St. Louis

Helgin í St. Louis var góð. Við lögðum af stað á laugardagsmorgun í MiniVan, sem mamma Katie á. St. Louis er um 6 tíma akstur suður af Chicago. Við vorum komin þangað um 6 leytið. Við byrjuðum á því að labba um miðbæinn og horfðum á einhverja útitónleika, sem innflytjendur frá Jamaica stóðu fyrir. Því næst fórum við svo niður að gömlu höfninni við Mississippi, þar sem við borðuðum kvöldmat og sátum á bar fram eftir kvöldi.

Á laugardeginum fórum við svo niður að Gateway Arch, sem var byggður um miðja síðustu öld, sem minnismerki um landnema, sem héldu í vestur, en St. Louis var nokkurs konar miðstöð fyrir þá, sem hugðust halda til vesturríkjanna. Allavegana, þá er þetta hæsta minnismerki í Bandaríkjunum og nokkuð merkileg sjón. Við ákváðum að fara ekki uppí bogann, þar sem Katie hafði farið áður og var ekkert sérstaklega spennt. Við fórum því niður að Mississippi, þar sem við fórum í klukkutíma bátsferð um ána.

Eftir bátsferðina fórum við svo og kíktum á Busch Stadium, sem er heimavöllur St. Louis Cardinals, erkifjenda míns uppáhaldsliðs. Um kvöldið eyddum við svo dágóðum tíma að finna veitingahús en veitangastaðir í St. Louis eru ekki beinlínis hannaðir fyrir grænmetisætur einsog Katie.

Í gær fórum við svo í Anheuser Busch ölgerðina, þar sem við fórum í smá túr um staðinn, þar sem mest seldi bjór í heimi er búinn til og var það nokkuð fróðlegt. Síðan var endað inná bar, þar sem maður fékk ókeypis Michelob Light og Bud Light.

Eftir það keyrðum við svo aftur heim til Chicago.

Spring Break Panama City 2002

Við Hildur komum aftur til Chicago á föstudag eftir viku á Panama City Beach, Florida. Ég var að fá myndir úr framköllun og ætla að reyna að setja þær á netið á næstu dögum.

Allavegana, þá var ferðin vel heppnuð. Við fórum með Victoriu, vinkonu hennar Hildar og Dan vini mínum. Við keyrðum niður eftir á föstudegi. Byrjuðum klukkan 2 um nóttina og keyrðum alveg til klukkan 10 um kvöldið, alls um 20 tíma keyrsla. Ég og Dan skiptumst á að keyra á Volvo-inum hans Dans, sem er 17 ára gamall. Volvoinn stóð sig einsog hetja, þrátt fyrir að hann sé keyrður meira en 300.000 kílómetra. Það eina, sem bilaði, var vökvastýrið en það skipti litlu máli.

Við gistum á Cooks motel, sem var ódýrt mótel sirka 2 kílómetra frá ströndinni. Þetta var ódýrt mótel en var samt bara nokkuð fínt. Allavegana var ég sáttur en ég er nú ýmsu vanur eftir ferðalög um Suður-Ameríku. Nágrannarnir voru líka fínir, sérstaklega var Dan sáttur við 7 stelpur frá Alabama, sem voru í næsta herbergi en svo voru líka einhverjir strákar frá U of Wisconsin.

Dagskráin var nú frekar svipuð flesta dagana. Við vöknuðum um 11, fórum á ströndina, þar sem við lágum allan daginn. Svo um fimm leytið var farið heim á mótel, svo útað borða, svo drukkið og farið á klúbba.

Ströndin var alger snilld. Við vorum alla dagana fyrir framan La Vela klúbbinn, en þar var flest fólkið. Þótt ótrúlegt megi virðast þá mátti drekka bjór á ströndinni og því voru allir með kælibox. Þvílík snilld. Það var svo alltaf nóg að gerast í kringum okkur, hjá klúbbunum voru alltaf fullt af wet t-shirt keppnum, sem ég var duglegur að sækja.

Hildi tókst reyndar ekki að komast í Girls Gone Wild, en við sáum þó gaurana taka það upp þegar einhver stelpa var að flassa. Hún var frekar ölvuð og samþykkti að láta taka myndir af sér án spurninga. Það eina, sem hún fékk var bolur. Hún var reyndar þvílíkt sátt við að hafa komist að, því hún tilkynnti öllum á ströndinni að hún hefði komist í Girls Gone Wild.

Annars var rosalega mikið af sætum stelpum á ströndinni (og Hildur segist aldrei hafa séð svona marga gaura með sixpack). Flestir krakkarnir voru úr stóru skólunum í kring, það er U of Alabama og Florida State. Allir töluðu með suðurríkjahreim. Ég veit ekki hvort stelpurnar úr Alabama séu bara svona mikið sætari en þær hérna, eða hvort bara sætustu stelpurnar hafi verið þarna, en þetta var alveg hreint magnað.

