Við Hildur erum komin heim frá Kanada eftir 10 daga í því fína landi. Við komum heim á föstudag, en ég hef verið latur við að skrifa tölvupóst eða á netið síðan þá.
Allavegana, þá síðasta þriðjudag þá keyrðum við frá Montreal til Toronto. Keyrslan tók einhverja 6 tíma og gekk okkur mun betur að rata inn til Toronto heldur en Montreal. Við gistum á litlum “Bed & Breakfast” stað, sem var rétt fyrir ofan Bloor stræti, sem er í miðbæ Toronto. Við vorum frekar þreytt eftir keyrsluna, þannig að við fórum bara og fengum okkur að borða og fórum svo aftur á gistiheimilið, þar sem ég horfði á Cubs-Reds, en þetta var einmitt fyrsti baseball leikurinn eftir hléið, sem var gert á tímabilinu vegna atburðanna 11.sept.
Á miðvikudag skoðuðum við okkur um í Toronto. Veðrið var frekar leiðinlegt og breytti það aðeins planinu okkar. Við byrjuðum á því að fara niður niður að vatninu, þar sem CN Tower og Skydome eru og keyptum við okkur baseball miða fyrir kvöldið. Síðan fórum við að skoða okkur um á Yonge stræti, sem er aðal verslunargatan hérna. Við versluðum eitthvað af fötum, enda eru fötin bæði miklu flottari og ódýrari í Kanada heldur en hér í Bandaríkjunum. Um kvöldið fórum við svo út að borða og svo fórum við á baseball leik milli Toronto Blue Jays og Baltimore Orioles, sem var í Skydome (sem var einmitt fyrsti íþróttaleikvangurinn með færanlegu þaki). Leikurinn var fínn og var gaman að sjá goðsögnina Cal Ripken Jr. í síðasta skipti.
Fimmtudagurinn var frábær. Við byrjuðum á því að fara niður að CN Tower, sem er hæsta frístandandi bygging í heimi, um 553 metrar. Við byrjuðum á því að fara í glerlyftu uppá útsýnishæðina. Lyftan var nokkuð svakaleg, því hún vippaði okkur upp á minna en mínútu og var útsýnið rosalegt. Uppi á útsýnishæðinni skoðuðum við útsýnið yfir Toronto. Það hrikalegasta var þó á leiðinni tilbaka, en á hæðinni fyrir neðan er neflilega gler gólf. Þannig getur maður labbað á gólfinu og séð einhverja 400 metra fyrir neðan sig. Ég tel mig nú ekki vera neitt rosalega lofthræddan, en þetta var alveg svakalegt. Við Hildur eigum þó bæði myndir af því þegar við stigum á gólfið, þannig að við eigum sönnunargögn.
Eftir CN Tower fórum við svo heim á hótel, þar sem við tókum draslið saman og keyrðum svo í um 2 tíma að Niagara Falls. Þangað vorum við komin um 2 leytið. Við hentum dótinu okkar inná hótel og fórum svo að skoða fossana. Þeir skiptast í raun í tvo hluta, bandarísku fossana og kanadísku fossana en báðir fossarnir sjást best frá kanadísku hliðinni. Við skoðuðum fossana fyrst úr fjarska og fórum svo í bátsferð með Maid of the Mist, sem fór með okkur uppað báðum fossunum, sem var geðveikt (og blautt). Fossarnir eru mjög fallegir og stórfenglegir og tókum við auðvitað fullt af myndum.
Niagara falls bærinn sjálfur er ekki merkilegur. Afskaplega gervilegur túristabær, sem var fullur af einhverjum draslsýningum og vaxmyndasöfnum. En maður var þarna fyrst og fremst til að skoða fossana. Eftir kvöldmat fórum við svo aftur niður að fossunum, en þeir eru upplýstir í mörgum litum á kvöldin og var það mjög fallegt.
Á föstudag tókum við svo dótið okkar saman í síðasta skipti og brunuðum alla leið til Chicago, um 11 tíma keyrsla. Okkur gekk fínt að komast í gegnum landamæri, þrátt fyrir að það hafi verið um klukkutíma bið í göngunum yfir í Detroit. Við vorum síðan spurð fullt af spurningum og gramsað mikið í bílnum en það var allt í lagi. Við komum svo aftur til Evanston um 10 leytið eftir frábæra ferð í landi hokkís og kleinuhringja.