Mexíkóflóaferð 2: Tímavélin Havana

Það eru sextán ár síðan að ég kom með bandarískum vini mínum til Havana, höfuðborgar Kúbu. Þá taldi ég að þetta væri síðasta tækifæri mitt til að sjá eyjuna áður en að Fidel Castro myndi deyja og allt breytast. Við vorum saman í eina viku í Havana, þar sem við kynntumst frábærum Kúbverja á bar sem hann vann á og sáum með honum borgina, drukkum á barnum hans og stunduðum partí í heimahúsum fram á nótt. Núna 16 árum síðar er ég hérna tveggja barna faðir með eiginkonu og tvö lítil börn. Jú, ég fæ mér mojito og bjór með matnum, en ekkert á við flösku af rommi blandaða í eina kókdós einsog árið 1998.

Gata í Havana.  Búið að mála.
Gata í Havana. Búið að mála.

Að mörgu leyti hefur borgin líka breyst en að ótrúlega mörgu leyti er hún eins. Fidel er orðinn 88 ára gamall og hætti sem hæstráðandi á Kúbu fyrir átta árum og lét litla bróður sínum Raúl eftir völdin. En andi Fídel og hans gömlu vina er auðvitað enn mjög sterkur. Havana er vissulega ennþá einsog tímavél full af hálf hrundum ótrúlega fallegum byggingum og gömlum amerískum bílum frá 1950 ásamt gömlum Fiat og Lödu bifreiðum frá 1980. En ég sé líka talsverðar breytingar. Löggur eru ekki nærri því jafn áberandi á götum úti og aukið frjálsræði í viðskiptum þýðir að úrval veitingastaða hefur margfaldast (síðast borðuðum við hrísgrjón og baunir á götuhorni í næstum hverri máltíð). Habaguanex, stofnunin sem fyrir túristapeninga sér um að endurbyggja miðbæinn, hefur líka gert mikið gagn og miklu fleiri hús hafa verið endurgerð og líta ekki út fyrir að vera við það að hrynja.


Í Havana búa rúmlega 2 milljónir íbúa af þeim ellefu sem búa í heildina á Kúbu. Flestir hlutir sem vekja áhuga ferðamanna eru í gamla miðbænum, Habana Vieja eða Vedado. Borgin er ótrúlega falleg með litríkum húsum og miklu götulífi. Það mest sjarmerandi við Habana Vieja (þar sem við búum á litlu gistiheimili rétt hjá Plaza Vieja) er að borgin er lifandi og full af innfæddum. Ólíkt mörgum gömlum túristaborgum þá býr fólk í Habana Vieja og Habaguanex hefur einmitt gert í því að viðhalda borgarlífinu og gera fólki kleift að búa áfram í miðborginni svo að svæðið verði ekki bara samansafn af hótelum og Airbnb íbúðum. Manni líður líka einsog maður sé öruggur hérna. Fyrir sextán árum fannst mér ég vera öruggur útaf öllum löggunum, en þótt ég sjái þær ekki jafnmikið í dag líður mér enn einsog við séum sæmilega örugg hérna, jafnvel seint um kvöld. Núnva var ég til að mynda að koma heim eftir langan göngutúr í myrkrinu – nokkuð sem ég myndi aldrei nokkurn tímann gera í San Salvador, Mexíkóborg, Caracas eða Bogota.

Jóhann Orri leikur sér með trébílinn sinn á götu nálægt Plaza Vieja
Jóhann Orri leikur sér með trébílinn sinn á götu nálægt Plaza Vieja

Ferðamenn borga fyrir allar vörur í CUC, gjaldmiðli sem er jafn bandaríkjadollar, en kúbverjar borga fyrir vörur í Moneda Nacional, sem hefur 10% af verðmæti CUC. Þannig að ég borga 1 CUC (=1 dollar) fyrir vatnsflösku, en kúbverji borgar 10 sinnum minna. Ég labba inná veitingastað og fæ mér bjór og vatn, en kúbverji þarf oft að bíða í biðröð eftir að kaupa einföldustu vörur. Þetta tvöfalda kerfi og miklu meira frjálsræði fyrir kúbverja að stofna fyrirtæki sem höfða til ferðamanna er byrjað að valda auknu misræði á milli borgaranna. Þeir sem vinna nálægt ferðamönnum geta leyft sér að kaupa merkjavöru á meðan að aðrir með hefðbundna vinnu hafa það ekki nærri því jafn gott. Sósíalíska byltingin hans Fídels er ekki alveg að virka að þessu leyti.


Við komum hingað með flugi frá Cancún (þar sem við þurftum að millilenda vegna þess að auðvitað er ekkert beint flug frá Flórída til Kúbu) og gistum á litlu gistiheimili á San Ignacio götunni. Með tvö lítil börn er ferðaskipulagið talsvert öðruvísi. Við heimsækjum minna af söfnum (nema þegar börnin eru sofandi eða þegar söfnin hafa eitthvað sem klárlega er spennandi fyrir Jóhann Orra = BÍLAR) og reynum að nýta daginn sem best í kringum þá tíma sem þau eru vakandi og sofandi. Við höfum notið tveggja daga á rólegu labbi í gegnum gömlu Habana, enda nýtur maður borgarinnar best þannig. Vissulega eru sölumenn miklu ágengari en fyrir sextán árum, en það er auðvelt að labba framhjá þeim og njóta þess að vera í borginni sem iðar af lífi og lifandi tónlist útum allt.

Che, Fidel og Camilo á Byltingasafninu.
Che, Fidel og Camilo á Byltingasafninu.

Við höfum heimsótt Byltingarsafnið, þar sem sýningarnar eru sextán árum eldri en síðast, jafn stórkostlega litaðar af áróðri – sem gerir þær bara skemmtilegri – og enn snjáðari og sjúskaðari en fyrir sextán árum. Seinnipartinn í gær löbbuðum við svo um Malecón strandgötuna. Flest húsin við þá götu eru að hruni komin útaf saltmengun og í gær var gatan lokuð bílaumferð þar sem öldurnar skullu á varnargarðinu með svo miklum krafti að sjórinn flæddi yfir. Það er magnað að labba og skoða þessa götu í slíku veðri. IMG_5619 Við höfum svo labbað torganna á milli í Habana Vieja og í morgun gerðum við það túristalegasta af öllu túristalegu í Havana og leigðum okkur bleikan Cadillac blæjubíl frá 1953, sem fór með okkur um þá staði sem við náðum ekki að labba um. Svo sem Vedado, Kínahverfið og auðvitað Byltingartorgið þar sem andlitsmyndin af Che Guevara með Hasta La Victoria Siempre hefur nú fengið félagskap frá Camilo Cienfuegos með sín frægustu ummæli, Vas Bien, Fiedel.

Ég drekkandi frábært kúbverskt kaffi á Byltingasafninu í Havana með Björgu í poka.
Ég drekkandi frábært kúbverskt kaffi á Byltingasafninu í Havana með Björgu í poka.

Svo höfum við reynt að borða góðar kúbverskar samlokur (innblásin af myndinni Chef höfum við þó komist að því að góðar kúbverskar samlokur eru sennilega algengari á Miami en í Habana), drukkið frábæra mojitos og Cristal bjór, borðað mikið af hrísgrjónum og svörtum baunum og notið rólegs lífs í þessari frábæru borg. Á morgun tökum við svo bíl til Svínaflóa og þaðan til borgarinnar Cienfuegos. Skrifað í Havana, Kúbu 3.nóvember klukkan 20.02