Ok, nóg um það… Við hittum Íslendinga á ströndinni, sem hlýtur að vera magnaðasta tilviljun síðan við Emil hittum tvo Íslendinga á bar í La Paz í Bólivíu. Við hittum þá um klukkan tvö um eftirmiðdaginn og voru þeir án efa drukknustu mennirnir á ströndinni. Mér leið einsog ég væri á Benidorm. Þeir spurðu hvort ég væri með disk með Bubba og sá sem talaði mest við okkur var svo drukkinn að ég skildi varla neitt, sem hann sagði.

Klúbbarnir þarna voru misjafnlega góðir. Bestur var Spinnaker, þar sem við fórum fyrsta og síðasta daginn. Síðan fórum við einu sinni á La Vela, sem er stærsti klúbburinn í Bandaríkjunum en hann komst samt ekki nálægt Ibiza klúbbunum að stærð. Slappastur var svo Sharky’s.

En allavegana, þá var þetta mjög vel heppnað. Við erum búin að sjá fullt af brúnu og fallegu fólki, drekka ógurlegt magn af Bud Light og sjá þrjár wet t-shirt keppnir. Það var eina, sem ég ætlaðist til af spring break á Florida.

Spring Break

Þegar ég vaknaði í morgun var kominn snjór fyrir utan. Ég þurfti því miður að skila spólu á Blockbuster og því þurfti ég að hlaupa úti í 10 stiga frosti.

En mér er bara alveg sama af því að við erum að fara til Florida á morgun. Jibbíííí.

Við Hildur erum að fara með Dan og Victoriu, vinum okkar. Við ætlum að leggja af stað snemma á morgun og keyra allan daginn niður til Panama City Beach, en það er að ég held 19 tíma keyrsla. Við gistum þar á einhverju ódýru móteli og ætlum að vera 7 daga.

Það verður vonandi fjör. Þetta er lang vinsælasti spring break staðurinn og ég held að um hálf milljón háskólanemar séu þarna í marsmánuði. Hildur stefnir á að komast í “Girls Gone Wild, Spring break 2002”

Ég veit ekki hvort ég skrifi eitthvað frá Florida. Ég efast stórlega um það.

Spring Break

Þá erum við búin að plana Spring Break þetta árið. Síðustu tvö ár höfum við Hildur farið til New York og New Orleans og var geðveikt gaman í bæði skiptin.

Þetta árið langaði okkur að fara í típískt bandarískt spring break. Þess vegna ætlum við að fara með tveim vinum okkar niður til Panama City Beach, Florida.

Þarna koma árlega í marsmánuði yfir 600.000 háskólanemendur frá öllum Bandaríkjunum. Travel Channel valdi Panama City Beach besta spring break staðinn.

Við ætlum að keyra suður til Florida, en það er um 19 tíma akstur. Ætlunin er að fara 22.mars, sem er föstudagur og vera í eina viku.

Núna þarf ég bara að komast í gegnum lestrarviku, þrjú próf og eina ritgerð.

Íslensk Þakkagjörðarhátíð í Washington D.C.

Ferðin okkar Hildar til D.C. var frábær. Talsvert meira spennandi en titill þessarar greinar.

Við gistum hjá Friðrik og Thelmu en þau eru bæði í skóla í Washington D.C., Friðrik er í George Washington en Thelma í University of Maryland. Einnig vorum við þarna til að heimsækja Jens og Jónu. Þarna komu líka Genni og Sandra, en þau eru í LSU í Baton Rouge. Auk þeirra eru þarna í D.C. Arnar og Dröfn, sem eru bæði í GW og Bjarni, en Bjarni, Friðrik og Arnar spila allir fótbolta fyrir GW.

Allvegana, þá komum við til D.C. á miðvikudeginum. Eftir að hafa komið okkur fyrir tókum við lest að Arlington kirkjugaðinum, þar sem við skoðuðum m.a. leiði John F. Kennedy. Þar nálægt er svo Iwo Jima minnismerkið, sem við skoðuðum. Eftir þetta löbbuðum svo (nokkuð lengi) yfir í Georgetown hverfið. Þar skoðuðum við tröppurnar, þar sem Karras fannst í snilldarmyndinni The Excorcist. Eftir að Thelma hafði skoðað búðina sína fórum við svo að borða á nokkuð góðum stað.

Genni og Sandra komu til D.C. seint um kvöldið og fóru Jens og Jóna að sækja þau. Við fórum svo öll heim til Jens og Jónu, þar sem við tókum á móti þeim og fengum okkur “einn” bjór.

