Spring Break Panama City 2002

Við Hildur komum aftur til Chicago á föstudag eftir viku á Panama City Beach, Florida. Ég var að fá myndir úr framköllun og ætla að reyna að setja þær á netið á næstu dögum.

Allavegana, þá var ferðin vel heppnuð. Við fórum með Victoriu, vinkonu hennar Hildar og Dan vini mínum. Við keyrðum niður eftir á föstudegi. Byrjuðum klukkan 2 um nóttina og keyrðum alveg til klukkan 10 um kvöldið, alls um 20 tíma keyrsla. Ég og Dan skiptumst á að keyra á Volvo-inum hans Dans, sem er 17 ára gamall. Volvoinn stóð sig einsog hetja, þrátt fyrir að hann sé keyrður meira en 300.000 kílómetra. Það eina, sem bilaði, var vökvastýrið en það skipti litlu máli.

Við gistum á Cooks motel, sem var ódýrt mótel sirka 2 kílómetra frá ströndinni. Þetta var ódýrt mótel en var samt bara nokkuð fínt. Allavegana var ég sáttur en ég er nú ýmsu vanur eftir ferðalög um Suður-Ameríku. Nágrannarnir voru líka fínir, sérstaklega var Dan sáttur við 7 stelpur frá Alabama, sem voru í næsta herbergi en svo voru líka einhverjir strákar frá U of Wisconsin.

Dagskráin var nú frekar svipuð flesta dagana. Við vöknuðum um 11, fórum á ströndina, þar sem við lágum allan daginn. Svo um fimm leytið var farið heim á mótel, svo útað borða, svo drukkið og farið á klúbba.

Ströndin var alger snilld. Við vorum alla dagana fyrir framan La Vela klúbbinn, en þar var flest fólkið. Þótt ótrúlegt megi virðast þá mátti drekka bjór á ströndinni og því voru allir með kælibox. Þvílík snilld. Það var svo alltaf nóg að gerast í kringum okkur, hjá klúbbunum voru alltaf fullt af wet t-shirt keppnum, sem ég var duglegur að sækja.

Hildi tókst reyndar ekki að komast í Girls Gone Wild, en við sáum þó gaurana taka það upp þegar einhver stelpa var að flassa. Hún var frekar ölvuð og samþykkti að láta taka myndir af sér án spurninga. Það eina, sem hún fékk var bolur. Hún var reyndar þvílíkt sátt við að hafa komist að, því hún tilkynnti öllum á ströndinni að hún hefði komist í Girls Gone Wild.

Annars var rosalega mikið af sætum stelpum á ströndinni (og Hildur segist aldrei hafa séð svona marga gaura með sixpack). Flestir krakkarnir voru úr stóru skólunum í kring, það er U of Alabama og Florida State. Allir töluðu með suðurríkjahreim. Ég veit ekki hvort stelpurnar úr Alabama séu bara svona mikið sætari en þær hérna, eða hvort bara sætustu stelpurnar hafi verið þarna, en þetta var alveg hreint magnað.

Ok, nóg um það… Við hittum Íslendinga á ströndinni, sem hlýtur að vera magnaðasta tilviljun síðan við Emil hittum tvo Íslendinga á bar í La Paz í Bólivíu. Við hittum þá um klukkan tvö um eftirmiðdaginn og voru þeir án efa drukknustu mennirnir á ströndinni. Mér leið einsog ég væri á Benidorm. Þeir spurðu hvort ég væri með disk með Bubba og sá sem talaði mest við okkur var svo drukkinn að ég skildi varla neitt, sem hann sagði.

Klúbbarnir þarna voru misjafnlega góðir. Bestur var Spinnaker, þar sem við fórum fyrsta og síðasta daginn. Síðan fórum við einu sinni á La Vela, sem er stærsti klúbburinn í Bandaríkjunum en hann komst samt ekki nálægt Ibiza klúbbunum að stærð. Slappastur var svo Sharky’s.

En allavegana, þá var þetta mjög vel heppnað. Við erum búin að sjá fullt af brúnu og fallegu fólki, drekka ógurlegt magn af Bud Light og sjá þrjár wet t-shirt keppnir. Það var eina, sem ég ætlaðist til af spring break á Florida.