra en sjónvarpsmastrið. Semsagt, menn tóku hæstu byggingu í heima og bættu oná það jafngildi þriggja Hallgrímskirkna.

Útsýni úr Burj Khalifa yfir miðbæinn og í fjarlægð má sjá Burj Al Arab hótelið
Útsýni úr Burj Khalifa yfir miðbæinn og í fjarlægð má sjá Burj Al Arab hótelið

Þess vegna er smá skrýtið að standa fyrir utan þessa byggingu því maður getur ekki alveg áttað sig á því hversu há hún er án þess að rifja upp staðreyndirnar. Kannski væri þetta enn stórfenglegra ef að 300 metra hár Eiffel turn væri þarna til samanburðar. En við dáðumst að byggingunni, tókum myndir í hæfilegri fjarlægð og fórum svo uppá útsýnispallinn, sem var bæði inni og úti. Hann er þó “eingöngu” á 124. hæð (452 metrar) af um 160 hæðum í byggingunni. Útsýnið er skiljanlega gott yfir þessa furðulegu borg og þar á meðal er fínt útsýni yfir heims-eyjarnar rétt utanvið ströndina.

* * *

Einsog í svo mörgu öðru í Dubai virðist tilgangurinn á bakvið bygginguna vera fyrst og fremst að skapa umtal um Dubai og að laða að ferðamenn. Og það virkaði allavegana á mig því ég hef verið forvitinn um þessa borg þrátt fyrir að ansi margt við uppbyggingu hennar sé mér kannski ekki að skapi.

En það er ekki hægt að neita því að Dubai er að mörgu leyti frábær ferðamannastaður ef maður veit hvað maður vill fá útúr borginni. Ef maður vill sól um miðjan vetur, frábær hótel, frábærar búðir og líka eitthvað spennandi og skemmtilegt að sjá, þá er Dubai klárlega staðurinn. En ókostirnir fyrir ferðafólk eru líka margir. Fyrir það fyrsta er þetta dýr áfangastaður – þó að maður fái vissulega verðmæti fyrir peningana í hótelgistingu og mat. Annar gallinn er sá að áfengi er bara selt á hótelveitingastöðum, sem er ekki lítið pirrandi. Það er leiðinlegt að geta ekki fengið sér einn bjór á veitingastað eftir langan dag.

En eftir 10 daga í borginni get ég allavegana sagt að þessi borg er einstök. Hún er klárlega ekki fyrir alla, en samblandan af veðrinu, einstakri þjónustu og merkilega spennandi hlutum að sjá, gerir hana allavegana að spennandi valkosti.

Skrifað í Stokkhólmi kl 20.44

Dubai ferð 1: Hin ótrúlega og sturlaða Dubai borg

Hvernig á að lýsa fyrirbærinu Dubai?

Jú, við fjölskyldan erum til að mynda á hóteli við smábátahöfnina í Dubai. Hótelið er staðsett á landi sem er núna eyja, en var hluti af meginlandinu fyrir 11 árum. Sjónum var veitt inní landið og úr því varð skurður, höfn og hluti landsins breyttist í eyju. Þar er núna hótelið okkar ásamt tugum annarra hótela og eftir 1-2 ár er gert ráð fyrir að um 120.000 manns muni búa hérna.

Hótelið okkar samanstendur af tveimur 48 hæða turnum. Það var byggt á tveimur árum frá 2003-2005. Ef maður fer uppá efstu hæð sér maður vel yfir Palm Jumeirah, sem er samansafn af eyjum, sem voru búnar til með því að moka sandi af botni Persaflóa, sem að saman mynda risavaxið pálmatré.

Maður getur tekið sporvagn frá rót pálmatrésins og alveg uppí topp þar sem að fyrir er Atlantis hótelið með sínum 1.537 herbergjum og vatnsrennibrautagarði og sædýrasafni í garðinum. Já og þar sem hægt er að bóka stærstu svítuna í eina nótt fyrir 2,3 milljónir íslenskra króna. Auk Atlantis eru 27 önnur hótel á þessum eyjaklasa, strandlengja þessa pálmatrés er 520 kílómetrar og þetta pálmatré var ekki til fyrir 12 árum! Já, og þetta er ekki eina pálmatréið því að fyrir sunnan er Palm Jebel Ali, sem á þegar það er tilbúið að vera heimili um 250.000 manna. Ef menn finna sér ekki ásættanlegan stað á pálmatrjánum þá er alltaf hægt að kaupa eina eyju í heims-eyjaklasanum, sem að er að mestu leyti tómur rétt utan við miðbæ Dubai.

* * *

Frá hótelinu er líka nokkuð auðvelt að taka metro-lest (sem opnaði fyrir 3 árum) niður í miðbæ Dubai þar sem hægt er að fara uppí hæstu byggingu heims, Burj Khalifa, eða eyða deginum í stærstu verslunarmiðstöð heims.

Dubai er einsog kapítalisminn að hlaupa sigurhring öskrandi að allt sé hægt með nógu miklum peningum, krafti og olíu.

