Íslensk Þakkagjörðarhátíð í Washington D.C.

Ferðin okkar Hildar til D.C. var frábær. Talsvert meira spennandi en titill þessarar greinar.

Við gistum hjá Friðrik og Thelmu en þau eru bæði í skóla í Washington D.C., Friðrik er í George Washington en Thelma í University of Maryland. Einnig vorum við þarna til að heimsækja Jens og Jónu. Þarna komu líka Genni og Sandra, en þau eru í LSU í Baton Rouge. Auk þeirra eru þarna í D.C. Arnar og Dröfn, sem eru bæði í GW og Bjarni, en Bjarni, Friðrik og Arnar spila allir fótbolta fyrir GW.

Allvegana, þá komum við til D.C. á miðvikudeginum. Eftir að hafa komið okkur fyrir tókum við lest að Arlington kirkjugaðinum, þar sem við skoðuðum m.a. leiði John F. Kennedy. Þar nálægt er svo Iwo Jima minnismerkið, sem við skoðuðum. Eftir þetta löbbuðum svo (nokkuð lengi) yfir í Georgetown hverfið. Þar skoðuðum við tröppurnar, þar sem Karras fannst í snilldarmyndinni The Excorcist. Eftir að Thelma hafði skoðað búðina sína fórum við svo að borða á nokkuð góðum stað.

Genni og Sandra komu til D.C. seint um kvöldið og fóru Jens og Jóna að sækja þau. Við fórum svo öll heim til Jens og Jónu, þar sem við tókum á móti þeim og fengum okkur “einn” bjór.

Eitthvað fór þessi bjór í suma og því vorum við lengi af stað daginn eftir. Við (karlkyn) horfðum því á NFL mest allan daginn (Thanksgiving day). Um sjö fórum við svo heim til Jens og Jónu, þar sem allir voru og borðuðum við meiriháttar kalkún með þrjátíu tegundum af meðlæti. Við fórum svo upp til Arnars og Drafnar, þar sem við spiluðum og fengum okkur að drekka…

Á föstudeginum var svo tekinn léttur túristatúr um borgina, en í þessari blessuðu borg er nóg af túristastöðum. Við löbbuðum niður að National Mall, þar sem allir helstu túristastaðirnir eru. Við skoðuðum Capitol (þó ekki of nálægt, því sumu var lokað vegna árásanna) og löbbuðum svo yfir að Washington Monument og svo Lincoln Memorial. Því næst Vietnam War Memorial og svo á endanum Hvíta Húsið.

Um kvöldið fórum við svo yfir á GW campusinn, þar sem við vorum með smá partí í herberginu hans Bjarna, þar sem voru nokkrir fótboltagaurar auk okkar Íslendinganna. Seinna löbbuðum við svo yfir í Georgetown ásamt nokkrum af strákunum og fórum á bar þar. Við vorum án efa vinsælasta fólkið á barnum. Nokkrir af okkur drukku tequila á nokkuð óvenjulegan hátt og fyrir það urðum við afskaplega vinsælir og margir vildu kaupa staup handa okkur, sem við þáðum. Seinna um kvöldið byrjuðum við svo að syngja íslensk lög við gríðarlegar undirtektir á barnum.

Á laugardeginum skoðuðum við Pentagon og skemmdirnar þar en það var þó búið að hreinsa flest það versta og uppbyggingin er greinilega hafin. Stelpurnar fóru svo að eyða peningum, en við strákarnir leituðum að opnum bar. Því miður var skortur á slíkum stofnunum í borginni og heimsóttum við því Bjarna. Um kvöldið fórum við svo að borða í gömlu hverfi fyrir utan Washington D.C. Seinna um kvöldið fórum við til Bjarna og djömmuðum þar. Eftir það fórum við svo á “gríðarlega skemmtilegan” næturklúbb. Þar gerðist ekkert. Eftir klúbbinn fórum við aftur til Bjarna, þar sem Friðrik og Genni sungu Oasis lög fyrir alla nágrananna. Þegar þeir höfðu sungið nóg löbbuðum við alla leið heim, fram hjá Hvíta húsinu og helstu byggingunum. Þrátt fyrir tilraunir sumra tókst okkur ekki að vekja Bush.

