Ferðasaga: San Francisco

Ég er á því að ferðasögur á þessu bloggi séu langbestar þegar ég skrifa þær á staðnum. Þegar ég kem heim, þá gleymist ferðin, stemningin dettur úr sögunni, almenn leti kemur yfir mig og á endanum verða þær stuttar og slappar.

Núna er svo farið að styttast ískyggilega í næstu ferð, sem verður til Stokkhólms í byrjun mars.

Þannig að ég gefst upp á því að skrifa spennandi og skemmtilegar ferðasögur um síðustu tvær ferðir og skelli þessu öllu saman í eina færslu.

* * *

Ég og Emil fórum semsagt í vikulanga ferð til Bandaríkjanna. Við flugum til New York með Icelandair með tilheyrandi þrengslum og slæmum mat. Við lentum alltof seint og því leit út fyrir að við myndum missa af tengifluginu til San Francisco. Okkur tókst að sannfæra einhverja starfsmenn á flugvellinum um að hleypa okkur í Bandaríkjamannaröðina í vegabréfseftirlitinu og náðum í töskurnar á mettíma.

VIð tók síðan æsilegt spretthlaup á milli terminal-a á JFK. Þegar við komum hinsvegar að JetBlue deskinu komumst við að því að flugið var farið. Okkur tókst samt að komast í flug til Oakland, sem er einmitt næsta borg við San Francisco. Við tók yndislegt flug til Oakland. Hér er skemmtilegur samanburður á JetBlue og Icelandair.

Lengd flugs:
Icelandair: 4171 kílómeter
JetBlue: 4133 kílómetrar

Valmöguleikar í myndefni:
Icelandair: 1 gömul bíómynd
JetBlue: 40 gervihnattastöðvar og svo 5 nýjar bíómyndir on-demand (gegn 5 dollara gjaldi)

Pláss fyrir lappir
Icelandair: Hóflegt fyrir 5 ára börn og dverga
JetBlue: Mjög gott

Verð
Icelandair: 55.500
JetBlue: 20.644

Skál fyrir Icelandair og íslenskri einokun!!!

* * *

Allavegana, við komumst til San Francisco og lentum þar um 2 leytið um morgun og herjuðum strax inná uppáhalds-hamborgarastaðinn minn, Carl’s Jr og fengum okkur yndislega hamborgara og fórum svo að sofa.

Á laugardeginum hittum við Grace vinkonu mína. Við Grace vorum góðir vinir þegar við vorum bæði skiptinemar í Venezuela. Hún býr í L.A. en kíkti á okkur á laugardeginum. Við eyddum mestum deginum á rölti um Mission hverfið, sem er hverfi innflytjenda frá Suður- og Mið-Ameríku. Um kvöldið borðuðum við svo á frábærum fínum mexíkóskum stað.

Á sunnudeginum hittum við svo Dan vin minn. Hann var minn besti vinur á háskólaárunum mínum og höfum við hist nokkrum sinnum síðan ég útskrifaðist. Við ákváðum að hittast á bar fullum af New England stuðningsmönnum og horfa á úrslitin í Ameríkudeildinni í NFL fótbolta, sem að New England vann.

* * *

Tilgangurinn með ferðinni til San Francisco var tvíþættur. Í fyrsta lagi að fara í ákveðna stefnumótunarvinnu fyrir Serrano. HIns vegar var planið að skoða slatta af veitingastöðum. Burrito er auðvitað upphaflega mexíkóskur matur, en sá matur sem við seljum á Serrano er ekki fáanlegur í Mexíkó, heldur er hann útgáfa af þeim mat sem að mexíkóskir innflytjendur byrjuðu að selja á taquerias stöðum í Mission hverfinu.

Í því hverfi eru því tugir af stöðum sem selja burritos og við gerðum góða tilraun til að borða á sem allra flestum stöðunum. Við það fengum við slatta af hugmyndum og einhverjar breytingar munu verða á Serrano í kjölfarið á þessari ferð okkar.

* * *

Á þriðjudagskvöldinu fögnuðum við svo afmæli Carrie, kærustu Dan á bar í Mission hverfinu þar sem við gátum fylgst með fullum Dan, en hann er einmitt ásamt Borgþóri vini mínum, allra fyndnasti maður á fylleríi sem ég þekki.

Á miðvikudeginum flugum við svo til Boston. Þar kíktum við á nokkra veitingastaði, versluðum og löbbuðum um borgina. Á fimmtudagskvöldinu kíktum við á djammið með Jenu, stelpu sem að gisti hjá mér í gegnum Couchsurfing síðasta sumar. Fluginu okkur heim var seinkað um einn dag þannig að við nýttum tækifærið og fórum á leik með Boston Celtics þar sem þeir unnu Minnesota Timberwolves í fínum leik.

Æ, þetta varð eiginlega lengra en ég ætlaði. Ég skrifa um Liverpool ferðina seinna.

4 thoughts on “Ferðasaga: San Francisco”

  1. Takk fyrir ferðasöguna. Ekki leiðinlegt markmið að skoða og borða á sem flestum veitingastöðum í einni frábærustu borg í heimi.

  2. Icelandair er ekki fullkomin einokun, hægt er að fara til London með IExpress og svo til SanFran þaðan. Beint flug virðist vera mögulegt þá leiðina.
    En express eru varla eitthvað skárr’en Icelandair hvað varðar gæði…

  3. Ok, fyrirgefðu – þetta er ekki einokun.

    En mér finnst þessi samanburður á JetBlue og Icelandair samt sem áður mjög sláandi.

Comments are closed.