Þar, sem ég hef ekkert til að skrifa um þá ætla ég aðeins að fjalla um ferðaplönin mín.
Ég hef verið að hugsa þessa 2 mánaða ferð, sem ég ætla að fara í ágúst. Ég er ekki búinn að ákveða neitt og ég hef skipt um skoðun sirka 100 sinnum núna í veikindunum. Fyrsta hugmyndin var að fara til Suðaustur-Asíu, en af einhverjum ástæðum hefur spenna mín fyrir þeirri hugmynd minnkað.
Hugmyndin núna er að fara til Suður-Asíu, með fókus á Indland. Ég er að láta mér detta í hug að fljúga til Delhí eða Mumbay ([þetta eru svo sannarlega ekki skemmtilegar fréttir þaðan](http://news.bbc.co.uk/2/hi/south_asia/5169332.stm)) og ferðast um norðanvert Indland. Fara þaðan inní Nepal, upp til Kathmandu. Frá Kathmandu taka pakkaferð upp til Lhasa í Nepal og að grunnbúðum Mt. Everest (það er víst betra útsýnid Tíbet megin) og svo tilbaka til Nepal.
Frá Nepal fara svo aftur inní Indland (hugsanlega til Bútan ef það er mögulegt) og yfir til Bangladess. Þaðan svo til Calcutta og aftur heim.
Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort þetta sé sniðugt plan. Veit t.a.m. alltof lítið um Indland til að geta myndað mér skoðanir um það land og hvað ég á að sjá þar. En miðað við að taka bara Norður-Indland, þá sýnist mér einsog tíminn ætti ekki að vera stórt vandamál. Ætti að geta náð nokkrum stórkostlegum hlutum einsog Lhasa, Khatmandu dalnum, Mt. Everest, Taj Mahal og fleiri stöðum.
Mumbai er góð borg til að heimsækja að mínu viti. Fannst gríðarlega skemmtilegt þar og kannski betri fyrstu kynni af Indlandi en Delhi sem er helmingi þrengri og skítugri en aftur á móti miklu meira Indland (Þrátt fyrir Metro-inn nýja)
Tímaplanið hljómar ágætlega, en hvert á að fara í Norður Indlandi? Á að stoppa í Rajhastan á leiðinni til Delhi frá Mumbai eða á að fara beint til Delhi og upp til Amritsar/Attari, Himalach Pradesh/Uttaranchal eða er þetta allt óljóst yfirhöfuð núna?
Ef þú ætlar að ferðast með lestum byrjaðu þá á því að fara inn í næstu vezlun og kaupa “Trains-At-A-Glance” til að geta skipulagt þig með lestar sem fyllast óvenjulega fljótt. (Nota túrista miðasölurnar, geyma hraðbanka kvittanir, sleeper klassinn kostar þriðjung af loftkælingunni og er yfirleitt meira en nóg)
Í Agra mæltu allir með Fatapur Sikri sem er um 40 km suður af borginni en var alger vonbrigði.
Það kostar 100 dollara dagurinn lágmark í Bhútan en ef þú ferð að landamærunum í Jaigon er hægt að fá dagspassa yfir til Phuentsholing ókeypis (Það reyna allir að segja við þig að þetta sé ekki hægt en það er eins og allt annað lygi) sem gildir frá 8 að morgni til 10 að kveldi. Það sparar rosalegan pening.
Djareeling (West Bengal Hills) og Gangtok (Sikkim) eru frábærir staðir til að heimsækja ef þú hefur tíma áður en þú færð niður til Bangladesh, sem og Jalpaiguri þjóðgarðurinn (sem er nánast ekkert heimsóttur af ferðamönnum en einn besti staðurinn til að sjá Nashyrninga, fíla og Tígrisdýr).
Frá Siliguri, Darjeeling og Gangtok er hægt að taka shared jeeps til Nepal (og tilbaka) sem eru ótrúlega ódýrir miðað við hvað þú ferð langt á þeim í tiltölulega góðum bílum (200 ISK fyrir um 4 klst akstur). Ég fór ekki yfir til Nepal en hitti fólk sem kom þennan hring og mælti með honum.
Sikkim leyfið er ókeypis í Rangtok en það á vafalaust eftir að reyna að rukka þig fyrir það á leiðinni. Sikkim er rosalega furðuleg blanda af Indlandi og Kína enda viðurkenna Kínverjar það ekki sem hluta af Indlandi.
