Suð-Austur Asíuferð 6: Guð minn almáttugur – NEI, ég þarf ekki tuk-tuk!!!

Það er ekki á mörgum stöðum þar sem skorti á einstaklings framtaki er lýst sem kosti fyrir land. En í ferðabókum um Laos er þessum skorti lýst sem stórum kosti og flestir sem hafa ferðast um nágrannalöndin skilja afskaplega vel af hverju.

Það er nefnilega ekki fokking fyndið hversu miklu áreiti maður verður fyrir í Tælandi og Kambódíu (og Víetnam hef ég heyrt líka) frá alls konar sölufólki og leigubílstjórum. Ég má ekki stoppa á götu og líta til vinstri án þess að [tuk-tuk](http://en.wikipedia.org/wiki/Tuk_tuk) bílstjóri komi uppað mér á biðilsbuxum og spyrji: “Do you need a tuk-tuk” – ef ég segi nei, þá þarf ég bara að labba 5 metra til að hitta næsta bílstjóra og ef ég þigg ekki far með honum, þá býður hann mér að kaupa dóp. Áreitið er stöðugt og yfirþyrmandi. Ég er alltaf mjög meðvitaður um það að vera góður og kurteis ferðamaður, en á stundum getur þetta stanslausa áreiti fært mann fram á brúnina.

Ég fékk matareitrun í gær, sem gerði það að verkum að ég var áfram hérna í Phnom Penh í dag. Nóttinni og megninu af þessum degi hef ég eytt nokkurn veginn jafnt í sjálfsvorkunn og svitabaði uppí rúmi og inná klósetti. Það hefur ekki verið skemmtilegt. Ég er þó að gæla við að þetta sé búið, þar sem ég hef núna ekki farið á klósettið í heila 3 tíma. Vonandi að ég geti komist frá borginni á morgun. Þar sem ég vil ekki fara mjög langt frá góðu klósetti þá hef ég því hangið á netinu mikið í dag.

Phnom Penh er skrýtin og dálítið mögnuð borg, sem liggur þar sem Mekong, Bassac og Tonle Sap árnar mætast. Hún er ólík flestu, sem ég hef séð annars staðar. Ég komst reyndar að því Kambódía er fátækasta land, sem ég hef heimsótt. Samkvæmt [þessum lista](http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_GDP_%28PPP%29_per_capita) er landið 135. ríkasta land heims (þjóðartekjur á hvern Íslending eru nærri **15 sinnum** hærri en á hvern Kambódíumann). Lönd einsog Súdan, Ghana, Níkaragva, Hondúras og Kamerún eru t.a.m. með hærri þjóðartekjur á mann en Kambódía. Ég sé reyndar einnig að Laos (sem ég mun heimsækja seinna í ferðinni) er enn fátækara, í 139. sæti.

Fátæktin er augljós öllum, sem heimsækja Kambódíu, sérstaklega í sveitum landsins. Hún er líka áberandi hérna í höfuðborginni. Við Dave löbbuðum fyrsta daginn í gegnum alla borgina og mismunur milli hverfa er sláandi. Jafnvel í miðri borginni eru ómalbikaðar götur, þar sem rykið þyrlast upp yfir fátæklega markaðsbása og nakin börn leika sér. Ef maður labbar svo nokkur hundruð metra kemur maður á flotta veitingastaði við árbakkana þar sem útlendingar og efnaðir heimamenn á Lexus bílum borða.

Umferðin er gríðarleg og þá aðallega af völdum ótrúlegs magns af mótorhjólum. Ef ég ætti að giska, þá myndi ég telja að hérna væru um 5 mótorhjól fyrir hvern bíl. Þessi mótorhjól virðast almennt séð ekki fylgja neinum umferðarreglum og þar sem hérna eru fá umferðarljós, þá geta ferðalög á túk-túkum eða mótorhjólum verið ansi skrautleg.

Ég bý í gistihúsahverfi við lítið vatn í vesturhluta borgarinnar. Þetta er lítið, skrýtið hverfi sem er blanda af gistiheimilum, veitingastöðum og stórkostlegu magni af fíkniefnasölum. Túk-Túk bílstjórarnir virðast allir sinna tvöföldu starfi því þegar maður neitar því að þurfa á fari að halda, þá sannfærast þeir um þeir geti selt manni eiturlyf.

*Skrifað í Phnom Penh, Kambódíu klukkkan 21.56*

5 thoughts on “Suð-Austur Asíuferð 6: Guð minn almáttugur – NEI, ég þarf ekki tuk-tuk!!!”

  1. Þessi síða er merki um gott blog, mjög áhugavert að lesa um ferðalagið þitt.

  2. Hæ Einar Örn, frábært að lesa um ferðalagið þitt, en á sama tíma átakanlegt að rifja upp hryllinginn í sögunni, sérstaklega af því að þetta er enn að gerast. Gangi þér sem allra best og njóttu þess að skoða heiminn.
    Kær kveðja Bryndís

  3. Dude – ég vona að þú vitir um lystisemdir Imodium? Ef þú færð skitu poppar þú tvær, og svo 1-3 í viðbót yfir daginn þangað til allt stoppar. Síðan tekur þú stöðuna eftir ca. 5 daga. Og líður bara fínt! Primperan er líka gott fyrir rútuferðir, stoppar ælu.

    Sleppa bara Síproxinu, það drepur allt í mallanum.

    Pillur, pillur, pillur, það er það sem virkar í þessum heimshluta.

    (Þú getur líka reynt að ræda þetta út, en þegar maður er búinn að nilla svona 30x í röð er ekki stemmari fyrir því)

    S

  4. Takk, Bryndís.

    Og Schweppes – takk fyrir þetta. Ég gafst á endanum upp á því að reyna að komast í gegnum þetta pillulaust og fór til læknis. 🙂

Comments are closed.