Kanada – Montreal

Við Hildur erum núna komin til Kanada. Ég er staddur niðrí kjallara á gistiheimili í Montreal. Þetta er æðisleg borg.

Við keyrðum á miðvikudag frá Chicago til Detroit og þaðan fórum við í gegnum göngin til Windsor í Kanada. Við gistum í Windsor, sem er þekkt fyrir spilavíti, í eina nótt og keyrðum síðan daginn eftir áleiðis til Montreal. Við keyrðum fram hjá Toronto og að Kingston, þar sem við gistum. Í gær fóstudag keyrðum við svo hingað til Montreal. Eftir að hafa villst all svakalega í umferðarflækjunum í borginni, tókst okkur loksins að rata hingað inná hótel.

Við lögðum okkur í smá tíma og fórum síðan út um kvöldið. Við löbbuðum um St. Kathrine Street, og nærliggjandi götur, en þar er annars vegar fullt af verslunum og svo líka fullt af veitingastöðum og börum. Við enduðum loks inná ítölskum stað, þar sem við borðuðum pasta. Við flökkuðum svo á milli bara, en það er nóg af þeim í þessari borg.

Í morgun vöknuðum við svo eldhress um 11 leytið og erum búin að eyða deginum í gamla hluta borgarinnar. Þetta er alveg frábær borg, mjög evrópsk í útliti. Við erum búin að eyða deginum á rólegu rölti um bæinn, takandi myndir og njótandi andrúmsloftsins í borginni.

Spring Break

Ég er aðeins að ná mér eftir fríið. Þetta var alveg snilldar spring break.

Ég fór með flugi til Baton Rouge seinasta sunnudag. Þar var ég svo ásamt PR og Jónu heima hjá Genna og Söndru, sem búa í íbúð í Baton Rouge, nálægt skólanum þeirra, LSU. Við vorum í Baton Rouge í 4 daga. Borgin er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, þar sem það er ekki mikið líf fyrir utan háskólann. Við skoðuðum aðeins campusinn og svo miðbæinn, sem var alveg dauður.Við bættum þó upp fyrir þetta með heljarinnar djammi, öll kvöldin. Á miðvikudag leigðum við okkur bíl og náðum í Hildi. Á fimmtudeginum vorum við svo að rúnta með Genna um næsta nágrenni, Genni fór með okkur um túr um nálægan “trailer park”, sem var náttúrulega mjög fróðleg sjón.

Seinna um daginn tókum við svo rútu inní New Orleans.Borgin er alger hreinasta snilld. Hún er ólík öllu því, sem ég hef áður upplifað. Við gistum á hosteli á Canal stræti, sem var smá spöl frá Franska hlutanum, sem er aðalhverfið í New Orleans og eyddum við nær öllum tímanum okkar þar. Á daginn skoðuðum við hverfið, sem býr yfir gríðarlega skemmtilegum arkitektúr, ólíkur öllu, sem gerist í Bandaríkjunum. Á kvöldin var svo djammað alla nóttina á Bourbon Street, sem er sennilega frægasta djammgata í heimi. Gatan er ekkert slor. Öll kvöldin var gatan full af fólki og allir barir voru líka fullir. Ég hef aldrei séð annað eins framboð af áfengi. Það voru barir á svona fimm metra fresti og allir seldu ódýrt áfengi. Flestir voru að selja Hurricane, sem er stórhættulegur drykkur, sem er uppruninn í New Orleans, einhver blanda af Tequila, rommi, vodka og einhverjum ávöxtum.

Allir barir voru fullir af fólki alla nóttina og margir voru með “live” tónlist, þrátt fyrir að enginn hafi viljað spila Freebird, sem ég vildi ólmur heyra. Úti á götu var svo fullt af fólki að rölta á milli bara eða stelpur að sýna á sér brjóstin, þannig að það vara alltaf nóg að gerast. Veðrið var svo líka frábært, þannig að ég held að þessi ferð hafi verið eins góð og mögulegt er.

Danmörk

Jæja, þá er bara nokkuð langt síðan ég bloggaði síðast. Ástæðan fyrir því er að ég er búinn að vera í Danmörku síðustu daga. Fór með sölumönnum úr vinnunni í heimsókn til höfuðstöðva Stimorol, sem eru í Vejle á Jótlandi.

Við fórum á laugardaginn til Köben, þar sem við eyddum deginum á rölti um borgina. Um kvöldið fórum við svo í tívolí og svo fóru þeir yngstu út á djammið. Á sunnudag tókum við svo lest til Vejle. Á mánudag fórum við allir með sölumönnum Stimorol í ferð um búðir í nágrenni Vejle. Síðasta daginn sátum við svo fundi með markaðsstjóra Stimorol og skoðuðum verksmiðjurnar. Þetta var mjög skemmtileg ferð. Ég hvet svo bara alla til að kaupa Stimorol og V6.

Havana

Ég var núna að horfa á Póstkort frá Havana í sjónvarpinu. Þetta var alveg frábær þáttur. Ég hef horft á þætti með sama stjórnanda og eru þeir allir mjög góðir. Það var gaman að sjá myndir frá þessari yndislegu borg. Þarna býr alveg einstakt fólk. Ég var á Kúbu fyrir ári og birtist ferðasagan mín á leif.com. Það er nú búið að taka hana niður. Ég held að hún eigi þó vel við, sérstaklega eftir umræðuna á milli mín og Björgvins. Ég læt hana því fylgja með.

