Hvað er að Liverpool?

hou.jpgJæja, þetta verður nú varla mikið ömurlega hjá Liverpool. Ég man hreinlega ekki hvenær liðið hefur lent í annarri eins lægð. Fjögur töp í röð í deildinni og nú síðast fyrir lélegasta liðinu í deildinni, Sunderland. Þar sem Gerard Houllier skilur íslensku og les þessa síðu reglulega þá ætla ég að bjóða honum mínar ráðleggingar á því hvernig hægt er að bæta liðið.

1. Breyta vörninni: Hyppia og Henchoz eru góðir saman í miðju varnarinnar en hins vegar er það augljóst að bakverðirnir eru alls alls ekki nógu góðir. Það að spila með tvo miðverði (Carragher og Traore) í bakvarðastöðunum á móti lélegasta sóknarliði deildarinnar er náttúrulega fáránlegt. Það auðveldasta, sem Houllier getur gert er náttúrulega að setja Babbel í hægri bakvörðinn og Riise í vinstri bakvörðinn. Þar sem Liverpool hefur enga almennilega kantmenn, þá verða bakverðirnir að sækja og því væri mun betra að hafa Babbel og Riise í þessum stöðum, þar sem þeir eru mun sókndjarfari. Einnig væri skemmtilegt að prófa Gregory Vignal í þessari stöðu.

2. Breyta miðjunni: Gerrard og Hamann eiga á góðum degi að vera eitt besta miðjupar í heimi. Það er bara ljóst að Gerrard er alls ekki að spila vel. Sama hvað Houllier reynir að telja fólki trú um að hann sé búinn að finna sitt gamla form, þá virðist honum vera það ómögulegt að senda á samherja. Best væri að nota Diao, sem hefur komið sterkur inn við hlið Hamann. Gefa Gerrard frí.

3. Kaupa kantmenn: Kantarnir eru gríðarlegt vandamál hjá Liverpool. Danny Murphy og Vladimir Smicer eru ágætir þegar þeir eru í formi. Málið er bara að Smicer er bara í góðu formi á sex mánaða fresti. Það verður einfaldlega að kaupa einhverja sókndjarfa menn til að spila á köntunum. Til dæmis Harry Kewell á vinstri kantinn (Leeds þarf að selja menn). Í millitíðinni væri best að nota Bruno Cheyrou á vinstri kantinn og Diouf á hægri kantinn.

4. HAFA BAROS INNÁ: Það virðist vera sama hvað Milan Baros gerir mikið, skorar mörg mörk og skapar mörg færi, hann er alltaf tekinn útaf í leikjum og hann er nær aldrei í byrjunarliðinu tvo leiki í röð (nema núna, af því að Heskey er meiddur). Baros ætti að vera í liðinu. Og ekki taka hann útúr liðinu ef honum mistekst að skora í einum leik. Alls alls alls ekki hafa Emile Heskey í liðinu í staðinn fyrir Baros. Talandi um Heskey. EKKI SPILA MEÐ HESKEY Á VINSTRI KANTINUM. ALDREI!!!!!!!!! Jafnvel þótt styrjöld brjótist út og allir vinstri kantmenn í heiminum deyji, EKKI SETJA HESKEY Á KANTINN.

5. Hafa sama byrjunarlið fimm leiki í röð: Spila með

Kirkland
Babbel – Henchoz – Hyppia – Riise
Diouf – Diao – Hamann – Cheyrou
Baros – Owen

Halda þessu byrjunarliði nokkra leiki í röð. Jafnvel þótt menn eigi ekki stjörnuleik, ekki breyta liðinu. Það er ekki nóg fyrir menn einsog Diouf að fá að spila á tveggja vikna fresti. Láta þessa menn kynnast hvor öðrum betur.

6. Hættu að monta þig í viðtölum: Houllier finnst einkar gaman að monta sig í viðtölum. Til að mynda þegar Baros skoraði sín fyrstu mörk, þá kom Houllier í viðtali og tók það sérstaklega fram að hann hefði átt hugmyndina að því að kaupa hann. Þetta er ótrúlega pirrandi, sérstaklega þar sem hann viðurkennir aldrei mistök sín í viðtölum.

7. Hættu að hrósa liðinu eftir ömurlega tapleiki: Eftir leikinn gegn Sunderland í dag sagði Houllier að hann gæti ekki skammað sína menn eftir leikinn. Hversu illa þurfa leikmenn að spila til þess að hann skammi þá? Er það ekki nóg að vera yfirspilaðir af lélegasta liði deildarinnar?

8. Hættu að kaupa leikmenn, sem eru ekkert betri en þeir leikmenn sem eru fyrir hjá liðinu: Houllier hefur verið að kaupa frekar ódýra leikmenn undanfarið, menn sem eru ekkert mikið betri en þeir, sem eru fyrir hjá liðinu. Til þess að liðið nái framförum þarf Houllier að vera tilbúinn til að eyða peningum í stóra leikmenn. Það má selja að minnsta kosti 5-6 dýra leikmenn, sem eru hjá liðinu. Menn sem spila aldrei, einsog Diomede, Berger, Biscan og svo framvegis. Ég væri alveg til að skipta á öllum þessum leikmönnum og einum frábærum leikmanni einsog til dæmis Damien Duff.

9. Kauptu leikmenn í janúar: Liðinu vantar allavegana góðan vinstri bakvörð, og tvo kantmenn. Ef að Babbel er ekki heill, þá vantar líka hægri bakvörð.

10. Láttu liðið spila sóknarbolta: Því er einfaldlega ekki hægt að neita að fótboltinn, sem Liverpool hefur spilað undanfarið er hundleiðinlegur. Þetta er sorglegt, því þegar Houllier hefur fyrirskipað sóknarbolta þá getur liðið leikið frábærlega. Ég hef til dæmis sjaldan séð jafn skemmtilegan sóknarbolta og þegar liðið gerði jafntefli á móti Newcastle.

Ef Houllier fylgir þessum leiðbeiningum, þá er ég viss um að leikur liðsins mun batna.

One thought on “Hvað er að Liverpool?”

  1. hehe…

    var ég búinn að segja að mér finnst þetta ansi skemmtileg heimasíða.

    Fyndinn pistill hins Liverpoolmannsins örþreytta á ömurlegu gengi liðs síns

    gó on eoe

    pældu oft

    pældu langt

    og pældu skemmtilega

Comments are closed.