Að fara inn í Bangladesh við Chengrabandha suður af Jalpaiguri er möguleiki og þá væri þetta allt saman í leiðinni.
Bara að leggja eitt og annað til. (Þú hefur samband ef þú villt eitthvað meira)
Vá! Hljómar ekkert smá vel. Ég fór sjálf fyrir tíu (gisp!!!) árum síðan um þetta svæði en tók fjóra mánuði í það en ég stoppaði líka út um allt og tók því nokkrum sinnum rólega í nokkrar vikur…
Daði, hvað meinaru að Fathepur Sikri hafi verið vonbrigði… (Ehm.. ég er kannski biased, en ég fékk mitt fyrsta bónorð þar frá litlum indverja með yfirskegg sem sagði mér að kvenfólki þætti hann líkur Tom Cruise….)
Taj Mahal er algert must see, ótrúlegt en satt (ég hélt alltaf að þetta væri ofurhæp eitthvað…). Kathmandu er æði og gaman að taka sér tíma til að skoða systurborgir hennar í Kathmandu dal. Ég fílaði líka Varanasi í tætlur en kom ekki til Mumbai….
Ég hélt að “independent” ferðalög í Bhútan væru bönnuð. Ferðamenn þurfa m.ö.o. að ferðast með viðurkenndri ferðaskrifstofu.
Jamm Ágúst. Þau eru það, en á þessum einu landamærum er hægt að fá 14 tíma menningarpassa inn í Bhútan.
Enn eins og þú Ágúst reyna allir að segja (bæði áður en haldið er til Indlands og þegar maður er kominn á svæðið) að þetta sé ekki hægt til að leiðbeina þér að ferðaskrifstofu. :biggrin2:
Sammála Daða um að Bombay sé miklu betri en Delhi að heimsækja… Bombay er mjög colonial (mér var sagt af s-afríkubúa að arkítektúrinn minnti örlítið til cape town! en ég veit ekki meir… :rolleyes:) og það eru ekki endalausir Kashmír búar á eftir þér að reyna að svindla á þér eins og í Delhi (mjög pirrandi) Ég get ekki sagt að Delhi skilji mikið eftir sig og mæli ég ekki með að eyða of miklum tíma þar…
Já, annars mæli ég með að lesa vel og vandlega kaflann um scams + dangers and annoyances og þess háttar í guide bókinni áður en þú ferð! Allskonar svindlstarfsemi í gangi sem er mjög vel skipulögð. Fullt af fólki sem telur sig vera reynt í þessum málum en gengur beint í gildrurnar! T.d. ef maður er á Caunnaugh Place í Delhi þá getur maður fylgst með hvernig þeir elta útlendinga útum allt… einn fer og reynir að vingast við útlendinginn með því að sýna honum til vegar osfrv, á meðan amk 1-2 aðrir vinir hans fylgja á eftir og bíða eftir rétta tækifærinu… já og ef einhver talar við þig og hann minnist á að hann sé frá Kashmír þá myndi ég vera mjööög vakandi… sama hversu saklaus og hjálplegur náunginn virðist vera!!
Já og Varanasi er líka must-do! Pottþétt uppáhalds hjá mér… annars er Jaipur ekkert spes (fyrir utan mjög flotta höll í útjaðri borgarinnar), en mæli með Jaisalmer og Jodphur í Rajhastan… einnig eru minni bæjir þarna sem eru mjög næs… man ekki hvað heita í augnablikinu en get flett upp ef þú vilt.
uhm… annars gæti verið að það sé mjöög heitt á þessum tíma þannig að ég myndi athuga það… og kannski væri þá sniðugra að halda sig í fjallahéruðunum í norður Indlandi heldur en t.d. Rajhastan.
Úfff, sko þetta er mjög skammt á veg komið hjá mér. 🙂
Var bara að kaupa LP bókina um Indland. Bara kommentin við þessa færslu eru næstum því yfirþyrmandi, þar sem þetta eru svo margir staðir og ég veit svo skelfilega lítið um Indland.
**Daði**: Sko, ég hafði engan sérstakan áhuga á Delhí nema að hún virtist henta ágætlega út frá stöðunum í kring. Það er t.d. ekkert alltof langt að fara til Amritsar. Var svo að gæla við að fara á einhvern af túristastöðunum í Kashmír, en er ekki búinn að afla mér upplýsinga um hvort það sé geðveiki í mér.
