Þunglyndið búið

YEEEEEEEEESSSSSSSSSSSSSSSSS!!!!!!!!!!!!!

Þetta er sennilega það eina, sem nágrannarnir mínir heyrðu í gær. Þegar fimm mínútur voru eftir af Liverpool-Manchester United skoraði Danny Murphy glæsilegt mark og tryggði Liverpool sigurinn. Ég hoppaði 5 sinnum og öskraði Yes! jafnoft.

Furðulegt hvað allt þunglyndið, sem ég tengdi við knattspyrnu hverfur fljótt þegar Liverpool vinnur United.

Það kemur mér líka alltaf jafnmikið á óvar hvað ég hata United mikið. Ég held til dæmis að ég hati engan knattspyrnumann jafnmikið og Roy Keane. Leiðinlegri leikmaður er vart til á þessari jörð.

Fyndið hvað aðdáendur liðanna sjá hlutina með öðrum augum. Ég var pirraður einsog vanalega á því hve oft er dæmt á Emile Heskey. Ég var búinn að smíða Heskey lögmálið, en það er eitthvað á þessa leið: “Ef tveir leikmenn berjast um boltann og annar þeirra heitir Emile Heskey skal undantekningalaust dæmd aukaspyrna á Heskey”. United aðdáendur kvarta hins vegar yfir því að það hafi aldrei verið dæmt á Heskey í leiknum.

Það var líka dálítið fyndið að lesa hinn ætíð tapsára Alex Ferguson vera að kvarta eftir leikinn. Hann sagði: “It was the same last year, They just played the ball forward and hoped to get a break.” Þvílík endemis vitleysa. Ég viðurkenni að Liverpool hafa ekki leikið vel undanfarna leiki og þeir spiluðu illa fyrstu 20 mínúturnar. En hins vegar eftir það var þetta allt undir control hjá Liverpool. Þeir léku agaðan leik en voru óhræddir við að sækja. Það að Liverpool hafi verið minna með boltann er fullkomlega eðlilegt, enda voru þeir á útivelli.

Það sýndi sig líka að planið gekk upp, því Manchester United áttu ekki eitt einasta skot á markið fyrr en eftir að Liverpool skoruðu. Liverpool höfðu hins vegar átt tvö góð færi, sem Barthez varði. Henchoz (sem er vanmetnasti varnarmaður í heimi) hélt líka alveg Nilsteroy niðri. Hann var orðinn svo pirraður að hann endaði með því að sparka í Dudek (sem er besti markmaður í heimi).

Allavegana, þá er það nú svo að maður fyllist sjálfstrausti og væntingum eftir svona leiki. Það er svo bara spurning hvort maður verður orðinn þunglyndur aftur á mánudaginn.