Það verður nú að segjast að maginn minn er ekki alveg að samþykkja þessa Asíuferð þegjandi og hljóðalaust. Allavegana lætur hann tilfinningar sínar ítrekað í ljós.
Eftir að hafa eytt næstum því heilli viku með niðurgang og eftirköst af því, var ég ágætur í nokkra daga. Það er alveg þangað til á laugardag. Þá borðaði ég nákvæmlega EKKERT óeðlilegt, en veiktist samt og eyddi því öllu laugardagskvöldinu ælandi inná hótelherbergi í Nha Trang. Ég, sem var kominn þangað sérstaklega til að djamma. Og nota bene, ælið tengdist ekki drykkju, enda hafði ég ekki einu sinni byrjað að drekka. Í kjölfarið hafa svo fylgt tveir dagar þar sem maginn er aldrei almennilega sáttur. Ég er alltaf með verk í maganum og hálf svangur – og svo þegar ég borða þá líður mér enn verr. Þetta er fokking óþolandi.
Ég, sem hélt að maginn minn þyldi allt. Ég hef ferðast ansi víða um rómönsku Ameríku og borðað á skrautlegustu veitingastöðum álfunnar. Þegar ég bjó í Venezuela þá kepptumst við vinirnir um að borða hjá sem viðbjóðslegustu götusölunum, því þeir voru oft með besta matinn. Aðeins einu sinni á þeim rúmlega tveim árum, sem ég hef eitt í rómönsku Ameríku, hef ég fengið matareitrun. Það var þegar að ég fékk mér steik í morgunmat í Ekvador (mig minnir að Friðrik eða Borgþór hafi átt hugmyndina að því snilldarbragði).
Ég var búinn að sannfæra mig að ég gæti borðað tacos al pastor hjá ógeðslegustu götusölum í heimi þrátt fyrir að diskarnir væru þvegnir uppúr skólpi. En hérna í Asíu þoli ég bókstaflega ekki neitt og þetta er farið að fara verulega í taugarnar á mér. Drasl magi!
Ég er núna staddur í Hué, sem er nokkurn veginn í miðjunni á Víetnam. Síðustu 7 daga hef ég farið í þrjú 12+ klukkustunda ferðalög (Phnom Penh – Saigon, Saigon – Nha Trang og Nha Trang-Hué) og skiljanlega er ég dálítið þreyttur eftir þetta allt saman. En byrjum á Saigon.
Ég skoðaði allt það helst í Saigon borg. Einhver búddista hof, Sameiningarhöllina, Ho Chi Minh borgar-safnið og Stríðsmynjasafnið. Hofin eru auðvitað svipuð og önnur hof. Það er ofar mínum skilningi hvernig Lonely Planet dettur í hug að telja upp 15 mismunandi hof til að sjá í HCM borg. 1 eða tvö er feykinóg, sérstaklega ef þetta er ekki fyrsta landið manns í Suð-austur Asíu.
Sameiningarhöllin var áhugaverð. Á þeim stað, sem höllin stendur núna, var áður höll, sem hýsti ríkisstjóra Frakka og seinna forsætisráðherra Suður-Víetnama. Í Víetnamstríðinu sprengdu Norður-Víetnamar upp stóran hluta hallarinnar og ákvað því Ngo Dinh Diem (forsætisráðherra S-Víetnam) að það skyldi byggja nýja höll í staðinn. 30. Apríl 1975 réðust svo Norður-Víetnamar inní höllina og náðu þar með endanlega völdum yfir öllu Víetnam. Þeir endurskýrðu höllina "Sameiningarhöllina" og breyttu henni í safn. Í dag er höllin nánast einsog hún var 1975 fyrir utan að nokkrum styttum af Ho Chi Minh hefur verið bætt við, svona rétt til að minna á það hverjir unnu.
Ég skoðaði svo tvö áhugaverð söfn. Annars vegar borgarsafn Ho Chi Minh borgar, sem innihélt bæði formuni og svo muni frá Ameríkustríðinu. Öllu áhugaverðara var Stríðsmynjasafn Saigon. Það ágæta safn hét áður mun beittara nafni, "Safn til minningar um bandaríska og kínverska stríðsglæpi", en því nafni var breytt til að stuða ekki túrista óþarflega mikið.
Þrátt fyrir nafnabreytinguna, þá fjallar safnið aðallega um stríðsglæpi Bandaríkjamanna í Víetnam. Uppbygging safnsins er afskaplega einhliða, en það er í lagi þar sem maður hefur aðallega séð stríðið frá hlið Bandaríkjamanna, og því gott að fá innsýn inní heim þeirra, sem urðu fyrir mestum þjáningum í stríðinu – almennum borgurum í Víetnam.
Eitt áhrifamesta minnismerki, sem ég hef séð, er minnismerki um þá Bandaríkjamenn sem féllu í Víetnam. Ég hef heimsótt það minnismerki í Washington DC allavegana tvisvar og það er með ólíkindum að sjá öll nöfn þeirra, sem létust í stríðinu. 58.183 bandarískur hermaður lést í stríðinu og nöfn þeirra eru öll á minnismerkinu.
