Bandaríkjaferð 3: Chicago, annar hluti

Síðustu dagar í Chicago hafa verið góðir. Mjög góðir.

Ég er búinn að hitta fullt af gömlum vinum, búinn að djamma fullt, drekka fullt af Bud Light og fara á þrjá baseball leiki með Chicago Cubs. Cubs ösnuðust þó til að tapa tveim af leikjunum. Djöfull og fokking dauði. Fyrstu tveir leikirnir voru í 100 gráðu hita, en á sunnudaginn þegar ég fór með þremur vinum mínum, þá var allt í einu 15 stiga frost, sem var svo sem allt í lagi fyrir utan þá staðreynd að ég var á stuttbuxum á leiknum. Mér hefur sjaldan verið jafn kalt. Allavegana, þá jafnast fátt við að eyða deginum á Wrigley Field. Því miður hef ég þó ekki tækifæri á að sjá fleiri leiki með liðinu, nema þá í sjónvarpinu.


Fór semsagt einnig tvisvar á djammið. Á föstudaginn fór ég í partí með Elizabeth og Katie vinkonum mínum (Katie er einnig mín fyrrverandi) og Dan. Partíið var haldið í húsi hér nálægt og gvöð minn góður hvað þetta var fáránlega mikið flashback aftur í háskóla. Þetta var haldið í stóru, nærri tómu húsi, í eldhúsinu var tunna af bjór og alls kyns aðrar áfengistegundir. Svo voru allir í keppni um að vera í sem mest casual fötum og allir urðu yndislega fullir. Þetta var svo nákvæmlega einsog háskólapartí að það var ekki fyndið.

Vinir mínir hérna í Bandaríkjunum eru á allt öðru plani en vinir mínir heima. Vinirnir hérna hafa eiginlega breyst alveg fáránlega lítið frá því í háskóla. Þeim er nokk sama í hvernig íbúðum þeir búa, aðalmálið er að íbúðirnar séu nálægt fulltaf börum, sem allir stunda af krafti. Það er eiginlega einsog það eina, sem hafi breyst sé að allir eru í vinnu núna en ekki í skóla og eigi því meiri pening til að fara útað djamma. Þetta er verulega ólíkt ástandinu á Íslandi. 🙂

Allavegana þetta partí var svo fyndið, með fulltaf drykkjuleikjum, blindfullum gestgjafa og fólki drekkandi bjór úr “[beer funnel](http://www.angelfire.com/fl/beerfunnels/beerfunnels.html)”. Ljómandi hressandi alveg hreint. Ég skemmti mér allavegana konunglega, sem segir sennilega meira um mitt þroskastig en mörg orð. Úr partíinu fórum við á pöbbarölt í grenjandi rigningu. Enduðum inná einhverjum mótorhjólabar í “Meatpacking” hverfinu, þar sem þrjú hundruð svartklæddir gaurar voru að slamma við Marilyn Manson. Ekki alveg mitt krád.


Anyhow, fór líka á djammið á laugardaginn með Katie, Dan og kærustu hans. Kíktum á tvo góða bari og svo á einhvern tónleikastað þar sem hugsanlega lélegasta hljómsveit allra tíma var að spila. Bandið samanstóð af þremur síðhærðum gaurum, sem spiluðu fáránlega hávært gítarrokk og svo feitri stelpu, sem öskraði yfir gítaróhljóðin. Við fengum okkur þó öll Long Island Ice Tea, sem fékk okkur til að gleyma tónlistinni.

Á sunnudag fór ég svo með vinum niður í Grant Park, þar sem var í gangi Latin tónlistar hátíð. Þar var Mariachi band að spila alveg yndislega hallærisleg mexíkósk lög. Það var algjört æði, en ég hef samt takmarkað þol fyrir Mariachi tónlist og því fórum við yfir í Millenium Park, sem er nýr og flottur almenningsgarður hér í borginni.


Síðustu tvo daga hef ég tekið hlutunum rólega á daginn enda allir mínir vinir í vinnunni. Hef eytt dögunum í verslunum á Michicagn Avenue og þar í kring. Fór einnig uppí [John Hancock útsýnisturninn](http://www.hancock-observatory.com/). Þaðan er frábært útsýni yfir alla borgina, þar á meðal næst hæstu byggingu í heimi, [Sears Tower](http://www.emporis.com/en/wm/bu/?id=117064). Ég hef áður farið uppí Sears Tower og ákvað því að fara uppí Hancock bygginguna, sem er sú [15. hæsta](http://www.emporis.com/en/wm/bu/?id=116876) í heimi og skoða útsýnið þaðan. Asnaðist þó til að gleyma myndavélinni minni.

Allavegana, hef svo sem ekki frá miklu að segja. Er ennþá hálf brjálaður yfir því að Dan hafi unnið mig þrisvar í röð í [MLB Baseball](http://www.easports.com/games/mvp2004/home.jsp). Síðustu tveir leikirnir voru sérstaklega sársaukafullir, enda hafði ég verið að spila alveg listilega vel þangað til í síðustu lotunni. Á morgun ætla ég að kíkja upp til Evanston og labba um gömlu [háskólalóðina mína](http://www.northwestern.edu/) og borða svo hádegismat með Dan á [besta matsölustað í heimi](http://www.olivemountainrestaurant.com/).

Á laugardaginn er svo planið að fara til Kansas, þar sem ég ætla að sjá Bob Dylan spila ásamt Willy Nelson á baseball leikvangi í Kansas City. How cool is that??

*Skrifað í Chicago klukkan 23.46*

2 thoughts on “Bandaríkjaferð 3: Chicago, annar hluti”

  1. Það er greinilega hörkudjamm á þér. Alltaf gott að komast aftur út og ég tala nú ekki um í kæruleysið sem fylgir 🙂 . “Vinir mínir hérna í Bandaríkjunum eru á allt öðru plani en vinir mínir heima.”….bíddu bara þangað til börnin fara að hrúgast niður heima, þá fyrst deyr djammið :confused: það er allavegana bara komið eitt barn á allan hópinn núna. Hafðu það gott vinur og ekki detta of vel í það á spilavíti í Vegas…þá gætirðu misst þig í BlackJack.
    Rokk, kveðja FÓ.

Comments are closed.