Á sunnudeginum fórum við Hildur svo heim. Við flugum frá Dulles flugvellinum og var flugið frekar slæmt. Um mínútu eftir flugtak lentum við í rosalegri ókyrrð, sem stóð yfir í nokkrar mínútur. Mér var nokkuð brugðið, þar sem þetta var svo stuttu eftir flugtak. Einnig var fullt af fólki öskrandi og konan við hliðiná mér greip í mig og spurði mig “are we going to be alright??” Þetta var frekar óskemmtileg reynsla en sem betur fer komumst við heil út úr þessu öllu.

Kanada

Við Hildur erum komin heim frá Kanada eftir 10 daga í því fína landi. Við komum heim á föstudag, en ég hef verið latur við að skrifa tölvupóst eða á netið síðan þá.

Allavegana, þá síðasta þriðjudag þá keyrðum við frá Montreal til Toronto. Keyrslan tók einhverja 6 tíma og gekk okkur mun betur að rata inn til Toronto heldur en Montreal. Við gistum á litlum “Bed & Breakfast” stað, sem var rétt fyrir ofan Bloor stræti, sem er í miðbæ Toronto. Við vorum frekar þreytt eftir keyrsluna, þannig að við fórum bara og fengum okkur að borða og fórum svo aftur á gistiheimilið, þar sem ég horfði á Cubs-Reds, en þetta var einmitt fyrsti baseball leikurinn eftir hléið, sem var gert á tímabilinu vegna atburðanna 11.sept.

Á miðvikudag skoðuðum við okkur um í Toronto. Veðrið var frekar leiðinlegt og breytti það aðeins planinu okkar. Við byrjuðum á því að fara niður niður að vatninu, þar sem CN Tower og Skydome eru og keyptum við okkur baseball miða fyrir kvöldið. Síðan fórum við að skoða okkur um á Yonge stræti, sem er aðal verslunargatan hérna. Við versluðum eitthvað af fötum, enda eru fötin bæði miklu flottari og ódýrari í Kanada heldur en hér í Bandaríkjunum. Um kvöldið fórum við svo út að borða og svo fórum við á baseball leik milli Toronto Blue Jays og Baltimore Orioles, sem var í Skydome (sem var einmitt fyrsti íþróttaleikvangurinn með færanlegu þaki). Leikurinn var fínn og var gaman að sjá goðsögnina Cal Ripken Jr. í síðasta skipti.

Fimmtudagurinn var frábær. Við byrjuðum á því að fara niður að CN Tower, sem er hæsta frístandandi bygging í heimi, um 553 metrar. Við byrjuðum á því að fara í glerlyftu uppá útsýnishæðina. Lyftan var nokkuð svakaleg, því hún vippaði okkur upp á minna en mínútu og var útsýnið rosalegt. Uppi á útsýnishæðinni skoðuðum við útsýnið yfir Toronto. Það hrikalegasta var þó á leiðinni tilbaka, en á hæðinni fyrir neðan er neflilega gler gólf. Þannig getur maður labbað á gólfinu og séð einhverja 400 metra fyrir neðan sig. Ég tel mig nú ekki vera neitt rosalega lofthræddan, en þetta var alveg svakalegt. Við Hildur eigum þó bæði myndir af því þegar við stigum á gólfið, þannig að við eigum sönnunargögn.

Eftir CN Tower fórum við svo heim á hótel, þar sem við tókum draslið saman og keyrðum svo í um 2 tíma að Niagara Falls. Þangað vorum við komin um 2 leytið. Við hentum dótinu okkar inná hótel og fórum svo að skoða fossana. Þeir skiptast í raun í tvo hluta, bandarísku fossana og kanadísku fossana en báðir fossarnir sjást best frá kanadísku hliðinni. Við skoðuðum fossana fyrst úr fjarska og fórum svo í bátsferð með Maid of the Mist, sem fór með okkur uppað báðum fossunum, sem var geðveikt (og blautt). Fossarnir eru mjög fallegir og stórfenglegir og tókum við auðvitað fullt af myndum.

Niagara falls bærinn sjálfur er ekki merkilegur. Afskaplega gervilegur túristabær, sem var fullur af einhverjum draslsýningum og vaxmyndasöfnum. En maður var þarna fyrst og fremst til að skoða fossana. Eftir kvöldmat fórum við svo aftur niður að fossunum, en þeir eru upplýstir í mörgum litum á kvöldin og var það mjög fallegt.