Varðandi Bútan, Daði – er þessi lausn ekki svolítið mikið “búinn að fara til Bútan” lausn – það er, sér maður eitthvað? Hvernig er Sikkim? Eitthvað meira en “furðuleg blanda”?
**Erna**: Hvað er fúttið við Fathepur Sikri? Og með Kathmandu dal, græðir maður á því að sjá meira en eina til tvær borgir? Er þetta ekki einhver endurtekning?
**Pálína**: Varanasi er auðvitað á planinu (og reyndar sá staður, sem mig langar mest að sjá á Indlandi). Varðandi veðrið, þá sýnist mér þessir mánuðir vera í meðallagi (allavegana skv. LP)
Nú þarf þetta blessaða indverska sendiráð að fara að svara póstinum mínum!!! Er orðinn alltof spenntur.
Einar: Þetta er meira ég-á-ekki-nógu-marga-peninga launs fyrir Bhútan, það er hægt að fara dagsferðir í nokkra daga inn í Bhutan en gista allaf í landamærabænum. En ef þú átt og villt eyða 150 dollurum á dag í lágmark viku í Bhútan á mann þá efa ég það ekki að það væri hverrar krónu virði og ógleymanlegt. Ég á einfaldlega ekki þá peninga til, þetta var meira hugsað sem afsláttar-tillaga til þín því annars er þetta komið í það sem Ágúst nefndi, bannað að vera sjálfstæður ferðalangur þarna.
Sikkim situr svo fast í mér að ég vil varla segja frá því, bara eiga þetta fyrir mig. Það skal strax takast fram að ég heillast meira að fjöllum en ströndum, meira að grenitrjám en pálmatrjám og finnst Gompur það frábærasta sem til er í heiminum. Ég vil líka vera á stað sem hefur fjallasýn og fáa ferðamenn. Sikkim og West Bengal Hills sameinaði allt þetta hjá mér.
Jökulárnar frá Nepal, þrjöng kljúfur sem er keyrt upp í gegnum héraðið, snarbrattar hlíðarnar með þorpum á hverjum topp, vingjarnlegt fólk sem að sama skapi kippir sig ekki upp við að þú sért þarna og ótrúlega auðveldar samgöngur um svæðið er fín blanda. Ganga um Búddamusterin, fara upp á hæstu fjöllin þar sem Búddarnir hafa hengt upp bænir sínar um öll fjöll, útiverand og þunna loftið ásamt góðri matseld var allt sem ég leitaðist eftir. Ekki stærstu kastalarnir, flottustu málverkin eða höggmyndirnar en situr ótrúlega fast í mér.
Varðandi Amritsar, Attari þá er ein nótt í Amritsar yfirdrifið til að sjá allt sem þú villt sjá þar en dagsferð þangað kannski full mikið frá Delhi (næturlest tilbaka)
Pálína: Jaipur er ótrúlegt ferðamannabæli, sammála en Amber og Jaigarth virkið fyrir utan borgina eru stórfengleg. Allt innan borgarinnar, Windahöllin, City Palce og stjörnufræðisetrið var hreinlega of troðið til að hægt væri að njóta þess. Hjartanlega sammála. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af Jaisalmer en það er sennilega vegna þess að ég hef verið of mikið í eyðimörk í gegnum tíðina, alltof mikið, auk þess sem mér fannst Bikaner eiga meira við mig. Jodhpur kom skemmtilega á óvart fyrir utan Meherang virkið sem er hrikalega flott en í Rajhastan er Mt. Abu eftir sem áður í uppáhaldi.
Ohh, ég enda alltaf á að skrifa svo langt og lengi, kann ekki að stytta setningar. Hvar kemst ég á svoleiðis námskeið?
Það sem ég vildi sagt hafa um áhyggjur þínar af öryggi, altso þessum óskemmtilegum fréttum frá Mumbai, þá myndi ég persónulega hafa meiri áhyggjur af því að eitthvað fari úrskeiðis í Khatmandu/Nepal en Indlandi. Þ.e.a.s. að ferðaplönin fari í steik út af stjórnmálaástandinu þar og að það sé erfiðara fyrir ferðalanga lítt kunnuga staðháttum að ferðast um þar en í Indlandi.
Nú hef ég ekkert fyrir mér í þessu, en þetta er mín tilfinning. Þess vegna spyr ég fyrir forvitnissakir, er þetta misskilningur hjá mér?
