Ég er svona rétt um það bil að venjast Bangkok núna þegar ég er á leið frá borginni.
Í nótt var ég vakinn klukkan 1 við að ég heyrði æluhljóð og hélt í smástund að einhver nágranni minn hefði smeygt sér inná klósettið mitt til að æla nokkrum glösum af Singha bjór. En eftir að hafa hugsað málið í smá stund fattaði ég að næfurþunnir veggir væru ástæðan fyrir þessari upplifun minni. Ég er með þá kenningu að þessir veggir séu samansettir úr gömlum dagblöðum, sem hafi verið máluð með hvítum lit. Þetta auðveldar ekki svefn.
—
Í gær fór ég og skoðaði helstu túristastaðina í Bangkok, sem eru allir samankomnir í Ko Ratanakosin hverfinu, sem var áður aðsetur konunga. Þetta hverfi er í göngufjarlægð frá Khao San en það var sko ekki fræðilegur möguleiki á því að ég myndi labba þangað. Ástæðan fyrir því er að til að heimsækja musterin þarf maður að vera í buxum (ekki stuttbuxum) og í langerma skyrtu. Þegar við bætum því inní jöfnuna að það var 35 stiga hiti í Bangkok í gær og sól, þá hvarf allt í einu löngun mín í langar gönguferðir í gallabuxum og skyrtu.
Allavegana, ég byrjaði á [Wat Phra Kaew](http://www.hillmanwonders.com/temple_emerald_buddha/temple_emerald_buddha.htm#_vtop), sem er merkast hofanna á svæðinu. Það hof geymir pínulitla styttu af Búdda, sem hefur mikla þýðingu fyrir Tælendinga þar sem talið var að hún væri úr eðalsteini og henni var stolið af Laos búum í einhverju léttu flippi fyrir mörg hundruð árum. Það var svo Taksin konungur, sem náði styttunni tilbaka til Tælands og utan um hana var byggt þetta stórkostlega hof. Ég meina vá. Hofið er svo sannarlega meðal þeirra allra fallegustu bygginga, sem ég hef séð um ævina.
Þarna í kring er svo konungshöllin, sem er ekki síður æðisleg og allskonar minni hof, sem gera þetta svæði algjörlega ógleymanlegt. Ég ráfaði þarna um í svitabaði, uppfullur af aðdáun fyrir mikilfengleika þessara bygginga.
Stuttu sunnar heimsótti ég svo Wat Pho hofið. Þar inni er hvorki meira né minna en stærsta liggjandi stytta af Búdda, alls um 46 metrar á lengd. Hún á að tákna dauða Búdda og för hans inní Nirvana.
—
Eftir þetta var ég orðinn svo sveittur að ég ákvað að nóg væri komið og dreif mig heim. Restinni af deginum eyddi ég svo á ráfi um Khao San og nágrenni, keypti mér nokkrar bækur um Kambódíu og kláraði að lesa [Long Way Down](http://www.amazon.com/Long-Way-Down-Nick-Hornby/dp/1573223026) eftir Nick Hornby, sem er vissulega mikil snilld einsog við var að búast.
Um kvöldið ákvað ég svo að gera mig að fífli inná bar með látum mínum yfir [þessum fótboltaleik](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/09/17/14.23.57/). Ég held að fólk á staðnum hafi verið farið að vorkenna mér ákaflega mikið í lok leiks og einn gaur (sem leit út og var klæddur einsog afrískur galdralæknir) sagði mér að hafa ekki áhyggjur því að leikurinn myndi fara 1-1. Við það róaðist ég aðeins enda leit hann út fyrir að vita eitthvað um framtíðina, en allt kom fyrir ekki. Svei mér þá, ég held að hitinn á barnum hafi gert mig enn æstari en vanalega.
En allavegana, ég ætla að drífa mig þar sem ég á að hitta Friðrik og Thelmu eftir smá stund. Svo eldsnemma í fyrramálið er það rútuferð til Kambódíu.
*Skrifað í Bangkok, Tælandi klukkan 12.51*
http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1224464
Eruð þið ekki örugglega farin frá Bankok?!?!??!?!?!
Mér lýst ekkert á þetta… 🙁
Farðu varlega, hlakka til að heyra frá þér
Jú, ég missti algerlega af þessu valdaráni. Glatað! :confused: