Bandaríkjaferð 8: Grand Canyon og Sedona

Héðan úr höfuðborg vinstri manna í Bandaríkjunum, San Fransisco, er allt gott að frétta. Ég fæ að gista hjá kærasta Grace, vinkonu minnar. Þau eru vinstri sinnaðasta par í heimi. Bæði “vegan” (ekki bara grænmetisætur, heldur borða þau engar vörur, sem nota dýr – mjólk, egg, os.frv.), leigja saman í kommúnu, mótmæla ranglæti í heiminum einu sinni í viku og hjóla í vinnuna. Yndislegt par.

En ég ætla að bíða með San Fransisco sögur aðeins. Ætla að rifja upp síðustu viku.


Semsagt, þá skrifaði ég síðast almenilega frá Flagstaff í Arizona. Þar eyddi ég þrem heilum dögum. Á þeim fyrsta fór ég með 6 krökkum af gistiheimilinu í ferð um [Grand Canyon](http://www.nps.gov/grca/). Við skoðuðum gilið frá Suður-brúninni og löbbuðum mestallan daginn um stíga niðrí gljúfrinu.

Ég á bágt með að lýsa reynslunni, sennilega munu myndirnar gera það betur. En þetta er sú almagnaðasta náttúrufegurð, sem ég hef á ævinni séð. Það var stórfengleg sjón að sjá þetta í fyrsta skipti og gönguferðirnar okkar gerðu það að verkum að við sáum staði, sem fáir sjá (vegna þess hversu erfið gangan eftir stígnum, sem við fórum niður, er).


Annan daginn í Flagstaff gerði ég lítið merkilegt nema að kíkja í búðir, en á þeim þriðja fór ég í túr til [Sedona](http://www.sedona.net/index.cfm?go=Photos), sem er bær skammt frá Flagstaff. Þar í kring er fullt af ótrúlega mögnuðum fjöllum og skógum. Við eyddum mestöllum deginum á labbi um náttúruna. Hápunkturinn var þriggja tíma gönguferð uppað [Cathedral Rock](http://www.wildnatureimages.com/Sedona%204.htm) þar sem við borðuðum hádegismat (við löbbuðum uppað gatinu á milli toppanna tveggja, sem sjást þá [þessari mynd](http://www.wildnatureimages.com/images%202/040206-002..jpg)). Við enduðum svo daginn á sundsprett í á nálægt fjallinu.

Einsog áður sagði, þá munu myndirnar lýsa þessu mun betur en ég get gert núna. Frá Flagstaff fór ég síðan síðsta föstudag með rútu til Las Vegas.

Já, og svo er þetta verulega fyndið: [The Borat Doctrine](http://www.newyorker.com/talk/content/?040920ta_talk_radosh)

*Skrifað í San Fransisco klukkan 17:44*

**Uppfært**: Hérna eru [myndirnar frá Grand Canyon og Sedona](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/11/18.57.37/)