Jiiii hvað síðustu dagar hafa verið ótrúlega skemmtilegir. Alveg æði! Hvort að skemmtilegir dagar samsvari sér í skemmtilegri ferðasögu verður að koma í ljós. Held samt ekki.
Ég var fyrir tveim tímum að koma aftur til Hanoi eftir æðislega þriggja daga ferð um Halong bay. Halong er samansafn af nærri því tvö þúsund eyjum í Tomkin flóa rétt hjá landamærum Kína. Eyjarnar eru af hinum ýmsu stærðum og eru dreifðar á um 1.500 ferkílómetra svæði og því eru þær mjög þéttar.
Ég fór í skipulagða þriggja daga ferð um svæðið. Keyrðum fyrst með 15 manna hópi frá Hanoi til Halong borgar þaðan sem við tókum bát útá flóann. Við vorum á flóanum í þrjá daga. Sigldum á milli eyjanna og virtum fyrir okkur útsýnið. Gistum á bátnum aðra nóttina og á hóteli á Cat Ba eyju hina nóttina. Löbbuðum um Cat Ba eyju í þjóðgarði þar og lékum okkur á ströndinni á milli þess sem við sigldum á milli eyjanna og stukkum framaf bátnum til að synda í sjónum.
Þessi ferð var hápunktur ferðarinnar minnar hingað til. Ekki bara er Halong bay ótrúlega fallegt svæði, sem er best lýst með myndum, heldur var hópurinn líka frábær. Ég hékk með fjórum strákum, tveim frá Englandi og tveim (snillingum) frá Norður-Írlandi. Við duttum í það bæði kvöldin, fyrra kvöldið oná þaki á bátnum á miðjum flóanum og seinna kvöldið á bar á Cat Ba eyju. Þetta var algjörlega ógleymanlegt og ég er ennþá brosandi yfir öllum sögunum, sem ég er búinn að heyra síðustu daga.
—
Síðustu dagarnir í Hanoi voru líka skemmtilegir. Ég eyddi fyrri parti laugardagsins í að skoða hluti tengda Ho Chi Minh. Ho frændi, einsog hann er kallaður hérna í Víetnam, er dýrkaður og dáður í þessu landi. Andlit hans er á *öllum peningaseðlunum* (ég hef ekki séð það nema í Venezuela þar sem Simon Bolivar er á öllum seðlunum) og styttur af honum eru útum allt. Auðvitað má benda á það að kommúnistar eru enn við völd og svona persónudýrkun því að vissu leyti skiljanleg, en það verður þó að teljast líklegt að aðdáun Víetnama á Ho Chi Minh muni endast lengur en kommúnistaflokkurinn. Ho er nefnilega aðallega minnst sem frelsishetju (frekar en kommúnistaleiðtoga), sem að á stærsta heiðurinn á sjálfstæði Víetnama frá Frökkum og Kínverjum.
Ho Chi Minh á það sameiginlegt með Lenín (sem ég [heimsótti](https://www.eoe.is/gamalt/2003/09/04/9.33.02) fyrir nokkrum árum) að lík hans er til sýnis almenningi. Því miður þá gat ég ekki heimsótt Ho frænda þar sem að hann þarf að fara til Moskvu í tvo mánuði á hverju ári til að láta smyrja sig uppá nýtt. Því varð ég að láta mér duga túr um Ho Chi Minh safnið (sem var ömurlegt) og að skoða húsið, sem hann dvaldi í meðan hann var forseti Víetnam.
—
Þegar ég kom heim á hótel og sá að bróðir minn var að [mana mig í að smakka hundakjöt](https://www.eoe.is/gamalt/2006/10/13/12.07.56/#c36525) þá ákvað ég að ég yrði að kýla á það, fór út og fann mér mótorhjól og driver til að keyra mig í hundakjötshverfið.
Leiðin var sæmilega löng og á meðan henni stóð ákvað ég að framkvæma tilraun, sem ég var búinn að velta fyrir mér í smá tíma. Það er að mæla hversu langur tími líður á milli þess sem maður heyrir í bíla- eða mótorhjólaflautu í Hanoi. Það er nefnilega varla hægt að lýsa þeim stanslausu látum, sem eru af völdum flautna hérna í Víetnam (og Kambódíu reyndar líka). Fólk hérna notar flautuna í ansi marga hluti. Fólk flautar þegar það ætlar að taka framúr, það flautar þegar það er við hliðiná þér, það flautar þegar það er á móti þér, það flautar þegar það ætlar að beygja, það flautar þegar það einhver fyrir þeim og svo framvegis og framvegis.
Ég ákvað að telja tímann á milli flautna í um fimm mínútur. Á þeim tíma var mesti tíminn, sem leið á milli flautna, **4 sekúndur**. Semsagt, á götu í Hanoi þá geturðu ekki fengið frið frá flautum í meira en fjórar sekúndur. Oftast náði ég ekki að telja uppá tvo á milli flautna.