En í Víetnam stríðinu dóu líka yfir 3 milljónir Víetnama, þar af 2 milljónir óbreyttra borgara. Ef það ætti að byggja sambærilegt minnismerki fyrir víetnömsk fórnarlömb, þá þyrfti það minnismerki að vera 52 sinnum stærra. Fórnirnar, sem víetnamska þjóðin þurfti að færa í stríðinu, eru með ólíkindum. Ekki bara dó þessi óheyrilegi fjöldi, heldur lögðu Bandaríkin áherslu á að eyðileggja sem mest í Víetnam. Valtað var yfir akra, hús og skóga. Eldsprengjum varpað til að taka skjól af Viet Cong skæruliðum, en um leið var óheyrilegu magni af skóg- og ræktarlandi eytt. Og ekki má gleyma gríðarlegu magni af "Agent Orange" eitri, sem var spreyjað yfir landið og olli því að þúsundir barna fæddust með alvarlega fæðingargalla í kjölfarið. Eitrinu var spreyjað á yfir 24 þúsund ferkílómetra svæði í Víetnam (alls um 45 milljón lítrar af eitri)!
Og allt til einskins. Norður-Víetnamar sigruðu á endanum hvort eð er eftir að Bandaríkjamenn höfðu gefist upp og farið heim. Stríðsmynjasafnið í HCM borg sýnir á nokkuð áhrifaríkan hátt örlítið brot af þeim ótrúlegu hörmungum, sem dundu yfir óbreytta borgara í Víetnam í stríðinu.
(Ekki það að Viet Cong hafi verið eitthvað skárri. Þeir tóku yfir Hué, borgina sem ég er í núna, í nokkrar vikur árið 1968 í Tet sókninni. Einsog kommúnistar víða um heim, þá voru þeir afskaplega viðkvæmir fyrir gagnrýni og gengu því hús úr húsi í leit að rúmlega 3.000 Víetnömum, sem voru þeim ekki þóknanlegir, og drápu þá.)
Á föstudaginn skoðaði ég svo Cu Chi göngin, sem eru við borgarmörk Saigon borgar. Þetta eru göng, sem Viet Cong hermenn bjuggu til til að verjast loftárásum Bandaríkjamanna. Alls eru göngin um 120 kílómetrar á lengd og ná allt að 8 metra niður í jörðina. Við skoðuðum nokkur op á göngunum og fengum svo að skríða í gegnum þau. Flestir í hópnum gáfust upp eftir smá spotta, en ég og einn þýskur gaur náðum að fylgja víetnömskum gæd alveg til enda, þrátt fyrir að hann færi hratt yfir og að við þyrftum að skríða á fjórum fótum stóran hluta leiðarinnar. Það þurfti ekki langan tíma í göngunum til að sannfæra mig ennfrekar um að starf námuverkamanna hlýtur að vera versta starf í heimi.
Á föstudagskvöld tók ég svo lestina frá Saigon upp til Nha Trang, alls um 14 klukkutíma ferð. Í Nha Trang skoðaði ég rústir hindúa musteris, fór á ströndina og eyddi svo kvöldinu faðmandi klósettið á hótelherberginu. Ástæðan fyrir því að ég er að fara nokkuð hratt yfir í norður-átt er aðallega leit mín að sólskini, en núna er rigningartímabil í Suður-Víetnam og Kambódíu og ég hef lítið séð til sólar. Það hefur heldur betur ræst úr því í Nha Trang og hérna í Hué. Seinni daginn í Nha Trang fór ég í bátsferð um eyjar í nágrenni borgarinnar, þar sem ég kafaði, lá á ströndinni og skemmti mér vel. Tók svo 12 tíma lestarferð hingað til Hué í morgun.
Skrifað í Hué, Víetnam klukkan 18.32
Vertu duglegur að borða epli, þau eru stemmandi fyrir magann!!
kveðja Bryndís
Jamm, ég er búinn að kaupa mér epli. Ætla að prófa þetta. Annars er maginn búinn að vera í lagi í allan daga. Vona það besta 🙂
Jæja vinur, þú veist að þú vildir sjálfur fá þér steik í morgunmat :laugh: okkur fannst það öllum prýðileg hugmynd að sameina hádegis- og morgunmat :rolleyes:
Ég segi það enn og aftur KONIAK glas eftir máltið…anskotinn, vertu bara með vasapela á þér eins og róni og skelltu í þig vænum sopa ! ÉG lofa því að það virkar. Ég át eitthvern viðbjóð (grilluð svínafita með lemon gras og hot hot curry – úfff) um daginn í vegagrilli fyrir fátæka Tælendinga í Chiang Rai, skolaði svo öllu saman niður með hræódýru heimbrugguðu rótsterku whiskey. Viti menn, jú ég var nett kenndur …en maginn var fínn.
Bless drasl magi – halló þynnka.
kv,
Friðrik.
Fyndið, Genni ráðlagði mér akkúrat að drekka viskí eftir matinn. Ég bara GET það ekki. Mér finnst koníak og viskí (allavegana ennþá) vera hreinn viðbjóður. 🙂