Fallegir fossar og virkjanir

setequedas.jpgFyrir nokkrum árum heimsótti ég stærstu virkjun heims, Itaipu virkjunina í Paragvæ. Þessi virkjun býr til nær allt rafmagn, sem Paragvæar þurfa og yfir fjórðung alls afls, sem Brasilíumenn neyta (en Brasilíumenn eru 172 milljónir).

Til að búa til þessa virkjun varð að skapa uppistöðulón, sem er 1350 ferkílómetrar. Undir vatninu í þessu lóni eru m.a. fossar, sem margir segja að séu fegurstu fossar í heimi, hinir brasilísku Sete Qudas (íslenska: Sjö fossar, sjá mynd).

Á ferðalagi mínu um Suður-Ameríku heimsótti ég meðal annars Iguazú fossa og er það enn þann dag í dag sú mesta náttúrufegurð, sem ég hef á ævi minni séð (auk saltvatnanna í Bólivíu). Það eru hins vegar flestir, sem voru svo heppnir að sjá Sete Quedas og Iguazú, sammála um að Sete Quedas hafi verið ennþá stórfenglegri.

Einhvern veginn fannst mér alveg ótrúlega sorglegt núna þegar ég var að leita mér að upplýsingum um þessa fossa. Að sjá þessa gríðarlegu náttúrufegurð og vita til þess að það sé búið að eyðileggja þetta allt. Að þessir ótrúlegu fossar séu núna faldir undir einhverju uppistöðulóni.

Eran siete, Siete Cascadas
que nunca más vieron el sol,
Siete Cascadas ahogadas
que la mano de acero
del dragón capturó.
Siete círculos de llanto
que toda la región
inundó.

Bahamas

Þessar ferðasögur hjá mér eru komnar í algjört rugl. Ég hafði alltaf ætlað að skrifa smá um Bahamas en einhvern veginn gerðist það aldrei.

Allavegana, þá fór ég á sunnudeginum eftir útskrift með mömmu og pabba til Bahamas. Þessi ferð var mjög skemmtileg og róandi eftir allt, sem hafði verið að gerast síðustu daga fyrir ferðina.

Við gistum á fínu hóteli á Cable Beach, sem er á í höfuðborginni Nassau, sem er á New Providence eyjunni. Mestalla vikuna lá ég við sundlaugina, þar sem ég brann og las bækur. Á kvöldin fórum við svo ávallt útað borða á veitingastöðum í nágrenninu og svo var oft kíkt í casino-ið, þó við hefðum verið meira fyrir að fylgjast með öðrum heldur en að eyða okkar eigin pening.

Við kíktum þó einn daginn í sýnisferð um eyjuna, þar sem við fórum um nokkur hverfi í Nassau og svo útá Paradise Island, þar sem Atlantis hótelið er en það er einmitt flottasta hótel, sem ég hef á ævi minni séð.

Bahamas eru merkilegar eyjar. Ferðamannaiðnaðurinn var ekki stór fyrr en að Fidel Castro komst til valda á Kúbu og Bandaríkjamenn settu viðskiptabann á Kúbu. Þegar það gerðist vantaði Bandaríkjamönnum einhvern stað til að eyða peningum, þannig að klárir Kanar fluttu sig yfir á Bahamas, þar sem þeir byggðu fullt af hótelum og spilavítum. Í dag er ferðamannaiðnaðurinn mikilvægasta atvinnugreinin (ásamt því að eyjarnar eru skattaparadís).

St. Louis

Helgin í St. Louis var góð. Við lögðum af stað á laugardagsmorgun í MiniVan, sem mamma Katie á. St. Louis er um 6 tíma akstur suður af Chicago. Við vorum komin þangað um 6 leytið. Við byrjuðum á því að labba um miðbæinn og horfðum á einhverja útitónleika, sem innflytjendur frá Jamaica stóðu fyrir. Því næst fórum við svo niður að gömlu höfninni við Mississippi, þar sem við borðuðum kvöldmat og sátum á bar fram eftir kvöldi.

Á laugardeginum fórum við svo niður að Gateway Arch, sem var byggður um miðja síðustu öld, sem minnismerki um landnema, sem héldu í vestur, en St. Louis var nokkurs konar miðstöð fyrir þá, sem hugðust halda til vesturríkjanna. Allavegana, þá er þetta hæsta minnismerki í Bandaríkjunum og nokkuð merkileg sjón. Við ákváðum að fara ekki uppí bogann, þar sem Katie hafði farið áður og var ekkert sérstaklega spennt. Við fórum því niður að Mississippi, þar sem við fórum í klukkutíma bátsferð um ána.

Eftir bátsferðina fórum við svo og kíktum á Busch Stadium, sem er heimavöllur St. Louis Cardinals, erkifjenda míns uppáhaldsliðs. Um kvöldið eyddum við svo dágóðum tíma að finna veitingahús en veitangastaðir í St. Louis eru ekki beinlínis hannaðir fyrir grænmetisætur einsog Katie.

Í gær fórum við svo í Anheuser Busch ölgerðina, þar sem við fórum í smá túr um staðinn, þar sem mest seldi bjór í heimi er búinn til og var það nokkuð fróðlegt. Síðan var endað inná bar, þar sem maður fékk ókeypis Michelob Light og Bud Light.

Eftir það keyrðum við svo aftur heim til Chicago.

Spring Break Panama City 2002

Við Hildur komum aftur til Chicago á föstudag eftir viku á Panama City Beach, Florida. Ég var að fá myndir úr framköllun og ætla að reyna að setja þær á netið á næstu dögum.

