Rússlandsferð 4: St. Pétursborg, annar hluti

Djammið á laugardaginn var skrautlegt, svo ekki sé meira sagt. Ég ætla hins vegar að bíða með þá sögu aðeins.

Af einhverju ótrúlegum ástæðum er búið að vera sólskin hér í St. Pétursborg í allan dag. Þar með fellur kenning mín um að það rigni að minnsta kosti þrisvar á dag, alla daga ársins, í Rússlandi. Það er hins vegar orðið frekar kalt hérna og ég var orðinn mjög þreyttur á labbi, svo ég ákvað að kíkja inná þetta netkaffihús, sem virðist vera vinsælasti staður bæjarins fyrir sætar stelpur. Allavegana, eru sæti á miðju kaffihúsinu, þar sem sætar og single stelpur koma saman. Magnað!

Allavegana, þá hefur dagurinn í dag farið í frekara sight-seeing. Fór í virki Péturs og Páls, sem Pétur Mikli lét reisa þegar hann byggði St. Pétursborg. Virkið er einna helst merkilegt fyrir þá staðreynd að þar eru grafnir nær allir keisarar Rússlands, þar á meðal síðasti keisarinn, Nikulás annar, kona og börn hans, sem voru grimmilega myrt af bolsjevikum. Einnig var þar fangelsi, þar sem meðal annars Dostojevsky þurfti að gista.

Ég labbaði svo yfir ána og skoðaði eitthvað vaxmyndasafn í einhverju djóki, en það reyndist vera mun áhugaverðarar en ég bjóst við, þar sem ég fékk indæliskonu, sem gæd og leiddi hún mig í gegnum sögu keisarana í Rússlandi og svo forseta Rússlands og Sovétríkjanna. Á leiðinni á safnið hafði ég svo hitt strákana tvo frá Íslandi, sem ég hitti á djamminu á laugardaginn. Annar þeirra var meira að segja með mér í Verzló.


Það var nokkuð skrítið að hitta þá þarna, sérstaklega vegna þess að ég var að tala um það við David (gaurinn, sem ég fór að djamma með á föstudag) hvað það væri gaman að djamma í borg, þar sem maður þekkti ekki neinn einasta mann og hann minntist á það að það væru náttúrulega hverfandi líkur á að maður myndi hitta Íslending á bar í Rússlandi. Jæja, það gerðist allavegana. Þetta var þó ekki jafn skrítið og þegar við Emil hittum tvo Íslendinga á þriðjudagskvöldi á bar í La Paz í Bólivíu. Það verður ekki toppað nema að ég hitti íslenska stelpu, sem var með mér á fæðingardeildinni á Landspítalanum, á fótboltaleik í afskekktu fjallaþorpi í Mongolíu.

Það er ótrúlega gaman að djamma án þess að hafa áhyggjur af því að maður sé að gera einhvern skandal. Heima er ég alltaf að hafa áhyggjur af því hvaða stelpur ég hitti á djamminu, hvort ég sé búinn að drekka of mikið og hvort að ef ég reyni við þessa stelpu, þá klúðrist eitthvað og bla bla bla. Hérna getur maður bara skemmt sér eins vel og maður vill, reynt við þær stelpur, sem maður vill, og svo þarf maður ekki að hafa neina áhgyggjur eða vera á neinum bömmer, því maður á líklega aldrei eftir að hitta þetta fólk aftur.


Ég er líka búinn að túristast fullt um St. Pétursborg síðustu daga. Fór í gær yfir í dómkirkju heilags Ísaks, sem er mögnuð bygging. Kirkjan er gríðarlega stór, enda tók um 40 ár að byggja hana. Ég fór bæði inní kirkjuna og uppá þak, þar sem er frábært útsýni yfir St. Pétursborg.

Ég rölti svo yfir að “Church on Spilled Blood”, sem ég veit ekkert hvernig ég á að þýða, en kirkjan fékk þetta fallega nafn, vegna þess að hún er byggð á þeim stað, þar sem Alexander Annar var myrtur. Kirkjunni svipar til St. Basil kirkjunnar á Rauða Torginu og er næstum því jafn mögnuð.


En núna er ég búinn að sjá nóg af kirkjum og er svona um það bil að fá nóg af söfnum líka. Ætla þó að eyða morgundeginum á Hermitage. Á miðvikudag ætla ég svo að fara með lest aftur til Moskvu og þaðan heim.


Já og Derek Jeter er ekki fokking “ruðningsleikmaður“!! Þetta minnir mig á að þegar ég verð orðinn forsætisráðherra þá ætla ég að banna öllum að vera í fötum merktum New York Yankees, nema þeir geti sagt hver spili “shortstop” fyrir liðið!

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 17.02)

4 thoughts on “Rússlandsferð 4: St. Pétursborg, annar hluti”

  1. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að þegar Einar verði spurður þegar hann kemur heim, hvernig hafi nú verið í Rússlandi muni svarið verða:

    “Sætar stelpur :biggrin:”

  2. hajjj gaman að fylgjast með ferðalaginu þínu 🙂 og ég er búnað leggja á minnið hver er shortstop í yankees 😉 áframhaldandi góða skemmtun!

  3. Hverfandi líkur á að hitta annan Íslending í Pétursborg :biggrin2:
    Ég myndi ekki stóla á það. Þegar ég var í Pétursborg um árið þá vorum við í undergroundinu í einhverri furðulegri lest og þá er þar lítið barn sem er að tala við mömmu sína á Íslensku. svo fórum við á örlítinn og sætan veitingastað í miðbænum sem var staðsettur í kjallara, þegar við förum niður kjallaratröppurnar rekst sú sem var með mér utan í þá sem eru að koma út og segir “Afsakið” án þess að fatta að hún var í útlöndum. Þá heyrum við hinn segja “Heyrðist þér hún ekki segja afsakið??” og fólkið varð voða æst yfir að hafa í orðisins fyllstu rekist svona á landa sína. Við höfðum þarna rekist utan í eina túristahópinn íslenska sem var í Sovetínu, einhver söguferð á væringjaslóðir.

    Flottast var þó þegar ég hitti Irenu sem er frá Murmansk bara óvænt á götu í Pétursborg, hún að fara út á flugvöll, ég að fara á fund. Ég held að þetta séu forlög.
    Sjá http://www.ismennt.is/not/salvor

  4. Jamm, ég var nú aðallega að tala um að hitta einhvern í Moskvu. Þrátt fyrir að það séu pakkaferðir frá Íslandi, þá átti maður nú ekki von á að hitta Íslendinga á einhverjum “random” næturklúbbi. Einhvern ímynda ég mér frekar hópferðafólk í eldri kantinum, sem stundar ekki beint klúbbana. 🙂

    Jamm, og gott Katrín að leggja þetta á minnið. Það væri þó enn sniðugara að halda bara með Chicago Cubs. Þeir eru miklu betra lið 😉 Bestu leikmennirnir heita Mark Prior (kastari) og Sammy Sosa (sem spilar vinstra megin í “outfield”)

    Og já, Ágúst: “Sætar stelpur” verður ábyggilega partur af svarinu mínu 🙂

Comments are closed.