Og já, mikið assgoti öfunda ég þig af þessum ferðaplönum 🙂
Ágúst: ég hef lesið að bæði Maóistar sem aðrir í Nepal geri allt mögulegt til þess að ferðamenn verði ekki fyrir barðinu á ástandinu – hvort sem það þýðir tafir eða eitthvað annað. Sjá [m.a. hér](http://thorntree.lonelyplanet.com/messagepost.cfm?postaction=reply&catid=16&threadid=1025127&messid=8760146).
Daði: Ég er að spá í að fara í smá túr um Bútan – það er engin lágmarksdvöl þar skv. ferðaskrifstofunni sem ég hef verið í sambandi við.
Og þessir löngu pistlar hjá þér eru mjög skemmtilegir – ekki hafa áhyggjur af lengdinni. Þeir sem hafa á annað borð áhuga á þessu munu lesa þetta. 🙂
Spennandi ferðalag ! Verðuru einn á ferð eða fer konan/vinir með?
Ég fer einn.
Einn já, finnst þér gaman að hitta fólk og ferðast með eða villtu bara vera alveg einn?
Ég var einmitt einn á Indlandi en hitti alltaf reglulega fólk sem ég ferðaðist smá með, það þótti mér hressandi en vildi síðan alltaf fara aftur í einveruna og vera ekki háður neinum.
Þú þarft að hafa það mjög sterklega í huga að Moonsoon er að byrja af viti í ágúst. Þú veist þetta væntanlega vita vel en að vera í hitabeltislandi þegar rigningartímabilið byrjar er meira en að segja það. Ég hélt alltaf að þetta yrði ekkert mál en það kom nú annað á daginn svo þetta er formleg aðvörun
:biggrin2:
Ertu búinn að ná þér í Michael Palin þættina eða Lonely Planet þættina yfir þessi svæði sem þú ert að hugsa um? Það er mjög áhugavert og skemmtilegt að sjá það fyrirfram, til að gefa hugmyndir um við hverju að búast og hvað sé sniðugt og ekki.
Ég hef aldrei farið eftir þessu þáttum af neinu viti en finnst skemmtilegt að sjá þá hvað varðar menningu og staðarhætti…
Kærastan mín er í skóla, svo að ég fer bara einn. Ég leita ekki eftir því að vera einn, hef vanalega kynnst slatta af fólki á þessum ferðalögum. Það býður líka uppá marga kosti að ferðast einn umfram það að vera í pörum, t.a.m. kynnist maður fleira fólki þegar maður er einn.
Já, veit um monsoon – reyni að skipuleggja þetta dálítið eftir þessu. Þessi tími er t.d. besti tími ársins til að labba í Nepal, sem ég er að spá í að gera.
Og ég er kominn á 3. þátt með Palin, en hef ekki náð mér í LP þættina. Hef fengið eina eða tvær hugmyndir frá Palin, en hann er eiginlega ekki kominn almennilega á það svæði sem mig langar mest að vera á.
Kem ansi seint inn aftur… En, ég er eiginlega sammála þér með Fatherpur Sikri, það er ekkert sjúklega spennandi, mér hefði örugglega leiðst ef ég hefði ekki haft þennan leiðsögumann sem gerði upplifunina algerlega súrrealistíska. Þess vegna man ég alltaf sérstaklega eftir þessum stað!
Ég varði slatta tíma í Kathmandu dal, en ég hafði líka svo langan tíma, og ég hjólaði á milli borganna á hverjum degi á leigðu fjallahjóli og tók myndir. Mér fannst bara aðallega gaman að sjá að borgirnar væru svona skemmtileg eftirlíking hver af annarri af því að kóngarnir sem mig minnir að hafi verið bræður, voru í svo mikilli samkeppni… Hins vegar verð ég að segja að mér fannst Kathmandu eiginlega síst af borgunum, maður fékk miklu meiri ró og næði til þess að virða fyrir sér mannfólkið og spjalla við fólk í hinum borgunum, sem er nátttúrulega það sem er skemmtilegast við svona ferð, ekki endilega að skoða hof og musteri, sem maður fær nóg af eftir smá tíma…
Lonely Planet – West India
Lonely Planet – North India – Varanesi to Himalaya
Lonely Planet – Nepal
Er allt þess virði að líta á…