Eitthvað fór þessi bjór í suma og því vorum við lengi af stað daginn eftir. Við (karlkyn) horfðum því á NFL mest allan daginn (Thanksgiving day). Um sjö fórum við svo heim til Jens og Jónu, þar sem allir voru og borðuðum við meiriháttar kalkún með þrjátíu tegundum af meðlæti. Við fórum svo upp til Arnars og Drafnar, þar sem við spiluðum og fengum okkur að drekka…

Á föstudeginum var svo tekinn léttur túristatúr um borgina, en í þessari blessuðu borg er nóg af túristastöðum. Við löbbuðum niður að National Mall, þar sem allir helstu túristastaðirnir eru. Við skoðuðum Capitol (þó ekki of nálægt, því sumu var lokað vegna árásanna) og löbbuðum svo yfir að Washington Monument og svo Lincoln Memorial. Því næst Vietnam War Memorial og svo á endanum Hvíta Húsið.

Um kvöldið fórum við svo yfir á GW campusinn, þar sem við vorum með smá partí í herberginu hans Bjarna, þar sem voru nokkrir fótboltagaurar auk okkar Íslendinganna. Seinna löbbuðum við svo yfir í Georgetown ásamt nokkrum af strákunum og fórum á bar þar. Við vorum án efa vinsælasta fólkið á barnum. Nokkrir af okkur drukku tequila á nokkuð óvenjulegan hátt og fyrir það urðum við afskaplega vinsælir og margir vildu kaupa staup handa okkur, sem við þáðum. Seinna um kvöldið byrjuðum við svo að syngja íslensk lög við gríðarlegar undirtektir á barnum.

Á laugardeginum skoðuðum við Pentagon og skemmdirnar þar en það var þó búið að hreinsa flest það versta og uppbyggingin er greinilega hafin. Stelpurnar fóru svo að eyða peningum, en við strákarnir leituðum að opnum bar. Því miður var skortur á slíkum stofnunum í borginni og heimsóttum við því Bjarna. Um kvöldið fórum við svo að borða í gömlu hverfi fyrir utan Washington D.C. Seinna um kvöldið fórum við til Bjarna og djömmuðum þar. Eftir það fórum við svo á “gríðarlega skemmtilegan” næturklúbb. Þar gerðist ekkert. Eftir klúbbinn fórum við aftur til Bjarna, þar sem Friðrik og Genni sungu Oasis lög fyrir alla nágrananna. Þegar þeir höfðu sungið nóg löbbuðum við alla leið heim, fram hjá Hvíta húsinu og helstu byggingunum. Þrátt fyrir tilraunir sumra tókst okkur ekki að vekja Bush.

Á sunnudeginum fórum við Hildur svo heim. Við flugum frá Dulles flugvellinum og var flugið frekar slæmt. Um mínútu eftir flugtak lentum við í rosalegri ókyrrð, sem stóð yfir í nokkrar mínútur. Mér var nokkuð brugðið, þar sem þetta var svo stuttu eftir flugtak. Einnig var fullt af fólki öskrandi og konan við hliðiná mér greip í mig og spurði mig “are we going to be alright??” Þetta var frekar óskemmtileg reynsla en sem betur fer komumst við heil út úr þessu öllu.

Kanada

Við Hildur erum komin heim frá Kanada eftir 10 daga í því fína landi. Við komum heim á föstudag, en ég hef verið latur við að skrifa tölvupóst eða á netið síðan þá.

Allavegana, þá síðasta þriðjudag þá keyrðum við frá Montreal til Toronto. Keyrslan tók einhverja 6 tíma og gekk okkur mun betur að rata inn til Toronto heldur en Montreal. Við gistum á litlum “Bed & Breakfast” stað, sem var rétt fyrir ofan Bloor stræti, sem er í miðbæ Toronto. Við vorum frekar þreytt eftir keyrsluna, þannig að við fórum bara og fengum okkur að borða og fórum svo aftur á gistiheimilið, þar sem ég horfði á Cubs-Reds, en þetta var einmitt fyrsti baseball leikurinn eftir hléið, sem var gert á tímabilinu vegna atburðanna 11.sept.

Á miðvikudag skoðuðum við okkur um í Toronto. Veðrið var frekar leiðinlegt og breytti það aðeins planinu okkar. Við byrjuðum á því að fara niður niður að vatninu, þar sem CN Tower og Skydome eru og keyptum við okkur baseball miða fyrir kvöldið. Síðan fórum við að skoða okkur um á Yonge stræti, sem er aðal verslunargatan hérna. Við versluðum eitthvað af fötum, enda eru fötin bæði miklu flottari og ódýrari í Kanada heldur en hér í Bandaríkjunum. Um kvöldið fórum við svo út að borða og svo fórum við á baseball leik milli Toronto Blue Jays og Baltimore Orioles, sem var í Skydome (sem var einmitt fyrsti íþróttaleikvangurinn með færanlegu þaki). Leikurinn var fínn og var gaman að sjá goðsögnina Cal Ripken Jr. í síðasta skipti.

