Hvernig á að lýsa fyrirbærinu Dubai?
Jú, við fjölskyldan erum til að mynda á hóteli við smábátahöfnina í Dubai. Hótelið er staðsett á landi sem er núna eyja, en var hluti af meginlandinu fyrir 11 árum. Sjónum var veitt inní landið og úr því varð skurður, höfn og hluti landsins breyttist í eyju. Þar er núna hótelið okkar ásamt tugum annarra hótela og eftir 1-2 ár er gert ráð fyrir að um 120.000 manns muni búa hérna.
Hótelið okkar samanstendur af tveimur 48 hæða turnum. Það var byggt á tveimur árum frá 2003-2005. Ef maður fer uppá efstu hæð sér maður vel yfir Palm Jumeirah, sem er samansafn af eyjum, sem voru búnar til með því að moka sandi af botni Persaflóa, sem að saman mynda risavaxið pálmatré.
Maður getur tekið sporvagn frá rót pálmatrésins og alveg uppí topp þar sem að fyrir er Atlantis hótelið með sínum 1.537 herbergjum og vatnsrennibrautagarði og sædýrasafni í garðinum. Já og þar sem hægt er að bóka stærstu svítuna í eina nótt fyrir 2,3 milljónir íslenskra króna. Auk Atlantis eru 27 önnur hótel á þessum eyjaklasa, strandlengja þessa pálmatrés er 520 kílómetrar og þetta pálmatré var ekki til fyrir 12 árum! Já, og þetta er ekki eina pálmatréið því að fyrir sunnan er Palm Jebel Ali, sem á þegar það er tilbúið að vera heimili um 250.000 manna. Ef menn finna sér ekki ásættanlegan stað á pálmatrjánum þá er alltaf hægt að kaupa eina eyju í heims-eyjaklasanum, sem að er að mestu leyti tómur rétt utan við miðbæ Dubai.
Frá hótelinu er líka nokkuð auðvelt að taka metro-lest (sem opnaði fyrir 3 árum) niður í miðbæ Dubai þar sem hægt er að fara uppí hæstu byggingu heims, Burj Khalifa, eða eyða deginum í stærstu verslunarmiðstöð heims.
Dubai er einsog kapítalisminn að hlaupa sigurhring öskrandi að allt sé hægt með nógu miklum peningum, krafti og olíu.
Þetta er heillandi borg, ekki síst útaf öllum þessu brengluðu andstæðum. Af þeim borgum sem ég hef heimsótt líkist hún mest Las Vegas. Hún á sannarlega nær ekkert sameiginlegt með öðrum múslimaborgum sem ég hef heimsótt fyrir utan konur í hijab og stöku bænaköll.
Dubai er óður til kapítalismans. Hérna er ekki bara hægt að kaupa Rolex, heldur eru öll Rolex úrin með demöntum og úr gulli. Hér er ekki bara hægt að kaupa Fendi og Dior föt, heldur líka Fendi og Dior barnaföt og rúmföt. Ég hef labbað framhjá þremur Vertu búðum (Vertu selja drasl síma sem eru blingaðir upp og seldir fyrir einhverjar milljónir). En í verslunarmiðstöðinni slökknar samt á tónlistinni nokkrum sinnum á dag til að hægt sé að hlusta á bænaköll og réttarkerfið er að vissu leyti byggt á sharia lögum þar sem að vitnisburður kvenna gildir bara 50%.
Dubai er eitt af hinum sjö furstadæmum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Dubai er stærsta borgin og er ásamt Abu Dhabi (sem er langstærsta furstadæmið að flatarmáli) langmikilvægust furstadæmanna. Hér búa um 2 milljónir manns, en í furstadæmunum öllum búa rúmlega 8 milljónir. Landið liggur á norðausturhluta Arabíuskaga – Dubai er umlukið Abu Dhabi í vestri og suðri og Sharjah furstadæminu í austri – en sjálf Sameinuð Arabísku Furstadæmin eiga landamæri að Sádí Arabíu í suðri og Oman í austri. Fyrir norðan er svo Persaflói og hinum megin við hann er Íran.
Landið er eitt stærsta olíuveldi heims, en yfirvöld hafa beitt sér mikið fyrir því að landið þurfi ekki að treysta eingöngu á olíu og því hefur ferðamannaiðnaðurinn vaxið gríðarlega. Stór hluti af því hefur verið að auglýsa Dubai og Abu Dhabi með alls kyns merkilegum hlutum einsog að byggja hæsta turn í heimi eða að breyta valdahlutföllum í breskri knattspyrnu með því að dæla peningum inní fótboltalið þar. Aðeins um 15% íbúa í Dubai eru innfæddir emíratar (er það orð? ég finn ekki íslenska þýðingu á emirati) á meðan að 74% íbúa koma frá Indlandi, Pakistan og Bangladesh!
Það er vissulega auðvelt að slappa hér af á góðu hóteli, sem gæti þess vegna verið á Tenerife eða öðrum evrópskum túristastöðum. En það er einmitt þessar ótrúlegu öfgar í einu og öllu, sem gera Dubai að svo spennandi borg.
Við Margrét og Jóhann Orri höfum verið hérna í viku og notið tímans. Við Margrét eigum von á okkar öðru barni í maí og því vildum við stað þar sem við gætum slappað af en einnig séð eitthvað spennandi. Því hefur ferðin verið blanda af hangsi við sundlaug og því að skoða alla geðveikina sem er Dubai. Hér er um 28 stiga hiti, sem er talsvert þægilegra en þegar ég millilenti hérna í 43 stiga hita fyrir nokkrum árum.
Við höfum labbað mikið en þrátt fyrir að borgin hafi byggst upp á allra síðustu árum og allt sé frekar miðstýrt þá er ótrúlega lítið hugsað fyrir gangandi ferðamönnum. Það er dálítið einsog borgin sé hönnuð með það að sjónarmiði að maður geti farið úr bíl inní loftkæld hús án viðkomu á gangstétt.
Þetta höfum við rekið okkur á nokkrum sinnum þegar við höfum hundsað ráð hótelstarfsmanna og ákveðið að labba í stað þess að taka leigubíl þegar við ætlum að fara á staði sem virðast ekki vera nema nokkur hundruð metra frá hótelinu. En þar sem að borgin er hönnuð fyrir bíla með 13 akreina hraðbrautum í gegnum hana endilanga, þá getur það reynst erfitt. Kannski er þetta ágætt þegar að hitinn er svo óbærilegur að allt lífið snýst um að fara úr einu loftkældu boxi í annað, en þegar að hitinn er jafn þægilegur og núna þá er það hálfger sóun.
Og það er reyndar ákveðinn rauður þráður í gegnum þetta allt að einhvern veginn sé maður partur af einhverju vandamáli með því að vera hérna. Það er ekkert vit í því að byggja skýjakljúfa úr stáli, steypu og gleri í miðri eyðimörkinni. Og auðvitað eiga ekki að vera ferskvatnssundlaugar 100 metra frá Persaflóa og hvað þá að hér eigi að vera gras á golfvöllum. Yfirvöld eru að reyna að breyta og bæta þetta með metnaðarfullum verkefnum, sem að vonandi hjálpa til. Þegar ég sá innanhús skíðabrekkuna í dag þá fannst mér þetta allt í einu vera komið skrefi of langt. Ég gat ekki eytt pening í það að skíða í loftkældu húsi í eyðimörkinni.
En það er einmitt öll þessi klikkun sem gerir þetta allt svo spennandi og skemmtilegt. Allavegana í nokkra daga.
Skrifað í Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum klukkan 00.15