Það eru sennilega tvær leiðir til að upplifa stórborgir í Suð-Austur Asíu. Önnur er pirraða leiðin, sem ég upplifði aðallega í veikindunum í Phnom Penh – það er að finnast öll lætin, allt böggið, öll umferðin, öll endalausu flautin, allt fólkið hrópandi á þig og grípandi í hendurnar á þér, allir sölumenninrnir og allir mótorhjóla-ökumenninrnir vera alveg einstaklega óþolandi. Að geta ekki gengið niður götu í friði í 1 mínútu án stöðugs áreitis frá matarlykt, mótorhjólum sem þú þarft að hoppa undan, eða sölumönnum sem þú þarft að forðast. Það er gríðarlega auðvelt að verða geðveikur í stórborg í Suð-Austur Asíu.
Því það kann að hljóma einsog klisja, en ég er alltaf hissa þegar ég kem í nýja borg á þessum slóðum. Ekkert undirbjó mig undir geðveikina í Bangkok. En samt var áreitið miklu meira í Phnom Penh. Svo komst ég að því að umferðin var ennþá brjálaðari í Saigon. Og núna hef ég komist að því að Hanoi er einhvers konar undarleg blanda af þessu öllu, þar sem smá hlutar af geðveiki hinna borganna er samankominn á einum stað.
En einsog er með mig, þá þarf ég ekki nema bara fá bros frá sætri víetnamskri stelpu eða bros frá krökkum, sem veifa mann einsog óðir – bara til að fá svona furðulegan útlending til að veifa sér tilbaka, og þá er ég alveg fallinn fyrir þessum borgum aftur. Það er eitthvað stórkostlega heillandi við allt lífið í þessum borgum. Allir virðast borða hádegismatinn sinn útá götu og maður sér í hádeginu fulltaf köllum að spila saman. Svo sér maður alla þessa stórkostlegu umferð og dáist að því hvernig hún getur komist áfram. Og maður verður uppnuminn og finnst æðislegt að vera ferðamaður í svona skemmtilegu landi einsog Víetnam er.
Einhvers staðar las ég að munurinn á Kambódíu og Víetnam væri að í Kambódíu vissi maður aldrei hvenær væri verið að svindla á manni, en Víetnam væri þetta betra því þar vissi maður að það væri alltaf verið að svindla á manni. Einsog mér þykir leiðinlegt að prútta, þá verð ég hreinlega alltaf að gera það hérna. Ekki það að mér þyki það sérstaklega merkilegt að borga 10.000 dong fyrir vatnsflösku (um 50 krónur), en ef maður veit að eitt skref aftúrábak þýðir að verðið breytist skyndilega í 5.000 dong, þá venst maður því á endanum að taka aldrei fyrsta verði. Gleraugun sem ég keypti mér voru í fyrstu verðlögð á 150.000 dong (700 kall), en ég endaði á að borga 45.000 dong (210 kall) og svo framvegis og framvegis. Víetnam á það þó sameiginlegt með Kambódíu að verðlagið er eiginlega djók.
Hvernig er til dæmis hægt að bjóða uppá bjór á 2.000 dong, sem er um 10 íslenskar krónur?! Fyrir verð á einum bjór á Vegamótum gæti ég keypt mér 70 bjóra á barnum, sem ég var á í gær. Ég hefði allavegana getað keypt mér miklar vinsældir meðal innfæddra.
Ég er núna búinn að vera í Hanoi, höfuðborg Víetnam, í 2 daga og kann gríðarlega vel við mig í borginni. Ég gisti á hóteli í gamla hlutanum, sem er heillandi hverfi, fulltaf þröngum götum, börum, veitingastöðum og mörkuðum. Ég hef aðallega eytt tíma mínum á labbi um þessar þröngu götur, á milli þess sem ég hef setið á börum, horft á mannlífið og drukkið bjór. Ég gæti gert þetta lengi.