Þar sem strákarnir eru núna farnir til Kúbu og ég einn eftir hérna hjá fjölskyldunni minni í Caracas, þá ákvað ég að skrifa aðeins um ævintýri mín á Kúbu.

Ég fór með Matt, vini mínum frá Bandaríkjunum til Kúbu fyrir tveim vikum og var það sannarlega gríðarleg lífsreynsla. Ég flaug frá Bogota, meðan strákarnir voru ennþá í Cartagena en á meðan ég var á Kúbu voru hinir krakkarnir að skoða Ciudad Perdida.

Kúba er vægast sagt mjög merkilegt land. Í fyrsta lagi er því stjórnað af sturluðum gömlum kalli, sem er kominn úr öllum tengslum við raunveruleikann. Fidel Castro er búinn að vera alltof lengi við stjórnvölinn, í 40 ár og það eina góða, sem hann gæti gert fyrir þjóð sína væri að segja af sér og halda lýðræðislegar kosningar. Vissulega var byltingin fyrir 40 árum góður hlutur, því þar var einræðisherra steypt af stalli en Castro er bara orðinn alveg jafn slæmur og Bautista var fyrir 40 árum.

Á Kúbu er kerfi, sem er eins langt frá sósíalisma og hægt er að komast. Stéttaskiptingin er gríðarleg. Aðallega er skiptingin á milli þeirra, sem vinna við ferðamannaiðnaðinn og fá því borgað í dollurum og þeirra, sem vinna öll önnur störf og fá borgað í pesoum. Sem dæmi um mismuninn, þá fær læknir í mánaðarlaun um 400 pesoa (20 dollara) og einn vinur minn fékk borgað um 100 pesoa (5 dollara) á mánuði. Hins vegar þá vinnur maðurinn, sem ber töskurnar á hótelinu okkar, sér inn um 30 dollara á dag í þjórfé. Það sér sérhver maður að þetta er alveg fáránlegt kerfi. Því er það draumur allra að fá starf á hótelum. Þeir, sem fá þau ekki, reyna að starfa sem ólöglegir leigubílstjórar, eða selja stolna (eða falsaða) vindla á götunni til túrista. Þannig geta menn unnið sér inn dollara og þar með keypt sér eitþvað annað en hrísgrjón og brauð.

Öllu sorglegra er það sem stelpurnar gera en meirihluti þeirra stunda vændi. Öll diskótek á Kúbu er því uppfull af gömlum köllum frá Evrópu og ungum kúbverskum stelpum, sem gera allt fyrir nokkra dollara. Þetta er gríðarlega sorglegt að horfa uppá. Á diskótekum er nær ómögulegt að finna stelpur, sem eru ekki hórur. Af þeirri einföldu ástæðu, að þær, sem eru ekki hórur, hafa ekki efni á að komast inn.

Castro er þó duglegur við að fela þessi vandamál eyjabúa. Túristunum er öllum komið fyrir á hótel og þeim aðeins sýnt góðu hliðarnar. Þar sem við og Matt tölum spænsku, gafst okkur tækifæri á að kynnast venjulegum kúbverjum. Það var svo sannarlega hápunktur ferðarinnar. Þetta fólk, sem lifir í þvílíkri fátækt er ótrúlega lífsglatt og þau gleðjast yfir ótrúlega litlum hlutum. Til dæmis þá vilja allir láta taka myndir af sér einfaldlega vegna þess að það á enginn myndavélar nema ferðamenn. Við Matt heimsóttum 3 kúbversk heimili og voru þau öll gríðarlega fátækleg.

Við fórum nokkrum sinnum út að skemmta okkur með kúbverjum og var það meiriháttar skemmtilegt. Þeir drekka svakalega mikið af óblönduðu rommi og kunna svo sannarlega að skemmta sér. Skemmtilegustu stundir ferðarinnar voru þegar við sátum drekkandi inná bar, talandi um kommúnisma, Castro og Ché við kúbverja og syngjandi Guantanamera. Það voru alveg ógleymanlegar stundir.

Habana er mjög gamaldags og allar byggingarnar eru nánast ósnertar frá því eftir byltingu og því margar í mjög slæmu ástandi. Það gefur þó borginni gríðarlega skemmtilegt og einsakt yfirbragð. Hún er alveg ótrúlega ólík öllu því, sem maður hefur séð hingað til.

Við eyddum mestum tíma okkar í Habana, fórum reyndar tvisvar á ströndina. Mestum tímanum eyddum við röltandi um götur Habana, talandi við innfædda og skoðandi torg og söfn, sem eru mjög skemmtileg. Mörg söfnin eru hönnuð af yfirvöldum og eru því alveg gríðarlega pólítísk og mikið er gert úr stórfengleika byltingarinnar.

Í stað þess að takast á við vandamál þjóðarinnar þá leggur Castro mesta áherslu á að kúga Kúbverja. Hann er búinn að bæta mjög í lögreglunni, svo að örugglega enginn þori að segja neitt eða mótmæla aðgerum hans.

Kúbverjar eru svo frábært fólk að þeir eiga eitthvað betra skilið en Fidel Castro.