Leiðinlegustu fréttir ársins

Jæja, er ekki voðalega vinsælt að hafa svona topplista fyrir árið. Þetta voru að mínu mati leiðinlegustu fréttir ársins 2006:

1. **Baugsmálið**: Enn eitt árið er þetta leiðinlegasta fréttaefnið. Þetta mál náði að vera pínku spennó þegar öll þessi persónulegu email komu upp. En á þessu ári hafa fréttir um Baugsmálið verið 100% leiðindi. Hver er hæfur, hver er vanhæfur, who gives a fuck? Geta menn ekki bara klárað þetta mál? Það hefur enginn gaman af þessu, ekki Baugsmenn, ekki ríkið og svo sannarlega ekki við hin.
2. **Allar fréttir um íslenska fjölmiðla**. Þá *sérstaklega* fréttir um RÚV frumvarpið.
3. **Fréttir um launamál flugumferðarstjóra**. Getur ekki einhver fréttamaður tékkað á því hvort ríkið sé að brjóta á flugumferðarstjórum? Ef svo er, þá má gagnrýna ríkið. En ég nenni ekki að hlusta á 20 fréttir þar sem ríkið segir eitt og þessir flugumferðarstjórar annað. Af hverju geta fréttamenn ekki bara kannað málið í stað þess að spyrja bara þá sem deila? Fyrir flughræddan mann einsog mig, þá vil ég ekki vita til að þessir menn séu í fýlu.
4. **Fréttir af milliuppgjöri fyrirtækja**. Hvergi annars staðar í heiminum er milliuppgjörum fyrirtækja slegið upp sem fyrstu fréttum á vefútgáfum dagblaða með öðrum almennum fréttum.
5. **Fréttir af matsfyrirtækjum**. Ég leyfi mér að fullyrða að langflest fólk hefur ekki hugmynd um hvað þessi matsfyrirtæki eru að bralla. Segið mér hvaða áhrif þetta hefur á bankabókina mína og þá get ég kannski gert mér upp áhuga. Og ég er hagfræðingur!
6. **Allar fréttir sem fela í sér viðtöl við börn**. Meðal annars fréttir um að nú séu að koma jól, hvítasunna, páskar, sumar og 17.júní. Einnig fréttir með viðtölum við jólasveina.

Ég er ábyggilega að gleyma einhverju. Einhverjar hugmyndir?

Fyrirsagnir í Hér og Nú

Í síðustu viku var forsíðufyrirsögnin í Hér og Nú:

Tilhugsunin um brúðkaup pínleg

…og á þetta við um viðtal við Höllu Vilhjálms, sem er….?
Í þessari viku er fyrirsögnin á forsíðunni:

Hjá mömmu og pabba um jólin

…og er sú fyrirsögn við viðtal við Birgittu Haukdal.
Mér þykja þessar fyrirsagnir – og þá sérstaklega sú síðari – benda til þess að innihald viðtalanna sé ekki mikið.

Fegurðardrottning, penthouse íbúð og sportbílar

Kosturinn við að fara í klippingu á margra mánaða fresti einsog ég geri er sá að ég hef alltaf nóg af lesefni, því ég get farið í gegnum slúðurblöð síðustu vikna. Í Hér & Nú fyrir einhverjum dögum birtist viðtal við íslenska stelpu. Þar segir m.a.

screenshot001.jpg

Ok, meikar sense. Hún heillast fyrst og fremst af einlægum og heiðarlegum strákum og segjist sjá í gegnum glamúr heiminn. Hún neitar svo í framhaldinu að tjá sig um einkalíf og strákamál í viðtalinu. Viðtalið endar svo svona:

screenshot2.jpeg

Allt frekar saklaust. Það er tekið fram að hún hlær í enda setningarinnar, þannig að hún er væntanlega að gantast með það að sportbílar og penthouse íbúðir séu hlutir, sem henni finnst vera mikilvægir í lífinu. Fyrir þetta viðtal fær hún sæta mynd af sér á forsíðunni með þessari fyrirsögn:

**Sportbíll og Penthouse er það sem gleður mig**

Semsagt, blaðamenn H&N láta það líta einsog þetta sé beint kvót í hana, sem er rugl. Þetta er umorðuð setning, sem hún *sagði í gríni*.

Ætli megi ekki ætla að svona 30 sinnum fleiri sjái forsíðu Hér & Nú en lesi blaðið. Það þýðir að yfirgnæfandi meirihluti fólks fær það sama á tilfinninguna og ég fyrst þegar ég sá forsíðuna – það er að Tinna væri að tala um hrifningu sína á strákum, sem ættu sportbíla og penthouse íbúð. Allavegana skildu einhverjir lesendur hjá [Katrínu þetta þannig](http://www.katrin.is/?t=athugasemdir&nid=6404). Það er ólíklegt að almenningur fái mikið álit á henni við að fá þær upplýsingar.

Það má vel vera að hún hafi samþykkt þessa fyrirsögn og að þessi lýsing smellpassi við hana. En af viðtalinu að dæma, þá virkar þetta ansi ósanngjarnt.