Ég var þó smá menningarlegur í dag og skoðaði tvö söfn. Annarsvegar Safn um víetnamska sögu, sem er nokkurs konar þjóðmynjasafn með fornmunum frá ýmsum stöðum í Víetnam. Svo skoðaði ég Víetnamska Byltingarsafnið. Það var sæmilega áhugavert safn, þar sem farið er yfir sögu byltingarinnar. Aðallega var safnið skemmtilegt því það var álíka hlutlaust og leikskýrslurnar á Liverpool blogginu. Við allar myndirnar voru hermenn annaðhvort skýrðir frelsishetjur eða leikbrúður Bandaríkjamanna. Það gaf safninu eiginlega skemmtilegt yfirbragð að það skyldi vera svona litað.
Síðasta daginn minn í Hué skoðaði ég de-militarized zone (DMZ) svæðið, sem átti að heita herlaust svæði í kringum landamæri Suður og Norður Víetnams í Víetnamstríðinu. En þetta svæði var, þrátt fyrir fögur fyrirheit, vettvangur margra hörðustu orrustanna í stríðinu. Bandaríkjamenn voru sannfærðir um að grundvöllur fyrir sigri í stríðinu væri að stoppa flutning manna og hergagna niður Ho Chi Minh slóðina frá Norður til Suður Víetnam og töldu að það væri auðvelt að gera það í miðju landinu, þar sem Víetnam er tiltölulega mjótt. Þetta tókst þeim þó aldrei. Ho Chi Minh slóðin hélt allt stríðið vegna aðstoðar frá bændum og þorpsbúum, sem bjuggu í námunda við slóðann, alveg sama hversu mörgum napalm sprengjum Bandaríkjamenn vörpuðu
Á þessu svæði skoðuðum við nokkra staði. Fyrst voru það Vinh Moc göngin en þau voru byggð af þorpsbúum til að verjast gengdarlausum loftárásum Bandaríkjamanna. Hundruðir þorpsbúa bjuggu löngum tímum í göngunum.
Við skoðuðum einnig nokkrar herstöðvar og þar á meðal Khe Sanh, en þar fór fram ein allra blóðugasta orrusta stríðsins þegar að Viet Cong réðust á herstöðina til að draga athygli Bandaríkjamanna frá Tet sókninni. Þarna í dag eru leifar af hergögnum Bandaríkjamanna auk minnismerkis um orrustuna og lítils safns um hana. Inná safninu var m.a. gestabók þar sem margir bandarískir og víetnamskir hermenn höfðu kvittað fyrir komu sína áratugum eftir að stríðinu lauk. Ég gat auðvitað ekki lesið skilaboð þeirra víetnömsku, en skilaboð þeirra bandarísku voru oft á tíðum mögnuð.
Eftir ferðina tók ég svo 16 tíma lest frá Hué hingað upp til Hanoi.
Ég er orðinn mjög hress og hef ekki fundið fyrir magaverkjum í marga daga, sem hefur heldur betur lífgað uppá ferðalagið. Ég er farinn að borða furðulegasta mat hérna á götunum. Þrátt fyrir það hefur mér ekki tekist að berja í mig kjarki til þess að fara á götu hérna norður af hótelinu, sem að sérhæfir sig í sölu á hundakjöti. Mig dauðlangar að smakka hundakjöt, en ég veit ekki hvort ég geti gert maga mínum það í kjölfar endurtekinna mótmæla síðustu daga.
Á sunnudaginn fer ég svo í þriggja daga ferð um Halong flóa.
Skrifað í Hanoi, Víetnam klukkan 19.07
Skora á þig að prófa hundakjötið. Mig hefur stundum langað til að prófa, sérstaklega eftir að hafa verið að passa hund í nokkrar undanfarnar vikur. Hafðu það gott!
Sælir
Hef alltaf mjög gaman að blogginu þínu og vil hrósa þér fyrir lifandi og skemmtilegar lýsingar á öllu á milli himins og jarðar.
