(Þessi færsla birtist einnig á Liverpool blogginu)
Kristján Atli kom fram í útvarpsþætti fyrir nokkru þar sem hann var spurður í gríni hvort að Liverpool bloggið væri vinsælla en bloggið hjá Ellý Ármanns. Ég held að hann hafi giskað á að svo væri án þess að hugsa eitthvað nánar útí það. Ég ákvað í framhaldinu að reyna að komast að því hvort það væri einhver bloggsíða á Íslandi vinsælli en Liverpool bloggið.
Aðeins er hægt að fá upplýsingar um vinsælustu bloggin á vísi.is og á mbl.is. Á Vísi.is eru [vinsælustu bloggin](http://blogg.visir.is/vinsaelir-bloggarar) þessi (og fjöldi innlita á einni viku fyrir aftan).
1. Henry Birgir – 9.296
2. Höskuldur Kári – 7.887
3. Steingrímur Sævarr – 6.735
Á Blog.is hjá MBL eru [vinsælustu bloggin](http://www.mbl.is/mm/blog/top.html) svona – ásamt fjölda innlita í síðustu viku:
1. Ellý Ármanns – 12.531
2. Áslaug Ósk – 12.050
3. Stefán Friðrik – 11.898
Samkvæmt Blogg Gáttinni er vinsælasta bloggið hjá Stefáni Friðrik – en hann er þó aðeins í þriðja sæti á mbl.is, sem þýðir væntanlega að fleiri aðilar stimpla beint inn Ellý og Áslaugu eða fara þangað af forsíðu mbl.is. Það gefur þó líka einhverja smá vísbendingu að það sé ekki líklegt að mörg blogg utan Moggabloggsins komist nálægt þeim stærstu þar í vinsældum.
Liverpool bloggið nýtur hins vegar ekki kosta ókeypis auglýsingar á forsíðu og í fréttum mbl.is einsog Mogga bloggin gera. Ef svo væri, mætti væntanlega búast við því að síðan væri enn vinsælli.
Hins vegar líta hlutirnir svona út á Liverpool blogginu varðandi heimsóknir. Í vikunni sem endaði 1.júlí (sem er síðasta vika sem við eigum upplýsingar um), þá var fjöldi innlita á Liverpool blogginu **13.905**, sem er 11% fleiri innlit en hjá næstvinsælusta blogginu, sem er bloggið hennar Ellý Ármanns (sjá skjámynd frá teljari.is [hérna](http://www.flickr.com/photos/einarorn/740513580/)).
Nú skal það tekið fram að ég hef ekki upplýsingar um önnur blogg utan Vísis og MBL, sem hugsanlega geta verið vinsæl, þar sem þær upplýsingar eru ekki opinberar. Hugsanlegt er að blogg einsog hjá Ármanni Jakobss og Pétri Gunnars komist nálægt þessum MBL/Vísis bloggum að vinsældum, en ég er þó ekki viss.
Semsagt, ef við tökum þetta allt saman miðað við opinberar tölur, þá líta vinsælustu blogg landsins svona út.
1. **LIVERPOOL BLOGGIÐ: 13.905**
2. Ellý Ármanns: 12.531
3. Áslaug Ósk 12.050
4. Stefán Friðrik 11.898
5. Jenný Anna 9.759
6. Henry Birgir 9.296
Semsagt, við erum langflottastir. 🙂
Ástæðan fyrir þessari samantekt er líka auðvitað sú að við höfum íhugað það að setja inn einhverjar auglýsingar til að standa undir rekstri síðunnar, sem ég og Kristján höfum að mestu greitt fyrir hingað til – og einnig vegna þess að við erum að íhuga að færa hana inná nýtt lén, þannig að hún losni undan eoe.is léninu. Við erum búnir að finna eina hugmynd að léni, en allar tillögur eru vel þegnar.
Áfram Liverpool!