Á föstudag tókum við svo dótið okkar saman í síðasta skipti og brunuðum alla leið til Chicago, um 11 tíma keyrsla. Okkur gekk fínt að komast í gegnum landamæri, þrátt fyrir að það hafi verið um klukkutíma bið í göngunum yfir í Detroit. Við vorum síðan spurð fullt af spurningum og gramsað mikið í bílnum en það var allt í lagi. Við komum svo aftur til Evanston um 10 leytið eftir frábæra ferð í landi hokkís og kleinuhringja.

Montreal – dagur 4

Við Hildur erum nú búin að vera hérna í Montreal í fjóra daga. Á morgun ;aetlum við að vakna snemma og keyra til Toronto. Þar ætlum við að vera í þrjá daga og fara svo til Niagara Falls.

Við erum búin að hafa það mjög gott hérna í Montreal, enda er þetta frábær borg. Ég skrifaði síðast á laugardag og síðan þá er fullt skemmtilegt búið að gerast.

Á laugardag fórum við á djammið. Við byrjuðum á brasilískum veitingastað, sem bauð uppá endalaust magn af alls kyns kjöti. Ég hef sennilega sjaldan borðað eins mikið. Eftir þau ósköp fórum við á milli bara hérna í aðal djammhverfinu. Mjög gaman.

Á sunnudag fórum við svo á aðal listasafnið hér í borg. Þar var einmitt síðasti dagur á sérsýningu, sem hét Picasso og erótík. Skemmtileg sýning. Við eyddum svo restinni af deginum á rölti um miðbæinn.

Um kvöldið fórum við svo út að borða á ítölskum stað. Eftir mat keyrðum við svo útá Ile Notre Dame eyjuna. Þar er nefnilega Casino de Montreal. Þetta er risastórt Casino, sem var alveg fáránlega troðfullt af fólki, sem henti peningunum sínum í ruslið með bros á vör. Við vorum náttúrulega alveg einsog hinir. Ég eyddi þó ekki miklu. Við spiluðum smá í spilakössum, en mestum tímanum eyddum við í rúllettu. Það gekk misvel. En þetta var rosalega gaman.

Í dag erum við svo búin að vera ýkt dugleg. Við byrjuðum á að labba uppá Mont Royal, sem er fjall á miðri eyjunni, sem að Montreal er á. Uppi á fjallinu er frábært útsýni yfir borgina. Svo seinni partinn í dag vorum við aðeins að versla föt fyrir veturinn.

Kanada – Montreal

Við Hildur erum núna komin til Kanada. Ég er staddur niðrí kjallara á gistiheimili í Montreal. Þetta er æðisleg borg.

Við keyrðum á miðvikudag frá Chicago til Detroit og þaðan fórum við í gegnum göngin til Windsor í Kanada. Við gistum í Windsor, sem er þekkt fyrir spilavíti, í eina nótt og keyrðum síðan daginn eftir áleiðis til Montreal. Við keyrðum fram hjá Toronto og að Kingston, þar sem við gistum. Í gær fóstudag keyrðum við svo hingað til Montreal. Eftir að hafa villst all svakalega í umferðarflækjunum í borginni, tókst okkur loksins að rata hingað inná hótel.

Við lögðum okkur í smá tíma og fórum síðan út um kvöldið. Við löbbuðum um St. Kathrine Street, og nærliggjandi götur, en þar er annars vegar fullt af verslunum og svo líka fullt af veitingastöðum og börum. Við enduðum loks inná ítölskum stað, þar sem við borðuðum pasta. Við flökkuðum svo á milli bara, en það er nóg af þeim í þessari borg.

Í morgun vöknuðum við svo eldhress um 11 leytið og erum búin að eyða deginum í gamla hluta borgarinnar. Þetta er alveg frábær borg, mjög evrópsk í útliti. Við erum búin að eyða deginum á rólegu rölti um bæinn, takandi myndir og njótandi andrúmsloftsins í borginni.

Spring Break

Ég er aðeins að ná mér eftir fríið. Þetta var alveg snilldar spring break.