Ég bý þessa daganna í Kína og skil því mæta vel hvað þú ert að upplifa í ferðalaginu þínu.
Vildi samt benda þér á eitt varðandi áfengisverðið.
Hér í Kína, líkt og í öðrum Asíulöndum, er allt morandi í fölskum og fölsuðum hlutum til sölu. Pappaskór, fake rólex úr og Guccileðurtöskur á 500 kall. Verðin hér eru góð en ef verðið er hlægilegt þá er ástæðan einfaldlega sú að varan sem þú ert með í höndunum er annaðhvort stolin eða fölsuð. Þetta vita flestir.
Það sem margir vita hins vegar ekki er að sama gildir um áfengi. Áfengið er ódýrt en ef verðið er miklu lægra en maður sér í búðunum þá er ástæðan einfaldlega sú að þú ert með falsaða vöru. Þá er búið að blanda formaldehýði eða einhverjum viðbjóði við heimabrugg og það tappað á þekktar erlendar vín og bjórflöskur.
Þetta getur steindrepið mann.
Hundruð ferðamanna fara flatt á þessu í Peking árlega.
Ágætisregla hér í hverfinu mínu er að kaupa ekki bjór sem kostar minna en 3 kuai, 27 krónur. Líklega er verðlagið enn lægra í Víetnmam, en eftir að maður er búin að átta sig á því hvað meðalverðið er þá er ágætt að forðast það að fara langt niður fyrir það.
Kannski vissurðu þetta áður.
Óska þér áframhaldandi góðrar ferðar um þennan framandi heimshluta.
Halldór, já ég vissi af þessu. Þetta með bjórinn í Hanoi krefst smá útskýringa. Þetta er nefnilega ferskur bjór, sem er bruggaður hérna í Hanoi og sendur út nánast daglega og þarf að drekka hann innan nokkurra daga frá framleiðslu.
Þannig að útum alla borg eru mjög shabbí staðir, sem eru ávallt fullir af fólki vegna þess hversu ódýrir bjórarnir eru. Bjórinn er á krana og allir selja barirnir hann á 2000 dong.
Venjulegur bjór, hvort sem hann er local eða bjór einsog Tiger frá Singapore kostar hinsvegar 12.000 á flösku.
Og Októ, ég er að reyna að gera þetta upp við mig. Ef ég fer, þá verð ég að gera það í kvöld. Sjáum til 🙂
Ekki spurning prófa hundakjötið.
Annað óskylt, getur þú ekki haft eina síðu með uppskriftum. Við hjónin notum “Kjúklinga Almambre” uppskriftina þína sem birtist í morgunblaðinu mjög mikið. Einfalt, fljótlegt og ljúfengt. Áttu fleiri sem við gætum prófað.
Ekkert mál að fara í hundakjöt og þessvegna af götusölum.
Gullna reglan er einfaldlega sú að maður er aldrei “svo heppinn” að vera akkúrat á stað þar sem enginn er í röðinni – því það er ástæða fyrir raðaleysi.
Fara bara á nógu vinsælan stað, þar sem innlendir éta – bíða í röðinni einsog hinir. Því lengri röð og meira kaós því betra – Betri gæðastimpill fæst ekki (óháð uppruna kjötsins).
Ekki laust við því að maður sé orðinn spenntur fyrir því að vita hvort Einar hafi ekki dottið í kjötið. Iða í skinninu eftir viðbrögðum… þetta kemur kannski bara sterkt inn á Serrano? 🙂
Takk, Guðmundur. Gaman að heyra að einhverjir hafi notað uppskriftina. Ég set kannski eitthvað inn þegar ég kem heim, en ég á nú ekki mikið af merkilegum uppskriftum. Og Þrándur, ég fylgi þessari reglu auðvitað oftast.
Og Hjalti, svarið við spurningunni þinni kemur von bráðar.