Burj Khalifa er hæsta bygging í heimi. Í raun er alveg kjánalega mikill munur á henni og þeim byggingum sem voru áður hæstar. Pýramídarnir í Giza eru um 150 metra háir og Eiffel turninn rétt yfir 300 metrar. World Trade Center turnarnir voru rétt yfir 400 metra háir og Sears turninn í Chicago er rúmlega 500 metra hár með öllum möstrum.
Ég hef lengi verið heillaður af háum byggingum. Fyrir um 15 árum fór ég uppá efstu hæð í Sears Tower sem var á þeim tíma hæsta bygging heims. Um svipað leyti fór ég svo til Toronto í Kanada þar sem að CN turninn er (sem var þá enn hærri en Sears Tower) og fór þar í utanáliggjandi glerlyftu uppá útsýnispall með glergólfi, sem er svakalegasti útsýnispallur, sem ég hef farið á.
En allavegana, CN turninn er um 550 metrar og var hæsta frístandandi bygging í heimi – það eina sem var hærra en CN turninn var sjónvarpsmastur í Norður Dakota, en því mastri var haldið stöðugu af vírum og því fékk það ekki að vera á listanum yfir hæstu frístandandi byggingar heims. Mastrið er 628 metra hátt.
Semsagt, áður en Burj Khalifa var byggður þá voru hæstu byggingar heims annars vegar 550 hár CN turn og svo 628 metra sjónvarpsmastur, sem var haldið stöðugu af vírum. Og hvað gerðu menn í Dubai? Jú, þeir ákváðu að þetta skyldi toppað. Og til þess að tryggja það að einhverjir aðrir klikkhausar myndi ekki toppa Burj Khalifa strax þá var ákveðið í sjálfu byggingaferlinu að fara enn hærra með bygginguna. Þannig að hún endaði í 828 metrum! Það er sléttum TVÖ HUNDRUÐ metrum hærra en sjónvarpsmastrið. Semsagt, menn tóku hæstu byggingu í heima og bættu oná það jafngildi þriggja Hallgrímskirkna.
Þess vegna er smá skrýtið að standa fyrir utan þessa byggingu því maður getur ekki alveg áttað sig á því hversu há hún er án þess að rifja upp staðreyndirnar. Kannski væri þetta enn stórfenglegra ef að 300 metra hár Eiffel turn væri þarna til samanburðar. En við dáðumst að byggingunni, tókum myndir í hæfilegri fjarlægð og fórum svo uppá útsýnispallinn, sem var bæði inni og úti. Hann er þó “eingöngu” á 124. hæð (452 metrar) af um 160 hæðum í byggingunni. Útsýnið er skiljanlega gott yfir þessa furðulegu borg og þar á meðal er fínt útsýni yfir heims-eyjarnar rétt utanvið ströndina.
Einsog í svo mörgu öðru í Dubai virðist tilgangurinn á bakvið bygginguna vera fyrst og fremst að skapa umtal um Dubai og að laða að ferðamenn. Og það virkaði allavegana á mig því ég hef verið forvitinn um þessa borg þrátt fyrir að ansi margt við uppbyggingu hennar sé mér kannski ekki að skapi.
En það er ekki hægt að neita því að Dubai er að mörgu leyti frábær ferðamannastaður ef maður veit hvað maður vill fá útúr borginni. Ef maður vill sól um miðjan vetur, frábær hótel, frábærar búðir og líka eitthvað spennandi og skemmtilegt að sjá, þá er Dubai klárlega staðurinn. En ókostirnir fyrir ferðafólk eru líka margir. Fyrir það fyrsta er þetta dýr áfangastaður – þó að maður fái vissulega verðmæti fyrir peningana í hótelgistingu og mat. Annar gallinn er sá að áfengi er bara selt á hótelveitingastöðum, sem er ekki lítið pirrandi. Það er leiðinlegt að geta ekki fengið sér einn bjór á veitingastað eftir langan dag.
En eftir 10 daga í borginni get ég allavegana sagt að þessi borg er einstök. Hún er klárlega ekki fyrir alla, en samblandan af veðrinu, einstakri þjónustu og merkilega spennandi hlutum að sjá, gerir hana allavegana að spennandi valkosti.
Skrifað í Stokkhólmi kl 20.44