Mið-Ameríkuferð 1: Ódeyjandi ást mín á Tacos al Pastor

Ég veit aldrei almennilega hvernig ég á að lýsa Mexíkóborg. Ég hef komið víða, en það nálgast samt engin borg, sem ég hef séð, þá geðveiki sem Mexíkóborg er. Mexíkóborg er næst fjölmennasta borg jarðar á eftir Tókíó í Japan og það er ekki erfitt að trúa því þegar maður hefur búið eða dvalið hérna í einhvern tíma.

Fyrir það fyrsta, þá er aðflugið að borginni stórkostlega magnað. Flugvöllurinn er nálgægt miðbænum og í aðfluginu flýgur maður yfir hálfa borgina. Þegar styttist í flugvöllinn er alveg einsog vélinni sé ætlað að lenda í miðju íbúðarhverfi, sem fyrir hálf-flughræddan mann einsog mig, er ekkert sérstaklega aðlaðandi. Ólíkt Tókíó, þá eru hérna nánast engir skýjakljúfar, heldur eru flest húsin um 4-5 hæðir. Ég held að hæsta byggingin hérna sé Torre Latinoamericano, sem ég heimsótti akkúrat áðan, en sú bygging er 44 hæðir.

Í stað þess, þá er borgin óendanlega víðfem. Heildarsvæðið undir borginni er yfir 5.000 ferkílómetrar (meira en 4 sinnum stærri en New York – og meira en tvöfalt stærri en Tókíó). Borgin er byggð í dal, umlukt eldfjöllum, sem veldur því að mengunin af gömlum bílum verður en verri en ella og veldur því að það er nánast ómögulegt að sjá fjöllin, sem umlykja borgina, nema í sérstökum skilyrðum.

…En ég elska þessa borg. Öll geðveikin, allt fólkið, gerir þetta að yndislega heillandi stað. Ég efa það ekki að fulltaf fólki mun ekki sjá sjarmann við mengunina, götusalana og öll lætin, en ég elska þetta. Þegar ég bjó hérna varð ég stundum þreyttur á því að þurfa að berjast fyrir því að komast inní lest, eða hoppa yfir götusala, eða láta kolbilaða bílstjóra næstum því keyra mig niður. En núna þegar ég er hérna í nokkra daga, þá virkar allt þetta alveg dásamlagt.


Ég er búinn að vera hérna síðan á fimmtudag, kom hingað með flugi frá Baltimore. Ég gisti á gistiheimili nálægt Zocalo, sem er aðaltorgið hérna. Til að byrja með var ég með tveimur stelpum í herbergi, sem eru án efa ó-spéhdræddustu stelpur, sem ég hef kynnst, sem væri svo sem í lagi ef þær hefðu slakað aðeins á mataræðinu undanfarna mánuði. Þær yfirgáfu hins vegar herbergið í gær vegna þess að þær sáu kakkalakka. Ég ákvað hins vegar að harka þetta af mér (enda hef ég gist á talsvert viðbjóðslegri stöðum) og var í gær verðlaunaður með þremur þýskum herbergisfélögum. Enginn þeirra hrýtur, sem er mikill mannkostur.

Ég gerði eina tilraun til að hafa uppá fyrrverandi kærustunni minni, en komst strax að því að upplýsingarnar, sem ég hafði, væri ekki nægar til að hafa uppá henni. Þannig að ég ákvað að sinna bara hinni mexíkósku ástinni minni, mexíkóska matnum…

Ég get ekki lýst því hvað ég elska götumatinn í Mexíkóborg. Einhverjir ferðalangar hafa haldið því fram við mig að götumaturinn í Bangkok sé svipaður af gæðum, en ég hef hvergi fengið jafngóðan mat. Tacos Al Pastor, sem eru litlar korn tortillur, fylltar með sterku svínakjöti, lauk, kóríander og sósu, eru *himneskur matur*. Ég hef algerlega borðað yfir mig á þessum fáu dögum, sem ég hef verið hérna. Um leið og ég finn að það er hugsanlega eitthvað smá pláss í maganum, þá hef ég rokið inná næstu taquería og fengið mér fleiri tacos. Ég er ákveðinn að halda þessari iðju áfram til morguns, sama hversu miklum mótmælum maginn minn heldur uppi.


Þannig að tímanum hingað til hef ég mestmegnis eytt í labb og mat. Fór í gær á Museo de Antropologia, sem er eitt merkasta safn rómönsku Ameríku, þar sem er rakin saga Maya, Azteca og annara frumbyggja Mexíkó. Mjög skemmtilegt safn. Enn skemmtilegra var þó fólkið, sem ég hitti fyrir utan.

Því það eina, sem stenst matnum hér snúning, er fólkið sjálft. Mexíkóar eru algjörlega yndislegir. Ég var ekki búinn að sitja lengi í sólinni, þegar að nokkrir háskólakrakkar voru byrjuð að rabba við mig. Það endaði með því að ég labbaði með þeim mestallan daginn í leit að götumat, sem ég hafði ekki prófað áður. Ég veit ekki hvar annars staðar en í Ameríku maður getur eignast vini bara á því að sitja á bekk í almenningsgarði.


Á föstudagskvöld fór ég með nokkrum stelpum frá Englandi á [mexíkóska fjölbragðaglímu](http://www.cmll.com). Það var stórkostleg snilld. Fyrir þá, sem hafa séð ameríska fjölbragðaglímu, þá er sú mexíkóska helmingi verri. Allar sögurnar eru helmingi verri og karakternarir enn ýktari, auk þess sem þeir eru allir með grímur. Þetta var besta skemmtun, en því miður mátti ég ekki taka myndir þar inni.

Restinni af tímanum hef ég svo eytt á labbi um borgina, borðandi mat og virðandi fyrir mér einstakt mannlífið hérna. Verð hérna þangað til á morgun, en í fyrramálið á ég flug til San Salvador, höfuðborgar El Salvador. Ætla að eyða 4 dögum í El Salvador og fara svo yfir til Honduras.

*Skrifað í Mexíkóborg, Mexíkó klukkan 13.32*

4 thoughts on “Mið-Ameríkuferð 1: Ódeyjandi ást mín á Tacos al Pastor”

  1. Sæll vinur, meira svona, skemmtilegar fréttir, ég veit að ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut að segja þér þannig að ég les um ferðina hér..
    Friðrik.

  2. Mér fannst reyndar ekkert svo mikið um skýjakljúfa í Tokyo… las í einhverri guidebókinni að borgin sé talin tiltölulega lágreist, fyrir utan nokkrar háar byggingar á stangli. (ekki nema það sé eitthvað bull í mér…) Ég bjóst allavega við einhverju meira eins og t.d. á Manhattan og Hong Kong Island.

  3. Geturðu ekki komið með nokkrar Tacos al Pastor heim með þér? Mig langar soldið mikið í svoleiðis… 😉 Svo er auðvitað spurning hvenær þú ferð að selja þetta á serrano – værir allavega með einn fastann kúnna!

Comments are closed.