Allavegana, þá var ferðin vel heppnuð. Við fórum með Victoriu, vinkonu hennar Hildar og Dan vini mínum. Við keyrðum niður eftir á föstudegi. Byrjuðum klukkan 2 um nóttina og keyrðum alveg til klukkan 10 um kvöldið, alls um 20 tíma keyrsla. Ég og Dan skiptumst á að keyra á Volvo-inum hans Dans, sem er 17 ára gamall. Volvoinn stóð sig einsog hetja, þrátt fyrir að hann sé keyrður meira en 300.000 kílómetra. Það eina, sem bilaði, var vökvastýrið en það skipti litlu máli.

Við gistum á Cooks motel, sem var ódýrt mótel sirka 2 kílómetra frá ströndinni. Þetta var ódýrt mótel en var samt bara nokkuð fínt. Allavegana var ég sáttur en ég er nú ýmsu vanur eftir ferðalög um Suður-Ameríku. Nágrannarnir voru líka fínir, sérstaklega var Dan sáttur við 7 stelpur frá Alabama, sem voru í næsta herbergi en svo voru líka einhverjir strákar frá U of Wisconsin.

Dagskráin var nú frekar svipuð flesta dagana. Við vöknuðum um 11, fórum á ströndina, þar sem við lágum allan daginn. Svo um fimm leytið var farið heim á mótel, svo útað borða, svo drukkið og farið á klúbba.

Ströndin var alger snilld. Við vorum alla dagana fyrir framan La Vela klúbbinn, en þar var flest fólkið. Þótt ótrúlegt megi virðast þá mátti drekka bjór á ströndinni og því voru allir með kælibox. Þvílík snilld. Það var svo alltaf nóg að gerast í kringum okkur, hjá klúbbunum voru alltaf fullt af wet t-shirt keppnum, sem ég var duglegur að sækja.

Hildi tókst reyndar ekki að komast í Girls Gone Wild, en við sáum þó gaurana taka það upp þegar einhver stelpa var að flassa. Hún var frekar ölvuð og samþykkti að láta taka myndir af sér án spurninga. Það eina, sem hún fékk var bolur. Hún var reyndar þvílíkt sátt við að hafa komist að, því hún tilkynnti öllum á ströndinni að hún hefði komist í Girls Gone Wild.

Annars var rosalega mikið af sætum stelpum á ströndinni (og Hildur segist aldrei hafa séð svona marga gaura með sixpack). Flestir krakkarnir voru úr stóru skólunum í kring, það er U of Alabama og Florida State. Allir töluðu með suðurríkjahreim. Ég veit ekki hvort stelpurnar úr Alabama séu bara svona mikið sætari en þær hérna, eða hvort bara sætustu stelpurnar hafi verið þarna, en þetta var alveg hreint magnað.

Ok, nóg um það… Við hittum Íslendinga á ströndinni, sem hlýtur að vera magnaðasta tilviljun síðan við Emil hittum tvo Íslendinga á bar í La Paz í Bólivíu. Við hittum þá um klukkan tvö um eftirmiðdaginn og voru þeir án efa drukknustu mennirnir á ströndinni. Mér leið einsog ég væri á Benidorm. Þeir spurðu hvort ég væri með disk með Bubba og sá sem talaði mest við okkur var svo drukkinn að ég skildi varla neitt, sem hann sagði.

Klúbbarnir þarna voru misjafnlega góðir. Bestur var Spinnaker, þar sem við fórum fyrsta og síðasta daginn. Síðan fórum við einu sinni á La Vela, sem er stærsti klúbburinn í Bandaríkjunum en hann komst samt ekki nálægt Ibiza klúbbunum að stærð. Slappastur var svo Sharky’s.

En allavegana, þá var þetta mjög vel heppnað. Við erum búin að sjá fullt af brúnu og fallegu fólki, drekka ógurlegt magn af Bud Light og sjá þrjár wet t-shirt keppnir. Það var eina, sem ég ætlaðist til af spring break á Florida.

Spring Break

Þegar ég vaknaði í morgun var kominn snjór fyrir utan. Ég þurfti því miður að skila spólu á Blockbuster og því þurfti ég að hlaupa úti í 10 stiga frosti.

En mér er bara alveg sama af því að við erum að fara til Florida á morgun. Jibbíííí.

Við Hildur erum að fara með Dan og Victoriu, vinum okkar. Við ætlum að leggja af stað snemma á morgun og keyra allan daginn niður til Panama City Beach, en það er að ég held 19 tíma keyrsla. Við gistum þar á einhverju ódýru móteli og ætlum að vera 7 daga.

Það verður vonandi fjör. Þetta er lang vinsælasti spring break staðurinn og ég held að um hálf milljón háskólanemar séu þarna í marsmánuði. Hildur stefnir á að komast í “Girls Gone Wild, Spring break 2002”

Ég veit ekki hvort ég skrifi eitthvað frá Florida. Ég efast stórlega um það.

Spring Break

Þá erum við búin að plana Spring Break þetta árið. Síðustu tvö ár höfum við Hildur farið til New York og New Orleans og var geðveikt gaman í bæði skiptin.

Þetta árið langaði okkur að fara í típískt bandarískt spring break. Þess vegna ætlum við að fara með tveim vinum okkar niður til Panama City Beach, Florida.

Þarna koma árlega í marsmánuði yfir 600.000 háskólanemendur frá öllum Bandaríkjunum. Travel Channel valdi Panama City Beach besta spring break staðinn.

Við ætlum að keyra suður til Florida, en það er um 19 tíma akstur. Ætlunin er að fara 22.mars, sem er föstudagur og vera í eina viku.

Núna þarf ég bara að komast í gegnum lestrarviku, þrjú próf og eina ritgerð.