Laos er fátækasta land, sem ég hef heimsótt. Þjóðaframleiðsla per íbúa er um 2.100 dollarar (PPP) á ári, sem er um 16 sinnum minna en á Íslandi. Samt, þá er einhvern veginn einsog fátæktin sé ekki jafn slæm og í löndum einsog Kambódíu og sumum löndum Mið-Ameríku, sem ég hef heimsótt. Kannski er það vegna þess að skipting teknanna sé jafnari hérna en í hinum löndunum.
Vissulega býr margt fólk í strákofum útí sveitum, en flestir virðast hafa nóg að borða og í minnstu þorpunum sér maður oft gervinhattadiska á ansi mörgum kofum. Kannski er það líka að Laos búar virðast ekki örvænta þegar þeir sjá fram á að ná ekki viðskiptum frá manni. Ég er búinn að tala um þetta áður, en það er einsog Laos búum sé nokk sama hvort þeir selji þér vöru eða ekki. Ólíkt í Víetnam og Kambódíu þar sem maður hafði á tilfinningunni að heimur sölumannsins myndi hrynja ef að þeir myndu ekki ná að selja mér einn banana í viðbót. Í þeim löndum var manni vanalega heilsað með “Wanna buy something” ef maður kom nálægt sölubás, en í Laos er manni ávallt heilsað með “Sabadi”, sem þýðir einfaldlega “Halló!”.
Kannski er þetta það að fólk er sáttara við sitt og sér ekki þörf fyrir alls konar auka dóti. Eða kannski er þetta bara eitthvað í viðhorfi Laos búa. Bílflautur eru annað, sem Laosbúar höndla allt öðruvísi. Ef að rúta keyrir í gegnum lítinn bæ í Víetnam þá liggur bílstjórinn á flautunni, svo að allir drulli sér af veginum – hvort sem fólk er á veginum eður ei. Í Laos hægir rútan á sér, bílstjórinn skoðar hvort einhver sé á veginum og ef til dæmis beljur eru fyrir þá rétt pikkar hann á flautuna svo að þær færi sig.
—
Ég er núna staddur í Luang Prabang, sem var áður aðsetur konungsins í Laos. Borgin er þekkt fyrir samblöndu af frönskum arktíkektúr (frá tíma Frakka hérna) og fjölda búddha hofa. Líkt og Vientiane liggur hún við hina voldugu Mekong á, en alls renna um 1.800 kílmetrar af Mekong ánni í gegnum Laos (þrátt fyrir það er áin hvergi virkjuð í Laos). Borgin er einnig í um 800 metra hæð yfir sjávarmáli og því er hitastigið hérna ögn lægra en í Vientiane, sem gerir veðrið ennþá þægilegra.
Ég eyddi alls þrem dögum í Vang Vieng, litla túristaþorpinu sem ég var í á undan Luang Prabang. Þar fór ég tvo daga í röð á lítilli blöðru niður ána hjá bænum (sjá [mynd](http://flickr.com/photos/einarorn/279837315/) við þessa færslu), sem var æðislegt. Seinna skiptið kynntist ég afar skemmtilegum hópi, sem samanstóð af stelpum frá Svíþjóð og Kaliforníu og pari frá Englandi. Við flutum saman niður ána og kíktum svo út um kvöldið.
Í Luang Prabang hef ég skoðað flest, sem hægt er að skoða. Ég hef skoðað talsvert magn af Buddha hofum og eyddi deginum hjá fossi um 30 km frá bænum, þar sem ég lá í sólbaði og synti í fossinum. Síðustu dagana hérna ætla ég svo m.a. að nýta til þess að fara á laoskt matreiðslunámskeið. Á mánudaginn á ég síðan flug til Bangkok. Þaðan á ég svo flug tveim dögum seinna til London. Ég er farinn að finna fyrir því að stutt er eftir af ferðinni. Maður lítur einhvern veginn öðruvísi á hlutina, er ekki jafn æstur í að kynnast nýju fólki og því hafa síðustu dagar verið frekar afslappaðir.
*Skrifað í Luang Prabang, Laos klukkan 21.15*