Ég fór með flugi til Baton Rouge seinasta sunnudag. Þar var ég svo ásamt PR og Jónu heima hjá Genna og Söndru, sem búa í íbúð í Baton Rouge, nálægt skólanum þeirra, LSU. Við vorum í Baton Rouge í 4 daga. Borgin er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, þar sem það er ekki mikið líf fyrir utan háskólann. Við skoðuðum aðeins campusinn og svo miðbæinn, sem var alveg dauður.Við bættum þó upp fyrir þetta með heljarinnar djammi, öll kvöldin. Á miðvikudag leigðum við okkur bíl og náðum í Hildi. Á fimmtudeginum vorum við svo að rúnta með Genna um næsta nágrenni, Genni fór með okkur um túr um nálægan “trailer park”, sem var náttúrulega mjög fróðleg sjón.

Seinna um daginn tókum við svo rútu inní New Orleans.Borgin er alger hreinasta snilld. Hún er ólík öllu því, sem ég hef áður upplifað. Við gistum á hosteli á Canal stræti, sem var smá spöl frá Franska hlutanum, sem er aðalhverfið í New Orleans og eyddum við nær öllum tímanum okkar þar. Á daginn skoðuðum við hverfið, sem býr yfir gríðarlega skemmtilegum arkitektúr, ólíkur öllu, sem gerist í Bandaríkjunum. Á kvöldin var svo djammað alla nóttina á Bourbon Street, sem er sennilega frægasta djammgata í heimi. Gatan er ekkert slor. Öll kvöldin var gatan full af fólki og allir barir voru líka fullir. Ég hef aldrei séð annað eins framboð af áfengi. Það voru barir á svona fimm metra fresti og allir seldu ódýrt áfengi. Flestir voru að selja Hurricane, sem er stórhættulegur drykkur, sem er uppruninn í New Orleans, einhver blanda af Tequila, rommi, vodka og einhverjum ávöxtum.

Allir barir voru fullir af fólki alla nóttina og margir voru með “live” tónlist, þrátt fyrir að enginn hafi viljað spila Freebird, sem ég vildi ólmur heyra. Úti á götu var svo fullt af fólki að rölta á milli bara eða stelpur að sýna á sér brjóstin, þannig að það vara alltaf nóg að gerast. Veðrið var svo líka frábært, þannig að ég held að þessi ferð hafi verið eins góð og mögulegt er.

Danmörk

Jæja, þá er bara nokkuð langt síðan ég bloggaði síðast. Ástæðan fyrir því er að ég er búinn að vera í Danmörku síðustu daga. Fór með sölumönnum úr vinnunni í heimsókn til höfuðstöðva Stimorol, sem eru í Vejle á Jótlandi.

Við fórum á laugardaginn til Köben, þar sem við eyddum deginum á rölti um borgina. Um kvöldið fórum við svo í tívolí og svo fóru þeir yngstu út á djammið. Á sunnudag tókum við svo lest til Vejle. Á mánudag fórum við allir með sölumönnum Stimorol í ferð um búðir í nágrenni Vejle. Síðasta daginn sátum við svo fundi með markaðsstjóra Stimorol og skoðuðum verksmiðjurnar. Þetta var mjög skemmtileg ferð. Ég hvet svo bara alla til að kaupa Stimorol og V6.

Havana

Ég var núna að horfa á Póstkort frá Havana í sjónvarpinu. Þetta var alveg frábær þáttur. Ég hef horft á þætti með sama stjórnanda og eru þeir allir mjög góðir. Það var gaman að sjá myndir frá þessari yndislegu borg. Þarna býr alveg einstakt fólk. Ég var á Kúbu fyrir ári og birtist ferðasagan mín á leif.com. Það er nú búið að taka hana niður. Ég held að hún eigi þó vel við, sérstaklega eftir umræðuna á milli mín og Björgvins. Ég læt hana því fylgja með.

Þar sem strákarnir eru núna farnir til Kúbu og ég einn eftir hérna hjá fjölskyldunni minni í Caracas, þá ákvað ég að skrifa aðeins um ævintýri mín á Kúbu.

Ég fór með Matt, vini mínum frá Bandaríkjunum til Kúbu fyrir tveim vikum og var það sannarlega gríðarleg lífsreynsla. Ég flaug frá Bogota, meðan strákarnir voru ennþá í Cartagena en á meðan ég var á Kúbu voru hinir krakkarnir að skoða Ciudad Perdida.