Stúdentablaðið?

Ég hef aldrei stundað nám við Háskóla Íslands, þannig að ég skil ekki alveg hvað gengur þar á. Ég taldi mig þó vita að Stúdentablaðið ætti að vera virðulegt málgagn stúdenta, allavegana kynna þeir sig þannig til auglýsenda. Í dag fékk ég sent heim eitt slíkt blað. Byrjum á ritstjórnarpistlinum. Nokkur eeeeeðalkomment:

>Um leið og við getum flest verið sammála um að Stalín hafi farið afskaplega **illa að ráði sínu**..

(Feitletrun mín)

>Eru það ekki hægrimenn sem hafa um þessar mundir tvö hundruð þúsund írösk mannslíf á samviskunni?

Nei. Ekki frekar en að við hafnaboltaunnendur höfum þessi mannslíf á samviskunni. Það að Bush sé hægri maður hefur ekkert með aðra hægrimenn eða samvisku þeirra að gera.

>Voru það ekki markaðshyggjumenn sem vörpuðu fyrstir og einir manna atómbombum?

Nei, það voru Bandaríkjamenn. Það hefur ekkert með markaðshyggjumenn að gera, frekar en að fjöldamorð Stalíns hafa með unga vinstri menn að gera.

Og hann heldur áfram:

>mér er ómögulegt að koma auga á “snilldina” í því stjórnarfyrirkomulagi sem elur 2/3 mannkyns á skítugu vatni, hungursneyð, stríði og ævarandi pínu.

Ég vænti þess að hann sé að vitna þarna til kapítalisma og gefur sér þá staðreynd að kapítalismi eða hægri stefna ráði ríkjum í öllum löndum heimsins. Það er hins vegar ekki aaaalveg rétt.

>Ekki þarf ýkja víðfeðma sagnfræðikunnáttu til að átta sig á því að veldi Vesturlanda er reist á arðráni og þrælablóði.

Æji, kræst, ég nenni þessu ekki.

* * *

Af hverju er Elías Davíðsson svo fenginn til að skrifa áróðursgreinar í *Stúdentablaðið*?

* * *

Svo byrjar grein um **Hamas** – samtök, sem vilja útrýma Ísraelsríki, á þessum orðum:

>Hamas-hreyfingin rekur hjálpar- og menningarstofnanir á grasrótarstigi

Svo er tekið viðtal við meðllim í Hamas og þar kemur þessi æðislega spurning frá blaðamanni Stúdentablaðsins:

>En viðurkennirðu ekki að til séu hernaðarárásir sem *skilgreina* má með þá *neikvæðu merkingu* sem hugtakið hryðjuverk felur í sér?

(skáletrun mín)

Er ekki verið að fokking grínast í okkur? Sjálfsmorðsárásir gegn saklausum borgurum *eru hryðjuverk*, alveg óháð því hvað málstaðurinn kann að vera æðislega góður og saklaus. Það að beina árásum sínum gegn saklausum borgurum eru hryðjuverk, punktur! Við þurfum ekki að biðja leiðtoga hryðjuverkasamtaka um að útskýra hugtakið fyrir okkur.

Hvað í ósköpunum er Háskóli Íslands að spá? Frábært að ég hafi líka styrkt útgáfu svona blaðs með því að kaupa auglýsingu af þeim. Á opnunni sem auglýsingin mín birtist er einmitt önnur grein, sem heitir **Skoðanakúgum Kapítalismans**. Þeir gleyma því sennilega að kapítalistinn ég hjálpaði við útgáfu blaðs, þar sem þessi grein birtist. Skoðanakúgunin er ekki sterkari en svo. Ég hreinlega nenni þó ekki að fara yfir þá grein, enda þarf ég að drífa mig útúr bænum.

En kannski er þetta bara grín einsog [Matti heldur](http://www.orvitinn.com/2006/04/13/12.31/) og ég kjáni að láta þetta fara í taugarnar á mér.

Fjölmiðlapistill

Plís! Ó, Góður Guð! Geturðu fengið íslenska þáttastjórnendur til að hætta að bjóða Eggerti Skúlasyni í viðtalsþætti?

Og plís, plís, plíííííís látið þau hætta að taka viðtöl við lítil börn. Þau hafa ekkert merkilegt að segja í fréttum.

* * *

Ef þú ert milljarðamæringur og vilt kaupa [þennan vef-fjölmiðil, eoe.is](https://www.eoe.is), til þess eins að leggja hann niður, þá er ég *tilbúinn* í viðræður. Segjum að þú sért bæði milljarðamæringur og Manchester United aðdáandi, þá væri ekki úr vegi að kaupa til dæmis [Liverpool bloggið](https://www.eoe.is/liverpool) til þess eins að leggja það niður.

Ég er opinn fyrir viðræðum. Eigum við að segja 5 milljónir á hvora síðu. Helst reiðufé, en myndi sætta mig við hlutabréf í vel stæðum fyrirtækjum. Takk.