Fimmtudagurinn var frábær. Við byrjuðum á því að fara niður að CN Tower, sem er hæsta frístandandi bygging í heimi, um 553 metrar. Við byrjuðum á því að fara í glerlyftu uppá útsýnishæðina. Lyftan var nokkuð svakaleg, því hún vippaði okkur upp á minna en mínútu og var útsýnið rosalegt. Uppi á útsýnishæðinni skoðuðum við útsýnið yfir Toronto. Það hrikalegasta var þó á leiðinni tilbaka, en á hæðinni fyrir neðan er neflilega gler gólf. Þannig getur maður labbað á gólfinu og séð einhverja 400 metra fyrir neðan sig. Ég tel mig nú ekki vera neitt rosalega lofthræddan, en þetta var alveg svakalegt. Við Hildur eigum þó bæði myndir af því þegar við stigum á gólfið, þannig að við eigum sönnunargögn.

Eftir CN Tower fórum við svo heim á hótel, þar sem við tókum draslið saman og keyrðum svo í um 2 tíma að Niagara Falls. Þangað vorum við komin um 2 leytið. Við hentum dótinu okkar inná hótel og fórum svo að skoða fossana. Þeir skiptast í raun í tvo hluta, bandarísku fossana og kanadísku fossana en báðir fossarnir sjást best frá kanadísku hliðinni. Við skoðuðum fossana fyrst úr fjarska og fórum svo í bátsferð með Maid of the Mist, sem fór með okkur uppað báðum fossunum, sem var geðveikt (og blautt). Fossarnir eru mjög fallegir og stórfenglegir og tókum við auðvitað fullt af myndum.

Niagara falls bærinn sjálfur er ekki merkilegur. Afskaplega gervilegur túristabær, sem var fullur af einhverjum draslsýningum og vaxmyndasöfnum. En maður var þarna fyrst og fremst til að skoða fossana. Eftir kvöldmat fórum við svo aftur niður að fossunum, en þeir eru upplýstir í mörgum litum á kvöldin og var það mjög fallegt.

Á föstudag tókum við svo dótið okkar saman í síðasta skipti og brunuðum alla leið til Chicago, um 11 tíma keyrsla. Okkur gekk fínt að komast í gegnum landamæri, þrátt fyrir að það hafi verið um klukkutíma bið í göngunum yfir í Detroit. Við vorum síðan spurð fullt af spurningum og gramsað mikið í bílnum en það var allt í lagi. Við komum svo aftur til Evanston um 10 leytið eftir frábæra ferð í landi hokkís og kleinuhringja.

Montreal – dagur 4

Við Hildur erum nú búin að vera hérna í Montreal í fjóra daga. Á morgun ;aetlum við að vakna snemma og keyra til Toronto. Þar ætlum við að vera í þrjá daga og fara svo til Niagara Falls.

Við erum búin að hafa það mjög gott hérna í Montreal, enda er þetta frábær borg. Ég skrifaði síðast á laugardag og síðan þá er fullt skemmtilegt búið að gerast.

Á laugardag fórum við á djammið. Við byrjuðum á brasilískum veitingastað, sem bauð uppá endalaust magn af alls kyns kjöti. Ég hef sennilega sjaldan borðað eins mikið. Eftir þau ósköp fórum við á milli bara hérna í aðal djammhverfinu. Mjög gaman.

Á sunnudag fórum við svo á aðal listasafnið hér í borg. Þar var einmitt síðasti dagur á sérsýningu, sem hét Picasso og erótík. Skemmtileg sýning. Við eyddum svo restinni af deginum á rölti um miðbæinn.

Um kvöldið fórum við svo út að borða á ítölskum stað. Eftir mat keyrðum við svo útá Ile Notre Dame eyjuna. Þar er nefnilega Casino de Montreal. Þetta er risastórt Casino, sem var alveg fáránlega troðfullt af fólki, sem henti peningunum sínum í ruslið með bros á vör. Við vorum náttúrulega alveg einsog hinir. Ég eyddi þó ekki miklu. Við spiluðum smá í spilakössum, en mestum tímanum eyddum við í rúllettu. Það gekk misvel. En þetta var rosalega gaman.

Í dag erum við svo búin að vera ýkt dugleg. Við byrjuðum á að labba uppá Mont Royal, sem er fjall á miðri eyjunni, sem að Montreal er á. Uppi á fjallinu er frábært útsýni yfir borgina. Svo seinni partinn í dag vorum við aðeins að versla föt fyrir veturinn.