Kúba er vægast sagt mjög merkilegt land. Í fyrsta lagi er því stjórnað af sturluðum gömlum kalli, sem er kominn úr öllum tengslum við raunveruleikann. Fidel Castro er búinn að vera alltof lengi við stjórnvölinn, í 40 ár og það eina góða, sem hann gæti gert fyrir þjóð sína væri að segja af sér og halda lýðræðislegar kosningar. Vissulega var byltingin fyrir 40 árum góður hlutur, því þar var einræðisherra steypt af stalli en Castro er bara orðinn alveg jafn slæmur og Bautista var fyrir 40 árum.

Á Kúbu er kerfi, sem er eins langt frá sósíalisma og hægt er að komast. Stéttaskiptingin er gríðarleg. Aðallega er skiptingin á milli þeirra, sem vinna við ferðamannaiðnaðinn og fá því borgað í dollurum og þeirra, sem vinna öll önnur störf og fá borgað í pesoum. Sem dæmi um mismuninn, þá fær læknir í mánaðarlaun um 400 pesoa (20 dollara) og einn vinur minn fékk borgað um 100 pesoa (5 dollara) á mánuði. Hins vegar þá vinnur maðurinn, sem ber töskurnar á hótelinu okkar, sér inn um 30 dollara á dag í þjórfé. Það sér sérhver maður að þetta er alveg fáránlegt kerfi. Því er það draumur allra að fá starf á hótelum. Þeir, sem fá þau ekki, reyna að starfa sem ólöglegir leigubílstjórar, eða selja stolna (eða falsaða) vindla á götunni til túrista. Þannig geta menn unnið sér inn dollara og þar með keypt sér eitþvað annað en hrísgrjón og brauð.

Öllu sorglegra er það sem stelpurnar gera en meirihluti þeirra stunda vændi. Öll diskótek á Kúbu er því uppfull af gömlum köllum frá Evrópu og ungum kúbverskum stelpum, sem gera allt fyrir nokkra dollara. Þetta er gríðarlega sorglegt að horfa uppá. Á diskótekum er nær ómögulegt að finna stelpur, sem eru ekki hórur. Af þeirri einföldu ástæðu, að þær, sem eru ekki hórur, hafa ekki efni á að komast inn.

Castro er þó duglegur við að fela þessi vandamál eyjabúa. Túristunum er öllum komið fyrir á hótel og þeim aðeins sýnt góðu hliðarnar. Þar sem við og Matt tölum spænsku, gafst okkur tækifæri á að kynnast venjulegum kúbverjum. Það var svo sannarlega hápunktur ferðarinnar. Þetta fólk, sem lifir í þvílíkri fátækt er ótrúlega lífsglatt og þau gleðjast yfir ótrúlega litlum hlutum. Til dæmis þá vilja allir láta taka myndir af sér einfaldlega vegna þess að það á enginn myndavélar nema ferðamenn. Við Matt heimsóttum 3 kúbversk heimili og voru þau öll gríðarlega fátækleg.

Við fórum nokkrum sinnum út að skemmta okkur með kúbverjum og var það meiriháttar skemmtilegt. Þeir drekka svakalega mikið af óblönduðu rommi og kunna svo sannarlega að skemmta sér. Skemmtilegustu stundir ferðarinnar voru þegar við sátum drekkandi inná bar, talandi um kommúnisma, Castro og Ché við kúbverja og syngjandi Guantanamera. Það voru alveg ógleymanlegar stundir.

Habana er mjög gamaldags og allar byggingarnar eru nánast ósnertar frá því eftir byltingu og því margar í mjög slæmu ástandi. Það gefur þó borginni gríðarlega skemmtilegt og einsakt yfirbragð. Hún er alveg ótrúlega ólík öllu því, sem maður hefur séð hingað til.

Við eyddum mestum tíma okkar í Habana, fórum reyndar tvisvar á ströndina. Mestum tímanum eyddum við röltandi um götur Habana, talandi við innfædda og skoðandi torg og söfn, sem eru mjög skemmtileg. Mörg söfnin eru hönnuð af yfirvöldum og eru því alveg gríðarlega pólítísk og mikið er gert úr stórfengleika byltingarinnar.

Í stað þess að takast á við vandamál þjóðarinnar þá leggur Castro mesta áherslu á að kúga Kúbverja. Hann er búinn að bæta mjög í lögreglunni, svo að örugglega enginn þori að segja neitt eða mótmæla aðgerum hans.

Kúbverjar eru svo frábært fólk að þeir eiga eitthvað betra skilið en Fidel Castro.