—
Hundakjötsveitingastaðahverfið er í um 15 kílómetra fjarlægð frá miðbæ Hanoi. Þegar ég kom þangað öskraði allt við hverfið á mig að ég ætti að láta þetta vera. En ég var kominn of langt til að snúa við og vippaði mér inná stað, sem leit ágætlega út. Staðurinn var reyndar algerlega tómur, en það voru líka aðrir staðir þar sem ég var þarna á skrýtnum tíma (um 5 leytið). Staðurinn var rekinn af fjölskyldu, sem benti mér strax á að setjast á mottu á gólfinu og komu svo með matinn.
Maturinn samanstóð af þrem tegundum af grænmeti, tveim sósum og tveim tegundum af hundakjöti. Önnur tegundin af kjötinu var köld, en hin var heit. Víetnamar hafa það (skynsama) viðhorf gagnvart mat að ef að maturinn er næringar-ríkur og góður, þá geti þeir borðað hann. Þeir hundsa því vestræn rök einsog að það megi ekki borða dýr, sem eru sæt og skemmtileg, heldur helst bara dýr sem eru alin uppí verksmiðjum. Hundakjöt er næringarríkt og hundar eru ekki í útrýmingarhættu og því sjá Víetnamar alls ekkert athyglisvert við það að borða þá. Þetta hefur ekkert með fávisku eða skort á þróun að gera.
Fjölskyldufaðirinn kom með bjór handa mér og undirbjó matinn. Hann tók tvö lauf, setti kjötið á milli laufanna og dýfði þeim svo í sterka sósu og borðaði. Þetta endurtók ég. Sósan var svo sterk að hún deyfði bragðið af kjötinu, en það var alls ekki slæmt. Heiti kjötrétturinn var borðaður einn og sér og var hann sæmilegur. Þetta er ekki beint kjöt, sem ég myndi leggja í vana minn að borða.
Ég bara gat ekki farið frá Víetnam án þess að prófa.
—
Á morgun á ég svo flug til Vientiane í Laos, þar sem ég ætla að eyða næstu tveim vikum ferðarinnar. Það er vonandi að Laos standi undir þeim mögnuðu sögum, sem ég hef heyrt af landinu síðustu daga.
*Skrifað í Hanoi, Víetnam klukkan 18.51*
Aldrei verð ég vonsvikin að ´detta´ hér inn.
Þessar ferðasögur þínar eru alveg magnaðar og hreint út sagt ævintýralegar. Ef ég hefði þína reynslu yrði ég ekki í vandræðum með mastersritgerðina.
Já og máltíðin..dáist af fólki sem þorir, veit samt ekki hvort ég gæti látið hundakjöt inn fyrir mínar varir. En aldrei að segja aldrei…
Hlakka til að heyra meira og góða skemmtun í Laos
Hæhæ ákvað að kvitta svona einu sinni, þetta er ekkert smá ævintýralegt ferðalag sem þú ert í. Gott að þú ert orðinn hress og góða skemmtun í Laos.
Rakel
Jæja vinur, þú hefur greinilega alveg gleymt “drasl maganum” eins og þú orðaðir það um leið og þú fékkst áskorun.
Vonandi var þetta þess virði vegna þess að ég sé bara fyrir mér eigandann lokka til sín flökkuhunda með lyktinni af gómsætum mat og svo…búmmmm eitt vænt raflost/skot/kylfuhögg og voila, dinner is served.
vává…. ég fæ þvlíka löngun til að fara aftur til Asíu þegar þú mynnist á allt helv… flautið… hehe þetta er þá greinilega svona á fleiri stöðum í Asíu heldur en bara í Kína. Þeir gjörsamlega liggja á flautunni í Shanghai enda er það víst í “umferðarlögum” að þú verður að flauta alveg eins og að gefa stefnuljós…. öfunda þig ekkert smá af hundaketinu,,, var nett skúffuð út í sjálfa mig að hafa ekki reynt að redda mér smá “smakki”… en hef smakkað svíns lifur og mæli alls ekki með henni ! :biggrin:
Thelma: Takk 🙂
Rakel Ósk: Takk 🙂
Guðný Ösp: Ég var ekki á leiðinni að smakka svínslifur. Veit ekki hvort tilhugsunin um flautin eigi eftir að vekja há mér mikinn söknuð í framtíðinni, allavegana er ég feginn að vera laus við þau hérna í Laos 🙂
Friðrik: Inná veitingastaðnum heyrði ég einmitt slatta af gelti frá hundunum í hverfinu. Efast um að þessi hundur, sem ég borðaði hafi verið alinn upp í hreinu umhverfi.