Þetta er heillandi borg, ekki síst útaf öllum þessu brengluðu andstæðum. Af þeim borgum sem ég hef heimsótt líkist hún mest Las Vegas. Hún á sannarlega nær ekkert sameiginlegt með öðrum múslimaborgum sem ég hef heimsótt fyrir utan konur í hijab og stöku bænaköll.

Dubai er óður til kapítalismans. Hérna er ekki bara hægt að kaupa Rolex, heldur eru öll Rolex úrin með demöntum og úr gulli. Hér er ekki bara hægt að kaupa Fendi og Dior föt, heldur líka Fendi og Dior barnaföt og rúmföt. Ég hef labbað framhjá þremur Vertu búðum (Vertu selja drasl síma sem eru blingaðir upp og seldir fyrir einhverjar milljónir). En í verslunarmiðstöðinni slökknar samt á tónlistinni nokkrum sinnum á dag til að hægt sé að hlusta á bænaköll og réttarkerfið er að vissu leyti byggt á sharia lögum þar sem að vitnisburður kvenna gildir bara 50%.

* * *

Dubai er eitt af hinum sjö furstadæmum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Dubai er stærsta borgin og er ásamt Abu Dhabi (sem er langstærsta furstadæmið að flatarmáli) langmikilvægust furstadæmanna. Hér búa um 2 milljónir manns, en í furstadæmunum öllum búa rúmlega 8 milljónir. Landið liggur á norðausturhluta Arabíuskaga – Dubai er umlukið Abu Dhabi í vestri og suðri og Sharjah furstadæminu í austri – en sjálf Sameinuð Arabísku Furstadæmin eiga landamæri að Sádí Arabíu í suðri og Oman í austri. Fyrir norðan er svo Persaflói og hinum megin við hann er Íran.

Landið er eitt stærsta olíuveldi heims, en yfirvöld hafa beitt sér mikið fyrir því að landið þurfi ekki að treysta eingöngu á olíu og því hefur ferðamannaiðnaðurinn vaxið gríðarlega. Stór hluti af því hefur verið að auglýsa Dubai og Abu Dhabi með alls kyns merkilegum hlutum einsog að byggja hæsta turn í heimi eða að breyta valdahlutföllum í breskri knattspyrnu með því að dæla peningum inní fótboltalið þar. Aðeins um 15% íbúa í Dubai eru innfæddir emíratar (er það orð? ég finn ekki íslenska þýðingu á emirati) á meðan að 74% íbúa koma frá Indlandi, Pakistan og Bangladesh!

* * *

Það er vissulega auðvelt að slappa hér af á góðu hóteli, sem gæti þess vegna verið á Tenerife eða öðrum evrópskum túristastöðum. En það er einmitt þessar ótrúlegu öfgar í einu og öllu, sem gera Dubai að svo spennandi borg.

Við Margrét og Jóhann Orri höfum verið hérna í viku og notið tímans. Við Margrét eigum von á okkar öðru barni í maí og því vildum við stað þar sem við gætum slappað af en einnig séð eitthvað spennandi. Því hefur ferðin verið blanda af hangsi við sundlaug og því að skoða alla geðveikina sem er Dubai. Hér er um 28 stiga hiti, sem er talsvert þægilegra en þegar ég millilenti hérna í 43 stiga hita fyrir nokkrum árum.

Við höfum labbað mikið en þrátt fyrir að borgin hafi byggst upp á allra síðustu árum og allt sé frekar miðstýrt þá er ótrúlega lítið hugsað fyrir gangandi ferðamönnum. Það er dálítið einsog borgin sé hönnuð með það að sjónarmiði að maður geti farið úr bíl inní loftkæld hús án viðkomu á gangstétt.

Þetta höfum við rekið okkur á nokkrum sinnum þegar við höfum hundsað ráð hótelstarfsmanna og ákveðið að labba í stað þess að taka leigubíl þegar við ætlum að fara á staði sem virðast ekki vera nema nokkur hundruð metra frá hótelinu. En þar sem að borgin er hönnuð fyrir bíla með 13 akreina hraðbrautum í gegnum hana endilanga, þá getur það reynst erfitt. Kannski er þetta ágætt þegar að hitinn er svo óbærilegur að allt lífið snýst um að fara úr einu loftkældu boxi í annað, en þegar að hitinn er jafn þægilegur og núna þá er það hálfger sóun.

Og það er reyndar ákveðinn rauður þráður í gegnum þetta allt að einhvern veginn sé maður partur af einhverju vandamáli með því að vera hérna. Það er ekkert vit í því að byggja skýjakljúfa úr stáli, steypu og gleri í miðri eyðimörkinni. Og auðvitað eiga ekki að vera ferskvatnssundlaugar 100 metra frá Persaflóa og hvað þá að hér eigi að vera gras á golfvöllum. Yfirvöld eru að reyna að breyta og bæta þetta með metnaðarfullum verkefnum, sem að vonandi hjálpa til. Þegar ég sá innanhús skíðabrekkuna í dag þá fannst mér þetta allt í einu vera komið skrefi of langt. Ég gat ekki eytt pening í það að skíða í loftkældu húsi í eyðimörkinni.

En það er einmitt öll þessi klikkun sem gerir þetta allt svo spennandi og skemmtilegt. Allavegana í nokkra daga.

Skrifað í Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum klukkan 00.15